Flokksþing demókrata í Denver: 4. dagur

Barack ObamaKomið er að lokakvöldi flokksþings demókrata í Denver og því mikilvægasta. Í nótt mun Barack Obama formlega þiggja útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins og verða fyrsta þeldökka forsetaefnið í bandarískri stjórnmálasögu. Hann heldur tímamótaræðu á sínum stjórnmálaferli á Invesco-íþróttaleikvangnum í Denver þar sem tæplega 80.000 manns komast í sæti og kynnir áherslur sínar á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Staðan í kosningabaráttunni nú er önnur en demókratar eflaust stefndu að þegar Barack Obama náði útnefningu flokksins 3. júní. Hann hefur ekki forskot í könnunum, virðist ekki hafa náð neinni marktækri fylgisaukningu á valinu á Joe Biden sem varaforsetaefni og virðist vera að missa stuðning hjá óháðum kjósendum. Í könnunum í þessari viku hafa frambjóðendurnir mælst annað hvort hnífjafnir eða John McCain hefur forystu.

Fyrst nú í dag sést einhver uppsveifla en hún er mjög hefðbundin miðað við að flokksþingið stendur. Þetta eru sláandi niðurstöður fyrir demókrata sem ættu að öllu eðlilegu að hafa mikið forskot miðað við að repúblikanar hafa ráðið Hvíta húsinu í tvö kjörtímabil og eiga óvinsælasta forseta Bandaríkjanna í sögu skoðanakannana. Þrátt fyrir allar kjöraðstæður demókrata til að klára þessar kosningar hefur John McCain raunhæfa möguleika á að sigra kosningarnar. Þetta eitt og sér hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir frambjóðanda breytinganna.

Barack Obama þarf í ræðu sinni ekki aðeins að kynna sig og áherslur sínar. Hann þarf að selja landsmönnum framboðið sem hann leiðir, bæði sig og Biden. Eins og kannanir standa núna þarf Obama að tala hreint út um lykilmál, utanríkis- og efnahagsmál, það sem mestu skiptir fyrir demókrata að tækla í þessari stöðu. Hann má heldur ekki missa sig í tæknilegu blaðri um smáatriði. Barack Obama þarf að skipta um gír, ekki aðeins kynna sig sem frambjóðanda breytinganna heldur og mun frekar sýna að framboðið hafi reynslu til að taka við á fyrsta degi. 

Förum yfir nokkra lykilpunkta fjórða og síðasta þingkvöldsins.

- Barack Obama flytur ræðu á Invesco-íþróttaleikvangnum og þiggur útnefninguna. Leggur línurnar fyrir lokasprett kosningabaráttunnar, kynnir sig og áherslur sínar. 45 ár eru í dag liðin frá hinni sögulegu ræðu dr. Martin Luther King í Washington þar sem hann tjáði draumsýn sína um jafna stöðu hvítra og þeldökkra. Því munu sagnfræðilegir tónar eflaust einkenna ræðu Obama um leið og hann horfir til framtíðar - talar um breytingarnar sem hann vill tryggja í Washington.

- Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, flytur ávarp. Gore hlaut fleiri atkvæði en George W. Bush á landsvísu í forsetakosningunum 2000 en tapaði kosningunum í kjörmannasamkundunni eftir sögulega baráttu fyrir 25 kjörmönnum Flórída í dómstólum í fylkinu og Hæstarétti Bandaríkjanna. Gore er traust söguleg tenging við fyrri tíma innan Demókrataflokksins, er mikils metinn innan flokksins og á alþjóðavettvangi sem stjórnmálamaður og friðarverðlaunahafi Nóbels.

- Framlags Dr. Martin Luther King í sögu Bandaríkjanna verður minnst á afmælisdegi draumaræðunnar margfrægu. Sýnd verður myndklippa um dr. King. Börn Dr. Kings, Martin Luther King III og Bernice King munu heiðra minningu föður síns.

- Howard Dean, formaður Demókrataflokksins, og Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, munu flytja ræður.

- Tim Kaine, ríkisstjóri í Virginíu, ávarpar þingið. Mikið var rætt um Kaine sem varaforsetaefni. Demókrati hefur ekki sigrað í Virginíu síðan Lyndon B. Johnson var kjörinn árið 1964.

- Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður fyrir Illinois - vinur og félagi Barack Obama árum saman, mun flytja ræðu og kynna Barack Obama.

- Vegleg tónlistaratriði verða flutt. Stevie Wonder og Sheryl Crow munu syngja. Auk þess mun óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Hudson syngja þjóðsönginn.


Þetta verður eflaust veglegt og eftirminnilegt kvöld, bæði fyrir demókrata og alla áhugamenn um stjórnmál. Mikilvægt er fyrir demókrata að ljúka þinginu með stæl. Obama þarf að kynna sig og áherslur sínar af krafti, sýna kontrastana á sér og McCain, auk þess sýna kjósendum bæði eitthvað nýtt og eftirminnilegt, ofan á stjörnuljómann og nýjabrumið sem færði honum útnefninguna.

Sumir hafa reyndar gagnrýnt Obama mjög fyrir umgjörðina á Invesco-leikvanginum. Þar hefur verið reist mikil sviðsmynd sem helst minnir á grískt hof og heilaga biblíuumgjörð. Spunameistarar á vegum demókratar óttast mest að augnablikið mikla fyrir Obama springi framan í hann og almennir kjósendur telji þetta bruðl og hann fjarlægist enn frekar venjulegt fólk.

Öllu mánudagskvöldinu var varið í að kynna hann sem venjulegan mann og færa hann niður á jörðina, hann væri einn af fólkinu en ekki elítumaður. Messíasarumgjörð kvöldsins gæti fælt einhverja frá. En er á hólminn kemur er þetta allt undir Obama komið. Hann þarf að toppa sig í kvöld og veit það mætavel.


mbl.is McCain hrósar Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCain búinn að velja - tekur sviðsljósið af Obama

John McCain John McCain, forsetaefni repúblikana, hefur nú valið varaforsetaefni sitt og mun tilkynna um það á fjöldafundi í lykilfylkinu Ohio kl. 11:00 í fyrramálið að staðartíma. McCain ætlar að reyna að grípa sviðsljósið í kvöld af Obama þegar hann flytur útnefningarræðu sína í Denver með því að leka nafninu á varaforsetaefninu í fjölmiðla og þar með fá forskot fyrir tilkynninguna. Er búist við að umfjöllun um málið hefjist áður en Obama talar síðla kvölds.

Fróðlegt verður að sjá hvort McCain muni velja annan af líklegustu kostunum í stöðunni. Mikið hefur verið talað um Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóra í Massachusetts, og Tim Pawlenty, ríkisstjóra í Minnesota, þar sem flokksþing repúblikana verður haldið í næstu viku. Er mjög líklegt að annar þeirra verði fyrir valinu ef McCain vill fá einhvern við hlið sér sem hefur mikla reynslu af að vera í forystu í fylkjunum og geti fært honum eitthvað af lykilfylkjunum í baráttunni auk þess. McCain vantar klárlega yngri frambjóðanda og einhvern sem getur fært honum hnoss sem skiptir máli.

Síðustu dagana hef ég æ oftar heyrt nafn Kay Bailey Hutchison, öldungadeildarþingmanns í Texas. Hún hefur setið í öldungadeildinni frá árinu 1993, var kjörin í þingsæti demókratans Lloyd Bentsen, sem var varaforsetaefni Michael Dukakis árið 1988. Hutchison myndi geta fært McCain eitthvað af kvennafylgi Hillary Rodham Clinton og þá demókrata sem studdu hana - myndi val á henni leiða til sögulegra þáttaskil. Ef Hutchison verður varaforsetaefnið er hún aðeins önnur konan í sögu Bandaríkjanna í framboði stóru flokkanna.

Erfitt um að spá hvað gerist. Hef samt verið viss um það nokkuð lengi að Romney yrði varaforsetaefnið. Þeir hafa verið að ná vel saman að undanförnu þó þeir hafi barist í forkosningunum af miklum krafti. Hann hefur traustar tengingar í lykilfylki og styrkleika í efnahagsmálum sem McCain vantar sárlega.

En þetta verður mikilvægt val fyrir McCain. Hann þarf að fá eitthvað mjög öflugt út úr varaforsetaefninu. Gæti því komið á óvart með djörfum valkosti sem eykur stjörnuljóma framboðsins eða valið traustan valkost, mann sem yrði með honum á forsetavakt og tilbúinn í forsetahlutverkið á örlagastundu.

Súmmering: Sættir á yfirborðinu í Denver

Joe Biden og Barack Obama
Á þriðja kvöldi flokksþings demókrata var lykilatriðið að sýna samstöðu flokksins, bæði til að kveða í kútinn sögusagnir um persónuleg átök og hjaðningavíg milli flokksmanna í kjölfar forkosninganna. Setja varð punkt á eftir sögulegum kafla um væringarnar sem klufu flokkinn í tvær sögulegar fylkingar; með fyrstu konunni og fyrsta þeldökka manninum sem áttu raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu. Það hefur nú tekist á yfirborðinu en ekkert meira en það. Samningar tókust um að tryggja flokkshag en sært stolt og heiður er enn til staðar og verður væntanlega gert upp síðar.

Gærkvöldið var sögulegt. Kjör Barack Obama var endanlega staðfest og með því mörkuð þau þáttaskil að fyrsti þeldökki maðurinn getur náð í Hvíta húsið. Ekki síður var það áhugaverð tímamót heldur hvernig þau urðu. Hillary Rodham Clinton innsiglaði sættirnar á yfirborðinu innan flokksins og stóð við hinn hluta dílsins, gekk frá kosningunni á gólfinu á þingstað, hafði áður gefið eftir þingfulltrúana sína en gekk þá skrefinu lengra með því að gefa kosninguna formlega eftir og færði þar með Barack Obama útnefninguna á silfurfati. Þetta var sterkt augnablik fyrir flokkinn.

Clinton-hjónin hafa nú gert sitt til að tryggja samstöðu í flokknum. Stóra spurningin er hvað verði um 18 milljón atkvæðin á landsvísu sem Hillary vann. Kannanir gefa til kynna að þau séu ekki öll á valdi hennar. Fjölmargir flokksmenn hafa ekki enn sætt sig við Barack Obama sem forsetaefni sitt og horfa í aðrar áttir, bæði til þess að sitja heima eða kjósa John McCain í Hvíta húsið. En nú geta Clinton-hjónin með sanni sagt að þau hafi lagt sig fram. Þau munu líka segja að nú verði Barack Obama að sækja þessi atkvæði. Ef hann tapar munu þau kenna honum um að hafa ekki sótt þau.

Við getum verið viss um að Demókrataflokkurinn hefur lægt öldurnar innbyrðis. En verkefnið er framundan. Ekki munu Clinton-hjónin sigra þessar kosningar fyrir Obama. Þau hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Hillary fékk flest atkvæði allra sem hefur mistekist að ná flokksútnefningu og hefur með því einu gríðarleg áhrif og völd. Þau áhrif hafa verið greinileg í gegnum allt þingið. Í og með var þetta flokksþingið hennar - ekki var hægt að ná flokkssamstöðu án hennar. Margir sem fylgdu henni eru illir með að Obama stóð ekki við sitt. Nú er það verkefni hans að vinna fyrir þessu.

Förum yfir helstu punkta þriðja þingkvöldsins í Denver.

Joe Biden
- Joe Biden, öldungadeildarþingmaður frá Delaware, var útnefndur varaforsetaefni samhljóða af flokksþinginu. Hann flutti tilfinningaríka og trausta ræðu en með mjög beiskum og reynslumiklum pólitískum tón. Biden fór í gegnum allan skalann í orðavali sínu; var bæði mjög persónulegur og einlægur og sneri sér svo jafnharðan yfir í hörð pólitísk átök; setti upp pólitísku brynjuna og gerðist mjög vígreifur. Þetta var þýðingarmesta ræðan á stjórnmálaferli hins gamalreynda Bidens, sem greinilega á að tala upp reynsluna í forsetaframboði hins lítt reynda frambjóðanda frá Chicago.

Biden talaði fallega um fjölskyldu sína, rakti söguna af pabba sínum og mömmu. Heiðraði sérstaklega móður sína sem var í salnum og minntist á hvað hann hefði lært af henni; að vera heiðarlegur og trúr sínu. Notalegt og vel gert; Bandaríkjamenn elska það þegar frambjóðendur eru góðir við mömmu sína á svona augnabliki. Svo talaði Biden einlægt og fallega um þá lífsreynslu þegar eiginkona hans og dóttir fórust í bílslysi nokkrum vikum eftir að hann var kjörinn í öldungadeildina árið 1972; lífsreynslu sem hefur markað hann alla tíð síðan. Traust orðaval.

Jafnharðan sneri Biden sér í það verkefni að ráðast að John McCain. Línan sem hann markaði verður örugglega sú sem notuð verður næstu 67 dagana; John sé einlægur og vandaður maður, traustur föðurlandsvinur og stríðshetja, en hann hafi einfaldlega rangt fyrir sér og sé ekki treystandi vegna þess. Þetta er traust lína og gæti skilað þeim árangri. Biden afhjúpaði sig allavega í ræðunni sem maðurinn er á að tækla John McCain. Hann á að byggja undirstöðuna fyrir lokasprettinn og standa sig í átökunum; hann á að verða varðhundurinn í framboðinu og tala einn um utanríkismál.

Biden er þannig gerður að hann þekkir utanríkismál út og inn. Í þessari ræðu talaði hann um lykilmál á svæðinu sem Barack Obama heimsótti fyrr í sumar. Bara í þessari tiltölulega stuttu ræðu fjallaði hann betur um það en Obama gerði á öllum blaðamannafundunum og ræðunum sem hann flutti í M-Austurlöndum. Þannig að enginn vafi leikur á því hver verður á vaktinni í utanríkismálum í forsetatíð Barack Obama. Það verður Biden, rétt eins og Dick Cheney var á vaktinni fyrir George W. Bush. Bush sótti Cheney vegna reynslunnar, sama gerði Obama með Biden.

Biden-feðgarnir
- Beau Biden, saksóknari í Delaware og sonur frambjóðandans, kynnti föður sinn á sviðið. Hann flutti einlægustu og traustustu ræðu sem ég hef heyrt son flytja um föður sinn mjög lengi. Auðvitað var fjallað um slysið sem kostaði móður hans lífið fyrir 36 árum. Beau talaði um lífsreynsluna og hversu vel pabbi hans stóð með honum í gegnum allt, en hann slasaðist alvarlega í slysinu og var fyrst varla hugað líf. Biden sór embættiseið sinn í öldungadeildina frá sjúkrabeði Beau, en hann vék ekki frá honum á sjúkrahúsinu vikum saman.

Beau talaði um þetta bæði til að ljá föður sínum persónulegan styrk í gegnum baráttuna en ekki síður til að tryggja honum persónulegri sjarma. Skoðanakannanir gefa vel til kynna að mörgum finnst Biden vera gamall maður án stjörnuljóma. Ein skilaboðin hafa því greinilega verið að tala hann upp sem persónu og sýna persónuna á bakvið kerfiskarlinn á þingi síðustu 36 árin. Það tókst mjög vel. Svo var þetta auðvitað framboðsræða fyrir Beau í og með. Mjög líklegt er að hann taki við þingsæti föður síns verði hann varaforseti.

Bill Clinton
- Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, flutti frábæra ræðu, að mínu mati eina sína bestu og traustustu síðan að hann lét af forsetaembætti fyrir tæpum átta árum. Hann var einlægur, traustur og kraftmikill í orðavali og sýndi allar sínar bestu hliðar. Á góðum degi er enginn ræðumaður í heiminum betri og einlægari en Clinton forseti. Hann er einfaldlega frábær. Á vondu dögunum er hann reiður, úrillur gamall karl sem enginn hefur samhug með. Of oft sýndi hann síðarnefndu týpuna í kosningabaráttu Hillary þegar á móti blés og lék sinn þátt í að Hillary tókst ekki að ná leiðarenda.

Clinton forseti var hylltur er hann kom á sviðið og varð að bíða mínútum saman eftir því að geta komist að. Eftir allt sem á undan er gengið heldur hann virðingu sinni og stöðu innan flokksins. Enda hefur hann stöðu innan flokksins sem enginn annar núlifandi maður getur státað sig af; vann tvisvar Hvíta húsið og hefur setið lengst allra demókrata á forsetastóli ef aðeins Franklin Delano Roosevelt er undanskilinn. Með ræðunni í gærkvöldi sótti Clinton forseti sér þessa stöðu að nýju og fékk hana án þess að þurfa að hafa í sjálfu sér mikið fyrir því.

Hinsvegar stóð hann við sitt, flutti ræðuna sem allir vildu fá. Hann er og verður áfram sjarmatröllið mikla í flokknum. Eftir allt sem á undan er gengið sté hann fram, gekk alla leið og studdi Obama. Hann lagði að lokum sitt af mörkum til að tryggja sameinaðan flokk. Talaði af virðingu og notalegheitum um Obama. Í öllum átökum síðustu mánaða hafði hann ekki sagt eitt einasta notalegt orð um Obama-hjónin og kosningabaráttu þeirra.

Frá því að Barack Obama náði útnefningunni og allt til gærdagsins hafði Clinton forseti aðeins slegið úr og í með afstöðu sína til Obama og ekki heitið honum traustum stuðningi og ekki sagt neitt um hvort hann væri yfir höfuð tilbúinn til að verða forseti Bandaríkjanna frá fyrsta degi. Clinton forseti sló þetta tal út af borðinu. Hitt er svo annað mál hvort hann meinti orð af því sem hann sagði. Eflaust ræðst það ekki fyrr en örlög Obama ráðast í nóvember.

Hillary Rodham Clinton
- Eitt eftirminnilegasta augnablik kvöldsins var þegar Hillary Rodham Clinton batt enda á kosninguna um forsetaefni flokksins með yfirlýsingu sinni. Hún fór í gegnum þvöguna í þingsalnum eins og stormsveipur, geystist fram ásamt sínum traustustu stoðum í stjórnmálastarfinu, tók hljóðnemann og tók forystuna um að tryggja þá samstöðu sem varð fyrirsögn gærkvöldsins. Eftir allt sem á undan er gengið er þetta stórglæsileg frammistaða. Með þessu hefur Hillary ekki aðeins tryggt stöðu sína og pólitísk áhrif, heldur og mun frekar útnefningu flokksins ef Obama tapar.

John Kerry
- John Kerry, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts og forsetaefni demókrata árið 2004, flutti einlæga, vígreifa og trausta ræðu um hermennsku og afrekin miklu í eigin lífi. Þetta var hin fullkomna ræða fyrir John Kerry, í sannleika sagt. Vandamálið var aðeins að þessi ræða kom fjórum árum of seint, allavega fyrir hann. Ef hann hefði talað svona í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum væri hann örugglega forseti Bandaríkjanna og flokksþingið í Denver væri hans. Talandi um pólitíska óheppni og kaldhæðni.

Mér fannst Kerry alltaf eins og tréhestur; fíll í postulínsbúð síðast. Var vandræðalegur og veikburða forsetaefni þrátt fyrir alla sína reynslu og pólitísk verk áratugum saman. En í gærkvöldi stóð hann sig vel, svolítill kjaftur á karlinum og hann var ekki eins skelfilega leiðinlegur og í síðustu baráttu. Kerry gerði mörg mistök síðast sem hann sér eftir. Mest sér hann eftir að velja John Edwards sem varaforsetaefni. Bigtime klúður. Edwards er fjarri núna - sleikir sárin eftir hjákonuna. Allir hafa snúið við honum baki.

Barack Obama
- Flott augnablik í blálok dagskrárinnar þegar Barack Obama sté fram á sviðið í Pepsi Center eftir ávarp Joe Biden. Þetta var fyrsta skiptið sem Obama kom fram opinberlega eftir að hann hlaut formlega útnefningu flokksins. Flutti stutta og vandaða ræðu, súmmeraði upp flokksþingið fram að því og talaði um stóra kvöldið framundan, þegar hann tekur formlega við flokknum og heldur inn í lokasprett baráttunnar. Fín fjölskyldustund fyrir Obama og Biden, sem hafði alla fjölskylduna sína á sviðinu. Þetta þurfa demókratar að gera; passa upp á fjölskyldumyndirnar sínar.

Hillary, Biden og Obama
Kvöldið var því mikilvægt fyrir demókrata, mikill success. Samstaðan hafðist í gegn, með herkjum þó. Clinton-hjónin hafa sætt sig við Obama og feta fram á veginn með honum. Nú er að sjá hversu lengi sú samstaða helst sem innsigluð var í gærkvöldi. Framundan eru 70 dagar sem ráða því hversu lengi sú samstaða helst aðeins á yfirborðinu.


mbl.is Bill Clinton styður Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dr. Sigurbjörn Einarsson látinn

sigurbjorn biskupDr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, er látinn, 97 ára að aldri. Með Sigurbirni er fallinn í valinn einn traustasti leiðtogi kristinnar trúar í sögu íslensku þjóðarinnar og einn merkasti Íslendingur vorra daga, maður sem naut mikillar virðingar fyrir verk sín og þá forystu sem hann veitti íslensku þjóðinni í blíðu og stríðu.

Sigurbjörn biskup talaði alla tíð kjarnyrta íslensku til þjóðarinnar úr predikunarstól og ritaði bækur og íhuganir sem lifa með þjóðinni. Hann er einn áhrifamesti maðurinn í sögu íslensku þjóðkirkjunnar og segja má að dr. Sigurbjörn hafi verið einn bæði merkasti leiðtogi kristinnar trúar síðustu aldir og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi.

Ekki leikur nokkur vafi á því að Sigurbjörn biskup er einn þeirra manna sem settu mestan svip á 20. öldina sem naut mestrar virðingar. Hann náði til fólks hvar svo sem í stétt það var. Áhrif Sigurbjörns Einarssonar á íslensku þjóðkirkjuna eru og verða óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.

Sigurbjörn var líka einn þeirra manna sem höfðu þá náðargáfu að geta talað bæði af visku og kærleika svo að fólk hlustaði. Predikanir hans voru ógleymanlegar. Það var þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann. Hann hafði sem biskup mikil áhrif á margar kynslóðir Íslendinga og lék lykilhlutverk í því að kynna fyrir okkur kristna trú og gildi hennar, ekki bara sem biskup heldur og mun frekar á árunum eftir að hann lét af störfum og flutti predikanir.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera margoft við predikanir hans hér í Eyjafirði og kynnast því hversu traustur og notalegur ræðumaður hann var, ekki bara um kristileg málefni heldur og mun frekar að tala um gildi samfélagsins og mannleg mál, kærleikann og lífið sjálft. Hann hafði svo margt fram að færa - það mun lifa með þjóðinni.

Nú síðustu árin minnist ég helst viðtalsins sem Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir átti við Sigurbjörn og sýnt var á jólunum 2006. Þar talaði Sigurbjörn bæði um sig og sín málefni, fór yfir allt sem hann taldi merkilegast í lífinu. Merkilegt viðtal og vandað.

Svo gleymir enginn ræðunni þegar hann tók við málfræðiverðlaunum Jónasar fyrir tæpu ári. Þá fór hann upp á svið með stafinn sinn og flutti blaðlaust eina merkilegustu ræðu sem ég hef heyrt í mínu lífi. Sigurbjörn þurfti ekki að hafa fyrir þessu.

Ég vil votta fjölskyldu dr. Sigurbjörns Einarssonar innilega samúð mína. Mætur Íslendingur er fallinn frá. Guð blessi minningu hans.


Strákarnir fá fálkaorðuna - verðskuldaður heiður

Strákarnir með fálkaorðuna Ég vil óska strákunum í landsliðinu til hamingju með fálkaorðuna. Mér líst mjög vel á það að þeir hafi fengið hana. Þeir hafa unnið fyrir henni og gott betur en það. Finnst það hið besta mál að fálkaorðan sé veitt Íslendingum sem skara framúr á alþjóðavettvangi.

Fáir verðskulda slíkt betur nú en íslenska handboltalandsliðið, sem hefur unnið afrek sem verður ritað gullnu letri í íslenskri íþróttasögu. Auðvitað má alltaf velta fyrir sé hvenær sé rétt að veita fálkaorðu vegna eins atburðar en ekki fyrir ævistarf, en í þessu tilfelli held ég að enginn velti því fyrir sér. Afrekið er það mikið.

Ég sé að sumir eru að ergjast yfir því að strákarnir okkar fái fálkaorðuna. Come on, segi ég nú bara á vondri íslensku. Þetta er íþróttaafrek, eitt hið mesta í íþróttasögunni. Við það tækifæri á að veita heiðursorðuna. Enda kominn tími til að sýna að hún er ekki bara skraut fyrir gamalt fólk til að verðlauna ævistarf heldur og mun frekar heiðursorða þjóðarinnar þegar mikið liggur við.

mbl.is Orðuveiting á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband