20.8.2008 | 17:39
Spánverjar skulu það vera á föstudag

Þvílík handboltastemmning yfir þjóðfélaginu. Man ekki eftir öðru eins árum saman. Meira að segja helstu anti-sportistarnir eru farnir að velta fyrir sér handboltanum og vakna fyrir allar aldir til að horfa á handboltann, hverfa inn í kínverskan tíma. Frekar fyndið, en samt mjög skiljanlegt.
Allir vilja fylgjast með þegar vel gengur og nú er sannarlega blómatími í handboltanum - árangurinn fer ekki fram hjá neinum og allir vilja að sjálfsögðu taka þátt í því magnaða augnabliki.
![]() |
Íslendingar mæta Spánverjum í undanúrslitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2008 | 14:50
Ferðalag í einræðið - á Þorgerður að fara til Kína?

Ef svo fer að við vinnum undanúrslitaleikinn og spilum um gullverðlaunin er það mikilvægt augnablik fyrir ráðamenn væntanlega að geta verið á svæðinu og hvatt liðið áfram. Ég sá að Ólafur Ragnar og Dorrit eru komin til Peking og þau böðuðu sig í sviðsljósinu með liðinu eftir sigurinn gegn Pólverjum í morgun. Væntanlega vill menntamálaráðherrann gera slíkt hið sama í leikjunum sem framundan eru á föstudag og sunnudag.
Mér finnst mannréttindaáherslur skipta miklu máli og var andsnúinn því að Þorgerður Katrín færi til Kína á setningarathöfnina. Finnst afleitt að Ólympíuleikarnir séu haldnir í einræðisríki og finnst mikilvægt að taka þá afstöðu og sýna hana í verki. Hvað varðar ferð til að fylgjast með þessum leikjum er ég eiginlega sama sinnis. Mér finnst hægt að senda liðinu góðar óskir og notalegheit án þess að vera á svæðinu.
Annars er þetta og verður matsatriði þeirra sem gegna embættum. Þó finnst mér Þorgerður Katrín eiga meira erindi á þessa leika sem ráðherra íþróttamála en forseti Íslands, en mér skilst að hann sameini ferðina á leikana för á einhverja loftslagsráðstefnu, en meira en hálf yfirlýsing hans um Ól-ferðina snerist um að segja hvað væri nú mikilvægt að fara á þá ráðstefnu.
Hitt er svo annað mál að afleitt er að koma málum svona fyrir með því að staðsetja mikilvægustu íþróttahátíð sögunnar í einræðisríki. Auðvitað á það ekki að geta gerst.
![]() |
Íhugar að fara aftur út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.8.2008 | 10:18
Glæsilegur sigur á Pólverjum í Peking

Íslenska landsliðið vann heldur betur glæsilegan sigur á pólska liðinu í morgun og sýndi hvað það getur gert. Öll vorum við í vafa um hvað myndi gerast í leiknum eftir hinn slappa leik við Egyptana þar sem rétt marðist að ná jafntefli gegn botnliði riðilsins. En strákarnir slógu á allar vafaraddir og tóku þetta með glans í morgun.
Veit ekki hvort verðugt sé að gera sér miklar væntingar um medalíu á þessum Ólympíuleikum. Allt er þó hægt ef viljinn er fyrir hendi og séu strákarnir nógu hungraðir í árangur geta þeir þetta. Þeir hafa sýnt það með sigrinum á bæði Rússum og Þjóðverjum, sem voru undirstaða góðs árangurs, og sigrinum í morgun.
Í leiknum gegn Egyptum var vörnin í molum og liðið mjög brothætt. Í fyrri hálfleiknum í morgun fór liðið hinsvegar á kostum og brilleraði í sókn, vörn og markvörslu, sýndi mun betri takta og lagði grunn að sigrinum. Svona á að gera þetta, strákar.
Björtu dagar landsliðsins eru gleðidagar allrar þjóðarinnar. Við finnum það öll þegar gengur svona vel. Þá verður öll þjóðin mestu handboltaspekingar norðan alpafjalla. Mikið væri það nú gaman ef liðinu tekst að ná verðlaunasæti á Ólympíuleikunum, það sem mistókst í Barcelona 1992.
![]() |
Ísland í undanúrslit á ÓL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)