15.7.2008 | 16:33
Snobbið í laxveiðinni
Sennilega er það eitt besta dæmið um það hversu snobbuð þessi blessaða þjóð er orðin þegar fólk er farið í frí og útivistina með þyrlu. Kannski þarf þetta ekki að koma að óvörum en svona er þetta víst. Flestir þeir sem ég þekki eru að fara í laxveiði sér til heilsubótar og ánægju og eru ekki svo efnaðir að geta farið með þyrluflugi þangað.
Svolítið fyndið.
![]() |
Með þyrlum í laxveiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 16.7.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2008 | 13:50
Hlýtur Heath Ledger óskarinn fyrir Dark Knight?

Enginn vafi leikur á því að Dark Knight verður ein stærsta mynd ársins og sumarsmellurinn í ár - andlát Heath Ledger hefur vissulega mikil áhrif á það, enda munu margir vilja fara í bíó til að sjá hann í síðasta sinn á hvíta tjaldinu í alvöru stórmynd. Óskarstilnefning yrði merkileg viðbót við þá umræðu. Heath vann ekki óskarinn fyrir stórleik sinn í Brokeback Mountain fyrir tveim árum og eflaust taldi akademían að hann myndi fá annað tækifæri til að vinna. Kannski gerist það nú fyrir þennan svanasöng hans.
Held að flestir aðdáendur Heaths muni líta á Dark Knight sem síðustu stórmynd hans. Heath var þó vissulega að vinna að gerð The Imaginarium of Doctor Parnassus þegar hann lést en mikið verk var eftir til að klára myndina. Eru aðstandendur myndarinnar þó staðráðnir í að klára myndina og verður söguþræðinum breytt verulega til að persóna Heath persónugerist í öðrum leikurum, þeim Johnny Depp, Colin Farrell og Jude Law, sem eru tilbúnir til að taka þátt í verkefninu, honum til heiðurs, og jafnframt tryggja að myndin verði kláruð. Engin dagsetning er komin á frumsýningu.
Aðeins einu sinni í sögu óskarsverðlaunanna hefur það gerst að leikari vinni óskarinn fyrir leiktúlkun eftir lát sitt. Fyrir þrem áratugum, árið 1977, hlaut Peter Finch óskarinn fyrir stórleik sinn í hlutverki fréttaþulsins Howard Beale í Network nokkrum vikum eftir að hann lést úr hjartaslagi. Tók eiginkona hans, Aletha Finch, við verðlaununum. Var þessi heiður því mjög sögulegur en margir töldu sigurlíkur hans minni þar sem hann hafði dáið áður en kosningin fór fram og margir veðjuðu á túlkun William Holden í Network eða Robert De Niro, sem hafði farið á kostum í hlutverki leigubílstjórans Travis Bickle í Taxi Driver.
Auk þess hefur það aðeins gerst örfáum sinnum að leikari hafi hlotið tilnefningu eftir andlát sitt. James Dean hlaut tvisvar tilnefningu eftir að hann lést í bílslysi árið 1955; í East of Eden árið 1956 og Giant árið 1957. Hann hlaut þó ekki óskarstilnefningu fyrir þá kvikmynd sem talin hefur verið hans besta verk á ferlinum, Rebel Without a Cause, sem markaði ímynd hans sem töffarans í kvikmyndabransanum, við hlið Marlon Brando. Hávær orðrómur var um að Dean myndi vinna verðlaunin fyrir East of Eden en mörgum að óvörum vann Ernest Borgnine óskarinn fyrir túlkun sína á Marty.
Spencer Tracy var tilnefndur nokkrum mánuðum eftir að hann lést fyrir stórleik sinn í Guess Who´s Coming to Dinner?, sem markaði ekki aðeins endalok merkilegs leikferils heldur sögufrægs leynilegs ástarsambands og vinnusamstarfs hans með Katharine Hepburn, bestu leikkonu 20. aldarinnar. Myndin er stórmerkileg endalok á merkum ferli, en ekki er hægt annað en hrífast af næmum samleik Tracy og Hepburn í þessari síðustu mynd, en þau vissu bæði að þetta væru endalokin á litríku sambandi þeirra á hvíta tjaldinu.
Svo má auðvitað ekki gleyma því að Massimo Troisi var tilnefndur árið 1996 fyrir túlkun sína á póstberanum Mario Ruoppolo í hinni ljúfu og yndislegu Il Postino. Troisi lést aðeins örfáum klukkustundum eftir að hann lauk vinnu við myndina og myndin var tileinkuð minningu hans. Il Postino varð hans merkasta leikverk á ferlinum og hans var minnst sérstaklega á óskarsverðlaunahátíðinni 1996 með myndklippu um verk hans.
Miðað við umræðuna um The Dark Knight má búast við að Heath Ledger bætist í hóp þeirra leikara sem fyrr eru nefndir, þeirra sem kláruðu feril sinn með eftirminnilegum leikframmistöðum og voru heiðraðir fyrir það í Hollywood eftir andlát sitt. Það verður svo að ráðast hvort að Heath Ledger vinnur óskarinn fyrir túlkun sína á Jókernum.
![]() |
Stjörnurnar votta Ledger virðingu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2008 | 00:45
Nær Britney að komast af botninum?

Pressan hefur varla litið af henni og fært okkur misjafnlega spennandi fréttir sem dókúmentera hratt fall stjörnu. Hún gekk þó ekki alla leið til heljar og lét tattúvera skipperamerki á upphandlegginn eða djöflatákn á bakið heldur lét sér þá nægja að fá lítið brostákn á upphandlegg. Vonandi mun tilveran brosa við henni núna. Ég man reyndar þegar Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð.
Fjölmiðlar vestanhafs voru reyndar orðnir svo vissir um að hún myndi ekki ná að rétta sig við að CNN og fleiri fréttastöðvar voru tilbúnir með umfjöllun um hana látna, var þar í hópi með fólki á borð við Kirk Douglas, Paul Newman, Oliviu De Havilland, Jimmy Carter, Betty Ford og Elizabeth Taylor, svo nokkrir séu nefndir. Britney er of ung fyrir fallið mikla og vonandi nær hún að halda sér á þeirri braut sem hún er á nú.
![]() |
Britney blómstrar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)