21.10.2008 | 17:44
Tjón Seðlabankans - fellur restin á morgun?
Mikilvægt er að liggi fyrir sem fyrst hversu mikið tjón Seðlabankans verði af falli bankastofnana landsins. Annars eru tölurnar í heildarmynd þessa falls íslenska fjármálakerfisins stjarnfræðilegar og alveg rosalegt að sjá hversu mikill sofandahátturinn var meðan útrásarvíkingarnir stýrðu okkur að feigðarósi. Óli Björn Kárason fer yfir þetta í fróðlegri umfjöllun á T24, sem er nb besti vefurinn um viðskiptamál hérlendis.
Skelfileg tilhugsun er ef að restin af kerfinu fellur á morgun, eins og Höskuldur Þórhallsson, framsóknarþingmaður, gefur í skyn í dag. Þetta er dökk spá en því miður raunhæf ef miðað er við helstu röksemdir hans, sem hljóma því miður ekki svo fjarri lagi. Hvernig gat farið svona fyrir þjóðinni? Þetta verður þjóðargjaldþrot sem enginn mun gleyma. Við þurfum að stokka okkur vel upp eftir þetta hrun.
Ef Seðlabankinn fer á fullt í veðköll er ljóst að restin er á fallanda fæti; Saga og Askar, VBS og Sparisjóðabankinn. Mér finnst eðlilegt að spyrja hver hafi brugðist mest. Sjónir manna hljóta fyrr en síðar að beinast að fjármálaeftirlitinu. Þvílíkur Þyrnirósarsvefn í eftirlitsferlinu.
![]() |
Seðlabanki fer ekki tjónlaus frá falli bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2008 | 14:19
Finnur stjórnar Kaupþingi - lengi ríkisbanki?
Stóra spurningin sem væri gott að fá svar við er hvort allir bankarnir þrír eigi að vera í ríkiseigu á næstunni. Vilji hefur verið til þess að Kaupþing yrði ekki ríkiseign að öllu leyti. Hinsvegar er ég ánægður með að komið var í veg fyrir að fyrri yfirmenn og stjórnendur tækju bankann aftur og kæmu inn bakdyramegin í skjóli lífeyrissjóðanna. Bankarnir þurfa nýtt upphaf, ekki afturhvarf til nýlegrar fortíðar.
![]() |
Nýr bankastjóri Nýja Kaupþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2008 | 13:57
Litlu fréttirnar í svartnættinu
Ég verð að viðurkenna að ég hló mjög að fréttinni um konuna sem vildi alveg örugglega komast til læknisins síns. Þessar litlu fréttir úr samfélaginu eru alveg nauðsynlegar í þessu svartnætti sem þjóðin er föst í um þessar mundir.
![]() |
Sjúkleg stundvísi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2008 | 11:22
Íslendingahatur Breta stimplað á boli
Svo er að sjá í nokkrum skoðanakönnunum í Bretlandi að durturinn Gordon Brown hafi styrkst í sessi við að ráðast gegn Íslandi með hryðjuverkalögum. Sumir tala reyndar um að Ísland verði Falklandseyjar Browns, færi honum sigur í þingkosningum og pólitískan stöðugleika að nýju. Vonandi tekst að koma í veg fyrir það að þessi tækifærissinni gangi frá hagsmunum Íslands til að upphefja sjálfan sig.
![]() |
Bolir gegn Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.10.2008 | 00:37
Orðspor Landsbankans og Al-Qaeda hið sama
Hverjum hefði órað fyrir því fyrir nokkrum árum að Landsbanki Íslands yrði settur við hlið hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda í erlendum skjölum yfir stofnanir sem Bretar eiga sökótt við eða hafa dottið út af sakramentinu þar. Þetta eru ótrúleg endalok á hinni voldugu útrás sem lofsungin var eins og heilög ritning fyrir nokkrum árum. Öll þjóðin var með glýjuna í augunum fyrir útrásinni en hún vaknar nú upp við vonda martröð. Veislunni er lokið og íslenska þjóðin hefur verið sett á hliðina af útrásarvíkingunum.
Elsti banki landsins, sem flestir töldu að gæti ekki farið á hausinn, væri jafn traust undirstaða samfélagsins og þjóðkirkjan, er rúinn trausti og flokkaður eins og hópur óreiðumanna eða hermdarverkamanna á erlendri grund. Þvílík endalok. Þegar ég var eitt sinn í viðskiptum við Landsbankann var þannig talað um bankann eins og hann væri heilagur - þar væri allt svo einstakt og ekkert gæti nokkru sinni farið úrskeiðis. Nú hafa eigendur bankans hlotið sömu eftirmæli og orðspor og Bin Laden.
Vonandi læra einhverjir á þessum óförum öllum. Auðvitað er það rétt að Bretar komu illa fram og ekkert réttlætir þessa meðferð á íslenskri þjóð. Bretland á vonandi eftir að fá finna fyrir því, þó síðar verði, að beita hryðjuverkalöggjöf gegn vestrænni þjóð. Þetta mál á heima hjá Nató. Hitt er svo annað mál að orðspor þjóðarinnar er farið í gambli þeirra sem héldu utan um alla sjóðina í krosstengslunum. Þetta eru endalok sem þjóðin mun ekki gleyma og krafan er að þetta verði tekið alla leið.
Vil annars hrósa umsjónarmönnum Kompáss fyrir vandaða og trausta umfjöllun í kvöld. Fínn þáttur, sem tók af skynsemi á málunum og sagði söguna frá þeim hliðum sem mestu máli skipta, burtséð frá eignarhaldinu á stöðinni.
![]() |
Landsbanki í slæmum félagsskap |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |