Víðtæk dópframleiðsla í skjóli reynslulausnar

Mér finnst eðlilegt að því sé velt fyrir sér hvernig það geti gerst að tveir menn standi í víðtækri framleiðslu á eiturlyfjum á meðan þeir eru í reynslulausn og fjarri því búnir að afplána sína dóma. Þetta er auðvitað hreinn skandall og hlýtur að opna umræðu um slík mál. Fyrir mestu er að tókst að koma upp um þessa starfsemi en aðrar stórar spurningar vakna í kjölfarið.

Höfuðpaurinn, Jónas Ingi Ragnarsson, er einn af höfuðpaurunum í líkfundarmálinu; þeim sem fóru austur á land fyrir tæpum fimm árum með lík Vaidas Jucivicius sem varpað var svo í höfnina á Norðfirði. Vaidas hafði verið burðardýr en gat ekki komið dópinu frá sér og lést í kjölfarið. Jónas Ingi hélt því fram þá að hann hefði ekki vitað á austurleiðinni að lík væri í bílnum.

Seint verður sagt að þarna hafi átt að framleiða dóp í litlu mæli og erfitt verður fyrir málsaðila að komast auðveldlega frá þessu, þó á reynslulausn hafi verið.


mbl.is Höfuðpaurar á reynslulausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dópuppgjör hjá lögreglunni

Gott að lögreglan vinnur sitt verk vel og kemur upp um svona stórtæka dópútgerð. Þetta sýnir okkur mjög vel hversu dópvandinn er mikill sem við er að eiga. Eitt sinn var talað um fíkniefnalaust Ísland árið 2000. Þvílíkar skýjaborgir. En við vonum öll að svona stór aðgerð geri eitthvað til að minnka vandann. Hvert skref skiptir máli.

mbl.is Á sér ekki hliðstæðu hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er svona illa komið fyrir Íslendingum núna?

Leitt er að heyra hvernig komið sé fram við Íslendinga í Danmörku, ef marka má ýmsar sögur sem heyrst hafa að undanförnu. Ég hef heyrt ansi margar sögur í þessa átt, að íslensku fólki hafi verið sýnd hrein lítilsvirðing þegar í ljós hafi komið hvaðan það kom. Þetta er mikið þjóðaráfall vissulega, enda hafa Íslendingar getað borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi og haft mikil tækifæri. Í einu vetfangi virðist það hafa breyst.

Þeir sem ég hef talað við og eru erlendis, einkum í Bretlandi, segjast hafa misst sjálfsvirðinguna yfir að vera Íslendingar. Ég skil það mjög vel ef þetta er framkoman sem landar okkar verða fyrir á erlendri grundu. Ég hef eiginlega ekki viljað trúa því að Danir, frændur okkur, komi svona fram við okkur, en kannski þarf maður að fara að endurskoða það mat.


mbl.is Rekin úr búð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fín úttekt á íslenskum sjónarmiðum hjá BBC

Grein Ingibjargar Þórðardóttur um kulnandi samskipti Íslands og Bretlands er mjög góð - fínt fyrir Íslendinga að eiga einhvern innlendan blaðamann hjá BBC við þessar aðstæður. Nógu margir Bretar hafa hallmælt okkur og snúið baki við Íslendingum. Sjálfsvirðing Íslendinga í Bretlandi er ekki mikil núna. Hef heyrt í nógu mörgum sem segja sömu sögu um það. Allt hefur breyst á skömmum tíma. En þess þá mikilvægara er að breska pressan endurspegli eitthvað af því sem við segjum hér heima og við fáum okkar sjónarhorn þar inn. Mikið hefur vantað á það.

Reyndar finnst mér sífellt fleiri hafa áttað sig á því hvað þetta var ódýrt en lúalegt bragð hjá Gordon Brown. Mikið væri nú gaman að vita hvort ráðherrarnir þrír hjá Samfylkingunni sem eru víst í Verkamannaflokknum; Össur, Björgvin og Ingibjörg Sólrún, séu enn í flokknum eftir atburði síðustu dagana. Nógu oft hafa Össur og Björgvin gortað sig af tengslunum þar inn. Ekki hafa þau vigtað þungt þegar Brown og Darling eru annars vegar.

Fannst gaman að sjá að vitnað er beint í bloggið mitt í skrifum Ingibjargar og þar tekin fyrir skrif mín um samskipti Íslands og Bretlands. Gott að vita til þess að orðin manns eigi leið í bresku pressuna.

mbl.is Íslensk sjónarmið skýrð á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband