Mannvonska í Íran

Ekki eru fallegar lýsingarnar á væntanlegum aftökum á níu manns í Íran. Grimmdin og mannvonskan eru algjör í þeim efnum. Eflaust er vændi, sifjaspell og framhjáhald umdeilt í hvaða samfélagi sem er. En aftaka af því tagi sem bíður þessa fólks er ómannúðleg og ógeðfelld í alla staði. Í flestum siðmenntuðum löndum er enginn sómi fólginn í drápum og mannvígum en það finnast önnur viðmið í þeim menningarheimum sem þetta fólk kemur úr.

Lýsingarnar um það hvernig fer fyrir þessu fólki eru alveg skelfilegar. En varla kemur þetta að óvörum. Ekki er langt síðan því var lýst í sjónvarpsþætti og blaðaskrifum hvernig samkynhneigðir eru drepnir í Íran. Þeir eru þurrkaðir út, enda er ekki leyfilegt að tveir einstaklingar af sama kyni verði ástfangið.

Mahmoud Ahmedinejad, forseti Írans, neitaði því með öllu að til væri samkynhneigð í Íran í frægum fyrirlestri í Columbiu-háskólanum í New York síðasta haust og lét þau ummæli falla að helförin hefði aldrei átt sér stað. Þarna er grimmdin og mannvonskan ein refsingin í alvarlegum málum.

Staðreyndum í daglegu lífi er þar afneitað. Skilningur er enginn. Þeir sem ekki fara eftir ægivaldinu eru einfaldlega drepnir. Það hvernig murka á lífið úr þessu fólki er því miður ekkert einsdæmi. En þetta er dapurlegur veruleiki.

mbl.is Níu manns bíða þess að vera grýtt til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild snilld hjá Monty Python

Life of Brian Þrem áratugum eftir að Monty Python gerði kvikmyndina Life of Brian, þar sem gert er grín að messíasardýrkun, er enn deilt um boðskap hennar, hvort hún sé ein besta gamanmynd kvikmyndasögunnar og banna eigi sýningar á henni. Ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi Monty Python og líkað vel við sketsahúmorinn hjá þeim. Þeir mörkuðu þáttaskil í gríni, voru kannski að einhverju leyti á undan sinni samtíð og gerðu frábær verk sem hafa lifað.

Ég veit að Life of Brian hefur gert marga menn trúarinnar algjörlega æfa af bræði en ég hélt þó að flestir hefðu jafnað sig á boðskapnum eftir öll þessi ár. Trúarlegt grín eða nýtt sjónarhorn á lykilatriði trúarbragða hefur ekki alltaf hitt vel í mark. Öll munum við eftir skopmyndum og gamansemi um trúarbrögð sem hafa kveikt bál, misjafnlega mikil og langvinn. Spaugstofan var allt að því bannfærð á sínum tíma fyrir trúarlegt grín, Jón Gnarr var álitinn svikari af kaþólskum fyrir Símaauglýsingarnar og öll munum við eftir Múhameðsteikningunum.

Trúarlegt grín fær einhverja til að hlæja en aðrir taka kast yfir því. Skiptir þar svosem máli hversu langt er gengið. Monty Python fékk yfir sig mikla reiðiöldu þegar þeir fóru yfir í trúarlega grínið og gamla góða myndin þeirra enn umdeild. Flestir muna svo eftir því hvað gerðist þegar Martin Scorsese gerði The Last Temptation of Christ. Myndin hefur ekki verið sýnd í Ríkissjónvarpinu árum saman vegna þess hversu umdeild hún var. Allavega hefur verið hætt við sýningar á henni, reyndar orðið svolítið langt síðan. Og ekki er hún sýnd daga og nætur á Stöð 2 Bíó heldur.



Þó Monty Python hafi leikið sér að því að verða umdeildir, stuða með gríni sínu er sögulegur sess þeirra í gamanleik traustur. Gamanþættir þeirra voru tær snilld og myndirnar alveg frábærar. Þeir voru pottþétt blanda og Cleese, Palin og Idle með vinsælustu grínistum allra tíma. Kannski er kominn tími til að Ríkissjónvarpið sýni þessa snilld fyrir okkur. Eða eru kannski einhverjir enn argir yfir gríninu eftir öll þessi ár hér heima á Fróni?

mbl.is Bannað að sýna Life of Brian
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband