29.7.2008 | 17:28
Árni kærir Agnesi - dapurt endaspil úr Eyjum

Ég hef í sjálfu sér aldrei farið leynt með að ég vildi ekki Árna í þingframboð á síðasta ári. Fannst það rangt að hann færi aftur í framboð eftir alvarleg lögbrot sín fyrir nokkrum árum. Fannst það hvorki honum né Sjálfstæðisflokknum til góða. Fór meira að segja í viðtal á Stöð 2 til að tala gegn þingframboðinu eftir ítarleg bloggskrif. Er enn sömu skoðunar og finnst ekkert hafa breyst í þeim efnum að afleitt hafi verið að Árni hafi aftur farið á þing.
Enda sýnist mér það hafa sannast af því að Árna hefur ekki verið treyst fyrir trúnaðarstörfum innan flokksins, eftir að flokksmenn í Suðurkjördæmi völdu hann á þing, þó þeir hafi reyndar lækkað hann um sæti með útstrikunum á kjördegi og veikt pólitíska stöðu hans til muna. Hann hefur verið utangarðsmaður í þingflokknum. Var ekki treyst fyrir formennsku eða varaformennsku í þingnefndum á kjörtímabilinu, né öðrum embættum, þó hann hafi átt fjórtán ára þingferil áður að baki er hann sneri aftur á þing.
Árni hefur strikað sig út í þjóðmálaumræðunni og hefur jafnmikil eða minni pólitísk áhrif og óbreyttir stjórnarandstöðuþingmenn. Sjálfstæðismenn eru ekki sáttir við endurkomu hans og munu aldrei sætta sig við að hann hafi komist aftur á þing. Held að sagan muni dæma endurkomu hans á þing sem mistök og mér finnst forysta flokksins hafa fellt þann dóm vel með því að velja Árna ekki til neinna trúnaðarstarfa.
Ætla rétt að vona að sjálfstæðismenn á Suðurlandi vandi sig betur við val á næsta framboðslista sínum.
![]() |
Árni stefnir Agnesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.7.2008 | 15:12
Frábært framtak - grasið á að vera á torginu
Ég er mjög ánægður með framtak þeirra sem þökulögðu Ráðhústorgið hér á Akureyri í nótt. Að mínu mati eiga bæjaryfirvöld að leyfa þökunum og blómunum að vera á miðju torginu, allavega fram eftir sumri. Síðan eiga þau að taka þá pólitísku ákvörðun að breyta Ráðhústorgi aftur og hafa grænt svæði þar, eins og var lengi vel. Þetta á ekki að vera flókið mál.
Í bernskuminningu minni, þegar Hanna amma og Anton afi bjuggu í Brekkugötu 9, var Ráðhústorgið notalegur staður þar sem var líf og fjör. Eftir að svæðið var allt hellulagt dó þessi stemmning algjörlega. Eru orðin mörg ár síðan staldrað var við á Ráðhústorgi og notið þess að vera þar. Kannski hefur myndasýningin þar gefið manni tækifæri til þess, annað ekki.
Grámygla steinsteypunnar hefur alla tíð verið lítið spennandi þar og ég tel að eyðilegging torgsins sé ein ástæða þess hvernig komið sé fyrir miðbænum. Þeir sem stóðu að þessu hafa fært bæjaryfirvöldum gott tækifæri til að taka af skarið og staðfesta að þarna eigi að vera grænt svæði.
Ég skora á Sigrúnu Björk að sýna myndugskap og trausta pólitíska forystu og beita sér fyrir því að Ráðhústorgið verði fært til fyrri tíðar, þegar þar var notalegt að vera lengur en eina mínútu.
![]() |
Ráðhústorgið þökulagt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.7.2008 | 11:26
Ólafur F. sparkar í Ólöfu Guðnýju

Ólafur F. virðist vera mjög laginn við að missa traust þeirra sem vinna með honum. Ekki aðeins tókst honum að missa þær sem sátu í öðru og þriðja sæti framboðslistans sem hann leiddi úr hópnum heldur hefur hann losað sig við pólitískan aðstoðarmann sinn, sem hann valdi sjálfur, á fyrstu mánuðum borgarstjóraferils síns. Stórar spurningar um pólitískt bakland borgarstjórans í Reykjavík og styrk hans hljóta að vakna í kjölfarið.
Mér finnst svona verklag ekki til sóma fyrir borgarstjórann. Varla er þetta stöðugleikamerki, hvorki fyrir hann, né meirihlutann sem situr við völd. En hvað segir Ólöf Guðný? Forðum daga, í pólitískum ólgusjó, sagði hún að trúverðugleiki borgarstjórans væri hafinn yfir allan vafa. Hver er staðan með þann trúverðugleika nú?
![]() |
Borgarstjóri skiptir um varaformann skipulagsráðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |