Pólitísku tengslin í bönkunum - staða Björgvins

Ekki leið á löngu þar til pólitísku tengslin fóru að sjást í bönkunum eftir að þeir hrundu. Mér finnst afleitt að aðstoðarmenn ráðherra, pólitískir fulltrúar þeirra, setjist í stjórnir bankanna núna. Því er gott að Jón Þór Sturluson hefur hætt við að taka þar sæti en öllu verra er að aðstoðarmaður fjármálaráðherra mun vera í stjórn Landsbankans. Þetta á að heyra sögunni til. Krafan er að í bankaráðin fari við þessar aðstæður fagmenn í viðskiptum án beinna pólitískra tengsla.

Hélt Björgvin G. Sigurðsson að hann gæti valið aðstoðarmann sinn sem stjórnarformann í Glitni án þess að allt yrði vitlaust? Hvers konar siðferði er þetta? Á að slengja framan í fólki strax í upphafi pólitískum fulltrúum í formennskur bankanna við þessar aðstæður. Algjörlega ólíðandi og gott að mönnum hefur snúist hugur á þessum síðustu dögum, eftir því sem orðrómurinn grasseraði. Vonandi læra pólitíkusarnir eitthvað á þessu.

En hvað gerist næst með Björgvin? Ætlar hann að selja Philip Green skuldir Baugs á niðursettu verði? Getur hann samþykkt slíkan díl án þess að gera út af við sig pólitískt? Stórt spurt vissulega, en ég bind vonir við að hugsað sé um þjóðina en ekki viðskiptajöfra sem eru búnir að spila rassinn úr buxunum við þessar aðstæður.

Björgvin er reyndar skaddaður vegna tengslanna við fyrri eigendur Glitnis. Þegar Glitnir var ríkisvæddur fyrir hálfum mánuði ók ráðherrann um langan veg um miðja nótt til að láta Jón Ásgeir lesa yfir sér. Fjölskyldubönd ráðherrans við lögmann Baugs voru þess eðlis þá að þetta þótti vera í lagi.

Ég ætla að vona að Björgvin standi í lappirnar í þessu máli, hvort sem fólki finnst eðlilegt að hann felli dóminn vegna þessara tengsla. Góðs viti er að hann er hættur við að velja aðstoðarmanninn sinn sem stjórnarformann í Glitni, allavega um stundarsakir.

mbl.is Þóra er formaður Nýs Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill grillar Jón Ásgeir - þjóðin vill skýr svör

Mér fannst Egill Helgason standa sig vel í viðtalinu við Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfrinu nú eftir hádegið. Hann spurði þeirra spurninga sem þjóðin vill fá svör við. Greinilegt var að Jóni Ásgeiri fannst lítið til þess koma að þurfa að svara þessum spurningum. Svörin voru þau sömu og við höfum heyrt áður, en nú er almenningur í þessu landi búinn að fá nóg af spunanum og vill vita hvernig útrásarvíkingarnir, sem hafa sett landið á hausinn, ætla að axla ábyrgð á sínum verkum.

Þetta eru eðlilegar spurningar í stöðunni. Fyrsta spurningin og sú mikilvægasta er hvað verði um Baug. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, muni staðfesta Green-dílinn varðandi Baug, þrátt fyrir fjölskyldutengslin við lögmann Baugs. Öll þjóðin bíður svara af því. Varla fer það í gegn.

Jón Ásgeir hefur árum saman getað svarað gagnrýni með því að viss hópur vinni gegn sér og vilji leggja sig í rúst. Þetta spinn er búið að vera og hann þarf að fara að svara þessum spurningum. Tími fórnarlambsins á kjörtíma í sjónvarpi er liðinn.

mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætlar Ísland að gera í öryggisráðinu?

Ég hef verið viss um það frá upphafi að Ísland ætti enga raunhæfa möguleika á sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Austurríki og Tyrkland munu ná kjöri. Eina sem gæti komið í veg fyrir það er ef einhverjum þjóðum mun standa stuggur af hægribylgjunni í austurrísku þingkosningum þar sem Frelsisflokkurinn náði aftur undirstöðu og Jörg Haider náði aftur að stimpla sig inn á pólitíska landakortið skömmu áður en hann lést í bílslysi. Óvissa um næstu ríkisstjórn gæti skaðað Austurríki.

Kannski var það eðlilegur metnaður hjá Íslandi að gefa kost á sér og reyna við sætið. Fyrst og fremst var þetta pólitískt gæluverkefni í utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar og látið óátalið af Sjálfstæðisflokknum á þeim tíma. Síðar hefur Davíð Oddsson, utanríkisráðherra er framboðið var lagt fram, tjáð andstöðu sína við það en Valgerður Sverrisdóttir og Ingibjörg Sólrún hafa haldið utan um málið af miklum metnaði, en þó sem betur fer látið kostnað ekki yfirflæða.

Enn er þó eftir spurningin um hvað Ísland ætli að gera í öryggisráðinu. Í gegnum allt ferlið hefur enginn svarað því af alvöru. Sumir hafa svarað á þeim forsendum að við yrðum fulltrúi Norðurlandanna og stæðum vörð um hagsmuni þeirra. Ekki er það nú vegleg forsenda fyrir framboðinu. En við getum velt þessu fyrir okkur þegar við náum ekki sætinu.

mbl.is Íslenskar rjómapönnukökur á borðum SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband