29.8.2008 | 17:46
John McCain hristir upp í bandarískri pólitík
John McCain tókst sannarlega að hrista upp í bandarískum stjórnmálum með valinu á Söru Palin sem varaforsetaefni sínu. Fór ekki hefðbundnu leiðina sem flestir höfðu spáð með því að velja yngri karlmann, heldur velur fyrstu konuna í forystu forsetaframboðs fyrir repúblikana, unga fimm barna móður sem er augljóslega mikil vonarstjarna fyrir flokkinn. Hann hugsar til framtíðar með valinu, telur réttilega að reynsla sín sé nóg fyrir framboðið og kemur með nýjar og áhugaverðar tengingar. Með þessu er framboðið yngt verulega upp. Skilaboðin eru skýr.
Sarah Palin og John McCain lúkkuðu mjög vel saman á fyrsta framboðsfundinum í Dayton í Ohio fyrir stundu. Þau eru mjög ólík en hiklaust sterk framboðsflétta. Hann með sína miklu og víðtæku pólitísku reynslu og hún sem konan við hlið hans, með mikla lífsreynslu að baki og augljóslega mikil kjarnakona. Þetta eru söguleg tímamót fyrir Repúblikanaflokkinn, enda hefði fáum órað fyrir því þegar George W. Bush valdi Dick Cheney sem varaforsetaefni fyrir átta árum að næst á eftir yrði kona fyrir valinu. Bara með því að velja Palin breytist ásýnd flokksins.
Sarah Palin er líka frábær ræðumaður og traust baráttukona með tengsl við venjulegt fólk. Sá bakgrunnur hennar á eftir að reynast vel fyrir McCain. Hún er ekki hluti af valdakerfinu að einu né neinu leyti og færir því baráttuna á aðrar slóðir. Með þessu ætti McCain að eiga betur að höfða til kvenna og alþýðufólks, þeirra hópa sem helst fylgdu Hillary Rodham Clinton í gegnum hennar sögulegu baráttu fyrir því að vera fyrsta kvenkyns forsetaefnið. Nú hefur Sarah Palin tekið sess Hillary í baráttunni. Skilaboðin eru líka skýr að því leyti.
Palin getur nú tekið sér stöðu á sviðinu sem konan í framboðinu. Það gerði hún mjög ákveðið og áberandi í ræðunni í Dayton. Hún sagðist ætla sér að brjóta glerþakið sem Hillary Rodham Clinton setti 18 milljón sprungur í. Á þessu mun framboðið keyra alveg hiklaust. McCain mun geta talað um jafnréttismál vígreifur og hress hafandi valið fyrstu konuna í forystu forsetaframboðs í 24 ár, aðra konuna í stjórnmálasögu landsins. Allt í einu hafa jafnréttisáherslur baráttunnar breyst og McCain tekið frumkvæðið - gert það sem Obama lagði ekki í að gera.
Og svo verður Sarah Palin konan án tenginga við Washington - það sem Hillary tókst ekki að nota sér í vil. Hún er sú eina af forseta- og varaforsetaefnum stóru flokkanna sem hefur ekki unnið í höfuðborginni eða á heimili þar. Þetta er skýr yfirlýsing hjá McCain um breytingar í DC - hann ætlar sér að hrista upp með varaforseta sér við hlið sem hvorki hefur verið í fulltrúa- né öldungadeildinni. Gleymum því ekki að varaforseti Bandaríkjanna er um leið forseti öldungadeildarinnar og getur greitt þar oddaatkvæði, breytingin verður því afgerandi nái McCain kjöri.
McCain telur sig greinilega vera með næga reynslu og þekkingu á Washington, enda verið í fulltrúa- og öldungadeildinni samfellt í 26 ár. Obama hefur verið í öldungadeildinni í tæp fjögur ár og Biden er einn þaulsetnasti öldungadeildarþingmaður Bandaríkjanna með 36 ára reynslu. Þegar Biden og Palin eru sett hlið við hlið er ekki nokkur spurning hvort verður frambjóðandi breytinganna sem varaforsetaefni. Hún án nokkurra tenginga við Washington en hann einn af lykilspilurum þar bakvið tjöldin síðan Barack Obama var ellefu ára gamall.
McCain mýkir líka framboðið með þessu vali. Það er allt í einu gjörólíkt því sem var í gær. Breytingin er algjör. John McCain hefur innan við sólarhring eftir að Obama flutti ræðu sína gjörbreytt pólitísku landslagi í Bandaríkjunum og hefur allt í einu sér við hlið konuna sem gæti orðið varaforseti Bandaríkjanna. Eitt og sér er það veglegt og traust veganesti inn í næstu 66 dagana.
![]() |
Hver er Sarah Palin? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.8.2008 | 14:55
Sögulegt val - McCain velur Söruh Palin sem VP

Fyrir nokkrum mínútum var staðfest að John McCain hefur valið Söruh Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni. Þetta er sögulegt val, fyrsta konan sem verður hluti af forsetaframboði fyrir Repúblikanaflokkinn, ung kona með stjörnuljóma.
Þetta er áhætta fyrir McCain en mun eflaust borga sig. Hann afþakkar reyndustu kandidatana, telur sig hafa næga reynslu fyrir framboðið, en velur þess í stað unga konu með sér, vonarstjörnu fyrir flokkinn.
Hann ætlar sér að reyna að ná óánægðum stuðningsmönnum Hillary með sér. Stórmerkilegt val í alla staði. Verður gaman að sjá fyrsta kosningafundinn þeirra á eftir.
Er viss um eitt; Obama á eftir að sjá mjög mjög mjög mikið eftir því að velja ekki Hillary Rodham Clinton með sér.
![]() |
Varaforsetaefni McCain |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.8.2008 | 14:15
Óstaðfest: Sarah Palin varaforsetaefni McCain

Mér finnst það mjög merkileg ákvörðun hjá John McCain ef það er rétt að Sarah Palin verði varaforsetaefnið. Með því slær hann á traustustu valkostina í stöðunni; Romney og Pawlenty og fer sínar eigin leiðir. Velur konu, unga og trausta konu sem hefur ekki verið lengi á sviðinu en nýtur mikillar virðingar. Það eitt að McCain velji konu mun verða stórmerkilegt ef satt er. Aðeins ein kona, Geraldine Ferraro, hefur áður náð í forystu forsetaframboðs í sögu Bandaríkjanna.
Palin er 44 ára gömul, varð ríkisstjóri í Alaska með því að fella sitjandi ríkisstjóra repúblikana í forkosningum og síðan sigra fyrrum ríkisstjóra demókrata í sögulegri kosningu. Hún er fimm barna móðir, á þar af eitt barn með Downs heilkenni og ákvað að eiga það þrátt fyrir að vita um það. Hún er traust íhaldskona og myndi fara létt með að færa McCain íhaldsfylgið sem hann vantar að tryggja sér.
Ef John McCain velur konu með sér er það söguleg ákvörðun. Hún yrði fyrsta konan í framboði fyrir Repúblikanaflokkinn í forsetakjöri og myndi tryggja sig sem traust forsetaefni síðar. Þetta færir John McCain gullið tækifæri til að ná kvennafylginu og það sem meira er; ná óánægðum kjósendum Hillary Rodham Clinton á sitt band.
McCain fer langt með að vinna þessar kosningar bara með því að gera það sem Obama þorði ekki, velja konu með sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)