Össur kallar breska sendiherrann á teppið

Ég er ekki hissa á því að Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra og æðstráðandi í Samfylkingunni í veikindaforföllum Ingibjargar Sólrúnar, hafi boðað breska sendiherrann í utanríkisráðuneytið eftir ummæli Gordons Browns síðdegis. Þessi ummæli eru algjör stríðsyfirlýsing við íslensku þjóðina og ekki hægt að sjá annað en milliríkjadeila sé hafin milli landanna, nema þá takist að settla málið mjög fljótlega.

Engu er líkara en Gordon Brown hafi ekki verið í neinu sambandi við elskuna sína, Alistair Darling, en sá síðarnefndi er í Washington. Ég tek undir það að hafi Brown vitað af samtali Darlings við Geir í dag, sem hann hefur greint frá, er þetta alveg rosaleg framvinda mála og ekkert nema algjör stríðsyfirlýsing. Auðvitað er Brown líka að upphefja sig á stöðunni - þetta bægir frá miklum pólitískum vanda hans og hann lítur út eins og hetja einhverra.

En íslensk stjórnvöld hljóta að hugsa sitt þegar svona stríðsyfirlýsing kemur frá þjóð sem við höfum talið til vina, þó vissulega hafi samband þjóðanna tekið miklar sveiflur og gengið hafi á ýmsu í sögulegu samhengi.

mbl.is Sendiherra kallaður á fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brown fer yfir strikið - stjórnmálasambandi slitið?

Ég er eiginlega orðlaus eftir að horfa á Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, ráðast að íslensku þjóðinni með skít og skömm á Sky fyrir stundu. Hann gefur ekkert eftir og talar um okkur eins og sína svörnustu fjandmenn. Sú spurning hlýtur að fara að gerast áleitin hvort við eigum að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Mér finnst þeir dagar í það minnsta liðnir að við lítum á Bretland sem vinaþjóð okkar.

Þetta er sorglegt, mjög sorglegt, enda hafði tekist að byggja samskipti landanna upp eftir hin harðvítugu þorskastríð. Þá var stjórnmálasambandi við Breta slitið af okkar hálfu en með diplómatískum viðræðum tókst að laga tengslin og leysa þessa alvarlegu milliríkjadeilu okkar á milli.

Yfirlýsingar Browns eru sérstaklega dapurlegar eftir að íslenski fjármála- og forsætisráðherrann hafa talað vinalega til hans og Darlings og komið málinu af stórsprengjusvæðinu. En kratarnir bresku gefa ekkert eftir.

Samskipti Bretlands og Íslands eru á ís og kannski verður erfitt að bæta fyrir þennan skaða. Sú spurning verður áleitin hvort hinir lélegu stjórnmálamenn Brown og Darling (sem eru rúnir traustir) séu að slá sér upp á þessu.


mbl.is Brown: Viðhorf íslenskra stjórnvalda óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Transcript á samtal Árna og Darling strax, takk!

Ég tel mikilvægt að samtal Árna og Alistair Darling verði gert opinbert, í það minnsta í transcript-formi. Öll viljum við örugglega fá það rétta fram. Mér finnst samt margir hafa viljað hengja bakara fyrir smið í þessu máli áður en allar staðreyndir liggja fyrir. Þeir hinir sömu eru ekki miklir bógar sýnist mér - að dæma áður en nokkuð er vitað um megin staðreyndir málsins.

mbl.is „Sagði honum að við stæðum við yfirlýsingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sögðu Árni og Darling við hvorn annan?

Mér finnst mikilvægt að farið verði ofan í saumana á því hvað í samtali Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, við Alistair Darling hafi orðið til þess að komið var fram við íslensku þjóðina eins og hryðjuverkamenn og úrþvætti heimsins. Nú er ljóst að yfirlýsingar Árna urðu undanfari þess sem varð en ekki viðtalið við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, eins og sumir snillingarnir hafa reynt að telja öllum trú um í dag. Fara þarf yfir þetta mál og gefa upp hvað ráðherrarnir sögðu við hvorn annan.

Mér finnst viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar fram úr öllu hófi. Ég veit að Íslendingar hafa ekki alltaf verið vel þokkaðir í Bretlandi. Ekki eru nema þrír áratugir síðan við áttum í harðri milliríkjadeilu við þá og það oftar en einu sinni. En þessi framkoma er Bretum ekki sæmandi. Ég veit að breska stjórnin er rúin trausti með fylgislítinn Brown fremst í flokki en það vantar svörin við því hver ástæðan sé í raun.

Ég hugleiði hvort Brown og kratarnir hafi viljað slá pólitískar keilur á þessu. Taka hart á Íslendingunum og upphefja sjálfan sig í leiðinni. Í öllu falli þarf að upplýsa betur um samtalið. Allir Íslendingar hljóta að krefjast þess að rétt sé rétt í þeim efnum.

mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýi Landsbankinn rís upp á gömlum grunni

Ég fagna því að Landsbankinn er að rísa upp að nýju undir nýjum merkjum. Vonandi mun ganga vel að fóta sig áfram eftir áföllin að undanförnu. Vil óska Elínu Sigfúsdóttur til hamingju með að verða bankastjóri Landsbankans. Auðvitað hefði maður viljað að þau tímamót að fyrsta konan yrði bankastjóri yrði við gleðilegri aðstæður en þessar, en engu að síður eru það söguleg þáttaskil sem einhver ögn af gleði ætti að vera við.

Ég finn vel að Elín nýtur trausts, ekki aðeins þeirra sem taka nú við bankanum heldur og líka fólksins innanhúss. Slíkt skiptir lykilmáli nú. Svo er bara að vona að bjartir tímar blasi við bankanum í öllu svartnættinu.

mbl.is Nýi Landsbanki tekur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið yfirtekur Kaupþing

Yfirtakan á Kaupþingi eru nöpur þáttaskil í íslensku efnahagslífi. Á innan við þrem sólarhringum fara allir þrír bankarnir, þar af gömlu ríkisbankarnir tveir sem voru einkavæddir árið 2002, undir vald Fjármálaeftirlitsins. Þegar neyðarlögin voru sett á mánudagskvöld vonaði öll þjóðin að hægt yrði af afstýra því, sem þá var yfirvofandi, að bankarnir yrðu allir yfirteknir. En þetta hefur farið svona.

Eins og ég sagði í gærkvöldi er þessi sorglega atburðarás söguleg fyrir landsmenn alla og vonandi mikil lexía fyrir þá sem hafa farið um heiminn í útrásinni. Þetta eru svartir dagar fyrir þjóðina alla. Fjöldi fólks hefur tapað miklum peningum og er fært jafnvel áratugi aftur í einu vetfangi er sparnaður til fjölda ára fuðrar upp. Ég vorkenni mjög því fólki sem tók áhættuna og féll fyrir fagurgalanum í bönkunum.

Öll munum við heyra sorglegar hversdagslegar sögur af skipbroti almennings vegna þessara sorglegu þáttaskila sem fylgja endalokum útrásarinnar. Þetta eru nöpur endalok en vonandi verður hægt að byggja á þeim rústum sem fylgja uppstokkun þessara kuldalegu haustdaga í sögu þjóðarinnar.


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Fjármálaeftirlitið að taka yfir Kaupþing?

Ekki verður annað séð af fréttum síðustu klukkutíma en Kaupþing sé að fara sömu leið og Landsbankinn og Glitnir - hann verði yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu innan nokkurra klukkutíma hafi það ekki þegar verið gert. Fundahöldin í Fjármálaeftirlitinu sem nú eru orðin opinber boða fátt gott fyrir Kaupþing, svo mikið er alveg víst.

Eiginlega er óraunverulegt að verða vitni að þessari atburðarás - að allir bankarnir séu fallnir í valinn í þeirri mynd sem við höfum þekkt þá. Mikil verður uppstokkunin nú. Breyttir tímar eru sannarlega framundan.

Erfitt er að sjá hverjir standa og falla þá uppstokkun af sér. Óvissan er algjör og örlög gulldrengja útrásarinnar nöpur og sorgleg. Þessi endalok útrásarinnar verða vonandi lexía fyrir alla sem fylgjast með.

mbl.is Hryðjuverkalög gegn Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband