Óstaðfest: Barack Obama velur Evan Bayh

Obama/Bayh
Fyrir stundu tóku traustar sögusagnir að leka út um að Barack Obama hefði valið Evan Bayh, öldungadeildarþingmann í Indiana, sem varaforsetaefni sitt. DrudgeReport hefur nú pikkað þetta upp og birt og nefnir starfsmenn sem vinna á þessari stundu að því að framleiða spjöld með nöfnum þeirra fyrir kosningafundinn í Illinois á morgun sem heimild.

Enn hefur Obama ekki sent út hinn margumrædda tölvupóst með formlegri tilkynningu. Því er þetta óstaðfest. Í allan dag hef ég reyndar fengið á tilfinninguna að Evan Bayh yrði varaforsetaefnið. Spáði því í skrifum hér í gær. Bayh hefur svo margt með sér að valið á honum er bæði rökrétt og traust fyrir Barack Obama á þessum tímapunkti.

Í skrifunum í gær rakti ég plúsa og mínusa Bayh. Förum yfir þá svona í svipinn:

Evan Bayh
+ Traustur valkostur í tæpri baráttu, unglegur og myndarlegur en samt hokinn af reynslu; verið í öldungadeildinni frá 1999 en þar áður ríkisstjóri í Indiana tvö tímabil. Studdi Hillary í forkosningaferlinu og tryggði henni nauman sigur í Indiana og gæti leikið lykilhlutverk í að græða sárin milli fylkinganna, sem enn eru til staðar. Með trausta stöðu í miðvesturríkjunum sem munu jafnvel ráða úrslitum. Gæti fært Obama sigur í Indiana, ellefu kjörmanna fylki sem repúblikanar hafa unnið í öllum kosningum frá 1936, nema einum, auk þess leikið lykilhlutverk í Ohio og Iowa. Myndi ekki skyggja á Obama.

- Studdi innrásina í Írak og allar helstu ákvarðanir Bush-stjórnarinnar í hinu umdeilda stríði áður en það hófst og á fyrstu stigum þess. Hefur ekki gengið í takt með Obama í málefnum Írak allt frá upphafi og gæti valið á honum vakið spurningar um hvort þeir séu samstíga og sammála í utanríkismálum. Gæti talist litlaus þrátt fyrir stjörnusjarmann og einum of fyrirsjáanlegur kerfiskarl. Verið í öldungadeildinni í rúman áratug og myndi fúnkera illa með breytingamaskínu Obama.

Íslensk þjóðhátíð - gullin gleðivíma

Sigri fagnað Þetta hefur verið algjörlega magnaður dagur. Eiginlega er maður enn að búast við því að vakna af værum blundi og allt hafi þetta verið einn allsherjar draumur, en svo verður ekki sem betur fer. Man ekki eftir ánægjulegri dögum lengi.

Þjóðhátíðarbragurinn, stoltið og krafturinn, hefur aldrei verið meiri hjá þjóðinni. Gerist ekki betra en þetta, held ég. Nema þá auðvitað ef strákunum tekst að vinna gullið. Veit satt best að segja ekki hvernig stemmningin yrði á sunnudag ef það gerist. Mun allt fara á hvolf af sæluvímu.

Hvernig er hægt að fagna eiginlega þegar þjóðhetjurnar koma heim? Er ekki málið að hafa allsherjar útihátíð með öllu sem til þarf. Við erum svo óvön að fagna alþjóðlegum sigrum og verðlaunum að reynsluna skortir allverulega. En nú er tækifærið að móta einhverja hefð í því. Enda er þetta auðvitað bara fyrsta alvöru hnossið í boltanum á alþjóðavettvangi.

Hvernig er það annars með Geir og Þorgerði. Ætla þau ekki að lýsa daginn sem strákarnir koma heim sem allsherjar frídegi landsmanna og skipuleggja samhenta þjóðargleði? Ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að öskra af gleði og fagna af krafti er það nú.

mbl.is „Sköpunarkraftur af öðrum heimi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið eftir Obama - varaforsetaefnið kynnt í dag

obama appBarack Obama mun svipta hulunni af varaforsetaefni sínu á næstu klukkustundum. Hann hefur tekið ákvörðun en lætur fjölmiðlana engjast í biðinni og nýtur sviðsljóssins. Pressan bíður spennt eftir því að valið verði opinberað, en svo mikil spenna er reyndar í loftinu að CNN hefur beina útsendingu frá heimilum allra líklegustu varaforsetaefnanna á vefsíðu sinni, þeir eru greinilega við öllu búnir þegar tilkynningin kemur.

Obama brýtur blað í bandarískri stjórnmálasögu með því að opinbera varaforsetavalið í tölvupósti til allra þeirra sem eru á póstlista hans, en ekki á kosningafundi í lykilríki í kosningabaráttunni, nú þegar rúmir 70 dagar eru til kjördags. Þetta er til marks um hina nýju tíma þar sem netið skiptir öllu máli, mun frekar en gamaldags trix baráttu fyrri tíma. Nýstárlegt og flott - segir allt sem segja þarf um hvort sé mikilvægara nú, netið eða gömlu góðu kosningafundirnir.

Fjölmiðlarnir vestanhafs velta helst fyrir sér Bayh, Biden og Kaine sem valkostum, rétt eins og ég gerði í pistli hér á vefnum í gær. Enda eru þeir traust veðmál. Eftir því sem liðið hefur á daginn hafa vangaveltur um Chet Edwards, fulltrúadeildarþingmann í Texas (reyndar fyrir heimahérað Bush forseta), hinsvegar aukist. Er sagður vera líklegur valkostur. Kemur fjölmörgum á óvart, enda Edwards fjarri því þekktur og gæti orðið áhugavert val einkum vegna þess. Auðvitað verða það stórtíðindi ef hann verður valinn, umfram þremenningana.

Obama hefur þegar hringt í alla sem komið hafa til greina á síðustu vikum og tilkynnt þeim niðurstöðuna. Þrátt fyrir það hafa Biden, Kaine og Bayh verið eins og pókerfés og látið á engu bera, þó þeir viti niðurstöðuna. Fannst þó Bayh brosa ansi breitt reyndar, veit ekki hvort það bendir til þess að hann verði varaforsetaefnið.

Skráði mig áðan á þennan margfræga póstlista og bíð því eftir niðurstöðunni eins og aðrir. Verður áhugavert að sjá hvað Obama gerir eftir biðina löngu, hvern hann velur. En mikil verður nú sæla fjölmiðlanna þegar að þeir losna úr þessari spennu sem hefur verið svo áberandi í allri umfjöllun þeirra síðustu daga.


Heillandi Dorrit - stórasta landið í öllum heiminum

Ekki er hægt annað en heillast af Dorrit Moussaieff, forsetafrú, í fagnaðarlátunum í Peking í dag. Hún átti klárlega orð dagsins þegar hún sagði að Ísland væri stórasta landið í heiminum, þó ég sé reyndar ekki viss um hvort málfræðiséníin hafi verið jafnhrifnir af henni. Hvað með það, þetta súmmeraði upp það sem okkur öllum finnst í sigursælunni í dag.

Flott hjá Dorrit.

mbl.is Þegar Dorrit veifaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustur sigur strákanna - gullna stundin í augsýn

Sigri fagnað Þvílíkur dýrðardagur í íslenskri íþróttasögu... ef það er ekki þjóðhátíð núna veit ég ekki hvenær hún verður. Enn er maður eiginlega að ná áttum og trúa þeirri gullnu staðreynd að Ísland er tryggt á verðlaunapall á Ólympíuleikunum og hægt er að komast alla leið, jafnvel slá við sögulegum árangri Vilhjálms Einarssonar.

Landsliðið hefur með glæsilegri framgöngu sinni í Peking sýnt okkur að allt er hægt og ekki er útilokað að ná ólympíugullinu. Á góðum degi eigum við alveg að geta skellt Frökkum. Annars er mér svosem sama. Þetta er þegar orðin sögulegur árangur, einn sá glæsilegasti í sögu íslenskra íþrótta og allt er að vinna. Ekki er hægt að verða fyrir neinum skelli úr þessu.

Guðmundur þjálfari og strákarnir hafa fært þjóðinni ógleymanlega sæludaga á síðsumri. Fyrir mótið voru svo margir vissir um að þetta yrði enn einn bömmerinn og allt færi á versta veg. Í dag rústuðum við Spánverjunum og hefðum getað tekið þetta með tólf til þrettán mörkum. Spánverjar áttu aldrei vonarneista í þessum leik. Íslenska landsliðið var með þetta í hendi sér og var of gott fyrir bronsleikinn.

Nú er hægt að fara alla leið... vonandi tekst strákunum það. En sama hvað gerist á sunnudag, þetta er gullið augnablik. Þetta eru miklar hetjur. Þjóðin fylgir þeim alla leið og þeir verða hylltir sem sannar þjóðhetjur þegar þeir koma með gullið eða silfrið eftir helgina heim.

mbl.is Ein stærsta stund í íslenskri íþróttasögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík spenna í Peking - medalía í sjónmáli

Glaðir landsliðsmenn Spennan í Peking er að verða óbærileg, núna þegar úrslitastundin um gullið fyrir íslenska landsliðið er að ná hámarki. Auðvitað er það glæsilegt að medalía á Ólympíuleikum sé í sjónmáli og jafnvel þótt leikurinn tapaðist nást markmiðin fyrir mótið. Liðið hefur staðið sig betur en flestir þorðu að vona eftir HM-skellinn í vor.

Leikmennirnir hafa staðið sig vel í leiknum og gott að vera yfir í hálfleik. Gott veganesti fyrir síðari hálfleikinn. Strákarnir geta alveg tekið þetta ef þeir virkilega vilja og hungrar í árangur. Þetta er allt í seilingarfjarlægð og nú veltur á þeim hvort þeir halda þetta út.

En þjóðin er klárlega með strákunum. Man ekki eftir þjóðinni svona samstilltri að fylgjast með íþróttaviðburð í háa herrans tíð. Í dag eru allir handboltaáhugamenn par excellance, þó þeir hafi kannski aldrei haldið út að horfa á heilan handboltaleik. Magnað augnablik.

Áfram strákar!

mbl.is Íslendingar í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott skref tekið í Ramses-málinu

Mér líst vel á ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að taka mál Paul Ramses fyrir aftur. Auðvitað var það hið eina rétta í stöðunni og mátti ljóst vera fyrir nokkrum vikum að það væri hið skynsamlegasta að gera. Miðað við aðstæður Ramses var framkoman við hann frekar harðneskjuleg og hefði mátt taka málið fyrir með formlegum hætti og fara betur yfir það.

Held að Ramses-málið sé dæmi um mál þar sem almenningur rís upp og tjáir sína skoðun og stjórnmálamenn hlusta á. Ekkert nema gott um það að segja að Ramses fái annað tækifæri í kerfinu.

mbl.is Mál Ramses tekið fyrir á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kommarnir í Peking hrósa Ólafi Ragnari

ÓRGJintaoEkki vantar að Hu Jintao og einræðisstjórnin í Kína ausi lofsorðunum yfir Ólaf Ragnar Grímsson í Kínaför hans. Kannski er það ekki nema von að þeir fagni honum svona mikið miðað við það hversu áfjáður hann er í að eiga samskipti við þá, bæði með því að fara á Ólympíuleikana og eiga samskipti við þá sem ráðið hafa för þar á undanförnum árum.

Ég skil ekki hvað Ólafur Ragnar er að gera í Peking, í sannleika sagt, annað en njóta sviðsljóssins. Forseti Íslands hefur aldrei áður farið á Ólympíuleika og tekið þátt í þeim, en nú velur íslenska forsetaembættið Peking-leikana sem þá fyrstu og setur furðulegt fordæmi, hvað svo sem síðar verður. Annars verður fróðlegt að sjá hvort eftirmaður Ólafs Ragnars eftir fjögur ár muni fara á leikana í London.

Mér finnst þetta vafasöm tenging við umdeild stjórnvöld og undrast ákvörðun Ólafs Ragnars um að fara. En kannski vildi hann fá þessi lofsorð ráðamannanna í Peking, hver veit.

mbl.is Forsetar Íslands og Kína á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hið rökréttasta sanna lausnin á ráðgátunni?

911Eftir allar samsæriskenningarnar um það sem gerðist 11. september 2001, þar sem farið hefur verið hringurinn í öllu því ótrúlega í hugarórunum um tvíburaturnana, er ekki óeðlilegt að niðurstaðan á því hvað gerðist sé bæði einföld og trúanleg. Ég hef fyrir löngu misst töluna á öllum þeim vangaveltum sem blómstrað hafa á þessum sjö árum en fagna því mjög að eitthvað skynsamlegt bætist í flóruna.

Veit ekki hvort að þessar uppljóstranir rannsóknaraðila slá svosem nokkuð á alla þá aðila á veraldarvísu sem hafa ekki hugsað um annað í mörg ár en hvað hafi gerst og reynt að gera allar skynsamlegar raddir um atburðarásina ótrúverðugar og sá efasemdum og tortryggni. En verður nokkru sinni hægt að sameinast öll sem eitt um atburðarás þess sem gerðist þennan dag sama hversu augljósar staðreyndirnar eru?

Man eftir því að ég lenti einu sinni í afmælisveislu fyrir nokkrum árum þar sem þetta var liggur við eina umræðuefnið. Þvílíkt augnablik. Ég var orðinn ringlaðri en stuðningsmenn F-listans þegar samræðunum lauk, auðvitað án niðurstöðu. En ég held að þarna sé nú hægt að finna skynsamlegan flöt á niðurstöðu.

En munu þeir sem hafa eytt sjö árum í að kynda undir absúrd-veruleika tengdum 11. september 2001 hætta að velta þessu fyrir sér nú? Sennilega er það jafnlíklegt og þeir Ólafur F. og Jón Magnússon mæti saman í Kvöldgesti hjá Jónasi.

mbl.is Ráðgátan leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær frammistaða hjá Hönnu Birnu í kvöld

Hanna Birna KristjánsdóttirHanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, stóð sig mjög vel í spjallþáttum kvöldsins, talaði af myndugleika, skýrt og án nokkurra málalenginga sem einkennt hefur síðustu borgarstjóra. Sérstaklega fannst mér hún eiga frábæra frammistöðu í Kastljósi. Þorfinnur og Helgi komu báðir með erfiðar spurningar og ætluðu að sækja að henni en höfðu ekki erindi sem erfiði í því.

Hanna Birna er hörkutól, ákveðin og einbeitt og það sást vel í þessum viðtölum að hún ætlar hvergi að hika. Talar mannamál. Auðvitað hefur vantað í borgarmálunum að hafa fókusinn einbeittan. Málefnin hafa horfið í skuggann á öllum sviptingunum en ég er þess fullviss að þegar rykið sest og farið verður að vinna eftir þeim málefnum sem mikilvægust eru muni meirihlutinn verða traustur og hann sitji út kjörtímabilið.

Stóra spurningin er hvort Hanna Birna muni festa sig í sessi sem borgarstjóri út kjörtímabilið og verða sterkur leiðtogi sjálfstæðismanna í aðdraganda næstu kosninga. Ef hún heldur áfram af sama krafti og einkenndi viðtölin í kvöld held ég að sjálfstæðismenn nái að fóta sig að nýju eftir vandræðaganginn í leiðtogatíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og eiga sér nýtt upphaf þrátt fyrir allt.

Enn er mjög langt til kosninga og erfitt að spá nokkru um hvað 20 mánuðir í pólitík bera í skauti sér. Það miklar sviptingar hafa orðið á tíu mánuðum að vonlaust er að segja til um hvernig landið liggur eftir 20 mánuði. En hinsvegar held ég að Hanna Birna muni standa sig. Með myndun nýs meirihluta hefur hún markað sjálfri sér stöðu á eigin forsendum og virðist ætla að vinna sín verk af krafti.


mbl.is Lyklaskipti í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband