Ævintýraleg fréttamennska - hverjir eru sekir?

Ég átti ekki beinlínis von á að stuðningur væri mikill við yfirstjórn Seðlabankans nú. Árferðið er þannig að enginn verður beinlínis vinsæll í slíkum erfiðleikum, hvorki ríkisstjórn né embættismenn sem framfylgja ákvörðunum hennar. Hinsvegar finnst mér fréttin um könnunina um Davíð Oddsson verulega færða í stílinn. Rúmur helmingur aðspurðra tekur ekki afstöðu - aðeins 40% þeirra sem eru í úrtakinu svara og þar af er 90% greinilega óánægður. Mér finnst stóru tíðindin hversu margir hafa ekki skoðun á þessu máli.

Mér finnst það mikil einföldun að spyrja bara um Davíð Oddsson í þessari stöðu. Því er ekki spurt um alla bankastjórana þrjá sem heild? Þeir bera allir jafnmikla ábyrgð í þessum efnum. Svo er það þannig að mér finnst afleitt eða í besta falli heimskt að kenna einum manni um það hvernig komið er fyrir þjóðinni í þessari alþjóðlegu fjármálakrísu.

Átta mig ekki alveg á stöðu ríkisstjórnarinnar núna. Hún er fjarri því stikkfrí og hefur spilað sig út fari svo að Seðlabankinn þurfi nýja yfirstjórn. Svo er hlutur Fjármálaeftirlitsins eftir. Á þeim bæ hafa menn sloppið mjög billega. Þar var sofið mest á verðinum og eigi einhver að fara skal byrjað á þeim enda.

Annars eru allir að leita að sökudólgum. Enginn er sáttur. Finn mikla reiði. Hún er samt mismikil eftir því við hverja er talað. Kannski fer það svo að öllu verður sópað út. Vel má vera, en við verðum fyrst að muna það að hafi Seðlabankinn brugðist hefur ríkisstjórnin og flokkarnir í henni brugðist líka.

Svo má spyrja sig; er fólk svo einfalt að telja að allt lagist bara við það að Davíð myndi fara? Í besta falli er það mikil einföldun, en kannski eru einhverjir sem telja það í sínu svartnætti að þetta sé vandi tengdur einum manni, en því fer víðsfjarri.

mbl.is 10% styðja Davíð í embætti seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færeyingar styðja Íslendinga í kreppunni

Mér þykir vænt um hlýjan hug Færeyinga til okkar Íslendinga. Þeir sýna okkur sannarlega samhug í verki. Hverjum hefði órað fyrir því fyrir nokkrum árum að Færeyingar ættu eftir að veita þjóðinni lán, að til þessa myndi koma? En Færeyingar svosem þekkja vel tilfinninguna sem við upplifum nú. Þeir tóku mikinn skell í upphafi tíunda áratugarins - þá var mikið uppgjör í færeysku samfélagi. Uppbyggingarstarfið var þeim sárt en þeir komust í gegnum það.

Held að við getum um margt lært mikið af Færeyingum hvernig þeir komust í gegnum erfiða tíma, þó kannski séu aðstæðurnar ekki algjörlega eins.

mbl.is Færeyingar vilja lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin kalda hönd IMF

Um leið og tilkynnt hafði verið um stýrivaxtahækkun Seðlabankans varð ég var við að sumir vildu ólmir kenna Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, um hækkunina. Sá kór hefur eitthvað dofnað eftir að ljóst varð að þarna var aðeins hin kalda hönd IMF að verki. Átti fólk virkilega ekki von á því að IMF myndi hækka stýrivextina hér á Íslandi? Var fólk svo grænt að halda að aðstoðin að utan væri ekki dýru verði keypt?

Nú virðist sá kór sem talaði um að IMF væri lausnin á öllum vanda eitthvað hafa þagnað. Sumir áttu hreinlega ekki von á þessu, ef marka má skrif og ummæli fólks, t.d. Vilhjálms Egilssonar og fleiri. Of langt mál að telja upp nöfnin. Held að flestir viti hvaða kór þetta var. IMF er ekki þekkt fyrir neitt annað en taka stjórnina og gera hlutina á sínum hraða en ekki annarra. Þetta er fórnarkostnaðurinn.

Svo verður að ráðast hvort þetta er farsæl vegferð sem við erum komin á. IMF hefur nú sína köldu krumlu á samfélaginu og mun sýna okkur vel hver ræður. Þeir munu vera í hnakkadrambinu á okkur um nokkuð skeið, vonandi ekki alltof mörg ár. Þetta verður hörð brotlending, svo verður að ráðast hverjir lifa þessa hreinsun af.

Þessi aðgerð er ekkert annað en hreinsun. Nú verður smúlað út. Þeir sem vilja kenna Davíð um allt sem aflaga fer, meira að segja skipanir að ofan frá IMF sem skipa yfirmönnum Seðlabankans fyrir verkum nú, eiga eftir að átta sig á nýjum veruleika. Þetta eru aðeins skilmálar frá boðvaldinu sem nú ræður för.

mbl.is Erfitt fyrir fólk og fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF tekur þjóðina með svæsnu kverkataki

Fórnarkostnaðurinn við að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er nú að koma í ljós. Þeir keyra upp vextina og taka íslensku þjóðina kverkataki, hafa okkur algjörlega undir þeirra valdi og ætla nú að sýna okkur hvað felst í björgunaraðstoðinni. Finnst nú frekar hlægilegt að sjá þá vitringa koma fram sem grátbáðu um þennan valkost og segja að þetta sé ósanngjarnt. Svona eru bara skilmálarnir. Hélt einhver að IMF væri að bjarga okkur án þess að taka völdin í sínar hendur og setja fram afarkosti til þjóðarinnar?

Mjög erfiðir mánuðir eru framundan. Erfitt er að spá um hversu margir fari í gjaldþrot og verða gerðir upp en vonandi fer þetta betur en á horfist á þessum dökka degi. Skammdegið er að skella á í orðsins fyllstu merkingu.

mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Björgólfsvörnin í Kompási trúverðug?

Dúndurþáttur í Kompási í kvöld - hafði reyndar verið svo vel kynntur að ekki var annað hægt en fylgjast með af áhuga. Veit ekki hvað skal halda eftir þáttinn. Eitthvað er mjög bogið við þetta allt saman en ég trúi ekki öðru en fjölmiðlar landsins fái hið rétta fram og kryfji málið. Fyrst þeim tókst að fá samtalið á milli Darling og Árna Matt ættu þeim að vera allir vegir færir að komast að því hvað sé rétt eða rangt í þessum þætti.

Björgólfsfeðgarnir hefja vörn sína og uppgjör samstillt í fjölmiðlum landsins. Merkilegt er hvað hún hefst samt seint eftir allt sem á undan er gengið og miðað við það sem Björgólfur Thor hefur fram að færa. Eitthvað er enn í þessu sem vantar upp á til að þetta virki trúverðugt og heilsteypt. En kannski er gott að hver og einn tali út og segi sína hlið málsins og svo fari pressan yfir það.

Mér finnst samt mjög undarlegt að Björgólfur Thor, sem á víst nóg af peningum, kom ekki með þessar 200 milljónir punda, eitthvað um 30 milljarða króna, á borðið. Og hvers vegna hafa þeir beðið nær allan mánuðinn með vörn sína ef hún er svona borðleggjandi? Þetta kemur ekki heim og saman.

mbl.is Misráðin ákvörðun sem endaði með skelfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband