Sameiningartákn útrásarinnar gerir upp liðna tíð

Mjög áhugavert var að horfa á Kastljósviðtalið við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands og helsta sendiherra útrásarinnar, í kvöld. Forsetinn virðist allur af vilja gerður að tala kraft og kjark í þjóðina við erfiðar aðstæður en átti mjög erfitt með að tala sig frá orðum sínum og heimshornaflakki fyrir útrásarvíkinganna sem hafa sett þjóðina á hausinn með því að breyta landinu í einn stóran vogunarsjóð. Ég er ánægður með að hann ætlar að tala við þjóðina með vinnustaðaheimsóknum en eftir stendur þó að Ólafur Ragnar fylgdi útrásinni alla leið í glötun.

Ég yrði ekki hissa þó Ólafs Ragnars yrði frekar minnst fyrir að vera sameiningartákn útrásarinnar misheppnuðu frekar en sameiningartákns heillar þjóðar. Í miðri útrásinni fór það nefnilega svo að Ólafur Ragnar gleymdi rótum sínum og uppruna, pólitískt og persónulega, og blindaðist af velgengni hennar. Skipbrot útrásarinnar, sem var svo nátengd forsetanum og ferðalögum hans með útrásarvíkingunum, verður því um leið persónulegt áfall hans.

Forsetinn átti erfitt með að tala sig frá ræðunum sínum, öllu góðu orðunum og skjallinu fyrir auðmennina, í viðtalinu í kvöld. En hann reyndi vissulega og það ber að virða viljann fyrir verkið, rétt eins og einhverjir munu virða það við Ólaf Ragnar að tala beint við þjóðina þegar útrásin hefur klessukeyrt úti í skurði. Hann hefði þó átt að halda í þessa taug mun fyrr en nú þegar gleðinni er lokið og partýið hefur verið leyst upp í vonleysi heillar þjóðar.

Ólafur Ragnar flutti margar eftirminnilegar ræður til stuðnings útrásarvíkingunum en sú eftirminnilegasta er þessi hér að mínu mati.

mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt upphaf á Íslandi - barátta þjóðarinnar

Mér finnst eins og það sé rólegra yfir þjóðinni í byrjun vikunnar, allavega miðað við stöðuna í síðustu viku þegar ekkert var öruggt nema það að við vorum í frjálsu falli. Uppbyggingarstarfið er hafið og nýja Ísland verður vonandi fullt af tækifærum þó síðar verði, þó allir geri sér vonandi grein fyrir því að við þurfum að líta rækilega í spegilinn og byggja okkur upp með öðrum forsendum en áður einkenndi samfélagið.

Mér finnst blasa við að ríkisstjórnin höktir. Hún er ekki sammála um næstu skref og virðist veik þrátt fyrir ríflegan þingmeirihluta. Því kæmi varla að óvörum að hún myndi springa einmitt á þeim tímum þegar tala á upp samstöðu landsmanna. Sumir Samfylkingarmenn tala þannig þessa dagana að stjórnin virðist feig. Samstaða virðist í þeirra bókum snúast frekar um að upphefja sjálfa sig og tala niður aðra en tala þjóðina saman.

Auðvitað er það veikleikamerki fyrir þjóðina ef ríkisstjórn gefst upp, fellur annað hvort fyrir eigin hendi eða vegna sundrungar á þeim tímum þegar byggja þarf hið nýja Ísland. En kannski er leiðarvísirinn ekki réttur, kannski var alla tíð borin von að flokkarnir tveir gætu náð saman um lykilmál. Vissulega var það reynt og verður kannski reynt áfram en greinilegt er að samstöðu um lykilmál skortir.

Þjóðin berst fyrir sínu, nú við erfiðar aðstæður. Veislunni er lokið og mikil uppbyggingarstarf framundan. Ég hef heyrt sögur um að fólk hafi tekið eigið líf í þessari viku, sumir hafi ekki séð fram á líf við breyttar forsendur, ekki séð neina leið út úr vandanum. Sorglegra er það en tárum taki þegar slíkt gerist og ég hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda eða hafa misst von og trú á framtíðina.

Vonandi nær þjóðin í gegnum þessa tíma. Samstaða þjóðarinnar er lykilatriði við þessar aðstæður sem blasa við íslensku þjóðinni nú.

mbl.is Gengi bréfa bankanna 0 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ummæli Davíðs og skilningurinn á þeim

Mér finnst það gott að einhver birti beint ummæli Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, í Kastljósinu fyrir viku. Sumir hafa verið iðnir við að misskilja viðtalið, sumir viljandi en aðrir hafa dregið sínar ályktanir. Fyrst og fremst var Davíð að tala til Íslendinga. Á mannamáli tókst honum að tala til landsmanna um að fara ekki í bankana og taka allt út í hraði. Hann róaði þjóðina við mjög erfiðar aðstæður, talaði skýrar en jafnvel stjórnmálamenn.

Aðrir lásu það í viðtalið að ekki yrði staðið við neinar skuldbindingar. Fyrst á eftir átti að kenna Davíð um aðgerðir Bretanna en síðar kom í ljós að gripið var til þeirra eftir samtal við Árna M. Mathiesen. Síðan hafa sumir álitsgjafarnir hér heima reynt að halda áfram sama hjalinu án þess að viðurkenna að rangt var eftir haft, að það væri ekki Davíð að kenna hvernig fór. Auk þess er ekki hægt að kenna íslenskum stjórnvöldum um það.

Bretar gengu alltof langt og eiga eftir að sjá eftir aðgerðum sínum. Þegar ein vestræn þjóð beitir annarri hryðjuverkalögum er langt gengið og auðvitað á slíkt aðeins heima sem umræðuefni hjá NATÓ.

mbl.is Hvað sagði Davíð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál höfðað gegn breskum stjórnvöldum

Gott er að heyra að íslenska ríkið ætlar ekki að lympast niður og sætta sig við óverjandi framkomu Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, og undirsáta hans. Auðvitað er ekkert annað í stöðunni en fara í mál við bresk stjórnvöld vegna aðferða þeirra við að knésetja Kaupþing í síðustu viku. Eftir því sem dagarnir líða hafa æ fleiri breskir fjölmiðlar áttað sig á því að Brown ætlaði aðeins að upphefja sig með því að níðast á íslensku þjóðinni.


mbl.is Ríkið íhugar að fara í mál vegna Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarúrræði þjóðar á örlagastundu

Svo er nú komið fyrir þjóðinni í lok útrásarinnar, sem margir lofuðu í bak og fyrir, að þjóðin þarf að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og væntanlega er nokkuð öruggt að þegið verði liðsinni þeirra í enduruppbyggingu landsins. Auðvitað er þetta algjört neyðarúrræði, sem er ekki ánægjulegt skref fyrir stolta þjóð sem hefur vanist því lengi að geta bjargað sér sjálf og vera ekki upp á neinn kominn í lífsbaráttu sinni.

Síðast leitaði íslenska þjóðin til sjóðsins í valdatíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens árið 1982, en þá var verðbólgan upp úr öllu valdi og tók nokkurn tíma til að ná einhverju jafnvægi aftur. Íslenska þjóðin hefur verið skuldlaus við sjóðinn frá árinu 1987 í valdatíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, og hefur eftir þjóðarsátt átt mikið góðærisskeið sem síðar náði hámarki með útrásinni.

Þessu skeiði er nú lokið með harkalegri brotlendingu. Þeir sem ég hef talað við eru sammála um að aðeins sé tímaspursmál hvenær björgunaraðstoð sjóðsins verði þegin og væntanlega er rætt um skrefin í þeirri vegferð á fundum í Washington. Þetta er neyðarúrræði og er til marks um slæma stöðu þjóðarinnar. Íslendingar brjóta odd af oflæti sínu með þessu úrræði og þangað er ekki farið brosandi.

Hinsvegar tel ég að ekkert annað sé í stöðunni, því miður. Tek ég undir það sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, og aðrir stjórnmálaleiðtogar fyrri tíðar og sérfræðingar hafa sagt um að við séum í öngstræti og þurfum aðstoð af þessu tagi. Ég efast um að allt kerfi landsins yrði tekið í gjörgæslu við þær aðstæður þar sem íslenska ríkið er sem slíkt ekki illa statt.

Þessi enduruppbygging sem er framundan verður mikið sársaukaskeið fyrir þjóðina. Byggja þarf að mörgu leyti nýtt Ísland á grunni þess sem áður var. Vonandi lærum við af mistökum og sukki góðærisáranna í því ferli.


mbl.is Fundað stíft með IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband