Alþýðuhetjan á Melanesi

Fannst mjög leitt að heyra af því að Ástþór á Melanesi, lamaður bóndi sem sinnir sínum verkum þrátt fyrir fötlun sína, hefði verið sviptur sérútbúnum landbúnaðarvélum sínum vegna einhverra smávægilegra vanskila. Undarlegt að gefa honum ekki þann tíma sem talað var um með fresti og er til skammar fyrir þá sem að koma að mínu mati.

Ég heillaðist mjög af sögu Ástþórs sem sögð var í heimildarmynd Þorsteins Jónssonar, Annað líf Ástþórs, sem sýnd var í Sjónvarpinu fyrir nokkrum mánuðum. Þar sýndi okkur hvernig lífsreynsla það er að þurfa að lifa öðru lífi þar sem fótunum er kippt undan manni í orðsins fyllstu merkingu. Dugnaðurinn og krafturinn í honum eru aðdáunarverð.

Í raun var helsta lexían fyrir okkur sem getum labbað um allt og gert það sem okkur langar til að við höfum í raun enga hugmynd um hversu erfitt er að missa undirstöðuna sem mestu skiptir. Eflaust gildir það um okkur flest að við hugsum aldrei um hvernig þetta líf er fyrr en við reynum það sjálf eða í gegnum veikindi nánustu ættingja.

Hvet Sjónvarpið til að endursýna þessa mynd um alþýðuhetjuna á Melanesi. Ætla svo rétt að vona að hann fái vélarnar sínar fljótlega.

mbl.is Lamaður bóndi sviptur sérbúnum vélum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hægt að drepa barnið sitt svona?

Ekki er hægt annað en fyllast óhug við að lesa um það hvernig konan í Dayton drap barnið sitt í örbylgjuofni. Hvernig er hægt að vera svona grimmur? Hvernig er hægt að drepa barnið sitt með svona grimmdarlegum hætti? Held að allir spyrji sig að þessu án þess að fá svar við hæfi.

Grimmdin í þessu máli á sér heldur ekkert rökrétt svar. Ef marka má dómskerfið í Bandaríkjunum má búast við að móðirin fái þungan dóm, jafnvel verði tekin af lífi fyrir morðið. Refsigleðin leysir kannski einhver vandamál en varla í þessu tilfelli.

Mannleg grimmd getur oft verið mikil en þegar hún drekkir sjálfri móðurástinni er eðlilegt að fólk verði bæði sárt og reitt. Enda erfitt að skilja hvernig móðir geti sett barnið sitt í örbylgjuofn og sett á fullan styrk.

mbl.is Fundin sek um að myrða barn sitt í örbylgjuofni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McCain trompar demókrata með valinu á Palin

John McCain og Sarah Palin Demókratar hafa átt mjög erfitt með að leyna gremju sinni yfir því að John McCain skyldi velja Söru Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. Valið er sem kjaftshögg framan í þá. Barack Obama þorði ekki að velja Hillary Rodham Clinton við hlið sér af ótta við að hún myndi skyggja á sig og gæti ekki trompað stjörnuljóma hennar og afskrifaði konu sem varaforsetaefni í kjölfar þess. Og nú fær hann það heldur betur framan í sig.

Sárindi demókrata eru augljós, enda hefur McCain gert það sem þeir vildu að sinn frambjóðandi gerði með því að velja konu í framboðið. McCain virkar líka djarfur og ákveðinn með valinu. Tekur pólitískar áhættur og fetar sögulegar slóðir innan síns flokks. Ef Obama hefði valið Hillary eða Kathleen Sebelius með sér hefði þessi umræða ekki komið upp og þeir ekki verið svo viðkvæmir. McCain nýtti sér einfaldlega traustan veikleika þeirra með snilldarbragði. Þeir eru algjörlega mát og veittu sjálfir höggstað á sér.

Fyrstu viðbrögð frá yfirstjórn kosningabaráttu Obama við valinu á Palin fólu í sér nokkra kvenfyrirlitningu þar sem reynsluleysið var dregið upp. Þar á bæ var gengið beint í gildruna; talað var um að Palin skorti þekkingu og vit á utanríkismálum. Þetta var algjört sjálfsmark hjá talsmanni Obama, enda var viðkomandi fljótlega tekinn úr umferð við að tjá sig um málið. Með þessu opnaði talsmaðurinn bæði á reynsluleysi Obama í pólitík og þekkingarleysi hans um utanríkismál, sem leiddi til þess að Joe Biden varð varaforsetaefnið.

Síðla kvölds gáfu svo Obama og Biden út yfirlýsingu þar sem talað var um sögulegt val á Palin, henni hrósað með hlýlegum lýsingum. Ég held að Obama og menn hans hafi séð að betra væri að þegja heldur en fara með málið sömu glapstigu og fólst í fyrstu yfirlýsingunni. Bara sú yfirlýsing ein leit út eins og kvenfyrirlitning og viðurkenning á reynsluleysi Obama. Af hverju valdi frambjóðandi breytinganna þingmann með 36 ára starfsreynslu bakvið tjöldin í Washington með sér í framboðið og fórnaði þar með breytingastimplinum? Því Obama hafði svo mikla reynslu? Onei.

Þarna var því gengið beint í gildruna. Í ofanálag vakti mikla athygli sérstök yfirlýsing frá Hillary Rodham Clinton þar sem hún talaði vel um Palin og hrósaði McCain fyrir að velja hana. Merkileg skilaboð. Í herbúðum demókrata, þar sem allir töldu sig vera með pálmann í höndunum eftir flokksþingið, þarf skyndilega að tækla þetta skynsamlega val hjá McCain. Og þeir eiga ekkert svar við því, ekkert traust og afgerandi. Held að demókratar hafi verið búnir að gera ráð fyrir því að Romney yrði valinn. Voru með heilt vopnabúr tilbúið gegn því. En þeir eiga ekkert svar nú.

Obama getur heldur ekki hjólað í Palin með þeim rökum að hún sé hluti af valdakerfinu. Hún er miklu hreinni af tengslum við Washington en hann sjálfur svo að það gengur ekki upp. Eftir stendur mögulega að hægt er að ráðast að henni fyrir hugsjónir sínar og persónulegan bakgrunn. En þeir komast stutt á því. Og með reynsluleysið. Palin hefur sem ríkisstjóri haft meiri tengsl í framkvæmdavaldið en Obama hefur nokkru sinni náð eða Biden ef út í það er farið. Þannig að varla verður séð hvernig þeir geti tæklað McCain eftir þetta val. Hann trompaði þá einfaldlega.

Fyrstu viðbrögðin hjá Obama og co voru svolítil karlremba. Þeir græða ekki mikið á því og auðvitað voru þeir fljótir að skipta um plötu. Ef framboðið talar áfram eins og talsmaðurinn í gær færir það McCain enn meiri tromp á hendi. Staðan er bara einföld: demókratar eiga ekki svar við þessu. Þeir geta kannski sótt Hillary og farið með hana hringinn í kringum landið. En hún er ekki varaforsetaefni. Hún er ekki í framboði. Þetta er dæmt til að mistakast. Obama hefur ekkert svar við fyrstu konunni í framboði fyrir repúblikana í forsetakjöri. Þvílíkur bömmer sem hlýtur að vera í þeim herbúðum nú.

Sumir spunameistarar demókrata fundu svo það eitt að Palin í gær að hún þekkti nú ekkert inn á Washington, vissi ekki hvernig pólitíkin það væri. Ekki hægt annað en hlæja að þessu, enda hefur McCain næga reynslu af Washington fyrir þetta framboð og það er skynsamlegt að hann vilji alvöru frambjóðanda breytinganna með sér; konu sem hvorki á heimili í Washington né er hluti af valdakerfinu þar. Þingið undir forystu demókrata er óvinsælla en Bush forseti svo að það er aðeins hrós að vera ekki með tengingar þar inn.

Þetta verða spennandi kosningar - annaðhvort verður fyrsti blökkumaðurinn forseti Bandaríkjanna eða fyrsta konan varaforseti Bandaríkjanna. Sögulegra verður það ekki. En ég held að allir séu sammála um það að McCain trompaði demókratana í gær. Enda eiga þeir ekkert svar við valinu. Þeir eru mát.

Bloggfærslur 30. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband