Ísland átti aldrei séns á að komast í öryggisráðið

Ég er ekki hissa á því að Ísland náði ekki í öryggisráðið. Ég spáði því í pistli fyrir nokkrum dögum að við ættum engan séns og hefðum aldrei haft hann í baráttu við Tyrki og Austurríkismenn. Hef reyndar spáð því alla tíð. Eina glufan fyrir okkur hefði verið ef þjóðir heimsins hefðu ekki viljað kjósa Austurríki vegna sterkrar stöðu hægri öfgamanna í þingkosningum nýlega og vegna þess að Austurríkismaðurinn Kurt Waldheim hafði verið framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og aðrar þjóðir ættu skilið tækifæri.

Ég leit alltaf á þetta framboð sem bruðl og óráðsíu. Ekki var farið í framboðið með afgerandi markmið eða traustar lykiláherslur. Fannst þetta alltaf vera pólitískt gæluverkefni í utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Sjálfstæðismenn leyfðu þessu að gerast án þess að leggja málinu í raun aldrei lið með traustum hætti. Meiri áhersla var lögð á framboðið í utanríkisráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur og Ingibjargar Sólrún en Davíðs og Geirs.

Fyrst skrifaði ég greinar gegn þessu framboði árið 2002. Þegar ég var í stjórn SUS lögðum við mikla áherslu á andstöðuna við framboðið á sambands- og málefnaþingum okkar og í starfinu í utanríkis- og alþjóðanefnd SUS. Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, var traustasti baráttumaðurinn gegn framboðinu og var ekki að spara stóru orðin þegar framboðið var naglfest endanlega árið 2005. Hann spáði því alla tíð að við ættum engan séns.

Kannski er oft gott að vera vitur eftir á. Ég held að þetta framboð hafi alltaf verið mikil mistök. Við eyddum dýrmætum tíma í að spá í tengsl við fjarlægar þjóðir á meðan þjóðin okkar átti í erfiðleikum. Vonandi fer hinn dýrmæti tími framundan meira í að hugsa um landsmenn en íbúa fjarlægra þjóða. Við eigum alveg nóg með okkur hér.


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gortað sig af ríkidæminu á erlendri grund

Á sama tíma og allt er í rjúkandi rúst á Íslandi er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að gorta sig af snekkju þeirra hjónanna. Þetta er svo yfirgengilega sjúkt að því henta engin orð. Þvílíkur ósómi. Þetta lið kann ekki einu sinni að skammast sín.

Og svo er Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, að kaupa sér glæsivillu fjarri Íslandsströndum og Hannes Smárason sómir sér vel í Lundunum, sennilega einn fárra Íslendinga sem getur lifað virkilega hátt þar þessa dagana.

Ekki nema von að almenningur í þessu landi sé búinn að fá nóg af þessu þotuliði sem brotlenti og kom Íslendingum öllum á kaldan klakann í orðsins fyllstu.

Kastljósið gerði vel upp við hina dýrkeyptu útrás í flottri samantekt í kvöld. Hún var sannarlega byggð á sandi.

mbl.is Ingibjörg hannaði lystisnekkjuna 101
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband