Glitnismyndbandið segir alla söguna


Ég mæli með myndbandinu um söguna á bakvið það sem gerst hefur í Glitni að undanförnu sem lauk með því að bankinn var þjóðnýttur. Vel gert myndband - fullt af ískyggilegum staðreyndum.

Bendi á myndböndin tvö um FL Group, sem voru ekki síður vel gerð.

Þorsteinn Már stjórnarformaður Glitnis áfram?

Yfirlýsing Þorsteins Más Baldvinssonar um að hluthafar í Glitni eigi að samþykkja yfirtöku ríkisins á bankanum eru merkileg endalok á yfirlýsingum hans fyrr í vikunni um stöðu málsins. Væntanlega felst í þessu að hann verði stjórnarformaður Glitnis áfram í umboði ríkisins, þó enn sé vika í hluthafafundinn, og að líklegast verði að eigendur hafi lagt árar í bát í tilraunum sínum til að bjarga bankanum frá yfirráðum ríkisins.

Auðvitað var þetta ljóst alla vikuna, enda fór þetta ekki í þetta ferli af algjörri tilviljun. Þetta er vond niðurstaða fyrir hluthafa en yfirlýsing stjórnarformannsins skýrir línur í þessum efnum til muna. Væntanlega felst í þessu líka yfirlýsing um að hann ætli sér að taka tilboði ríkisins um að gegna formennsku áfram.

mbl.is Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsdagsspá fræðimannsins

Ég er ekki hissa á því að allt sé orðið vitlaust vegna ummæla Gylfa Magnússonar. Ummæli fræðimanns í Háskólanum um að íslenska fjármálakerfið sé komið í greiðsluþrot er aðeins til þess fallið að leiða til ofsahræðslu almennings. Þetta er dökk spá og greinilegt að stjórnmálamenn og yfirmenn Seðlabankans eru ekki tilbúnir til að skrifa undir hana og skal engan undra. Gangi þessi spá eftir er samfélagið orðið frosið í gegn og við öll komin á vonarvöl.

Vissulega er staðan vond en þegar fræðimenn nota stöðu sína til að koma með svona spár er ekki við öðru að búast en samfélagið fari í panik-ástand. Tal fræðimannsins rímar reyndar við það sem forstjóri N1 sagði í gær og yfirlýsingar Baugs um að nú þurfi að fara að hamstra mat. Þetta eru alvarlegar yfirlýsingar og leiða aðeins til þess að þjóðin sekkur í þunglyndi og vonleysi, ekki aðeins um næstu vikur heldur framtíð sína á komandi árum.


mbl.is Davíð: Menn tali varlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjókornin og stefnuræðan

Mér fannst mjög táknrænt að það skyldi fara að snjóa þegar Geir Haarde flutti stefnuræðu sína. Þetta einhvern veginn rammaði inn alvarlega stöðuna sem blasir við. Ræðan var mjög tómleg og engin þau tíðindi í henni sem átt var von á. Ég heyri það á öllum sem ég tala við að ræðan var gríðarleg vonbrigði og einhvern veginn til marks um lánleysi þeirra sem ráða för. Einn kallaði ræðuna skipbrot fjármálaráðherrans á góðæristímunum á meðan annar nefndi hana snjókornaræðuna.

Bind vonir við að eitthvað gerist í dag, eins og fram kemur víða nú eftir því sem liðið hefur á daginn. Allir bíða eftir aðgerðum, sama hvar þeir eru í samfélaginu. Nú er þörf á traustri forystu, landsmenn sjái að það er röggsamt og ákveðið fólk við stjórnvölinn þegar mikilvægast er að einhver standi við stýrið.


mbl.is Búist við tíðindum í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru stjórnarslit í uppsiglingu?

Ingibjörg Sólrún og Geir Áhugavert er að fá þau tíðindi að ríkisstjórnin hafi verið á fallanda fæti í gær, á sama tíma og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson mættu í Ísland í dag til að tala sig saman og virka samstíga. Sá síðarnefndi sagði reyndar í þeim þætti að stjórnin hefði aldrei staðið betur en einmitt í þessari viku. Ekki nema það já.

Mér finnst ráðaleysi ríkisstjórnarinnar, sem kom fram í því að ekki var tilkynnt um neitt stórvægilegt í stefnuræðunni, koma fram í þessu. Afleitt er ef ekki tekst samkomulag sem fyrst um næstu skref í þeirri stöðu sem blasir við íslensku þjóðinni. Nú er mjög mikilvægt að náð verði samkomulagi um áherslur og hugsað til framtíðar en ekki litið í baksýnisspegilinn.

Ég hef haft það á tilfinningunni seinnipart vikunnar að ríkisstjórnin komi sér ekki saman um mikilvægar áherslur og sé hikandi á örlagatímum þjóðarinnar. Auðvitað er það vont og enn verra verður það ef stjórnarslit verða í þessari krepputíð sem blasir við þjóðinni. En á það verður að líta að stjórnin hefur verið ráðalaus mjög lengi og átt erfitt með að stilla saman strengi í lykilmálum.

En þessi fréttaskýring kemur fréttaviðtalinu með Þorgerði og Björgvini í annað ljós, svo sannarlega. Hitt er svo annað mál að Samfylkingin hefur verið veik í atburðarás vikunnar. Formaðurinn er víðsfjarri vegna veikinda, varaformaðurinn utan stjórnar, án hlutverks, og sá sem í raun leiðir flokkinn hefur ekki leiðtogahlutverk innan hans, þó vissulega sé hann fyrsti formaður hans.

mbl.is Íhuguðu að slíta stjórnarsamstarfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir leiðréttir Davíð - sammála Þorgerði

Geir og Davíð Ekki minnkar dramatíkin vegna þjóðstjórnarhugmynda Davíðs Oddssonar. Örstuttu eftir að Þorgerður Katrín skammaði Davíð vegna þess, svo eftir var tekið, dregur Geir úr því að Davíð hafi sagt þetta. Ég velti reyndar fyrir mér hvað felst í orðum Þorgerðar Katrínar.

Er hún með þessu að hugsa næstu skref og tryggja sér eigin sess og sýna sjálfstæði eða bara að tækla stöðuna eina og sér? Geir tekur reyndar undir með Þorgerði en leiðréttir samt Davíð í næstu setningu og telur rangt eftir honum haft.

Hvernig stendur á því að sömu ráðherrar og sátu fundinn þar sem ummælin komu fram túlka þau svo gjörólíkt?

mbl.is Var ekki að viðra hugmyndir um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband