Hvar eru siðprúðu samfylkingarmennirnir núna?

Grindavík Við fregnir af falli meirihlutans í Grindavík, þar sem Samfylkingin sleit samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn án sýnilegrar ástæðu og nefna eitt mál sérstaklega, verður mér ósjálfrátt hugsað til allra stuðningsmanna Samfylkingarinnar sem töluðu svo hátt þegar meirihlutar í Reykjavík og Bolungarvík féllu fyrr á þessu ári. Þá voru stór orð látin falla og mikil dramatík sett á svið og meira að segja mótmælt vinnulaginu.

Ekki virðist vera jafnmikil hneykslan yfir sambærilegri atburðarás í Grindavík nú. Veit ekki hvort það segir meira um sveitarstjórnarpólitík eða Samfylkingarfólk. Eflaust voru mótmæli þeirra fyrr á árinu bara hrein pólitík en ekki bara umhyggja fyrir sveitarfélagi sínu eða hagsmunum þess. Þar var sett á svið leikþáttur til að gráta valdamissinn sem fylgir falli meirihluta. Erfitt er að finna út hver veldur slíkum slitum, eflaust eiga allir hlutaðeigandi einhvern hlut að máli, og furðulegt að menn reyni að kenna öðrum um slíkt eða ofurdramatíseri hlutina rétt eins og við munum eftir af mótmælum í Ráðhúsinu í janúar.

Meirihlutar koma og fara í sveitarstjórnum. Þannig getur hið pólitíska eðli orðið þar sem engum einum aðila eru falin völd með skýrum hætti. Vissulega er þetta sögulegt kjörtímabil í Reykjavík. Í síðustu kosningum náði enginn einn flokkur eða bandalag flokka meirihluta í borgarstjórn í fyrsta skipti frá borgarstjórnarkosningunum 1978 og semja þurfti. R-listinn hafði geispað golunni og Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki umboð til að leiða borgina einn, eins og kannanir höfðu bent til að gæti orðið lengi vel í kosningabaráttunni. Þá þegar var ljóst að staðan öll væri mun opnari og opið á ítalskt ástand þar sem meirihlutar gætu komið og farið, eins og gerist oft í öðrum sveitarfélögum víða um landið.

Auðvitað er fall meirihluta á miðju tímabili aldrei merki stöðugleika. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa umboð til verka. Ekki verður kosið aftur þó einn meirihluti falli og stuðningsmönnum fallins meirihluta líki ekki valdaskiptin. Umboðið er fjögur ár og kjörnum fulltrúum ber sú skylda að mynda nýjan meirihluta falli sá sem fyrir er og ekkert annað er í stöðunni. Fjarstæða er að tala um upplausn þegar að kjörinn fulltrúi með fullt umboð úr kosningum sér hag sínum ekki borgið í meirihlutasamstarfi og heldur í aðrar áttir og myndar nýjan meirihluta.

Ánægja Samfylkingarmanna með svipaða atburðarás nú og þeir kvörtuðu yfir fyrr á árinu vekur allavega athygli, svo ekki sé meira sagt. Get ekki séð hvað er öðruvísi. Er leiðtogi Samfylkingarinnar í Grindavík ekki bara að fiska eftir bæjarstjórastól?

mbl.is Nýr meirihluti í bæjarstjórn Grindavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband