Flokksþing demókrata í Denver: 1. dagur

dnc denver1Flokksþing demókrata hófst fyrir stundu í Pepsi Center-íþróttahöllinni í Denver í Colorado. Þetta er í fyrsta skiptið í heila öld, eða frá árinu 1908, sem demókratar funda þar í aðdraganda forsetakosninga. Þar hittast 4500 þingfulltrúar til að stilla saman strengi fyrir forsetakosningarnar þann 4. nóvember nk, eftir slétta 70 daga, og útnefna Barack Obama formlega sem forsetaefni flokksins á fimmtudag.

Bandarísku flokksþingin eru miklar fjölmiðlasamkomur, leikstýrðar eins og þaulæfðasta leiksýning og minnir frekar á óskarsverðlaunaafhendingu en stjórnmálasamkomu. Þar er engin málefnaumræða, eins skondið og það hljómar rétt fyrir mikilvægar forsetakosningar, en mun frekar halelúja-samkoma fyrir forsetaefni flokksins, til að kynna persónu hans, áherslur og afstöðu til lykilmála.

Á flokksþingum eru öll hin minnstu smáatriði æfð og fundurinn fer fram eftir handriti sem leikstjórar væru stoltir af að vinna eftir, enda allt í sínum skorðum. Þannig að þetta er ekki stjórnmálavettvangur með beinskeyttri umræðu heldur mun frekar söluherferð á frambjóðandanum og til að tryggja að flokkurinn fari sterkur til kosninganna og að tryggja markaðsherferð fyrir forsetaefnið. Auðvitað snýst þetta allt um stjórnmálabaráttu í grunninn en er mun frekar eitt allsherjar show.

Í dag snýst allt um að kynna fjölskyldumanninn Barack Obama og færa flokksmönnum og landsmönnum mildu ásýndina á honum. Þar verður reynt að tala gegn þeim sögusögnum að Obama sé snobbaður elítumaður sem líti niður á annað fólk og sé fjarlægur alþýðufólki. Fjallað verður um æskuár hans, hjónabandið, eiginkonuna, börnin og hvernig Obama varð að stjórnmálamanni og náði að verða fyrsta þeldökka forsetaefnið í bandarískri stjórnmálasögu.

Förum yfir nokkra lykilpunkta fyrsta dagsins.

- Michelle Obama, eiginkona forsetaframbjóðandans, er aðalræðumaður kvöldsins. Hún reynir í tilfinningaríkri og fjölskylduvænni ræðu sinni að mýkja ekki aðeins ímynd eiginmanns síns, heldur sína eigin. Skv. könnunum er Michelle mun umdeildari í hugum bandarískra kjósenda en Cindy McCain og skaddaðist ekki síður af Wright-málinu en eiginmaður hennar. 

- Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, verður heiðraður. Kennedy greindist með heilaæxli í maí og er í meðferð vegna þess nú, auk þess að hafa farið í skurðaðgerðir. Fyrst átti Ted Kennedy að tala til flokksmanna af myndbandi en hann ákvað á síðustu stundu að mæta á svæðið, gegn ráðum lækna, og ávarpar þingið.

- Fjölskylda og vinir frambjóðandans kynna hann fyrir þinginu. Systir Barack Obama, Maya Soetero-Ng, mun tala um tengsl sín við bróður sinn og hvernig hann gekk henni í föðurstað á mikilvægu skeiði í lífi sínu. Craig Robinson, mágur frambjóðandans, mun kynna systur sína Michelle og tala um samskipti þeirra. Jerry Kellman, lærifaðir og vinur Obama, talar svo um persónu frambjóðandans.

- Auk þess tala t.d. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Jesse Jackson yngri, þingmaður í fulltrúadeildinni og stuðningsmaður Obama í gegnum þykkt og þunnt, og Claire McCaskill, öldungadeildarþingmaður í Missouri, sem studdi Obama á mikilvægum tímapunkti í baráttunni og tryggði sigur hans í fylkinu.

- Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, verður hylltur á þinginu og mannréttindabaráttu hans minnst. Carter fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2001.

Þetta er því mun frekar auglýsingmennska og markaðssetning á einum manni frekar en pólitísk rökræða. Oft er talað um að ein rödd flokksins og leiðtoga hans séu áberandi á íslenskum flokksþingum og landsfundum. Þeir sem það segja hafa greinilega ekki kynnt sér bandarísku þingin. Þar er pólitík aðeins markaðsmennska. En svona er þetta víst.

Þetta verður áhugavert og sögulegt flokksþing, enda fyrsti þeldökka forsetaefnið útnefnt og gæti markað upphafið á sögulegum þáttaskilum í bandarískum stjórnmálum eftir 70 daga.


"Strákarnir okkar" fá fálkaorðuna

Silfurstrákarnir Mér líst mjög vel á það hjá Ólafi Ragnari Grímssyni að sæma íslenska handboltalandsliðið, "strákana okkar", fálkaorðunni. Þeir hafa unnið fyrir henni og gott betur en það. Finnst það hið besta mál að fálkaorðan sé veitt Íslendingum sem skara framúr á alþjóðavettvangi.

Fáir verðskulda slíkt betur nú en íslenska handboltalandsliðið, sem hefur unnið afrek sem verður ritað gullnu letri í íslenskri íþróttasögu. Auðvitað má alltaf velta fyrir sé hvenær sé rétt að veita fálkaorðu vegna eins atburðar en ekki fyrir ævistarf, en í þessu tilfelli held ég að enginn velti því fyrir sér. Afrekið er það mikið.

Þetta er góð breyting á því að það þurfi helst að verðlauna einstakling á gamals aldri fyrir margra ára verk sín. Finnst mikilvægt að taka upp nýja siði. Þessa orðu á að veita þeim sem skara fram úr í samfélaginu, ekki aðeins fyrir ævistarf heldur og mun frekar þá sem eru að gera góða hluti á þeim tíma. Finnst rétt líka að verðlauna hópa fólks sé tilefni til. Ef einhverntímann var tilefni til er það svo sannarlega nú og því er þetta góð stefna sem mörkuð er með þessu.

Liðið sem færði okkur ágústævintýrið ógleymanlega hefur unnið fyrir þessu og gott betur en það. Óska strákunum til hamingju með þetta.

mbl.is Fálkaorðan bætist í orðusafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er komið að leiðarlokum hjá Óla Stef?

Ólafur Stefánsson Ég hafði það á tilfinningunni allan tímann meðan á úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í Peking stóð að þetta væri kveðjuleikur Ólafs Stefánssonar í landsliðinu. Þar sem við komumst ekki á HM í janúar er ekki nema von að spurt sé hvort hann verði í formi á næsta stórmóti og gefi þá kost á sér. Auðvitað vonum við það öll en verðum samt sem áður að velta fyrir okkur staðreyndum málsins.

Ólafur Stefánsson hefur verið burðarásinn í þessu liði, verið þar mikilvægasti hlekkurinn og leikið lykilhlutverk í frábærri liðsheild sem toppaði sig í ævintýrinu í Peking þar sem flestallt gekk upp. Við eigum öll Ólafi mikið að þakka, enda hefur hann verið stolt þjóðarinnar sem mikilvægasti maður landsliðsins árum saman og fyrirliði á stórmótum. Ekkert mun toppa þessa sigurstund í Peking, ævintýrið mikla, þar sem Ólafur var arkitektinn að árangrinum.

Ekki verður auðvelt fyrir þann sem tekur við fyrirliðabandinu af Ólafi að fara í fótspor hans, einkum og sér í lagi eftir þennan frábæra árangur í Peking. En maður kemur í manns stað. Kannski er kominn tími til að það verði kynslóðaskipti í forystunni, liðið þarf ávallt að endurnýja sig.

En við munum þó öll sjá eftir Ólafi. En sess hans í íþróttasögu landsins er og verður tryggður. Hann er einn af okkar bestu handboltamönnum fyrr og síðar.

mbl.is Kveðjuleikur hjá Ólafi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaupið um hver studdi landsliðið best

Óli Stef, Snorri Steinn og Guðjón Valur Mér finnst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hafa staðið sig vel sem í hlutverki sínu sem ráðherra íþróttamála á þessum Ólympíuleikum. Sérstaklega hefur hún verið flott í að tala upp handboltalandsliðið og hrósa þeim fyrir sitt góða verk síðustu dagana. Þetta á að vera hlutverk ráðherra íþróttamála, en ekki er sama af hversu mikilli innlifun þetta er gert.

Finnst því frekar skondið þegar Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fer að velta því fyrir sér á bloggsíðu sinni hverjir styðji nú landsliðið best og virðist hefja einhverja bjánalega keppni á milli forsetahjónanna og Þorgerðar Katrínar um hvort þeirra styðji nú liðið betur. Finnst þetta nú frekar barnalegt og klaufalegt hjá Össuri. Báðir aðilar eiga hrós skilið fyrir að sýna liðinu stuðning og tala máli þess á örlagastundu, hvort sem það væri á vettvangi eða hér heima á Fróni, ekki síður þegar vel gengur en illa.

Veit ekki hvernig skal túlka bloggyfirlýsingar Össurar um hálfgerðan slag Dorritar forsetafrúar og Þorgerðar Katrínar menntamálaráðherra. Báðar hafa þær staðið sig vel og gert gott í sínum hlutverkum á þessum leikum. En skrýtið er að snúa því upp í einhverja keppni. Kannski hefði verið í lagi að tala svona um ferðalag Þorgerðar Katrínar til Peking í handboltaleikinn um gullið í morgun væri hún ráðherra annars málaflokks. En Þorgerður Katrín fór til að bakka upp liðið og vera fulltrúi ríkisstjórnarinnar á staðnum.

Varla þarf hún að keppa við aðra um athygli, hún fer sem ráðherra málaflokksins. Auk þess er Þorgerður Katrín nátengd handboltaforystunni. Eiginmaður hennar er einn sigursælasti handboltamaður íslenskrar íþróttasögu og var einn lykilmanna handboltaliðsins árum saman. Því er för hennar mjög skiljanleg og eiginlega ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvað Össuri gengur til með þessum skriftartiktúrum.

mbl.is Árangur Íslands skiptir miklu máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband