Flokksþing demókrata í Denver: 2. dagur

HillaryClintonFlokksþing demókrata heldur áfram í kvöld í Denver. Í gær var fjölskyldan í fyrirrúmi, mjúka hliðin á Barack Obama kynnt í bak og fyrir, auk þess að Ted Kennedy var heiðraður og Michelle Obama mátaði sig við hlutverk forsetafrúarinnar. Kvöldið var upp og ofan, mörgum fannst það of væmið og dæmdu það glatað í pólitískum skilningi. Meðal þeirra var James Carville, vinur og pólitískur spunameistari Clinton-hjónanna fyrr og nú.

En nú er komið að alvöru pólitískum stjörnuljóma. Í kvöld verður Hillary Rodham Clinton í aðalhlutverki á flokksþinginu sem flestir töldu fyrir rúmu hálfu ári að yrði hennar, þar myndi hún verða helsta stjarnan í hlutverki forsetaefnisins. Nú þarf hún að tala upp samstöðuna í flokknum, gefa sviðsljósið eftir til Barack Obama og sýna að hún hugsi um flokkshag umfram sinn eigin, þó fjölmargir stuðningsmenn hennar séu hvergi nærri sáttir við stöðuna. Svo verður að sjá hvort stjörnuljómi hennar mun skyggja á manninn sem sigraði hana þegar hann kemur til Denver.

Kannanir benda til þess að fjölmargir stuðningsmenn Hillary ætli ekki að styðja Barack Obama í væntanlegum forsetakosningum. Fjölmargir þeirra ætli að sitja heima eða styðja John McCain. Aðeins helmingur þeirra er kominn um borð hjá Obama. Þetta er áhyggjuefni, þegar kannanir sýna að Obama hefur ekki forskot og varaforsetavalið á Joe Biden virðist ekki hafa breytt einu né neinu. Sumar kannanir gefa meira að segja til kynna að McCain sé kominn yfir í byrjun flokksþingsins. Martröð fyrir demókrata.

Clinton-hjónin hafa enn stjörnuhlutverk. Fyrir fjórum árum voru þau höfð saman fyrsta kvöldið til að skyggja ekki á John Kerry á hans flokksþingi í Boston. Nú drottna þau yfir miðju þinginu, kvöldin tvö áður en Obama þiggur útnefninguna í Denver. Auðvitað segir það allt sem segja þarf um hlutverk þeirra í baráttunni næstu 70 dagana. Þau hafa lykilhlutverk og Obama verður að hafa þau með og þess vegna hafa þau sviðið áður en hann kemur til borgarinnar. 

Clinton forseti mun vera æfur vegna þess að honum var valið að tala um þjóðaröryggismál af kosningabaráttu Obama, án nokkurs samráðs við sig. Hann vill tala um efnahagsmál og telur sig verða að gera það. Bæði vilji hann setja ofan í við Obama, sem gerði lítið úr afrekum í forsetatíð hans í forkosningabaráttunni og eins minna á að hann hafi skilið við efnahagsmálin í toppformi. Fróðlegt verður að sjá hvort hann heldur sig við rammann.

Förum yfir nokkra lykilpunkta annars þingkvöldsins.

- Hillary Rodham Clinton er aðalræðumaður kvöldsins. Henni er ætlað að tala um lykilmál sín í kosningabaráttunni, einkum jafnréttismál. Mikilvægt er fyrir demókrata að sameina flokkinn og sýna að Hillary horfi fram á veginn en ekki aftur, hún tali stuðningsmenn sína með sér inn í lestina hans Obama, þó hún hafi ekki orðið varaforsetaefnið. Mikil ergja er í herbúðum hennar með hvernig farið var með Hillary. Ekki hafi Obama hringt sjálfur í hana til að tilkynna um valið á Biden heldur aðstoðarmenn hans haft samband við aðstoðarmenn Hillary.

Sumir lykilmenn í baklandi Hillary eru reyndar svo æfir að þeir ætla sér að yfirgefa Denver á morgun og munu því ekki verða þar þegar Obama þiggur formlega útnefninguna. Hillary tilkynnti síðdegis að hún ætlaði að vera viðstödd þegar Obama flytur ræðu sína. Greinilegt er með því að samkomulag hefur náðst um að klára þingið. Væntanlega mun Hillary hvetja þá sem styðja hana í kjörinu á morgun til að styðja Obama og gefur hún þingfulltrúa sína. Enn er þó óljóst hvort henni verður tryggt hlutverk við hæfi í baráttunni. Hillary er það mikilvæg að nærvera hennar skiptir máli.

Búast má við að Hillary flytji leiftrandi og trausta ræðu og minni vel á sögulegt hlutverk sitt á þessu kosningaári þó henni hafi ekki tekist að ná alla leið. Hún mun líka minna á að hún sé hvergi nærri búin að vera í stjórnmálum og horfir fram á veginn en ekki aftur. Þetta er mikilvægt fyrir Obama. Hann þarf að fá stuðningsmenn Hillary með sér. Algjört lykilmál. Án þess hóps eru kosningarnar dæmdar til að tapast.

- Chelsea Clinton kynnir mömmu sína. Chelsea var ein helsta stjarna forsetaframboðs móður sinnar og barðist með henni allt til enda. Chelsea var mikið í skugganum í forsetatíð pabba síns, var sjáanleg en ekkert meira en það. Foreldrar hennar vildu ekki að Chelsea yrði opinber persóna þrátt fyrir hlutverk þeirra og hún heyrðist varla tala opinberlega þau átta ár sem pabbi hennar var einn valdamesti maður heims.

Chelsea tók lykilhlutverk í baráttunni eftir ósigur mömmu sinnar í Iowa og barðist með henni í frontinum í New Hampshire og allt þar til hún viðurkenndi loks ósigurinn í júní. Tók hún enn stærra hlutverk eftir alvarleg mistök pabba síns þegar hann missti sig í suðurríkjunum á þýðingarmesta hluta baráttunnar. Síðan hafa verið sögusagnir um að hún fylgi í fótspor foreldra sinna og tímaspursmál hvenær hún fari í framboð sjálf.

- Mark Warner, fyrrum ríkisstjóri í Virginíu, er lykilræðumaður flokksþingsins (key note speaker). Fylgir hann eftir sjálfum Barack Obama í því hlutverki, en Obama var lykilræðumaður flokksþingsins í Boston fyrir fjórum árum. Warner sækist nú eftir sæti repúblikans John Warner (fyrrum eiginmanns Liz Taylor) í öldungadeildinni fyrir fylkið. Valið á honum kom ekki að óvörum, enda vilja demókratar bæði vinna sætið og tryggja Obama sigur í fylkinu í nóvember. Demókrati hefur ekki unnið í Virginíu síðan Lyndon Johnson var kjörinn forseti árið 1964.

- Helstu ríkisstjórar flokksins ávarpa þingið í kvöld; þau Brian Schweitzer í Montana; Deval Patrick í Massachusetts (fyrsti þeldökki ríkisstjórinn þar); Kathleen Sebelius í Kansas (sem var mikið orðuð við varaforsetahlutverkið); Janet Napolitano í Arizona (heimafylki John McCain); Joe Manchin í Vestur-Virginíu; Jim Doyle í Wisconsin; Ed Rendell í Pennsylvaníu; Ted Strickland í Ohio; David Paterson í New York (fyrsti þeldökki ríkisstjórinn í New York og sá fyrsti blindi á landsvísu - tók við af Eliot Spitzer sem féll á vændiskonuviðskiptum) og Chet Culver í Iowa. Mikilvægt fyrir Obama að sýna þennan trausta hóp.

- Öldungadeildarþingmennirnir Bob Casey í Pennsylvaníu og Patrick Leahy í Vermont ávarpa þingið ennfremur. Báðir lýstu yfir stuðningi við Obama á mikilvægum tímapunkti. Leahy komst reyndar sérstaklega í sviðsljósið í apríl þegar hann sagðist vilja beita flokksvaldi til að henda Hillary úr forkosningaslagnum, sem leiddir til harðvítugra átaka milli lykilmanna Clinton-hjónanna og hans. Hefur hann með því, að sögn nánustu samherja Clinton-hjónanna, fallið í ónáð hjá þeim.

- Þetta er sérstakt kvennakvöld þingsins. Allar konur í forystunni koma saman á sviðið á þessu kvöldi konunnar sem hlaut 18 milljón atkvæða í forkosningunum og til að marka afmælisdag kosningaréttar kvenna í Bandaríkjunum. Kaldhæðnislegast af öllu er að stór hluti kvennanna í lykilstöðunum studdu frekar Obama en Hillary, meira að segja harðir femínistar á þingi.

Kvöldið er því allt öðruvísi en gærkvöldið. Alvöru pólitík með lykilfólki, mikill þungi og traust áhersla á að taka slaginn við repúblikana. Sykursætt kannski í og með en samt harðari pólitík. Stóra mómentið verður auðvitað Hillary. Allir munu fylgjast með henni í kvöld og hvert orð og hvert augnablik ræðunnar verður skannað í bak og fyrir. Ekki aðeins spá menn í fatnaði hennar, heldur líkamstjáningu, svipbrigðum og áherslum.

Þetta er kvöldið hennar Hillary. Og svo er að sjá hvernig henni tekst að tala reiða stuðningsmenn sína á að munstra sig á dallinn með Obama næstu 70 dagana. Þetta er aðalmómentið sem ræður úrslitum í því hvort tekst að sameina flokkinn, eins sundraður og hann lítur út fyrir að vera á þessu þingi. 

Ég segi bara eins og Bette Davis í hlutverki Margo Channing í kvikmyndinni ógleymanlegu All About Eve; Fasten Your Seatbelts - It´s Going to Be a Bumpy Night!


Ríkisstjórnin styður við bakið á "strákunum okkar"

Strákarnir okkarMér finnst það flott hjá ríkisstjórninni að leggja landsliðinu lið. Eftir hinn frábæra árangur "strákanna okkar" í Peking þarf að tryggja að handboltinn hafi traustari umgjörð og landsliðið þarf að fá meiri pening til að vinna í sínum málum. Því er þetta gott skref.

Landsliðið tryggði árangur eftir umbrotatíma, þegar enginn vildi fóstra liðið sem þjálfari. Fjöldi manna höfnuðu því að taka starfið að sér vegna þeirrar umgjörðar sem var um starfið. Mikilvægt er að taka á því, en það mætti svosem segja mér að þeir sem höfnuðu þjálfarastöðunni öfundi Guðmund af því að hafa tekist það enginn trúði að væri hægt.

Og svo koma hetjurnar á morgun. Það er mikilvægt að þeir finni vel hversu stolt við öllum erum af þeim.


mbl.is HSÍ fær 50 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súmmering: Tár, bros og væntingar í Denver

michelle teddy
Flokksþing demókrata hófst á tilfinningalegum nótum í Denver í gærkvöldi. Lykilorð kvöldsins voru sannarlega tár, bros og væntingar. Stemmningin var óbærilega hugljúf á köflum. Þingfulltrúar grétu á meðan síðasti Kennedy-bróðirinn var heiðraður, jafnvel á sínu síðasta flokksþingi, og vinir og vandamenn Obama kepptust við að lýsa hvað hann væri nú vandaður og einlægur maður. Í heildina var þetta kammó og sætt en yfirmáta sykurhúðað. Ekki er hægt að segja annað en demókrötum hafi mistekist að tækla pólitíkina á þessu kvöldi og fara yfir lykilmál kosningabaráttunnar.

Demókratar þurfa að standa sig mun betur á næstu þremur dögum en í gærkvöldi ef þeir ætla að koma út úr þessu flokksþingi tilbúnir í alvöru átök næstu 70 dagana. Þetta var einum of uppstillt væmni og dramatísk leiksýning til að taka á þeim málum sem mestu skipta og gera Barack Obama að þeim leiðtoga sem flokksmenn vilja að vinni Hvíta húsið í nóvember. Þrátt fyrir allt talið um Obama og fjölskylduvæna kosti hans er almenningur litlu nær um hver þessi maður er og hvað hann muni gera í Hvíta húsinu. Skilaboðin komast ekki til skila, einfalt mál.

Hitt er svo annað mál að demókratar horfast í augu við erfiðar kosningar á ári þar sem allt ætti að leika þeim í lyndi. Þrátt fyrir að Obama hafi alla heimsins peninga, traust stuðningsmannanet og pólitískar kjöraðstæður til að hafa mikið forskot hefur hann misst kosningarnar niður í jafna baráttu við 72 ára frambjóðanda flokks sem hefur haft Hvíta húsið í átta ár, átta mjög umdeild pólitísk ár, og hefur einn óvinsælasta forseta í sögu Bandaríkjanna. Þetta ætti að vera demókrötum áhyggjuefni og því furðulegt að þeir noti þingið ekki betur.

Nýjustu kannanir gefa til kynna að engu hafi breytt fyrir Obama að velja Joe Biden sem varaforsetaefni. Í fyrsta skipti í ótalmörg ár fær framboð demókrata ekki trausta fylgisaukningu út úr tilkynningu á varaforsetaefni. Með því staðfestist að Biden mun ekki sækja óháða kjósendur, Obama verður að sjá um stjörnuljómann. Biden mun geta leikið lykilhlutverk í Pennsylvaníu en varla öðrum fylkjum. Auk þess er greinilegt að hann á að treysta reynslugrunninn. En eftir sem áður verður Obama að vinna fyrir sigrinum.

Förum yfir helstu punkta fyrsta þingkvöldsins í Denver.

Michelle Obama
- Michelle Obama heillaði flokksmenn augljóslega með einlægri ræðu sinni um fjölskyldugildin og lífsbaráttu fjölskyldu sinnar í fátækt og ríkidæmi, fyrr og nú. Hún var einlæg þegar talið barst að lífsskilyrðum í æsku, hún fékk allan salinn til að gráta þegar hún lýsti baráttu pabba síns við MS-sjúkdóminn, kraftinum í mömmu sinni, því hvernig hún heillaðist af Barack og hversu vænt henni þykir um dæturnar. Einlægt og sykursætt, en hún hefði þurft að ganga lengra til að heilla óháða kjósendur, t.d. tala um þjóðerniskennd og trúarmál til að gera upp helstu vandamál sín til þessa. Enn á hún eftir að máta sig af alvöru í hlutverk forsetafrúarinnar.

Obama-fjölskyldan
- Dætur frambjóðandans, Sasha og Malia, heilluðu alla með því að fara langt út fyrir handritið þegar þær töluðu við pabba sinn og fóru að spyrja hann spurninga þegar hann birtist á sjónvarpsskjá eftir ræðu Michelle. Greinilegt var að þetta hafði ekki verið planað. Sú yngri hreif hljóðnemann af mömmu sinni og talaði á fullu og tók pabba sinn í hálfgert viðtal. Þetta átti örugglega að vera annarskonar móment en þær stálu heldur betur sviðsljósinu og gerðu þetta vel. Augljóst var á svipbrigðum Obama að þetta var ekki eins og það átti að vera.

Teddy Kennedy
- Ted Kennedy var hiklaust stjarna fyrsta kvöldsins. Gegn ráðleggingum lækna fór hann til Denver, flutti þar leiftrandi og trausta ræðu eins og hans var von og vísa. Teddy er baráttumaður og það skein í gegn í ræðunni, eins og ávallt áður. Hann leit virkilega vel út miðað við hvað hann hefur gengið í gegnum síðustu mánuði. Teddy var í raun kvaddur eins og þetta væru pólitísku endalokin hans, síðasta ræðan á síðasta flokksþingi þar sem gamli valdakjarni Kennedy-fjölskyldunnar kemur saman.

Allir sem horfðu á ræðuna óttuðust en vonuðu ekki að þetta væri svanasöngur baráttumannsins frá Massachusetts, fjölskylduföður Kennedy-ættarinnar, sem hefur gengið í gegnum svo margt. Mér fannst aðdáunarvert að hann hefði ákveðið að leggja þetta á sig og hann var hylltur eins og hjartað og sálin í þessum flokki. Ekki undrunarefni, enda verið þar í lykilhlutverki lengur en flestir er á horfðu vilja muna. Hann afhenti kyndilinn til næstu kynslóðar. Þetta var tárvotur og notaleg kveðjustund.

Vantaði aðeins að Ted kæmi með gamla frasann hans Reagans forseta: Win One for the Gipper, fræg setning sem hann sagði á flokksþinginu 1988 sem fráfarandi forseti Bandaríkjanna, flokksþinginu hans Bush eldri. Var það tilvísun í kvikmyndina Knute Rockne sem Reagan lék í árið 1940. En Kennedy-ar eru sennilega of stórir til að vitna í Reagan forseta.

Caroline Kennedy Schlossberg
- Caroline Kennedy kynnti föðurbróður sinn af stakri snilld. Talaði um framlag hans til stjórnmálabaráttu af virðingu og þekkingu um öll lykilmálefni ferils hans. Caroline hefur verið áhorfandi að pólitískum verkum hans og Kennedy-bræðranna alla tíð, er mörkuð af sorgum og sigrum fjölskyldunnar, allt frá því faðir hennar var myrtur og til dagsins í dag. Caroline hefur erft ræðusnilld forfeðra sinna og stjörnutakta í pólitískri baráttu.

Mér finnst Caroline efni í frábæra stjórnmálakonu. Af hverju fer hún ekki í framboð? Ég er ekki fjarri því að hún yrði efni í frábæran öldungadeildarþingmann fyrir Massachusetts þegar Teddy hættir þátttöku í stjórnmálum, hvort sem það verður í kjölfar þessara veikinda eða síðar. Caroline hefur allt sem þarf til að ná langt og hún hefur þokka móður sinnar og stjórnmálatakta föður síns, sem komu honum alla leið í Hvíta húsið. Vona að við sjáum meira af henni.

- Bróðir Michelle, Craig Robinson, flutti flotta ræðu er hann kynnti systur sína. Hann var traustur, talaði íþróttamál, enda körfuboltaþjálfari, og talaði um hvernig manneskja Michelle Obama væri og hversu traustur lykilmaður mágur sinn væri, ekki bara á taflborði stjórnmálanna heldur á körfuboltavellinum. Virkilega vel sett saman, einlægt án falsheita. Hvar hafa þeir falið máginn fram að þessu? Mér fannst hann alveg frábær.

Nancy Pelosi og Carter-hjónin
- Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var hylltur á þinginu er hann kom fram með eiginkonu sinni, Rosalynn. Á undan var sýnd frábær klippa um mannréttindaverk Carters og hvernig hann hefur unnið til hjálpar bágstöddum og þeim sem minna mega sín. Carter má vera stoltur af verki sínu. Er hann kom á sviðið hljómaði auðvitað Georgia On My Mind, lagið sem Ray Charles söng um heimafylki Carters. Var alveg gáttaður á því að hann fékk ekki að flytja ræðu. Fannst það afleitt, enda er Carter fínn ræðumaður. Er Obama að forðast tengingar við Carter? Vill hann ekki fá á sig stimpilinn að vera að sækjast eftir seinna kjörtímabili Carters?

- Systir Obama talaði einlæglega um æsku sína og hversu traustur bróðir hennar hefði verið alla sína ævi. Fannst þetta notaleg ræða, enda er þetta manneskja sem hefur þekkt frambjóðandann alla tíð og verið við hlið hans. Pólitíski lærifaðirinn hans Obama í Chicago flutti ágætis ræðu, en mér fannst allir sem fjölluðu um Chicago-árin hans Obama skauta ofurlétt yfir það hvernig honum tókst að komast alla leið þar. Þetta var hálf sagan.

- Claire McCaskill flutti leiftrandi ræðu fyrir Obama - tókst að flytja femíniska stuðningsræðu fyrir manninn sem sigraði konuna með 18 milljón atkvæðin. Visst pólitískt afrek það. Fannst samt stóra stjarnan í þessum hluta vera sonur hennar sem kynnti þingmanninn frá Missouri af krafti og orðfimi. Gott ef strákurinn hennar Claire McCaskill færði ekki einlægustu og traustustu rökin fyrir því af hverju Barack Obama ætti að verða næsti forseti Bandaríkjanna af öllum ræðumönnum kvöldsins. Er ekki viss hvað hann heitir en hann á klárlega framtíðina fyrir sér.

- Nancy Pelosi dró fram beittustu hnífana í eldhúsinu og réðst beint að John McCain. Hún ein gerði það sem ég taldi að allir myndu gera, ráðast harkalega að repúblikunum og forsetaframbjóðanda þeirra. Pelosi var ein um það verk og eiginlega kom það mér á óvart hvað þetta var sykursæt glansmynd af Obama án pólitískrar vígfimi og átakapunkta sem skipta. Pelosi gerði þetta vel en var einmana í talinu.

- Síðast en ekki síst var stemmningin sykursæt og létt. Það vantaði áþreifanlega pólitískan þunga. Þetta var misheppnað kvöld í pólitískum pælingum séð en var vel heppnað show og fjölskyldusýning fyrir Obama. En kosningarnar munu að lokum snúast um stjórnmál og því var fyrsta kvöldið í gegnum öll tárin og brosin ekki eins vel heppnað og getað hefði orðið.

Litskrúðugur þingfulltrúi (greinilega frá Iowa)
Finnst alltaf magnað að sjá stemmninguna á flokksþingunum. Þar eru karlar og konur að baða út höndunum, dilla sér við fjöruga tónlist, sumir í litríkum fötum og eru merkt í bak og fyrir með nælum og öðru litskrúðugu. Kúnstugt að sjá. Fannst leitt að sjá ekki Silju Báru og Dag Eggertsson í mynd dillandi sér við stuðlögin sem voru á milli atriða.

En í heildina, merkilegt kvöld fyrir demókrata. Tár, bros og væntingar eftir betri tíð. En það vantaði þungann þrátt fyrir allan glamúrinn. Þetta var misheppnað kvöld í pólitískum skilningi, enda þurfa demókratar að sýna að Obama sé leiðtogi, reiðubúinn á forsetavakt og tækla vandamálin innan flokksins.


mbl.is Draumurinn lifir í Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilræði við börn - akstur í dópvímunni

Ekki er hægt annað en vera eiginlega orðlaus yfir ofsaakstrinum á skólalóð Austurbæjarskóla. Þetta er beint tilræði við börn á þeim stað sem þau eiga að vera örugg. Skólyfirvöldum er treyst fyrir velferð barna og það á að vera sjálfsagðasti hlutur í heimi að þar geti svona ekki gerst. Við lifum hinsvegar ekki í fullkomnum heimi. Þetta er dapurlegur vitnisburður um að ekki einu sinni í skólanum eru börnin örugg.

Auðvitað eru þeir ógæfumenn sem stunduðu þennan ofsaakstur á skólalóð. Í dópvímu fer hausinn á flug út í vitleysuna og engin dómgreind til að meta aðstæður. Ég vona að þeir sem þetta gerðu læri sína lexíu. Ekki veitir þeim af.

mbl.is „Eiginlega bara enn í sjokki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Michelle mátar sig í hlutverki forsetafrúarinnar

Michelle ObamaMichelle Obama, eiginkona Barack Obama, mun eftir miðnættið ávarpa flokksþing demókrata sem aðalræðumaður fyrsta kvöldsins. Þar mun hún máta sig við hlutverk forsetafrúar Bandaríkjanna og reyna að styrkja ímynd sína og eiginmannsins, gera hana bæði fjölskylduvænni og traustari. Kannanir sýna að Michelle á langt í land með að fá á sig blæ hinnar traustu forsetafrúar.

Michelle hefur frá fyrsta degi leikið lykilhlutverk í kosningabaráttu eiginmanns síns, rétt eins og Hillary Rodham Clinton í baráttu Bill Clinton í forsetakosningunum 1992 og 1996, verið hans nánasti pólitíski ráðgjafi og aðalleikkona í að skapa umgjörð baráttunnar. Samkvæmt könnunum er Michelle mjög umdeild og mörkuð átökum í pólitískum eldi, landsmenn eru mun hræddari við hana en eiginmanninn og því þarf hún að sýna mjúku hliðina.

Obama og Kerry eiga það báðir sameiginlegt að eiga eiginkonu sem er mjög umdeild og þarf að fara í gegnum karakterbreytingu á flokksþinginu, snúa við blaðinu til að verða trúverðugar í hlutverki sínu og um leið styrkja ímynd eiginmannsins. Teresa Heinz Kerry flutti langa og hugljúfa ræðu á flokksþinginu í Boston árið 2004 til að kynna mann sinn en um leið tala sjálfa sig upp í hlutverkið eftir umdeild ummæli og eigin mistök í baráttunni. Henni mistókst að byggja þessa umgjörð þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð að takast það. Hún varð einn veikasti hlekkurinn í framboðinu.

Nú þarf Michelle Obama að styrkja eigin ímynd til að byggja traustari undirstöðu fyrir eiginmanninn. Þess vegna er fjölskyldustemmningin svo mikil fyrsta kvöldið. Þetta er mál sem skiptir miklu á þessum tímapunkti í kosningabaráttunni. Michelle Obama þarf að sýna að hún sé efni í góða forsetafrú, sé einlæg kona, sé konan við hlið frambjóðandans en ekki bara pólitísk bardagakona í baklandi eiginmanns síns. Þetta er ímynd sem enn þarf að vinna í. Þetta segja kannanir og þetta staðfestist af þeim áherslum sem hún markar á fyrsta kvöldi þingsins.

Hún opnar þingið í þessu hlutverki og reynir að sýna að hún geti orðið forsetafrú Bandaríkjanna. Þess má geta að Laura Welch Bush þurfti ekki að leika þetta hlutverk á flokksþingum eiginmanns síns. Þar var hún trausti aðilinn í hjónabandinu og með annað hlutverk. Hún hafði trausta stöðu í skoðanakönnunum og kynningin á henni var sjálfsögð sem eiginkonu forsetaefnis. Hann þurfti frekar á þessari kynningu að halda en hún.

Fyrir stundu fékk ég tölvupóst frá Michelle í póstkerfi Obama-baráttunnar þar sem hún talar einlæglega um fjölskylduna og hugljúf mál. Og svo var hún áðan í viðtölum að segja fjölskyldusögur og sýna að hún sé nú einlæg og traust húsmóðir, en ekki bara hin umdeilda kona við hlið Barack Obama. Á henni fer fram karakterbreyting á þessu þingi. Þar þarf að mýkja og styrkja. Þetta er aðalverkefni þeirra hjóna í upphafi þingsins.

Margir Bandaríkjamenn muna helst eftir Michelle sem konunni sem var í forystu söfnuðar Jeremiah Wright, sem bölsótaðist út í Bandaríkin og tækifæri landsins í predikunum sínum, mannsins sem gifti þau hjónin og skírði börnin þeirra, og þá sem sagðist í fyrsta skipti vera stolt af því vera bandarísk í kosningabaráttu mannsins síns. Hún þarf heldur betur að fara í gegnum uppstokkun til að bæta stöðu sína, ná traustari stöðu sem konan á vaktinni.

Hlutverk forsetafrúar Bandaríkjanna hefur lengst af verið hið sama. Þar er jafnan konan við hlið eiginmannsins sem sér um heimilið og hlúir að forsetabústaðnum. Á þessu hafa þó verið undantekningar. Nancy Reagan og Hillary Rodham Clinton voru konur sem höfðu mikil pólitísk áhrif á forsetavakt. Verði Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna og stenst prófið mikla bætist hún í þann flokk en verður ekki forsetafrú ala Laura Bush.


mbl.is Michelle Obama ræðir fjölskylduna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband