Mun Ramses hafa sömu áhrif og Gervasoni?

Paul Ramses Ekki er hægt að komast hjá því að skynja mikla ólgu í samfélaginu vegna máls Paul Ramses. Sama hvaða lagabókstaf er vitnað í til varnar ákvörðunum í þessu hugsa fjöldi fólks til eiginkonu hans og sex vikna barns. Þetta virkar kuldalegt og ómannúðlegt. Saga konunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 var mjög tilfinningarík og ég held að hún hafi haft mikil áhrif á fjölda fólks.

Hef heyrt í mörgum vegna þessa máls í gær og í dag. og heyrt sterkar skoðanir á málinu úr öllum áttum. Finn mjög vel að samúðin í málinu er með Ramses, konu hans og barni. Mér finnst það heldur ekki skrítið. Hefði þetta verið afbrotamaður og stórhættulegur glæpamaður hefði hann ekki átt sér neinar málsvarnir og ekki haft almenningsálitið með sér en í ljósi þess að svo er ekki og ekki er vitnað til neins nema túlkana á lögum finnst fólki illa farið með manninn.

Get ekki betur séð en þetta sé pólitískur flóttamaður sem hafi gert margt mjög gott. Mér finnst það mjög kuldalegt ef það fer svo að maðurinn verði sendur beint út í dauðann með heimför til Kenýa. Finnst mjög ólíklegt að hann staldri lengi við á Ítalíu og endi á heimaslóðum fyrr en síðar. Eftir því sem ég hef heyrt slapp hann þaðan við ótrúlegar aðstæður og á sér ekki bjarta framtíð ef hann lendir í klóm þeirra sem þar fara með völd. Einkum sá þáttur málsins finnst mér skipta mjög miklu máli og leiðir til þess að ég hef samúð með þessum manni og fjölskyldu hans.

Mannlega taugin í mér allavega fær mig til að skrifa um þetta mál. Finnst þetta ekki eðlileg meðferð. Hef tjáð skoðanir mínar hér og endurtek þær aftur. Finnst þær mun sterkari en allar tilvitnanir í lagabókstafinn. Að mörgu leyti minnir þetta mál mig á mál flóttamannsins Patrick Gervasoni á sínum tíma. Mál hans varð pólitískt bitbein og hann hafði áhrif á stöðu þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat við völd. Guðrún Helgadóttir, alþingismaður, beitti sér fyrir málstað Gervasonis og setti ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens í mikla hættu vegna þess árið 1980.

Mál Gervasoni vakti líka mikla athygli og hann varð einn umtalaðasti maður ársins 1980. Því máli lauk þó með því að hann fór. Man satt best að segja ekki hver örlög hans urðu, en væntanlega tókst Guðrúnu með sínu afli og baráttunni fyrir málstað hans að ljúka málinu farsællega. Gott ef hann endaði ekki í Danmörku. En hvað með það. Þar sást að stjórnmálamaður getur sett heilt kerfi út af sporinu með því að berjast einlæglega og af sannfæringarkrafti fyrir því sem viðkomandi telur rétt, hvað svo sem kerfið og lagabókstafurinn segir.

Kannski fer það svo að Paul Ramses kemur aldrei hingað aftur og fær ekki að vera hér. En eftir umtalað mál þar sem tengdadóttur þáverandi umhverfisráðherra var hyglað sérstaklega finnst mér fjarstæðukennt að þegja um akkúrat þetta mál. Vonandi finnst á því einhver lausn sem allir geta sætt sig við. Mér finnst ekki eðlilegt að koma svona fram við mann sem ekkert hefur brotið af sér, en er aðeins landflótta maður vegna stjórnmálaskoðana sinna.

mbl.is Undirskriftarlisti til stuðnings Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inn og útum gluggann-viðskipti hjá Baugsfeðgum

Jón Ásgeir og Jóhannes

Mjög áhugavert er að lesa viðskiptatilfærslurnar hjá Baugsfeðgum. En afhverju kemur þetta ekki á óvart? Þetta eru auðvitað svona ekta inn og út um gluggann-viðskipti. Hvað mun breytast? Eru fyrirtækin ekki að fara úr einum vasa yfir í annan hjá sama aðilanum? Get ekki betur séð. Það er fiffað til og frá svo hratt að meðaljóninn nennir ekki að fylgjast með.

Allt er þetta gert því Jón Ásgeir Jóhannesson getur ekki tekið á sig dóm eins og honum var gert í hæstarétti fyrir nokkrum vikum. Ekki eru nú allir svona heppnir að geta sleppt því að taka út sína refsingu en það eru ekki allir svo heppnir að eiga mikla peninga og geta búið til hjáleið frá dómskerfinu. Kannski er þetta aðdáunarvert á sinn hátt, enda eru ekki allir sem fá dóm á sig sem geta komist hjá því með því að flytja allt sitt hafurtask á erlenda grund.

Hitt er svo annað mál að Baugur er fyrir lifandis löngu orðið alþjóðlegt fyrirtæki og því þarf það varla að koma að óvörum að klippt sé á tengsl móðurfyrirtækisins á landið. Fyrirtækin hér eru einfaldlega bara færð í annan vasa því það hentar betur og FL Group fær á sig undarlega breytingu sem fáir skilja nema þeir allra innvígðustu í bransanum. En breytingarnar eru í sjálfu sér engar, þetta heitir á góðri íslensku fiff og hókus pókus tilfærslur. Svosem gaman að sjá svona sjónhverfingar á hásumri.


mbl.is FL Group verður Stoðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boltasviptingar - stjörnuhrap meistaranna

Úr leiknum Ekki vantaði sviptingarnar í boltanum í kvöld. Íslands- og bikarmeistarar Vals og FH úr leik í bikarnum - Breiðablik og Haukar komast í átta liða úrslitin en meistararnir ekki. Merkileg tíðindi og ekki beint í takt við spár. Meiri óvissa en ella yfir bikarnum.

Er viss um að sá hefði varla verið talinn mikill boltaspekúlant sem hefði spáð Haukum áfram sem fulltrúum Hafnfirðinga í átta liða úrslitin og þeir myndu komast lengra en margverðlaunaðir nágrannar þeirra í FH.

Blikarnir hafa verið að spila mjög gloppótt í sumar og tekst nú að sparka Völsurum út úr bikarnum. Allavega er þetta mómentið til að brillera fyrir þá í Kópavogi og bætir upp vonbrigði sumarsins.

Keflavík, Fjölnir og KR hljóta að telja vænlegust fyrirfram í bikarnum. Í fyrra tókst Fjölni að komast í úrslitaleikinn gegn FH. Þeir voru spútnikk-lið þess sumars og verða það kannski aftur núna. Keflavík hefur verið að standa sig vel í sumar og gætu tekið þetta.

Svo eru KR-ingar örugglega orðnir hungraðir í titil. Þeir hafa ekki unnið titil í hvað fimm ár að mig minnir. Hafa ekki unnið titil síðan Willum þjálfaði þá fyrr á þessum áratug og ekki unnið bikarinn síðan 1999.

Stjörnuhrapið í kvöld gerir bikarúrslitin vonandi bara ennþá meira spennandi. Lið sem fáir spáðu áfram geta svo líka haldið áfram að koma á óvart. Hver veit.

mbl.is Bikarmeistaralið FH féll úr keppni í Keflavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband