17.8.2008 | 20:29
Svanasöngur Ledgers - framtíð Matildu
Enginn vafi leikur á því að leikarinn Heath Ledger er stjarna kvikmyndanna á þessu sumri, hálfu ári eftir lát sitt. Hann sló í gegn sem Jókerinn í The Dark Knight og lifir í huga fólks, út fyrir dauða og gröf. Talað er um að hann fái tilnefningu til óskarsverðlaunanna fyrir. Þrátt fyrir að Ledger hafi dáið ungur og ekki enn náð hátindi sinnar frægðar virðist stjörnusess hans bæði óumdeildur og tryggur á komandi árum. Hann er orðinn goðsögn.
Þó að hlutverk Jókersins sé síðasta stjörnurulla Ledgers eigum við enn eftir að sjá hann einu sinni enn á hvíta tjaldinu, í hlutverki Tony í The Imaginarium of Dr. Parnassus. Mikið verk var eftir við gerð myndarinnar þegar Ledger lést í janúarmánuði og hún í raun aðeins hálfköruð. Mér finnst það virðingarvert að myndin verði kláruð með því að breyta handritinu og söguþræðinum með því að persóna Heath persónugerist í öðrum leikurum, þeim Johnny Depp, Colin Farrell og Jude Law.
Með þessu er hægt að heiðra minningu Ledgers og um leið færa okkur eina mynd í viðbót með honum, þó hún verði auðvitað aldrei eins öflug og traust eins og hún hefði orðið fullkláruð með Heath Ledger, jafn dýnamísk og traust og t.d. The Dark Knight. En það sem mér finnst merkilegast af öllu er að leikararnir ætli að færa einkadóttur Ledgers laun sín við gerð myndarinnar og með því í raun ánafna honum bæði verk sitt og afrakstur þess, enda verður myndin augljóslega kynnt sem svanasöngur Ledgers.
Mikið hefur að undanförnu verið rætt um framtíð Matildu Ledger, í kjölfar þess að erfðaskrá föður hans var opinberuð. Erfðaskráin var gerð fyrir fimm árum, áður en hann tók saman við Michelle Williams og eignaðist einkadótturina. Dóttirin er því arflaus og fær ekkert eftir föður sinn nema þá að afi hennar og amma, sem erfa allar eigur leikarans, ákveði að veita henni einhverja peninga. Reyndar hefur komið í ljós að hann lét ekki eftir sig digra sjóði fjár og eigna.
Ledger dó ungur og áður en hann náði hátindi frægðar sinnar, sem var reyndar í sjónmáli þegar að hann dó með tækifærum sem fylgja stjörnurullum í góðum kvikmyndum. Eftir að hann var tilnefndur til óskarsverðlaunanna fyrir Brokeback Mountain tveim árum virtust honum allir vegir færir og þá fyrst öðlaðist hann virkilega stöðu í bransanum.
Enn virðist deilt bakvið tjöldin um peningana eftir Ledger. Hann hafði ekki ákveðið að breyta erfðaskrá sinni eftir að eignast barn - hefur væntanlega talið að nógur yrði tíminn til að ákveða þau mál. Hann var ungur og greinilega taldi ekki þörf á að lista upp hlutina að nýju. Eftir stendur því dóttirin arflaus í erfðaskrá sem er eldri en hún.
Efast varla um að Matilda Rose Ledger muni njóta ástúðar og frægðar þrátt fyrir að faðir hennar sé fallinn í valinn. Með rausnarskap hafa leikararnir þrír fært henni undirstöðu í lífið, peninga sem nýtast henni síðar meir, ég held líka að þessir peningar verði í raun föðurarfurinn sem hún aldrei fékk.
![]() |
Dóttir Heath Ledgers fær laun þriggja leikara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2008 | 12:16
Erfitt verkefni fyrir nýjan meirihluta í Reykjavík
Ég er ekki undrandi á því að kjósendur í Reykjavík séu ósáttir við stöðu borgarmálanna nú þegar fjórði meirihlutinn hefur verið myndaður á innan við ári. Ítalska staðan sem einkennt hefur borgarmálin, þar sem enginn stöðugleiki er, á aldrei að vera viðunandi og varla tíðindi að kjósendur séu ósáttir við hvernig komið er málum.
Eitt helsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Óskars Bergssonar verður ekki aðeins að vinna sín pólitísku verk úr málefnasamningi sínum heldur og mun frekar að ná trausti borgarbúa og skapa einhvern stöðugleika í hinu ítalska ástandi á þessu kjörtímabili. Meirihlutinn nýji hefur 20 mánuði til þess að vinna sín verk en ekki svo langan tíma að ávinna sér traust. Litið verður á fyrstu 100 dagana sem prófstein á hvort hann nái að fóta sig í upplausninni sem hefur einkennt borgarmálin.
Ég held að þetta verði ekki auðvelt verkefni en það eru hinsvegar allar forsendur fyrir því að það geti tekist. Hanna Birna Kristjánsdóttir, verðandi borgarstjóri, hefur nú tekið frumkvæðið, myndað meirihluta á sínum forsendum og sýnt vel að hún er í leiðtogahlutverki stærsta flokksins í borgarstjórn. Hún þarf í verkum sínum á næstunni bæði að marka sér stöðu sem borgarstjóri í aðdraganda næstu kosninga og líka sem flokksleiðtogi. Því er mikið undir í stöðunni fyrir hana og þarf meirihlutinn undir hennar forystu að ná öflugri fótfestu til þess að hún nái pólitískri stöðu fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn.
Eðlilegt er að hver meirihluti fái sinn tíma og borgarstjórinn ennfremur. Á þessum ólgutímum er eðlilegt að rót sé á fylgi og fólk sé að átta sig. Um leið þarf reynsla að komast á meirihlutann og rykið að setjast. Þá fyrst kemur marktæk mæling á stöðu mála. En þetta eru sögulegir tímar í Reykjavík. Kjósendur eru ósáttir við að stöðugleikinn er enginn. Það er mjög skiljanlegt. Nú þurfa stjórnmálamenn að sýna að þeir standi undir nafni og geti unnið sín verk af ábyrgð og festu í miðri upplausninni.
![]() |
26,2% segjast styðja nýjan meirihluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)