13.7.2008 | 22:07
Fjölnir leikur sér að ÍA - lánleysi Skagamanna
Botnbarátta blasir við Skaganum, rétt eins og fyrir tveim árum. Skagamenn mega varla við fleiri skakkaföllum enda með aðeins sjö stig úr ellefu leikjum. Enn hefur liðið tíma til að bjarga sér af botninum en ekki blæs byrlega. Frekar dapurlegt hefur verið að sjá til Skagamanna á þessu sumri og deilur þeirra við dómara ekki beinlínis verið uppbyggilegar. Nær væri fyrir liðið að taka á sínum vandamálum og ná áttum í botnbaráttunni.
Skaginn hefur lengst af verið gullaldarlið í íslenskri knattspyrnu. Þetta er vond staða og hlýtur að vera erfið fyrir stuðningsmenn liðsins. Flestir spyrja sig að því hvernig Skaginn ætli að vinna sig upp í sumar eftir þessa martröð í upphafi mótsins. Þar eru góð ráð orðin mjög dýr og algjör skelfingarbragur yfir þessu forna knattspyrnuveldi sem er að upplifa dökka daga.
Stóra spurningin verður hvort að Guðjón Þórðarson muni klára sumarið sem þjálfari Skagamanna, hvort honum verði kennt um slæmt gengi liðsins eða takist að snúa vörn í sókn.
![]() |
Nýliðar Fjölnis lögðu Skagamenn, 2:0 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt 14.7.2008 kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2008 | 18:30
Tryggðin við Ísrael - verða breytingar í janúar?

Greinilegt er eftir ræðu Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, hjá AIPAC í júníbyrjun að hann verður ötull málsvari Ísraels ef hann nær kjöri sem forseti Bandaríkjanna og mun vinna af krafti gegn Íran, ekkert síður en bæði John McCain og Hillary Rodham Clinton höfðu talað um í forsetabaráttu sinni á síðustu mánuðum. Ræða Obama voru tíðindi í augum einhverra, sennilega þeirra sem trúðu tali hans um miklar breytingar í forkosningunum.
Varla þurfti AIPAC-ræða Obama að koma að óvörum, í sannleika sagt, enda mun Obama þurfa á öllu sínu til að ná kjöri í kosningunum í nóvember. Fyrir nokkru varð vart við þann misskilning hjá íslenskum vinstrimönnum og svosem fleiri slíkum um víða veröld að Obama myndi ekki taka upp sömu stefnu og Bush forseti í málefnum Írans og Ísraels. Það reynist markleysa.
Bæði þarf hann að tala eins og Bush forseti í þessum þýðingarmiklu málum til að ná til lykilhópa í kosningabaráttunni og auk þess vill hann ekki marka sig sem mann sem veitir afslátt í varnarmálum nái hann kjöri sem forseti. Með þessu er Obama að sýna vel að hann hefur í raun sömu stefnu í málefnum Ísraels og báðir keppinautar hans um forsetaembættið og fráfarandi forseti.
Mikið verður hamrað eflaust á næstunni með það að Obama sé reynslulaus og veiti afslátt í mikilvægum málefnum. Þessi ræða skýrði línur og eftir hana vitum við betur hvernig forseti Barack Obama myndi verða í lykilmálefnum. Tryggð hans við Ísrael og andstaða við kjarnorkuuppbyggingu í Íran verður varla dregin í efa af vinstrimönnum um víða veröld eftir þetta.
Bush er búinn að vera pólitískt, situr sína síðustu mánuði á valdastóli. Mun meira máli skiptir hvað mögulegir eftirmenn hans gera. Báðir virðast þeir í grunninn hafa sömu stefnu sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir einhverja.
![]() |
Bush gefur gult ljós á árás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2008 | 15:28
Skynsemi í myrkrinu - græðgin og óhófið að baki?
Ólafur Jóhann Ólafsson kemst vel að orði í helgarviðtali Moggans um orkumál og einkum REI-málið margfræga. Græðgin og óhófið drap alla mögulega skynsemi í REI-málinu. Almenningi ofbauð spillingin og vinavæðingin sem var í forgrunni allra ákvarðana, hvernig skammta átti nokkrum vildarvinum úr sjóðum almennings og nota fyrirtæki almennings sem stökkpall fyrir auðmenn og til að maka krókinn fyrir sig sjálfa. Þar var lykilpunktur þess máls.
Enn veit reyndar enginn hvað snýr upp og niður í því máli. Þeir stjórnmálamenn sem réðu för í REI-málinu síðasta haust eru ekki lengur á hinu pólitíska sviði og reyndar flestir þeir yfirmenn sem umdeildastir voru í því ferli. Guðmundur Þóroddsson ekur reyndar enn um á jeppa og talar í síma í eigu borgarbúa og á þeirra kostnað þó hann hafi fengið 30 milljónir fyrir að fara, þar sem hann átti ekki lengur trúnað þeirra sem fara með umboð kjósenda.
Þvílíkur farsi var annars að horfa á þennan mann muldra sig í gegnum sína stöðu í Kastljósi á föstudag. Ætlar maðurinn ekki að skila þessum trúnaðargögnum sem hann á engan rétt á að valsa með út úr húsi með? Nú er helgin að verða liðin og allir bíða eftir að maðurinn skili því sem hann á engan rétt á að vera með í sínum fórum. Varla er við því að búast að fólk hafi samúð með þessum manni og ekki var hann að fiska eftir henni með Kastljósviðtalinu.
Orkuútrásin getur jafnvel verið fjári sniðug og kúl. En þar eiga einkaaðilar að gambla með fé ekki á að leggja undir á spilaborð viðskiptanna með fé almennings, setja undir fyrirtæki sem á að þjóna borgarbúum og tengdum aðilum. Þar er helsta deilan.
Eins og komið var fram í REI-málinu í fyrra er eðlilegt að véfengt sé fyrir hvern er unnið með þessari orkuútrás. Ekki eru það eigendur þessa borgarrekna fyrirtækis, þó menn eins og Guðmundur hafi spilað sig sem forstjóra í einkafyrirtæki.
Ólafur Jóhann talar þó, að því er virðist, af meiri einlægni en margir forsvarsmenn þessara fyrirtækja sem hafa tjáð sig um þessi mál lengi. Kannski vantar einlægnina og heiðarleikann í þennan hráskinnaleik er allt kemur til alls.
![]() |
Ólafur Jóhann: Tími gífuryrða liðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2008 | 13:29
Tvöföld ánægja hjá þokkaparinu í Hollywood
Sennilega segir það sitt um fréttadaginn þegar stærsta fréttin af erlendum vettvangi er að óskarsverðlaunaleikkonan Angelina Jolie sé búin að eiga tvíburana sína. Reyndar var fullyrt þegar 30. maí sl. að leikkonan hefði átt börnin þá en það reyndist ekki rétt. Fjölmiðlar hafa átt svo erfitt með að bíða eftir börnunum að sérstök vakt hefur verið á eftir þeim og sátu þeir um sjúkrahúsið, svo mjög að þekja varð gluggana á sjúkrastofu leikkonunnar með dökku efni til að ekki yrði hægt að mynda þar.
Angelina Jolie hefur verið umdeild eins lengi og hún hefur verið fræg, ekki aðeins talin ein mesta þokkadís síðustu ára, heldur auk þess mjög góð leikkona sem hefur túlkað dramatík og húmor í hæfilegri blöndu og skapmikil að auki. Jolie er eins og flestir vita ekki ættarnafn. Þetta er franska orðið yfir hina fögru. Því vel við hæfi að hún eigi börnin sín í Frakklandi. Ættarnafn hennar er Voight, enda er faðir Angelinu óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight. Ekki er langt síðan þau sömdu frið eftir að hafa ekki talað saman í fimm ár. Bæði þekkt fyrir svæsin skapgerðarköst.
Ástarsamband Brad Pitt og Angelinu Jolie hefur verið eitt af þeim mest áberandi á síðustu árum og telst eitt það heitasta í kvikmyndabransanum til fjölda ára. Umtalið við upphaf sambands þeirra við gerð kvikmyndarinnar Mr. and Mrs. Smith árið 2005 var enda engu minna en þegar að Elizabeth Taylor og Richard Burton voru að byrja að draga sig saman við gerð kvikmyndarinnar Kleópötru í upphafi sjöunda áratugarins. Og myndirnar af upphafi sambands þeirra minntu marga á hinar heitu myndir sem staðfestu að Burton og Taylor voru að draga sig saman fyrir fjórum áratugum.
Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.
Enn hafa þau þó ekki gift sig og um tíma virtist sambandinu ætla að ljúka á deilum um það. Jolie vildi ekki festa sig og hinn 45 ára ráðsetti fjölskyldufaðir sem var farinn að róa sig eftir litríkan feril vildi skuldbindingu. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, fullyrða má að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) 1996 og skildi við hann 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.
Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.
Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Börnin hafa sameinað þau - þau eiga saman dótturina Shiloh (sem er lifandi eftirmynd föður síns) og auk þess hafa þau ættleitt heilan helling af börnum, minnir að þau séu þrjú eða fjögur sem Jolie hefur ættleitt og Pitt hefur gengið í föðurstað.
Fróðlegt verður að sjá hvort að tvíburarnir sameini stjörnurnar endanlega og þau gifti sig eftir áralangar vangaveltur um tímasetningu þess.
![]() |
Brangelina-tvíburarnir fæddir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.7.2008 | 02:14
Morðalda í London - vandamál í bresku samfélagi

Ánægjulegt er að lögreglan sé komin á spor þeirra sem frömdu verknaðinn. Ekki var nóg með að morðinginn (morðingjarnir) veittu mönnunum tveimur um 250 stungusár heldur var kveikt í líkunum. Lýsingar á þessu voðaverki eru skelfilegar og vonandi munu þeir sem frömdu verknaðinn svara til saka fyrir það og fá sinn dóm. Hef fylgst með fréttum af þessu máli á bresku fréttastöðvunum. Greinilegt er að yfirvöld ráða ekki við stöðuna og fátt er til ráða.
Þeir á Sky hafa fjallað jafnan um þessi mál af ábyrgð og talað um allar hliðar þessara sorglegu morða og reynt að varpa ljósi á þá þætti sem mestu skipta. Sérstaklega áhrifaríkt var að sjá viðtal við blökkumann í einu af gengjunum í borginni þar sem hann talaði um ofbeldið og sagði enga vera neitt nema þeir ættu hníf og gætu varið sig. Villimannseðlið og tilfinningaleysið er algjört. Morð eru líka framin oft af mjög litlu tilefni og fórnarlömbin eru berskjölduð nema þau geti varið sig með hnífum.
Þess eru dæmi að gengi taki vissa einstaklinga fyrir og vilji taka þá úr umferð. Er grimmdin í þessum málum mjög mikil og ekki hægt að sjá betur en að ríkisstjórnin og borgaryfirvöld í London standi ráðalaus andspænis þessum mikla vanda, sem versnar með hverjum deginum. Dökkur blær er yfir nokkrum borgarhverfum og þar horfir fólk upp á hvert morðið á eftir öðru, vill komast úr hverfinu en getur ekki losnað við fasteignina sína.
Blasir við að þetta sé uppsafnaður vandi í bresku samfélagi. Hef heyrt marga sérfræðinga tala um hættulega framkomu ungs fólks í gengjunum; finna megi fyrir einmanaleika og þunglyndi ungmenna almennt sem stafi m.a. af ábyrgðarleysi fullorðinna - mjög skorti á ást og umhyggju í samfélaginu. Er fylgst er með fréttum af hnífstungumorðunum má finna vel fyrir því að ekki er hægt að ráða við stöðuna.
Nú er talað um það sem einhverja lausn að gera hnífa upptæka og gera herferð sérstaklega gegn þeim sem ganga um borgina með hníf á sér. Varla verður það auðvelt verkefni og ekki hægt að ná tökum á stöðunni með því. Vonandi mun takast að stöðva þessa morðöldu í heimsborginni London. Ekki er þó ástæða til bjartsýni miðað við hversu alvarleg staðan er.
![]() |
Ákærður vegna námsmannamorða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |