Auðmenn reyna að koma sér í mjúkinn aftur

Yfirlýsing Björgólfs Thors er eðlilegt framhald af hans hálfu. Auðvitað getur hann ekkert annað en skerpt á fyrri orðalagi hans. Enn er þó eftir ósvöruð sú spurning af hverju hann talaði ekki um þetta fyrr og kom sér ekki í sviðsljósið með þetta þegar mesti hitinn var í rimmunni við Bretana. Hvers vegna þögðu þeir feðgar báðir og sögðu ekki múkk þegar mest var að þeim sótt og lýst eftir þeim. Nógu löng var biðin. Voru þeir að vinna saman atburðarás eða vörn allan þennan tíma? Svar óskast.

En auðvitað verður áhugavert að sjá Kompás á eftir og hvað hann segir. Sá í fréttum Stöðvar 2 áðan að Hannes Smárason er kominn í leitirnar; birtist sem hinn iðrandi syndari að reyna að koma sér í mjúkinn hjá þjóðinni aftur. Give me a break sko... Vill einhver í alvöru fá þessa menn aftur og í forystu við að bjarga þjóðinni? Nje.

mbl.is Björgólfur segist standa við ummæli sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju sagði Björgólfur Thor þetta ekki fyrr?

Orð er á móti orði í fullyrðingum Seðlabankans og Björgólfs Thors. Sá síðarnefndi gefur reyndar margt í skyn og virðist reyna að firra sig allri ábyrgð á stöðunni og koma sér í englaklæði til að mæta þjóðinni. Ég spyr þó; af hverju sagði Björgólfur Thor þetta ekki strax? Hvers vegna kom hann sér ekki í fjölmiðla með þessar upplýsingar þegar Landsbankinn var tekinn yfir af ríkinu og þegar milliríkjadeilan við Breta hófst?

Nóg tækifærin hafði hann. Hefði meira að segja getað sagt þetta í Morgunblaðinu, blaði sem faðir hans á stóran hlut í? Finnst þetta ekki sannfærandi. Er viss um að þetta hefði verið upplýst miklu fyrr ef þetta væri satt. Of langur tími er liðinn frá atburðarásinni og mjög margt gert. Hvers vegna þögðu feðgarnir og létu ekki sjá sig ef þeir höfðu þetta tromp á hendi?

Hitt er svo annað mál að ég tek ekki mark á orði af því sem kemur frá útrásarvíkingunum núna. Þeir hafa blaðrað nóga fjandans vitleysu í þessa þjóð.


mbl.is Seðlabanki andmælir Björgólfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt nafn á ónýtu vörumerki

Mér finnst nafnabreytingar á Landsbankanum skiljanlegar. Gamla góða nafnið, sem á sér rúmlega 120 ára sögu, er búið að vera, er orðið ónýtt í umróti síðustu daga. Ekki er hægt að byggja banka til framtíðar á nafni sem hefur verið á hryðjuverkalista, við hliðina á Al-Qaeda, Súdan, Zimbabwe, Talibönum, Búrma og N-Kóreu. Sá banki á sér enga framtíð, þó tilkynnt hafi verið að hann sé farinn af listanum. Orðsporið er ónýtt og verður að byggja nýja undirstöðu. Þetta eru sorgleg endalok fyrir vörumerki sem þótti traustast í íslensku bankakerfi fyrir nokkrum misserum.

Svo verður að ráðast hvort NBI eigi sér framtíð. Ég verð að viðurkenna að það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði nafnið var FBI, en það er nú önnur saga.

mbl.is Landsbankinn verður NBI hf.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morð á Dagvaktinni - grín eða alvara?

Dagvaktin hefur farið ágætlega af stað og verið fín í marga staði. Fleirum en mér hefur þó örugglega þótt kárna gamanið í gær þegar ljóst var að morð hafði verið framið í þættinum og meginhluti gamanþáttarins snerist um að koma líki fyrir svo það liti út eins og slys hefði átt sér stað en ekki morð. Ég veit ekki með ykkur en mér fannst frekar fátt fyndið við síðasta þáttinn. En kannski hefur ekkert morð verið framið og allt lauflétt, en frekar efast ég um það.

Greinilega er verið að undirbúa okkur fyrir dramatísk sögulok hjá þeim félögum Georg, Ólafi Ragnari og Daníel. Margt við þáttaröðina hefur samt verið allt annað en grín. Mér fannst frekar fátt fyndið við það þegar persónan Gugga nauðgaði Ólafi Ragnari. Samt var lítið talað um það. Ég er viss um að þetta hefði verið umtalaðra hefði kynjahlutverkum verið snúið við og farið svona með konu á kjörtíma í sjónvarpi og það í gamanþætti.

En fróðlegt verður að sjá hver sögulokin eru og hvort morðið og það sem það leiðir af sér verður sá örlagapunktur sem við erum búin undir, en fullyrt hefur verið að þetta sé síðasta serían og við fáum algjör sögulok hjá þeim félögum eftir fimm þætti.


Fer Valgerður í mótframboð gegn Guðna?

Mér finnst ályktun framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi um ESB vera skýr skilaboð frá Valgerði Sverrisdóttur og stuðningsmönnum hennar um að hún fari í mótframboð gegn Guðna Ágústssyni á næsta flokksþingi. Hef grunað það um nokkuð skeið að Valgerður fari fram þar, enda sé hún leiðtogi Halldórsarmsins innan flokksins, sem hefur í raun aldrei sætt sig við að Guðni sé formaður flokksins. Þessi armur er augljóslega orðinn langþreyttur með forystu Guðna.

Mér finnst stefna í mikið uppgjör í Framsóknarflokknum. Kannski hefur það verið augljóst allt frá því Jón Sigurðsson varð að fara úr pólitík og Guðni varð formaður án þess að hljóta kjör á flokksþingi. Staða Framsóknarflokksins í könnunum er líka áhyggjuefni fyrir þann kjarna sem enn starfar í flokknum.

Valgerður er augljóslega að undirbúa sína atlögu og hún mun hafa mörg sóknarfæri. Eitt mun kannski veikja hana, en hún var viðskiptaráðherra útrásartímanna og mjög áberandi í lofræðunni fyrir útrásarvíkingana og einkavæddi bankana í sinni ráðherratíð.

En sennilega hefur Framsókn engan kost betri en Valgerður. Hún er hörkutól sem flokkurinn þarf á að halda til að endurheimta hina fornu frægð, eða í það minnsta það besta sem flokkurinn á í stöðunni. Hann er í útrýmingarhættu nú.

mbl.is Vilja ESB-viðræður strax ásamt upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband