21.8.2008 | 21:24
Hvern velur Barack Obama sem varaforsetaefni?

Tilkynnt var síðdegis að Obama hefði tekið ákvörðun um valið en það yrði ekki gert opinbert strax. Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað það vel um valkosti Obama að þeir eru flestir orðnir vel kunnir, meira að segja þeim sem ekki þekkja vel til bandarískra stjórnmála. Þar hefur biðin verið löng og erfið og teygð í gegnum gúrkutíðina allt frá því Obama náði útnefningunni formlega í júníbyrjun. Hann hefur þó staðið allt tal fjölmiðlanna af sér og fikrað sig nær ákvörðun.
Eins og staðan er núna eru þrír taldir líklegri en aðrir til að ná útnefningunni. Mest er talað um Tim Kaine, ríkisstjóra í Virginíu, Joe Biden, öldungadeildarþingmann frá Delaware, og Evan Bayh, öldungadeildarþingmann frá Indiana. Traustustu veðmálin þar á ferð. Enn er þó hávær orðrómur um þann fjarlæga möguleika að Hillary Rodham Clinton, keppinautur Obama í hinni sögulegu forkosningabaráttu, verði fyrir valinu, á meðan margir sem vilja konu tala um Kathleen Sebelius, ríkisstjóra í Kansas.
Bayh, Biden og Kaine eru mjög ólíkir valkostir, hafa allir trausta styrkleika en líka áberandi veikleika í stöðunni fyrir Barack Obama. Förum yfir þá.

+ Með mikla og víðtæka þekkingu, einkum í utanríkismálum, er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar og komið til greina sem utanríkisráðherra fyrir demókrata. Verið þingmaður í öldungadeildinni fyrir Delaware síðan Obama var tólf ára, árið 1973. Enginn efast um víðtæka reynslu hans og á hann er hlustað. Er þungavigtarmaður sem myndi færa Obama styrkleika í lykilmálaflokkum, sem honum vantar sárlega.
- Verið mjög lengi hluti af valdakerfinu í Washington, verið þar í innsta hring í hálfan fjórða áratug, síðan í forsetatíð Richards Nixon, og talinn táknmynd liðinna tíma af sumum, þó hann sé traustur að mörgu leyti. Gæti skaðað boðskap Obama um breytingar í DC. Er talinn lausmáll og gæti gefið höggstað á sér og framboðinu. Delaware hefur aðeins þrjá kjörmenn og skiptir ekki máli í kjörmannapælingum. Hefur ekki unnið undir stjórn annarra í marga áratugi. Er sex árum yngri en McCain, 66 ára síðar á árinu.

+ Traustur valkostur í tæpri baráttu, unglegur og myndarlegur en samt hokinn af reynslu; verið í öldungadeildinni frá 1997 en þar áður ríkisstjóri í Indiana tvö tímabil. Studdi Hillary í forkosningaferlinu og tryggði henni nauman sigur í Indiana og gæti leikið lykilhlutverk í að græða sárin milli fylkinganna, sem enn eru til staðar. Með trausta stöðu í miðvesturríkjunum sem munu jafnvel ráða úrslitum. Gæti fært Obama sigur í Indiana, ellefu kjörmanna fylki sem repúblikanar hafa unnið í öllum kosningum frá 1936, nema einum, auk þess leikið lykilhlutverk í Ohio og Iowa. Myndi ekki skyggja á Obama.
- Studdi innrásina í Írak og allar helstu ákvarðanir Bush-stjórnarinnar í hinu umdeilda stríði áður en það hófst og á fyrstu stigum þess. Hefur ekki gengið í takt með Obama í málefnum Írak allt frá upphafi og gæti valið á honum vakið spurningar um hvort þeir séu samstíga og sammála í utanríkismálum. Gæti talist litlaus þrátt fyrir stjörnusjarmann og einum of fyrirsjáanlegur kerfiskarl. Verið í öldungadeildinni í rúman áratug og myndi fúnkera illa með breytingamaskínu Obama.

+ Er ekki hluti af innsta valdakerfinu í Washington og myndi tóna vel með Obama sem upphafsmaður nýrra tíma í höfuðborginni, myndi ljá breytingamaskínu Obama nýjan og leiftrandi kraft. Sem ríkisstjóri Virginíu gæti hann fært Obama sigur í fylkinu, sem demókrati hefur ekki unnið síðan Lyndon B. Johnson var kjörinn árið 1964 og hefur verið traust vígi repúblikana áratugum saman. Var fyrsti ríkisstjórinn sem lýsti yfir stuðningi við Obama utan Illinois.
- Situr sitt fyrsta kjörtímabil sem ríkisstjóri og hefur því litla pólitíska reynslu líkt og Obama. Hefur jafnan verið talið mikið veikleikamerki í bandarískum stjórnmálum að í forsetaframboði saman séu tveir menn á fyrsta tímabili. Hann gæti veikt framboðið í miðvesturríkjunum jafnmikið og hann myndi styrkja það í Virginíu, einu því mikilvægasta. Of lítið þekkt andlit til að fara með lítt reyndum forsetaframbjóðanda alla leið á sjötíu mikilvægum dögum.
Fínt að velta þessu fyrir sér. Hef verið viss um það frá upphafi að Obama myndi velja Bayh eða Biden. Þeir eru það traustir valkostir að það liggur beinast við. Sérstaklega er mjög áberandi hvað Bayh er traustur valkostur, varla er veikan blett á honum að finna. Hann hefur svo margt sem Obama vantar í þessum kosningum, auk þess þann sjarma og kraft sem honum vantar án þess þó að skyggja á hann.
Enn er talað um Hillary, skiljanlega. Kannanir sýna að rök hennar í baráttunni fyrir stuðningi ofurfulltrúanna í forkosningaslagnum eru að verða napur veruleiki. Obama var ekki sá draumavalkostur sem talið var lengstan part vetrarins og hann hefur mikla veikleika. Auk þess er blaðran sprungin og hann er ekki eins öflugur Messías eins og í byrjun ársins, áður en Wright-málið skall á. Allt sem Hillary sagði gegn honum hefur ræst og gott betur en það.
Auðvitað væri það traustast fyrir Obama að velja Hillary. Hún myndi færa honum fylgi sem sárlega vantar, með því yrði samstaða flokksins tryggð og Obama fengi trausta uppsveiflu. Hinsvegar myndi Hillary skyggja mjög á Obama, sem hefur veikst mjög í sumar, og gæti í raun tekið forystuhlutverk í framboðinu sem varaforsetaefni. Það er sem eitur í beinum Obama-hjónanna sem vilja upplifa sitt augnablik.
Svo tala sumir um Kathleen Sebelius. Það mun ekki gerast að hún verði valin, tel ég. Þá myndi Obama stuða allar konurnar sem börðust nótt og dag fyrir Hillary og hún yrði söguleg áminning um að vera konan sem fékk sess Hillary á þessu sögulega kosningaári. Er gjörsamlega dæmt til að mistakast og springa framan í Obama, eins frambærileg og Sebelius annars er.
Eitt er víst; Obama mun reyna að stuða sem fæsta með valinu, nógu veikur er hann nú samt. Því er langlíklegast að hann velji reyndan mann með sér og þar standa eftir aðeins Bayh og Biden. Finnst líklegra að hann velji Bayh. Hann er ungur og sjarmerandi en samt með mikla reynslu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2008 | 14:52
Umdeilt ársleyfi Gísla Marteins - rétt eða rangt

Gísli Marteinn verður að standa og falla með eigin ákvörðunum. Telji hann sig geta þetta verður á það að reyna. Mér finnst óeðlilegt að dæma hann fyrir þetta áður en sést hvort hann telur sig geta sinnt verkum samhliða þessu eða hann meti það ómögulegt. Engin reynsla kemur á það fyrr en reynir á almennilega. Ég velti því þó fyrir mér hvort þetta sé hægt, mikið verður að leggja á sig til að það gangi upp og ágætt að reynsla komi á það.
Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór í nám til Englands fyrir fjórum árum sat hún sem borgarfulltrúi. Hún kallaði ekki til varamann nema þrisvar á því tímabili held ég, en hún var oddaatkvæði meirihluta R-listans og hagaði þessu eins og henni þótti rétt. Mér finnst það svolítið sérstakt að heyra þá sem vörðu, eða fannst ekkert að því, námsleyfi Ingibjargar Sólrúnar ráðast að Gísla Marteini vegna þess hins sama. Borgarfulltrúar hafa setið á þingi samhliða þeim verkefnum sem þeir sinna á vettvangi borgarinnar og dæmi um að þeir sinni öðrum verkefnum úti í bæ með.
Kannski er ágætt að fá þessa umræðu upp á yfirborðið, burtséð frá því hvað okkur þykir um Gísla Martein sem persónu eða stjórnmálamann. Enginn getur metið þetta nema sá sem um ræðir. Gísli Marteinn er ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins og sóttist eftir leiðtogastöðunni fyrir síðustu kosningar. Mér finnst ekki óeðlilegt að hann sé annar varaforseti borgarstjórnar mæti hann á fundina yfir höfuð. Það leiðir af sjálfu sér að fyrst hann situr fundina gefur hann kost á sér til verkefna á fundinum.
Hinsvegar má spyrja sig að þeirri spurningu hvort sveitarstjórnarmenn eða þingmenn eigi aðeins að festa sig í því sem þeir gera á þeim stað og setja eigi einhver afgerandi mörk á setu kjörinna fulltrúa. Námsleyfi myndi þýða fjarveru að öllu leyti á þeim tíma. Þá myndu fleiri en Gísli Marteinn finna fyrir því, svo mikið er víst.
![]() |
Gísli Marteinn fær launahækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.8.2008 | 12:58
Til hamingju Hanna Birna

Ég hef verið sannfærður um það síðan ólgan hófst um REI-málið síðasta haust að Hanna Birna ætti að verða borgarstjóri og taka við forystu Sjálfstæðisflokksins. Betur hefði farið á því ef þau kaflaskipti hefðu orðið fyrr en raun bar vitni. Þá hefði margt farið á annan veg og þetta leiðinlega tímabil orðið mun styttra en varð.
En nú hefur Hanna Birna loksins tekið við borgarstjóraembættinu og ég tel að það muni allir taka eftir breytingunni þegar leiðtogi með traust pólitískt umboð og bakland tekur við. Ekki er hægt að bjóða borgarbúum upp á annað. Kjör Ólafs F. Magnússonar í janúar voru pólitísk mistök í boði forystu Sjálfstæðisflokksins.
Hef þekkt Hönnu Birnu lengi og veit hversu öflug hún er. Borgarbúar munu finna vel fyrir því á næstunni að nú hefjast nýir tímar.
![]() |
Hanna Birna kjörin borgarstjóri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2008 | 10:56
Hverju eru ungliðarnir að mótmæla?

Fyrir 210 dögum, þegar Ólafur F. Magnússon var kjörinn borgarstjóri var talað um að maður án umboðs hefði hlotið kjör og það væri ábyrgðarhluti að framboð með 10% úr kosningum fengi embættið. Á þeim forsendum var mótmælt fyrst og fremst og púað á Ólaf F. og þá sem tryggðu honum kjör. Nú er Ólafur F. farinn og greinilega minna púður í mótmælunum, enda eru allar aðstæður aðrar og staðan hefur breyst. Enda eru greinilega mun færri að mótmæla. Ekki er hægt að reyna þetta aftur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, leiðtogi stærsta flokksins í borgarstjórn, tekur nú við embætti borgarstjóra. Hún og Ólafur F. eiga fátt sameiginlegt, enda hafði fráfarandi borgarstjóri ekkert traust pólitískt bakland. Umboð hennar er traust og afgerandi. Ekkert er eftir í mótmælunum nema sorrífílingur yfir því að hafa nú ekki náð völdum sjálfur. En fagna ekki flestir borgarstjóraskiptum og því að leiðtogi með traust pólitískt bakland taki við? Var ekki það sem mótmælendur vildu í janúar?
Ég veit ekki betur en klækjaspil minnihlutaflokkanna tveggja hafi verið algjört. Er nokkur orðinn hvítþveginn engill í þessum glundroða? Varla. Myndaður var meirihluti fyrir tíu mánuðum, þau komust til valda við aðstæður sem þau svo sjálf gagnrýndu síðar, og þau reyndu allt sem þau gátu í stöðunni til að hafa Óskar Bergsson með sér. Auðvitað vildu þau komast til valda, voru meira að segja til að mynda meirihluta með varamanni án þess að nokkuð væri ljóst um aðalmanninn. Farsinn var algjör.
Varla hefur nokkur geislabaugur verið yfir minnihlutanum í þessu spili öllu. Þar voru klækjastjórnmál á ferð. Enda er enginn heilagur í þessu tafli. Allir hafa verið við völd og ráðið ferðinni og flestir hafa náð að taka hringinn í loforðum og svikum. Enginn er saklaus af því. En auðvitað er sárt að hafa ekki náð völdum nú. Eflaust eru þau að mótmæla því að ekki tókst að halda í Óskar Bergsson.
![]() |
Mótmælt fyrir utan ráðhúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)