3.8.2008 | 16:12
Róleg og góð verslunarmannahelgi
Ekki virðist sú ákvörðun að lækka mörkin aftur í 18 ár hafa leitt til neinna leiðinda. Hér hefur vissulega verið eitthvað fyllerí en þetta hefur allt farið vel fram og gengið í alla staði mjög vel. Bæjaryfirvöld og Vinir Akureyrar stóðu vel að hátíðinni Einni með öllu, hér í bænum, að þessu sinni og um að gera að hrósa Möggu Blöndal og hennar fólki hjá Akureyrarstofu fyrir gott skipulag og fjölskylduvæna umgjörð sem skilaði árangri.
Eftir hádegið fékk ég mér svo Vallash, gamla góða Sana-appelsínudrykkinn, og akureyrska pylsu, sem er með öllu plús rauðkál, við Iðnaðarsafnið. Þar var gamaldags og góð stemmning. Guðrún Gunnars og Inga Eydal spiluðu þar öll gömlu Sjallalögin með Ingimar yngri, syni Ingu. Frábært að vera þar og spjalla við fólk og eiga góða stund.
Þetta var fín helgi, akkúrat eins og við viljum hafa hana. Þetta er módelið sem við höfum leitað að og loksins fundið. Meira af svona.
![]() |
Metfjöldi á þjóðhátíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 4.8.2008 kl. 02:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2008 | 14:58
Obama missir forystuna - spennandi kosningar
Á innan við hálfum mánuði hefur Barack Obama misst forystuna í bandarísku forsetakosningunum og John McCain tekist að tryggja að repúblikanar eiga raunhæfa möguleika á að vinna Hvíta húsið þriðja kjörtímabilið í röð, þvert á spár flestra fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Það stefnir í spennandi kosningar.
Frægðarsól Obama virðist vera farin að hníga allverulega og þegar þrír mánuðir eru til kjördags er ljóst að hann er orðinn þreyttur og er ekki eins snarpur og beittur og hann var í forkosningaslagnum við Hillary. Þreytumerkin eru orðin afgerandi og greinilegt að hann skiptir orðið æ oftar um skoðanir og hefur valdið mörgum vonbrigðum þegar áður en kosningarnar fara fram. Hann virðist auk þess mun brothættari frambjóðandi en flestir töldu í forkosningaslagnum.
Innihaldsleysið í málflutningi, þegar standard talið um breytingar á sögulegu kosningaári sleppir, er líka farið að há honum mjög. Í baráttunni við Hillary var hægt að halda langar og innlifaðar flokksræður með messíasarbrag en það er ekki hægt í þessum hluta baráttunnar. Af því leiðir að Obama er ekki eins sannfærður og staðfastur í skoðunum og hann virkaði lengst af. Auk þess er opinberu ástarsambandi Obama við fjölmiðlana greinilega lokið og farið að sækja meira að honum þegar vantar svör við alvöru spurningum.
Þegar repúblikanar töpuðu þingdeildunum í nóvember 2006 var ég sannfærður um að demókratar myndu vinna forsetakosningarnar 2008. Bæði hefði Bush þá setið í átta ár á forsetastóli og þreytan í garð repúblikana orðin talsverð. Ég er ekki eins sannfærður lengur. Ef repúblikanar taka kosningabaráttuna af trompi, eru óhræddir við Obama og þora að taka umræðuna af alvöru, eins og þeir hafa gert með umdeildri en árangursríkri auglýsingabaráttu, geta þeir alveg lagt Obama.
Þegar eru komnar sprungur í breytingamaskínuna hans Obama og augljóst að hann má eiginlega ekki við mörgum áföllum úr þessu. Í ofanálag finnst blökkumönnum Obama hafa gleymt sér. McCain getur með skynsömu varaforsetavali tryggt sér góða stöðu, en hann þarf að yngja framboðið og koma með ferskari ásýnd á það meðan Obama þarf að velja eldri frambjóðanda sem þó skyggir ekki á sig. Þar með er auðvitað Hillary útilokuð, enda myndi hún skyggja á hann í framboðinu.
Sýnist á öllu að margir sakni þó Hillary. Baráttan varð litlausari án hennar, hvað svo sem okkur öllum þykir um Hillary að þá er ekki um það deilt að hún er kjarnakona, og eiginlega má segja að fjarvera Hillary frá baráttu Obama geti bæði styrkt hann og veikt. Stuðningsmenn hennar margir hverjir virðast hafa ákveðið að segja pass, konurnar eru ansi margar fúlar og beita sér ekki af alvöru fyrir Obama og margir virðast ætla að sitja heima.
Við bætist að það er svolítið lélegt hjá Obama að guggna á boði McCain um viðræðufundi með þeim tveimur. Kappræðurnar þrjár eru standard og engin tíðindi að þær fari fram. Viðbótakappræður með líflegu formi hefði getað gert baráttuna enn snarpari og öflugri. En Obama er ekki góður í kappræðum, það sást í kappræðum demókrata þar sem Hillary glansaði jafnan, og óttast að gefa McCain höggstað á sér.
Flokksþingin eru nú framundan. Þar sem þau liggja saman að þessu sinni vegna Ólympíuleikanna verður áhugavert að sjá hvor frambjóðandinn kemur sterkari úr því ferli. Val á varaforsetaefnum munu líka skipta máli. Báðir frambjóðendur hafa augljóslega veikleika og þurfa að vanda valið vel á varaforsetaefnum til að styrkja sig á lokaspretti baráttunnar.
![]() |
Frambjóðendur hnífjafnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)