Geir Haarde bítur á jaxlinn og bölvar í hljóði

Geir H. Haarde Greinilegt er að Geir Haarde, forsætisráðherra, er ekkert hoppandi sæll með úrskurð umhverfisráðherrans en hann virðist þó bölva í hljóði. Undrast yfirlýsingar hans að þetta stefni stjórnarsamstarfinu ekki í hættu. Er algjörlega ósammála því mati, enda finnst mér þetta þvert á móti veikja undirstöður þessarar ríkisstjórnar, sem ekki voru þó sterkar fyrir.

Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar í tvær áttir, síðast með þessu stórundarlega útspili umhverfisráðherrans, veikir ríkisstjórnina augljóslega og fær marga til að efast um hvort rétt sé að styðja hana. Yfirlýsingar Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrsta þingmanns kjördæmisins, eru allavega traustar og góðar. Hvað mig varðar finnst mér ástæðum þess að ég ætti að bakka upp ráðherra hennar og þá sem standa að henni vera farið að fækka mjög.

Ef ekki er hægt að vinna traust og afgerandi að þessum málum sem skipta okkur mestu er eðlilegt að horfa annað. Ég er allavega ekki þannig gerður að sætta mig við svona þegjandi. Það má vel vera að Geir reyni að settla þetta með mildum yfirlýsingum en hann verður þá að taka á sig ólguna meðal sjálfstæðismanna í garð umhverfisráðherrans í stjórn hans.

Ráðherrann situr í skjóli Sjálfstæðisflokksins í þessu ráðuneyti og eðlilegt að þeir sem eru ósáttir við hennar verk tali hreint út. Reyndar skil ég ekki þennan úrskurð hennar nema sem tilraun til að stöðva álverið við Bakka. Af hverju tók hún ekki sömu afstöðu til álversins í Helguvík?

Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi en sem atlögu að fólki hér og framkvæmd sem skiptir svæðið mjög miklu máli. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að dekka þetta verklag fær hann að finna fyrir því hér líka.

mbl.is Úrskurðurinn ónauðsynlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg atlaga Þórunnar að íbúum á Norðurlandi

Þórunn SveinbjarnardóttirÁkvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, lélegasta ráðherrans í ríkisstjórninni, um Bakkaálver í dag er bein atlaga að Norðurlandi og hagsmunum þess. Þar er vegið að fólki hér með mjög grófum hætti, svo alvarlegum að ekki er hægt að þaga. Verði þetta stefna ríkisstjórnarinnar í málum hér er svo komið að rétt er að láta af stuðningi við hana algjörlega. Ekki verður við þetta ástand unað að óbreyttu.

Svo er nú komið að Sjálfstæðisflokkurinn verður að meta það hvort hægt sé að styðja þessa ráðherraónefnu sem Þórunn Sveinbjarnardóttir er. Mér finnst eðlilegt að spyrja sig að því og fá svör í leiðinni hver stefna Samfylkingarinnar í þessum málum er. Ætlar flokkurinn að styðja álver við Bakka eða vinna gegn því með svo áberandi hætti og raunin er í dag? Sjálfstæðisflokkurinn tekur fulla ábyrgð ella á þessu rugli.

Ég hef orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með hálfvelgjuna sem kemur frá þessari ríkisstjórn, einkum í málum Bakkaálvers. Ákvörðun iðnaðarráðherrans fyrir nokkrum vikum og nú umhverfisráðherrans er atlaga að fólki hér. Eðlilega er velt fyrir sér hvort að þingmenn stjórnarflokkanna hér í kjördæminu séu áhrifalausir í þessum málum. Er virkilega ekkert hægt að gera til að snúa þessum málum við til betri vegar?

Mér finnst sífellt meira áberandi að þessi ríkisstjórn hefur enga heildstæða stefnu í lykilmálum. Blaðrað er í báðar áttir og hálfvelgjan er algjör. Nú er kominn tími til að einhver segi stopp og spurt sé að því hvort eigi að keyra til hægri eða vinstri. Það er erfitt að gera bæði í sama bíltúr, nema leggja eigi upp á tveim bílum, bláum og rauðum.

Hingað og ekki lengra í ruglinu, takk fyrir. En mikið vorkenni ég Samfylkingarmönnum í Þingeyjarsýslum núna. Þeir hljóta að vera sárir í dag. En ég vona að þeir beri harm sinn ekki í hljóði.


mbl.is Undirbúningur skemmra kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband