The Dark Knight er algjörlega frábær mynd

The Dark Knight Jæja, loksins eftir margra mánaða bið er maður búinn að sjá The Dark Knight, nýjustu Batman-myndina og síðustu mynd Heath Ledger. Og myndin stóðst allar væntingar og gott betur en það. Algjörlega frábær í alla staði, vönduð og vel gerð og verðskuldar allt það lof sem hún hefur fengið og ekki síður metaðsóknina sem hefur komið henni á stall með mörgum eftirminnilegustu kvikmyndum síðustu áratuga í sögubókunum.

Var farinn að hugsa um það síðustu dagana hvort myndin væri að fá allt lofið aðeins vegna þess að þetta er lokapunkturinn á glæsilegum leikferli Heath, sem lést langt um aldur fram eða hvort að þetta væri bara sumarbóla án verðskuldaðra hæfileika á að verða eftirminnilegt meistaraverk. Þetta er hiklaust besta Batman-myndin. Handritið, tónlistin, klippingin og kvikmyndatakan er brilljans og heildarpakkinn allur eins og best verður á kosið.

Heath Ledger er leiftrandi og yndislega illkvittinn sem Jókerinn - hann lagði allt í þessa túlkun og færir okkur enn dýpri og kuldalegri karakter en Jack Nicholson gerði í fyrstu Batman-kvikmyndinni fyrir tveim áratugum. Þessi frammistaða verður ekki síður eftirminnileg en leiksigrar James Dean á sjötta áratugnum í East of Eden, Giant og Rebel Without a Cause, ógleymanlegum meistaraverkum sem halda minningu hans á lofti um eilífð. Dean dó ungur en afrek hans voru verðskuldaðir leiklistarsigrar sem eru í minnum hafðir.

Sama má segja um Jókerinn sem gnæfir yfir allt í myndinni. Þetta er myndin hans Heath, minnisvarði hans. Og hann á að fá óskarinn fyrir stórleik sinn, hvorki meira né minna. Það var auðvitað til skammar að hann fékk ekki verðlaunin fyrir tímamótatúlkun sína á Ennis í Brokeback Mountain. Hollywood á að heiðra minningu þessa hæfileikaríka og frábæra leikara með óskarsstyttu, ekki aðeins til minningar um ógleymanlega leiktúlkun merks leikara heldur sem minnisvarða um hvað hefði getað orðið.

mbl.is Leðurblökumaðurinn kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband