Brown búinn að vera - kuldaleg endalok

Gordon Brown Hverjum hefði órað fyrir því þegar Gordon Brown fékk húsbóndavald í Downingstræti 10 á silfurfati að hann yrði gerður upp innan eigin raða innan fimmtán mánaða, með blóðugum og kuldalegum hætti? Sú er nú að verða raunin. Aðeins er tímaspursmál hvenær Brown fær náðarhöggið og verður kastað út úr breskum stjórnmálum af samherjum sínum og það áður en hann fær tækifæri til að leiða Verkamannaflokkinn í kosningum.

Árið 2005 leiddi hann flokkinn áfram til sigurs fyrir Tony Blair, sem var stórlega skaddaður í sínum síðustu kosningum. Þá var Gordon Brown hetja flokksins og táknmynd sigursins, mun frekar en Blair sem var búinn að vera pólitískt og var pólitískt lamaður - í gíslingu órólegu deildarinnar innan flokksins. Þá óraði engum fyrir því að hinn vinsæli og trausti fjármálaráðherra ætti svo stutt pólitískt líf fyrir höndum og myndi mistakast við leiðtogahlutverkið.

Hann beið í þrettán ár eftir stólnum. Biðin var löng og erfið og hann plottaði sig miskunnarlaust á leiðarenda og ýtti Blair út áður en hann vildi yfirgefa Downingstræti 10. Nú er allt útlit fyrir að Blair-armurinn muni hefja endalokin fyrir Gordon Brown - sparka honum út úr breskum stjórnmálum. Þeir hafa lengi beðið færis í að gera upp Gordon Brown og launa honum lambið gráa og munu nú ganga frá honum pólitískt, brosandi á vör.

Þeir vildu aldrei að hann fengi hnossið mikla og reyndu að berjast gegn því að hann yrði forsætisráðherra. Blair og lykilmenn hans töldu Brown þó of sterkan og afgerandi pólitíkus til að hann yrði stöðvaður. Þeir lögðu ekki einu sinni í að finna kandidat gegn honum. Á rúmu ári er Brown búinn að vera. Hann hefur sópast út í þeim ólgusjó sem einkennir bresk stjórnmál, nú þegar sigur Íhaldsflokksins í næstu þingkosningum er í kortunum.

Fyrir Brown eru þetta vissulega mjög kuldaleg endalok. Hann fékk tækifærið en klúðraði því. Og nú munu þingmennirnir sem óttast um eigin hag sparka honum til að eygja von á endurkjöri. Já, hún er skrýtin þessi pólitík. En hvað ætla kratarnir eiginlega að gera við Gordon Brown þegar þeir hafa sparkað undan honum stólnum?

mbl.is Ráðherrar hvattir til að ýta Brown til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband