Glæfralegur hraðakstur

Í þriðja eða fjórða skiptið á örfáum dögum er ökumaður tekinn á manndrápshraða í umferðinni, nú eftir ævintýralegan flótta undan laganna vörðum rétt eins og fyrr í þessari viku í Hafnarfirði. Eins og ég hef svo margoft sagt er þetta ekkert annað en manndrápsakstur, ökumaðurinn setur sjálfan sig í lífshættu með slíku aksturslagi og er um leið með beint tilræði við aðra ökumenn í umferðinni. Þrátt fyrir öll þessi mál æ ofan í æ virðast aðrir ekki læra sína lexíu.

Veit ekki hvað ökumenn sem taka ákvörðun um að taka slíka rússneska rúllettu í umferðinni fyrir sjálfa sig og aðra eru að hugsa. Væntanlega er ekki mikil vitglóra eftir hjá þeim sem geysast af stað af slíku hugsunarleysi. Verst af öllu er að þrátt fyrir fjölda þessara mála sé alltaf nóg af þeim sem hugsa ekkert um afleiðingar hraðaksturs og taka áhættuna fyrir sig og aðra í umferðinni.

Dapurlegt er að þrátt fyrir allar auglýsingarnar um hraðakstur læri fólk aldrei af reynslunni, enda varla heillaríkt að taka þessa áhættu.

mbl.is Mældur á 212 km hraða; reyndi að stinga af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

In Memoriam



Hvalfjarðargöng í áratug - tvöföldun í sjónmáli

Frá vígslu Hvalfjarðarganganna Áratugur er í dag liðinn frá því Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, opnaði Hvalfjarðargöngin, sem voru ein mesta samgöngubót Íslandssögunnar og markaði mikil þáttaskil þar sem þau voru fyrstu neðansjávargöngin hérlendis. Svo er nú komið nú að það þarf að bæta við og tvöfalda þau. Ekki kemur það að óvörum miðað hversu vinsæl þau eru og hversu margir velja þau framyfir veginn um Hvalfjörðinn.

Þó er það eins með Hvalfjarðargöngin og með mörg farsæl mannanna verk að þau voru mjög umdeild og til eru þeir sem lögðu mikið á sig bæði til að tala gegn þeim og hugmyndinni á bakvið þau, að neðansjávargöng væru ekki traustur samgöngukostur og það væri óðs manns æði að ætla að leggja í gangnagerð undir fjörðinn. Fjöldi manna skrifaði greinar og beittu sér á öðrum vettvangi en vilja væntanlega ekki við það kannast nú. Enda fara flestir landsmenn um Hvalfjarðargöngin á leið sinni til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru fáir sem velja gamla veginn um Hvalfjörðinn framyfir göngin.

Á sínum tíma var fjöldi fólks sem sagðist frekar myndu fara fjörðinn en göngin og töluðu ansi kuldalega um þessa samgöngubót. Væntanlega eru þeir flestir búnir að brjóta odd af oflæti sínu og greiða fyrir að fara þessa leið. Enda minnir mig að nýjustu rannsóknir sýni að vel innan við fimm prósent þeirra sem þurfa að fara þarna um velji göngin og væntanlega fer þeim enn fækkandi. Þegar göngin voru vígð voru settar fram spár um hversu margir færu um Hvalfjarðargöngin. Þær spár voru stórlega vanmetnar - göngin urðu vinsælli en þeim bjartsýnustu óraði fyrir.

Held að flestir muni taka undir mikilvægi þess að tvöfalda Hvalfjarðargöngin, líka þeir sem töluðu svo mjög gegn þeim á sínum tíma. Allir vilja nú Lilju kveðið hafa.

mbl.is Tvöfalda þarf Hvalfjarðargöng á næstu 5 til 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttatilraunir fanganna

Auðvitað er gott að lögreglunni tókst að koma í veg fyrir flótta fanga í þeirra vörslu. Varla er hægt að ætlast til annars en lögreglan geti komið í veg fyrir slíkar flóttatilraunir. Varð þó mjög hugsi eftir að Annþóri Karlssyni tókst að sleppa úr varðhaldi úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þar komu fram alvarlegar brotalamir í varðhaldsvistun, meira að segja í höfuðstöðvum lögreglunnar, þar sem einangrunarfanga tókst að sleppa og ætlaði sér að pússa sig upp fyrir afmæli síðar sama dag.

Flótti Annþórs var vandræðalegt klúður fyrir lögregluna. Þar voru verklagsreglur brotnar og mjög illa staðið að málum á meðan að hann var í varðhaldi. Vonandi hafa menn lært sína lexíu vel á þeim bænum. Auðvitað er afleitt að margdæmdur ofbeldismaður, grunaður um alvarleg afbrot og í einangrun, geti leikið lausum hala á lögreglustöð, komist í síma, fundið reipi og stokkið út um glugga án þess að nokkur tæki eftir því.

Ofan á allt annað að þá liðu að minnsta kosti tveir tímar frá flóttanum þar til löggan áttaði sig loks á honum. Auðvitað má búast við að fangar notfæri sér glufur í kerfinu, sem þeir finna, og reyni að sleppa. En lögreglan á að geta brugðist við því fumlaust og vera undir það búin að svo geti farið. Vonandi hafa mistökin í máli Annþórs leitt til þess að löggan standi sig almennt betur og læri sína lexíu.

Svo er það auðvitað grunnatriði að mér finnst að fangar sem verið er að flytja á milli staða eigi að vera bæði í hand- og fótajárnum. Ef koma á í veg fyrir flóttatilraunir og taka á málum er það eina lausnin.


mbl.is Fangi reyndi að flýja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að nafngreina grunaða kynferðisbrotamenn?

Ég tók eftir því í vikunni að nokkrir bloggarar ákváðu upp á sitt eigið fordæmi að nafngreina háskólakennarann sem grunaður er um að hafa misnotað börn sín. Ekki hafði nafn hans verið birt fyrr, svo ég viti til, og fjöldi fjölmiðla hafði tekið þá ákvörðun að birta ekki nafnið að svo stöddu, meira að segja DV, eftir því sem ég best veit allavega. Stóra spurning þessa máls er auðvitað hvort það sé eðlilegt að grunaðir kynferðisbrotamenn séu nafngreindir áður en dómur fellur yfir þeim og hvort það skipti máli hver bakgrunnur málsins er áður.

Sjálfur hef ég aðeins tvisvar skrifað um slík mál og nafngreint grunaða menn í slíkum málum. Nöfn þeirra beggja höfðu þá verið birt í fjölmiðlum og sú umfjöllun var ekki tíðindi á minni bloggsíðu. Var þar um að ræða sóknarprest og lögmann og málin voru alþekkt og í fjölmiðlaumræðu áður en ég skrifaði. En við lifum á öðrum tímum en áður og bloggið er mun öflugri fjölmiðill hvað varðar að setja fram ýmislegt, bæði kjaftasögur og staðreyndir sem aðrir hafa ekki fjallað um. Virðist kynferðisbrotamál vera eitt af því sem bloggarar fjalla um og nafnbirting á þeim vettvangi greinilega það sem koma skal ef marka má þessi skrif.

Hitt er svo annað mál að Moggabloggið var fljótt að taka á þessum málum og tóku greinilega bloggarana fyrir sem nafngreindu manninn. Þeir eru eftir því sem mér skilst best tveir eða þrír hið minnsta sem birtu nafnið, þó einn hafi verið meira umtalaður vegna þess en aðrir. Greinilegt er að Mogginn vildi ekki taka ábyrgð á skrifunum og tók málið fyrir, þó bloggararnir skrifuðu allir undir nafni. Töldu þeir ábyrgðina á nafnbirtingunni ekki bara bloggarans heldur þeirra sem umsjónaraðila kerfisins og hýsingaraðila skrifanna.

Þetta mál er merkilegt að mörgu leyti. Til þessa hefur reyndar verið lítið um svona nafnbirtingar fyrr en dómur fellur. DV á dögum Mikaels Torfasonar, Jónasar Kristjánssonar og Illuga Jökulssonar tóku þó afstöðu og nafngreindu menn svo mjög umdeilt þótti. Samfélagið logaði vegna þessara mála. Í fleiri málum hafa nöfn birst og verið talað um hitt og þetta málið sem helst hafa þótt sláandi, vegna umfangs þess og alvarleika brotanna. Flest dagblöðin tala þó bara um hvað viðkomandi aðili gerir og þrengir hópinn vissulega með því.

Afstaða Moggabloggsins í þessu máli hlýtur að teljast stefnumarkandi. Þarna er ritskoðun eiganda bloggkerfisins staðreynd og greinilegt að virk umsjón er á kerfinu. Þar sé ekki hægt að segja og skrifa hvað sem er án ábyrgðar, bæði bloggarans og þeirra. Þetta hlýtur að opna á alvöru umræðu um hvert stefnir í þessum málum. Mér finnst afstaða Moggamanna góð og tel hana ábyrga og rétta.

Bloggfærslur 11. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband