Lottóvinningurinn fer á góðan stað

Ánægjulegt að lottóvinningurinn stóri hafi farið á góðan stað, til þeirra sem virkilega þurfa þessa peninga. Annars er það alltaf smekksatriði hverjir þurfi á slíkum fjárfúlgum að halda og hvar það verður virkilega að traustri fótfestu í lífið. Þarna virðist nokkuð öruggt að peningarnir verða stoð fyrir þá sem vinna. En annars eru varla allir sem spila í lottóinu peningaþurfi, þarfir fólks eru og verða misjafnar meira að segja á okkar dögum.

Óska vinningshafanum til hamingju og vona að þeim gangi vel að höndla vinningsupphæðina og það sem henni fylgir. Kannski er best að fagna slíku einn með sínum nánustu frekar en sleikja upp umfjöllun í öllum fjölmiðlum. Stundarfrægðin getur oft snúist upp í annað en hamingju.

mbl.is Milljónamæringar í Fellunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur F. reynir að mynda pólitískt bakland

Ólafur F. Magnússon Ekki kemur mér að óvörum að Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, taki þann kostinn að flokksbinda sig til að reyna að byggja eitthvað pólitískt bakland fyrir sig og eygja þar með einhverja von á endurkjöri. Greinilegt er að F-listinn eins og hann lítur út núna er ekki til stórræðanna og Ólafur F. á enga möguleika á endurkjöri nema hafa einhvern traustan fylgisgrunn með sér.

Alla borgarstjóratíð Ólafs F. háði það honum mjög að hafa ekkert traust pólitískt bakland, sem bakkaði hann upp í gegnum súrt og sætt. Enginn talaði hans máli í umræðunni, nema nefndadrottningin Ásta Þorleifsdóttir, aðstoðarmaðurinn Ólöf Guðný (á meðan hún var í náðinni hjá borgarstjóranum) og miðborgarstjórinn Jakob Frímann. Fáir aðrir voru sýnilegir í því. Fáir voru virkir talsmenn hans í ólgusjó óvinsældanna og reyndu að bæta erfiða stöðu hans. Hann var mjög einmana, var einn síns liðs á pólitískum berangri.

Velti reyndar fyrir mér hvað þeir segja um flokksfélagann í borgarmálunum, þeir Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins, og Jón Magnússon, alþingismaður (eini alþingismaður frjálslyndra í borginni í sögu flokksins utan stofnandans Sverris Hermannssonar). Báðir voru þeir iðnir við þann kola að ráðast að Ólafi F. og voru sérstaklega áberandi í því meðan meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokksins var í burðarliðnum í janúar og fyrsta slagið á eftir. Síðan hefur minna heyrst.

Á reyndar eftir að sjá hvernig kosningabarátta það verður þegar Ólafur F. fer fram með hreinan flokkslista frjálslyndra og dassa af óháðum eftir allt sem gengið hefur á í samskiptum manna á kjörtímabilinu. Ekki minna verk verður að samstilla þann hóp heldur en að selja Ólaf F. Magnússon sem traustan frambjóðanda aftur eftir sólóspil hans og fjölmiðlayfirlýsingar á borgarstjórastóli. Hans ímynd þarf heldur betur á aðstoð sérfræðinga að halda.

Er reyndar viss um að Ólafur F. nær ekki endurkjöri nema hann hreinlega fái pólitískt kraftaverk upp í hendurnar. En kannski verður Jón Magnússon, þingmaðurinn hans Ólafs, hans kraftaverkamaður. Hver veit.

mbl.is Ólafur F. til liðs við Frjálslynda flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af hinum óþolandi flugdólgum

Undir niðri er ekki hægt annað en hlæja að þessum flugdólgum, en mikið skelfilega er nú leiðinlegt að lenda í svona fólki sem kann fótum sínum ekki forráð með drykkju og áreitir farþega í flugvélum. Þetta er sem betur fer ekki daglegt brauð, en eflaust gerist það æði oft að fólk fær sér einum of mikið neðan í því í fluginu og sumir fá sér ágætis skammt fyrir flugið. Fólk er mjög misjafnt fullt og það er fátt ömurlegra en lenda í að sitja með fólki sem hefur fengið sér of mikið og veit ekki alveg hvað þá á að gera nema að eyðileggja flugferðina fyrir öðrum.

Var reyndar einu sinni í flugstöð á Bretlandi fyrir nokkrum árum og þar tók ég einmitt eftir einum manni sem lá greinilega mjög vel áfengismareneraður á bekkjarunu í bið eftir flugvél. Hann var þó ekki dauður eins og við segjum en það varð að benda honum nokkuð vel á að vélin væri að fara, þegar að kallið kom. Og hann staulaðist um borð, náði að redda því og fékk sér meira og svaf hinu værasta á leið til Íslands. Hann missti sig reyndar aðeins í vélinni og tók væn köst en bar sig að öðru leyti sig vel. En hann náði athygli allra um borð. Stjarna flugsins.

Varð loks rólegur og settlegur er Keflavík var í sjónmáli. Hef heyrt í mörgum sem hafa upplifað vissa dramatík í fluginu yfir Atlantshafi með þeim sem hafa gengið lengra. Frægust er sennilega sagan sem ég heyrði af einum í fluginu með tannlækninum sem tók vænt kast og allt varð vitlaust út af. Man mjög vel eftir viðtalinu við hann eftir á þar sem hann vildi skaðabætur frá flugfélaginu og alles. Reyndar ekki heyrt af málinu síðan, nema þá í fyndinni ferðasögu, sem viðstöddum fannst reyndar ekki fyndið meðan á henni stóð.

Held af lýsingum að dæma að þessir menn eigi ekkert erindi um borð í flugvél. Þeir hafa verið best geymdir á fjarlægum stað að sofa úr sér gleðivímuna og lætin.

mbl.is Tveir flugdólgar leiddir burt í járnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband