Söguleg stund - Obama útnefndur forsetaefni

Barack Obama
Fyrir nokkrum mínútum útnefndi flokksþing Demókrataflokksins í Denver í Colorado Barack Obama sem forsetaefni flokksins í forsetakosningunum eftir 68 daga, þriðjudaginn 4. nóvember nk. Þetta eru söguleg tímamót í bandarískum stjórnmálum. Obama er fyrsta þeldökka forsetaefnið í sögu Bandaríkjanna og verður næstyngsti forseti Bandaríkjanna ef hann nær kjöri. Aðeins John F. Kennedy var yngri, en hann var 43 ára gamall er hann var kjörinn forseti árið 1960.

Eftir kosningu á gólfinu í þingsalnum í Pepsi Center-íþróttahöllinni í tæplega klukkustund þar sem bæði Obama og Hillary höfðu verið útnefnd af stuðningsmönnum sínum og fengið atkvæði fylkjanna steig Hillary Rodham Clinton fram þegar röðin kom að New York og dró sig út úr kosningunni og bar fram tillögu um að Obama yrði forsetaefni demókrata án frekari kosningar. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og þingforseti, bar tillöguna upp og var hún samþykkt samhljóða.

Hillary færir Obama útnefninguna
Með þessu hefur Hillary tryggt endanlega flokkssamstöðuna sem hún talaði fyrir í gær. Staða hennar hefur styrkst mjög í gegnum þetta ferli. Hún hefur lagt sig fram um að vinna að flokkshag umfram allt annað, stendur við dílinn - kemur út úr þessu ferli sem viss táknrænn sigurvegari. Hún hefur ekki skaðast sem stjórnmálamaður á tapinu í forkosningunum, hefur mikil pólitísk áhrif og heldur styrkleika sínum. Með framgöngu sinni í kvöld tryggir hún sig aftur sem forsetaefni ef Obama tapar.

Þegar að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King lést fyrir fjórum áratugum átti hann sér draum um samfélag þar sem litaraft skipti ekki máli og þeldökkir hefðu sömu tækifæri í lífinu og hvítir. Sú barátta kostaði hann lífið. Á þessum sögulega degi í bandarískum stjórnmálum hefur Barack Obama látið drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast með því að ná útnefningu Demókrataflokksins. Þetta eru söguleg tímamót.

Fyrir aðeins átta til tíu árum hefði engum órað fyrir því að fyrir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar myndi þeldökkur forsetaframbjóðandi ná alla leið í forkosningaferli stóru flokkanna, hljóta atkvæði hvítra kjósenda um gervöll Bandaríkin og sverja embættiseið sem valdamesti maður heims. Ef marka má kannanir er þó hvergi nærri öruggt að Obama nái alla leið og spennandi kosningaslagur framundan.

Á morgun eru 45 ár liðin frá því að dr. King tjáði draumsýn sína í Washington í hinni frægu ræðu. Á þeim degi þiggur Obama formlega útnefninguna. Í og með er það kaldhæðnisleg tilviljun, enda var tímasetningin þingsins ákveðin nokkru áður en Obama náði útnefningunni. Nú tekur þá alvaran við. Hálfur sigurinn er aðeins unninn fyrir demókrata og Obama - mikið verk er eftir. Kannanir sýna að ekkert er öruggt.

Sigur Obama í kvöld eru engin stórpólitísk tíðindi - löngu var vitað hvernig myndi fara. Þetta eru þó umfram allt söguleg tímamót. Hillary hefur í verki tryggt sameinaðan flokk. Nú er það Obama að sýna hvort hann hafi það sem þarf til að leiða draum dr. Kings allt á leiðarenda; í Hvíta húsið - blökkumaður verði valdamesti maður heims.

mbl.is Demókratar útnefna Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksþing demókrata í Denver: 3. dagur

Jill og Joe BidenFlokksþing demókrata heldur áfram í kvöld í Denver. Í gær var reynt að tala upp samstöðuna. Hillary Rodham Clinton talaði flokksmenn saman með fítonskrafti og auk þess sóttu þungavigarmenn í flokknum að John McCain af mun meiri krafti en fyrsta þingkvöldið, þar sem mörgum fannst vanta markvissa pólitíska baráttu gegn andstæðingnum í kosningunum.

Hillary Rodham Clinton innsiglaði síðan endanlega samstöðu innan flokksins af sinni hálfu nú síðdegis og stóð við sinn hluta dílsins með því að gefa eftir rúmlega 1700 þingfulltrúa sína sem hún vann í forkosningunum. Þeir eru nú frjálsir að því leyti að þeir eru ekki bundnir henni að neinu leyti og geta kosið eins og þeir vilja í hinni formlegu útnefningakosningu, fylgja aðeins eigin sannfæringu. Bæði er það vottur um samstöðu og stuðning við Obama. Nú reynir á hversu margir hlýða samstöðukallinu frá Hillary.

Spunameistarar demókrata töldu annað kvöldið mun betur heppnað en það fyrsta, enda meiri pólitískur þungi og minna um pólitískt glys. Kannanir hafa ekki breyst mikið meðan þingið hefur staðið. Enn er staðan jöfn og sumar kannanir sýna forskot John McCain. Val á varaforsetaefni hefur ekki haft neitt að segja, skv. könnunum. Í kvöld fær valkostur Obama í baráttu næstu 70 dagana að tala og eins mun Bill Clinton reyna að tala upp þá samstöðu sem kona hans talaði um í gærkvöldi.

Förum yfir nokkra lykilpunkta þriðja þingkvöldsins.

- Formleg kosning á forseta- og varaforsetaefni Demókrataflokksins fer fram. Barack Obama verður þá formlega fyrsti þeldökki forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna sem nær útnefningu sem forsetaefni hjá stóru flokkunum. Hann náði útnefningunni í síðustu forkosningunum 3. júní en fær loks sess sem forsetaefni í kvöld.

Þar sem Hillary Rodham Clinton hefur gefið eftir kjörmenn sína má búast við samstöðukosningu, þar sem Barack Obama fær mun fleiri atkvæði en hann vann í hinum sögulegu forkosningum. Þá kemur endanlega í ljós hversu mikil samstaða er í flokknum og hversu margir styðja Hillary þrátt fyrir að hún hafi gefið eftir atkvæði sín.

- Varaforsetaefnið Joe Biden flytur formlegt útnefningarávarp sitt. Þetta verður þýðingarmesta ræða hins 65 ára gamla öldungadeildarþingmanns frá Delaware á ferlinum. Væntanlega mun hann þar afhjúpa hlutverk sitt í kosningabaráttunni, sem varðhundur framboðsins í árásum og átakapunktum gegn John McCain.

 Auk þess mun Biden reyna að tala sig upp í það hlutverk að vera hinn sterki stjórnmálamaður við hlið Obama, með reynsluna og kraftinn. Hann þarf að selja bandarískum kjósendum þá ímynd sína að vera hinn trausti reynsluhlekkur hins óreynda forsetaframbjóðanda í átökum næstu 70 dagana.

- Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, mun flytja ávarp. Beðið hefur verið eftir ræðunni mjög lengi. Hann var ósáttur með að vera úthlutað því að tala aðeins um þjóðaröryggismál og búist er við að hann muni gera það að engu og fara yfir víðan völl, sýna með því sjálfstæði sitt.

Auk þess er talið að Clinton muni tala sig upp úr átakamálum forkosningabaráttunnar þar sem eiginkona hans tapaði. Í gegnum samstöðutal muni hann minna á hversu vel hann skildi við samfélagið fyrir átta árum og bera saman við stöðuna nú, sér í vil.

- John Kerry, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts og forsetaefni demókrata árið 2004, mun flytja ávarp, auk þess Harry Reid, meirihlutaleiðtogi demókrata í öldungadeildinni og þingmaður í Nevada. Auk þess tala Evan Bayh, öldungadeildarþingmaður í Indiana, og Jay Rockefeller, öldungadeildarþingmaður í Vestur-Virginíu.

- Barack Obama kemur til Denver í kvöld. Hann hefur verið á ferð um nokkur lykilfylki síðustu dagana og fylgst með flokksþinginu úr fjarska. Nú þegar sögulegt útnefning hans er í sjónmáli kemur hann loksins á flokksþingið og verður sýnilegur þar. Útnefningarræðan er á morgun.

- Richard Daley, borgarstjóri í Chicago í Illinois, flytur ávarp. Auk þess tala Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, öldungadeildarþingmaðurinn Jack Reed og James Clyburn, fulltrúadeildarþingmaður í S-Karólínu.


Þetta verður kvöldið þar sem sagan er mörkuð með sögulegri kosningu á þeldökku forsetaefni og þar sem gráhærðir þrautreyndir menn í stjórnmálum, tveir menn sömu kynslóðar, bregða sér í ólík hlutverk. Annar talar upp samstöðu en hinn kynnir sig í nýju hlutverki og reynir að ná þeim sess að verða á forsetavakt næstu árin.

Þetta verður sannarlega áhugavert kvöld þar sem mun koma endanlega í ljós hvort samstaða demókrata sé staðreynd eða aðeins orðin tóm.


Þjóðhátíð á Arnarhóli - ótrúleg stemmning

Strákarnir fagna
Alveg er það nú yndislegt að fylgjast með þjóðhátíðarstemmningunni í Reykjavík. Allt við þessa hátíð sýnir vel hversu samhent þjóðin er í að fagna og heiðra landsliðinu eftir glæsilegt afrek í Peking. Aldrei verður það sjálfsagt að allir séu svo samhentir. Fjöldinn á Arnarhólki sagði meira en þúsund orð um það hversu samhent þjóðin er og hversu vel hún fagnar á sannri gleðistundu.

Auðvitað munu einhverjir segja að þetta hafi verið of mikið, allt við þessa hátíð hafi verið risavaxið og að erlendri fyrirmynd en samt þetta var þjóðarstund. Öll þurfum við að fagna liðinu og sýna hversu stolt við erum af þeim. Best af öllu fannst mér að heyra notaleg orð Þorgerðar Katrínar sem súmmeruðu upp stundina mjög vel.

Óli Stef flutti svo tilfinningaríka ræðu þar sem hann talaði fyrir hönd strákanna allra. En fyrst og fremst er þetta stund þjóðarinnar. Öll erum við samhent í að styðja strákana og þeir verða að finna það að við styðjum þá áfram í þeirra verkum. Það þarf að hlúa vel að þessu liði.

mbl.is Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velkomnir heim strákar!

Strákarnir komnir heim
Þá eru strákarnir komnir heim með Ólympíusilfrið. Gaman að sjá þegar þeir komu á Reykjavíkurflugvöll áðan. Allir með sól í hjarta á þessum gleðidegi. Samt svolítil vonbrigði að það sé ekki sól og bjart yfir borginni. Vonandi kemur einhver sólarglæta á eftir. Hér fyrir norðan er veðrið miklu betra.

Biðin eftir því að vélin með landsliðið lenti var ansi löng. Svei mér þá ef þetta minnti mig ekki á sjónvarpsmómentið þegar Bobby Fischer kom til Íslands fyrir rúmum þremur árum. Samt betur gert hjá Sjónvarpinu núna en Stöð 2 þegar Fischer kom.

Nú er bara að njóta augnabliksins. Útsending Sjónvarpsins er ansi vönduð. Þeir eru með lið á þrem eða fjórum stöðum um miðbæinn svo að við missum ekki af einu né neinu, sem betur fer.

mbl.is Landsliðið komið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súmmering: Leitað að samstöðunni í Denver

Hillary Rodham Clinton
Á öðru kvöldi flokksþings demókrata snerist allt um að leita að samstöðu í allri sundrungunni sem er undir niðri innan flokksins. Hillary Rodham Clinton, konan sem hlaut 18 milljón atkvæða í baráttu sinni fyrir því að verða fyrsti kvenkyns forseti Bandaríkjanna, gaf draum sinn um Hvíta húsið upp á bátinn og brosti í gegnum tárin er hún talaði upp andstæðing sinn í forkosningunum, Barack Obama, í langri og ítarlegri ræðu. Ræðan var traust og vel flutt, en fáir bjuggust við að hún meinti í raun það sem hún sagði. En þvílíkur ræðusnillingur þessi kona er.

Annað kvöldið var mun sterkara pólitískt og umgjörðin alvöru og traust. Þar var loksins ráðist af krafti gegn repúblikunum og frambjóðanda þeirra. Fyrsta kvöldið var minnst á John McCain í aðeins einni ræðu af alvöru. Nancy Pelosi tók þá það verkefni að sér. Nú var hún ekki eins einmana. Væmnin vék fyrir pólitískum þunga. Hver lykilmaðurinn í flokksstarfi demókrata kom fram á sviðið og talaði um hvað John McCain væri nú afleitur og komu með rökin sem þurfa ef demókratar vilja eiga einhvern séns á að sigra gömlu stríðskempuna.

Demókratar þurfa fyrst af öllu að sameinast ef þeir vilja eiga von á að ná á leiðarenda. Obama hefur ekki grætt neitt á varaforsetavalinu og að óbreyttu, skv. könnunum og stemmningunni fyrstu dagana, verður það metið sem pólitísk mistök. Hann virðist hafa valið mann sem færði honum enga fylgissveiflu eða traust kjarnafylgi inn í framboðið. En þess þá frekar verður hann að stóla á sjálfan sig. Hann verður líka að stóla á Clinton-hjónin. Hillary stóð við sinn hluta dílsins af einlægni og krafti. En það kraumar heldur betur undir niðri.

Förum yfir helstu punkta annars þingkvöldsins í Denver.

Hillary Rodham Clinton
- Hillary Rodham Clinton var stjarna kvöldsins, skein í gegnum allt og skyggði á alla aðra viðstadda, lykilræðumann þingsins, kvenkyns félaga í þingstarfinu, varaforsetaefnið og eiginkonu forsetaefnisins. Hillary leiftraði af orðfimi og krafti - algjörlega allur pakkinn, traust og ákveðin í að tala upp samstöðuna í flokknum. Hillary var hyllt mínútum saman áður en hún tók til máls, klappið ætlaði engan endi að taka - sýndi þar vel hversu sterk staða hennar er innan flokksins. Hillary er ekki að fara eitt né neitt. Ef Obama tapar mun hún sækjast eftir hnossinu aftur. Enginn vafi á því.

Hillary talaði samstöðuna upp. Talaði gegn John McCain vinnufélaga sínum í öldungadeildinni af fítonskrafti. Þakið ætlaði að rifna af Pepsi Center þegar hún sagði með blik í auga brosandi: No Way, No How, No McCain. Hún spurði stuðningsmenn sína hvort þeir hefðu stutt sig vegna áherslna sinna eða til að koma repúblikana í Hvíta húsið. Talaði eins fallega um Obama eins og mögulega var unnt og hún treysti sér til. Aldrei í ræðunni sagði hún þó Obama vera tilbúinn til að verða forseti Bandaríkjanna né talaði um bakgrunn hans í embættinu. Þetta var því hol stuðningsræða.

Chelsea Clinton kynnti mömmu sína með fáum en fallegum orðum. Chelsea er orðin pólitísk stjarna, þvert á það þegar hún varla talaði í forsetatíð föður síns opinberlega. Hún hlaut sína eldskírn í pólitískri baráttu mömmu sinnar. Þegar þurfti að mýkja baráttuna var hún sótt til að leika lykilhlutverk við að kynna mömmu sína. Nú er talað um að stutt sé í að hún sjálf fari í framboð. Er efni í það. Mikið innilega var kynningarmyndin um Hillary flott og skemmtilega klippt. Snilld.

Hyllingin á Hillary var algjörlega ótrúleg. Ætlaði engan endi að taka. Þarna sáu Obama og stuðningsmenn hans hversu traust staða Hillary er. Konur felldu tár þegar Hillary sagði lífsreynslusögur kvennanna sem studdu hana og lögðu henni til peninga bara til að eygja von á kvenforseta. Margir karlarnir í salnum voru heillaðir líka. Stjörnuljóminn er til staðar og innst inni mátti sjá að margir sáu eftir að hafa ekki tryggt Hillary útnefninguna. Enda ef flokkurinn tapar á þessu ári þar sem allt á að leika þeim í lyndi munu allir sjá eftir því að hafa ekki kosið hana.

Michelle Obama var samt heldur vandræðaleg í hyllingunni. Eins gott að Barack var ekki þarna. Hillary átti sviðið og salinn algjörlega. Drottnaði yfir og minnti á að Clinton-stjörnuljóminn er algjör. Eins gott að draga ekki í efa mátt Hillary. Hún hefur í fjóra áratugi verið í flokkskjarnanum, unnið baki brotnu og hefur reynsluna. Ekki var hægt annað en velta fyrir sér meðan Hillary talaði flokksþingið upp úr vitleysunni og til skýjanna af hverju hún varð ekki varaforsetaefnið! Bara vegna heiðurs Obama-hjónanna?

Bill Clinton
- Bill Clinton ljómaði eins og sól í heiði á meðan eiginkona hans talaði. Var stoltur og hrærður, líka íhugull og klappaði manna mest. Clinton forseti mun vera mun ósáttari við Barack Obama en eiginkona hans og hreinlega illur yfir meðferð Obama-hjónanna á eiginkonu sinni í valferlinu á varaforsetaefni og á sér í forkosningaslagnum. Auk þess varð hann trylltur yfir því að sér væri skammtað eitt umræðuefni í ræðunni sem hann á að flytja í kvöld.

Nánustu samherjar Clinton-hjónanna fullyrða að hann láti þann ramma lönd og leið og tali um það sem hann vill, sérstaklega efnahagsmálin. Hann þorir líka að láta finna fyrir sér. Hann ætlar ekki að vera viðstaddur ræðu Obama í Denver þar sem hann þiggur útnefninguna annað kvöld og ætlar að fara aftur til New York í fyrramálið á meðan Hillary hefur ákveðið að vera þingið út. Sterk skilaboð hjá sjarmatröllinu frá Hope í Arkansas. Hann þolir ekki Obama.

Mark Warner
- Mark Warner, þingframbjóðandi og fyrrum ríkisstjóri í Virginíu, flutti lykilræðu þingsins. Frekar átakalaust allt saman, slétt og fellt stuðningstal fyrir Obama. Fannst þetta flöt og léleg ræða. Má vera að Warner sé öruggur í öldungadeildina eftir nokkra mánuði en ég var að sofna yfir ræðunni hans. Sorrí, þetta var slappasta lykilræða demókrata síðan Bill Clinton talaði endalaust í lélegustu ræðu ferilsins á flokksþinginu 1988.

Dennis Kucinich
- Dennis Kucinich var alveg magnaður í sinni ræðu. Átti alveg salinn, var kjaftfor og hress, baðaði út höndunum og öskraði boðskapinn. Hjólaði í McCain fram og til baka án þess að hika. Þetta er það sem demókratar verða að gera ef þeir ætla að gera þingið að success, hjóla í andstæðinginn og gera hann ótrúverðugan. Sykurblaður kemur þeim ekki neitt.

Konur í öldungadeildinni
- Þetta var sérstakt kvennakvöld demókrata. Minnt á stöðu kvenna almennt og styrk þeirra innan flokksins. Minnt á hvað flokkurinn ætti nú marga kvenkyns ríkisstjóra og þingmenn í öldungadeildinni. Sterkt móment þegar þær komu saman fram á sviðið, en vakti samt spurningarnar um að demókrötum mistókst að tryggja konu alla leið í Hvíta húsið á sögulegu ári, sem hefði getað orðið þeirra.

Obama horfir á Bill Clinton
- Kvöldið var því allt í senn flott stjörnumóment og með miklum pólitískum þunga. Mun betur heppnað en það fyrsta. Og í kvöld mun Bill Clinton eiga sviðið, mun frekar en varaforsetaefnið Joe Biden, sem skv. könnunum virðist ekki vera að færa framboðinu neina fylgisaukningu. Allir fylgjast með því sem Clinton forseti segir og hvernig og hvort hann muni gera það sem hann hefur aldrei gert fram að þessu, tala upp Barack Obama sem forsetaefni.

Fréttaskýrendur spá því að það verði honum erfitt og því muni ræðan verða mun frekar um það sem hann afrekaði en það sem Obama gæti afrekað. Clinton forseti er langrækinn og skapmikill og gleymir engu. Hans pólitíska minni frá árinu 2008 er vel í lagi og það mun eflaust lita ræðuna. Fyrir Obama sjálfan er biðin eftir ræðunni erfið, enda veit hann að Clinton forseti hatar hann jafnmikið og pestina.


mbl.is „Erum í sama liði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband