Óvissa í loftinu - skilaboð ráðherranna

Blaðamannafundurinn með forsætisráðherranum í dag lægði öldur í samskiptum Bretlands og Íslands. Samt er mörgum spurningum ósvarað og staðan er mjög erfið. Enda sýnist mér að fullkomin óvissa sé með erlend lán og ekkert fast í hendi þar um. Auðvitað er slíkt aldrei gott, en þetta búum við Íslendingar við nú um stundir.

Mér finnst samt bjartara yfir en var í upphafi vikunnar. Krónan er farin að styrkjast til muna. Eins og Gylfi Magnússon bendir á er mjög líklegt að hún muni halda áfram að styrkjast nú þegar þrýstingur á hana minnkar. En við erum fjarri því komin út úr þessum ólgusjó. Þetta verður ekki leyst á örfáum dögum.

En vonandi fæst traust erlent lán til að koma hlutum hér á fulla ferð áfram. Verkefnið er það eitt nú og mikilvægast nú. Og auðvitað þarf að fara að lækka stýrivextina. Vonandi gerist það þegar á morgun.

Geir og Björgvin eiga að halda þessu formi og hafa blaðamannafund daglega þar til eitthvað ræðst meira. Þó ekki séu svör við öllum spurningum þarf að tala til þjóðarinnar af ábyrgð og festu þó við erfiðar aðstæður.

mbl.is Viðskipti milli landa verða tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi fólks mótmælir með Bubba í kreppunni

Enn einu sinni styður þjóðin Bubba Morthens í baráttuóð sínum. Hann virðist eiga auðvelt með að ná til hennar, hvort sem það er góðæri eða hallæri. Hann sagði um daginn að það hlyti einhver að lögsækja Hannes Smárason og þá sem stýrðu FL Group með honum. Spekingarnir ráðlögðu víst Bubba að fjárfesta í Exista, Eimskip og FL. Ekki góð ávöxtun þar. Hægt er því að skilja að Bubbi sé argur og ósáttur við sinn hlut.

En það eru svo margir aðrir. Bubbi er bara einn fjöldamargra sem hafa farið flatt á verðbréfaviðskiptum og standa mjög illa núna. Hann sameinar þennan hóp og frontar óánægjuna í dag. Vel gert hjá honum.

Hvernig er það annars, gerir ekki Bubbi lag um útrásarvíkingana og endalok þeirra?

mbl.is Fjöldi fólks á mótmælasamkomu Bubba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver ber ábyrgð á veðsetningu fyrir Icesave?

Mér finnst mikilvægt að upplýst verði hver hafi gefið leyfið fyrir veðsetningu íslensku þjóðarinnar á breskum lánamarkaði í gegnum Icesave. Nú þarf að fara ofan í þessi mál. Voru þar aðeins bankamenn á bakvið, ráðherrar í ríkisstjórninni eða aðrir menn valdsins. Kom Fjármálaeftirlitið að þessum gjörningi? Svara er þörf nú við því hver beri á þessu ábyrgð.

Auðvitað eru þetta alvarleg tíðindi, einkum ef stjórnvöld standa ekki við skuldbindingar sínar. Gordon Brown og Alistair Darling kalla okkur svikara á blaðamannafundi í Downingstræti 10 og við erum úthrópuð með hinum versta hætti. Þetta er í og með hin mesta þjóðarskömm sem við höfum orðið fyrir á alþjóðavettvangi.

En nú er svara þörf. Hver ber ábyrgð á svona veðsetningarábyrgð.


mbl.is Brown hótar aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið tekur yfir Glitni - samningar úr sögunni

Glitnir Ég held að það þurfi ekki að koma neinum að óvörum að Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir rekstur Glitnis. Þessi atburðarás hefur staðið lengur en með Landsbankann og eftir því sem liðið hefur á hefur komið í ljós að bankinn stóð mun verr en öllum óraði fyrir.

Á þeirri forsendu einni að stjórnendur bankans gáfu rangar upplýsingar um stöðuna er eðlilegt að fyrri samningar séu úr sögunni og bankinn fari sömu leið og Landsbankinn. Mér finnst það erfitt að sjá tvo banka fara yfir ríkisvaldið á innan við sólarhring en ég tel það skárri lausn en þeir rúlli og allir glati sínu, einkum sparifjáreigendur.

Þeir sem töluðu um bankarán í síðustu viku og yfirdramatíseruð sorgleg endalokin af eigin völdum eru þöglir nú. Eflaust vita þeir upp á sig skömmina með það.

mbl.is FME tekur Glitni yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband