Nýr meirihluti - nýju tækifærin í Reykjavík

Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir Þá hefur fjórði meirihlutinn í Reykjavík á innan við ári verið myndaður og mál nú komin á upphafsreit, áður en REI-málið klauf sextán mánaða meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hanna Birna Kristjánsdóttir, verðandi borgarstjóri, og Óskar Bergsson, verðandi formaður borgarráðs, voru sæl og glöð, umfram allt þó ákveðin í að standa sig vel, á blaðamannafundi fyrir stundu.

Tel þetta besta kostinn í stöðunni. Þessi meirihluti var það sem kom út úr síðustu kosningum og fór af stað af krafti og hafði gert góða hluti áður en hann hrökklaðist frá í moldviðrinu og látunum sem fylgdu deilum um Orkuveitu Reykjavíkur. Nú fá flokkarnir tækifæri, sumir myndu kalla það hið gullna tækifæri, að gera betur og reyna aftur við það að stýra málum rétta leið og taka farsælar ákvarðanir án hiks og málalenginga.

Áður en kom að REI-málinu var ekki mikið sem skildi flokkana að og samstarfið gengið vel. Nú ætti að vera hægt að halda þeim verkum áfram, nú með nýju upphafi þar sem báðir leiðtogar flokkanna hafa tekið við forystunni á síðustu mánuðum, eftir að Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson viku til hliðar, Björn Ingi fór í fjölmiðla og Vilhjálmur gaf eftir leiðtogastöðuna og tilkynnti að hann færi ekki fram aftur. Því ætti að vera hægt að leiða mál áfram með betri hætti og fá aðra nálgun á það.

Hef mikla trú á Hönnu Birnu og hef alltaf haft. Hún er öflug og traust kona, sem hefur alla tíð verið farsæl og ákveðin í sínum störfum. Henni fylgir ekki hik og óákveðni. Nú hefur hún fengið tækifærið til að taka atburðarásina í sína hendur, marka sig sem sterkan leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á eigin vegum og mynda meirihluta á sínum forsendum, ekki annarra sem leiddu mál í meirihlutagerð með Ólafi F. Magnússyni, meirihluta sem var andvana fæddur frá fyrsta degi.

Vonandi verður endurmyndað samstarf upphafið á nýju og góðu. Til hamingju Reykvíkingar með að fá góða og glæsilega konu sem borgarstjóra, fyrsta kvenkyns sjálfstæðisborgarstjórann frá því Auður Auðuns var borgarstjóri fyrir hálfri öld.

mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. hafnaði Tjarnarkvartett - ósannur spuni

Ólafur F. og MargrétÉg sagði í bloggfærslu minni fyrr í dag að orðrómur um að Ólafur F. Magnússon vildi víkja fyrir Margréti Sverrisdóttur væri ósannur og vitnaði í sögusagnir sem ég hafði heyrt. Enda hefði það verið kostulegt ef Ólafur F. hefði endað á að segja af sér og upphefja Margréti eftir allt sem á undan er gengið þegar hún vildi ekki styðja hann sem borgarstjóra.

En annars skiptir þetta uppgjör og spunamennska vinstrimannanna í minnihlutanum litlu sem engu máli. Þau munu ekki verða aðalleikarar í því sem tekur við. Nýr meirihluti er að fæðast án aðkomu þeirra og Tjarnarkvartettinn mun ekki endurfæðast við völd að nýju.

Hann gafst upp í janúarmánuði og vandséð hvernig eigi að vera hægt að endurnýja þau heit á þeim rústum sem þá urðu. Auk þess væri Ólafur F. Magnússon með afsögn úr borgarstjórn að gefa þeim í minnihlutanum sem mest hafa ráðist að honum allt frá borgarstjórnarfundinum þar sem hann var kjörinn borgarstjóri sigur í þeirri rimmu sem hann hóf sjálfur með því að slátra Tjarnarkvartettinum.

Það verða margir stjórnmálaspekingar og fræðingar sem munu keppast um síðar meir að skrifa sögu þessa kjörtímabils í stærsta sveitarfélagi landsins. Sagan af borgarstjóraferli Ólafs F. verður örugglega sérstök og enn sérstakari ef svo hefði farið að hann hefði skrifað sig þar út og hleypt Margréti inn eftir vinslit þeirra.


mbl.is Bera til baka fréttir um Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. tilbúinn til að kvitta upp á eigið klúður

Ólafur F. MagnússonMér finnst það mjög kómískt að Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, hafi verið tilbúinn til að skrifa upp á eigið klúður í embætti með því að afsala sér borgarfulltrúasætinu til að reyna að endurvekja Tjarnarkvartettinn sáluga, sem hann sjálfur slátraði. Þetta er held ég besti pólitíski brandari ársins, burtséð frá mörgu öðru fyndnu.

En ég held að rétt sé að vorkenna Ólafi F. nú þegar hann missir borgarstjórakeðjuna. Hann hefur spilað svo ævintýralega rassinn úr buxunum með verklagi sínu að undanförnu að leitun er að öðru eins. Fyrst henti hann Ólöfu Guðnýju út úr skipulagsráði, svo ræður hann Gunnar Smára í óljós verkefni undir formerkjum Dægradvalar og svo þegar hann hefur misst allt býðst hann til að upphefja Margréti Sverrisdóttur.

Þvílíkt og annað eins - er þetta ekki efni í sápuóperu um ástir og pólitísk örlög frjálslyndra og óháðra, hvað svo sem sá hópur heitir annars frá degi til dags. En ætlar Ólafur F. að axla sín pólitísku skinn með því hvernig hann spilaði sig út úr borgarstjóraskrifstofunni og afhenda Margréti Sverrisdóttur sætið eða er þetta bara pólitískur leikaraskapur?

Hversu einlægt eða trúverðugt þetta boð Ólafs F. Magnússonar um afsögn telst mun eflaust ráðast. Mínir heimildarmenn innan Sjálfstæðisflokksins telja þetta uppspuna og auglýsingabrellu hjá leifum Tjarnarkvartettsins. En beðið er nú yfirlýsingar borgarstjórans fráfarandi um framtíð hans í borgarmálunum sem greinilega er í óvissu ef þessi orðrómur er réttur, burtséð frá því að hann er að missa borgarstjórastólinn.

Mikið væri það nú fyndið ef hann myndi nú standa við fyrra boð og leyfa Margréti að klára kjörtímabilið. Eða ætlar hann að sitja sem áheyrnarfulltrúi í borgarráði?


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn sprunginn - Hanna Birna borgarstjóri

ÓlafurFHanna
Nú hefur endanlega verið staðfest að meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og F-lista í borgarstjórn Reykjavíkur er lokið eftir 204 daga við völd. Heimildir herma, þó þær hafi ekki verið staðfestar, að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi handsalað samning við Óskar Bergsson og verði næsti borgarstjóri í Reykjavík, sá tuttugasti í röðinni og fjórði á innan við ári. Þetta verður fjórði meirihlutinn á tíu mánuðum við völd, sannarlega sögulegt tímabil í borgarmálunum.

Með þessu eru borgarmálin komin á upphafsreit fyrir deilur um REI-málið. Sama samstarf og var við völd í sextán fyrstu mánuði kjörtímabilsins endurreist, en auðvitað án Björns Inga Hrafnssonar. Þó þetta samstarf verði veikara en hitt í atkvæðafjölda verður það sterkara en ella, enda verður með því hægt að þoka málum áfram og taka skynsamlega afstöðu til fjölda mála sem hafa verið í gíslingu í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar.

En auðvitað er stöðugleikinn enginn í borgarmálum. Stærsta verkefni Hönnu Birnu og Óskars Bergssonar verður umfram allt að ná trausti við borgarbúa og reyna að tryggja stöðugleika við stjórn borgarinnar í því ítalska ástandi sem mun þó óhjákvæmilega verða meginpunktur þessa sögulega kjörtímabils.


mbl.is Nýr meirihluti að fæðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutasamstarfinu við Ólaf F. slitið síðar í dag

Meirihluti kynntur í janúar 2008 Síðustu daga hefur verið beðið eftir hinu óumflýjanlega; sjálfstæðismenn slíti samstarfinu við Ólaf F. Magnússon. Það mun gerast síðar í dag. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur gefist upp á samstarfinu og heldur í aðrar áttir. Enda hefur borgarstjórinn farið langt út fyrir sín mörk með ákvörðunum sínum og misboðið sjálfstæðismönnum með verklagi sínu.

Þessi meirihluti hefur allt frá upphafi verið mjög veikur og ekki til stórræðanna. Því koma endalokin varla að óvörum. Þegar menn eru farnir að hlaupa upp og niður stiga og fara huldu höfði til að sleppa við að mæta fjölmiðlamönnum er ljóst að endalokin eru ekki langt undan. Þetta er orðið allt mjög sérstakt og reyndar er niðurlægingartímabil borgarfulltrúa í Reykjavík orðið algjört og afleitt ef mynda þarf fjórða meirihlutann í þessu ítalska ástandi.

En það er ábyrgðarhluti fyrir sjálfstæðismenn að halda þessu áfram og bera ábyrgð á Ólafi F. Magnússyni sem borgarstjóra í Reykjavík. Það er ekkert eftir í þessu samstarfi sem réttlætir að hann sitji sem borgarstjóri í umboði sjálfstæðismanna eða annarra ef út í það er farið.

mbl.is Borgarfulltrúar segja fátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggskrifin halda áfram

Ég hef ákveðið að halda áfram skrifum á Moggabloggið. Eftir mikla umhugsun tel ég ekki rétt að fara héðan og hef ákveðið að skrifa áfram með þeim hætti sem verið hefur í 23 mánuði. Önnur verkefni mín munu ekki hafa áhrif á það og því verður vefurinn með þeim hætti sem verið hefur síðustu tvö árin. Mér hefur þótt vænt um þennan vettvang og það sem ég hef skrifað hér og vil halda því áfram.

Fyrst og fremst þakka ég góð orð um mig og vefinn síðustu daga. Þykir vænt um það og finnst réttast að fara hvergi við þær aðstæður sem hafa skapast síðustu dagana. Mun því halda áfram með vefinn.


Bloggfærslur 14. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband