Morgan Freeman slasast alvarlega í bílslysi

Morgan Freeman Óskarsverðlaunaleikarinn Morgan Freeman slasaðist alvarlega í bílslysi í Mississippi í gær. Vonandi mun hann ná sér og eiga afturkvæmt í leikbransann mjög fljótlega. Freeman er einn þeirra bestu í bransanum og hefur á rúmum tveimur áratugum tryggt sér sess sem einn fremsti leikari sinnar kynslóðar og er heimsþekktur fyrir frábærar leikframmistöður.

Aðeins er um hálfur mánuður síðan ég sá nýjustu mynd hans, Batman-myndina The Dark Knight, í bíó, þar sem hann stóð sig mjög vel í hlutverki Lucius Fox, rétt eins og í Batman Begins. The Dark Knight er orðin ein sú vinsælasta í kvikmyndasögunni og slegið öll met sem hægt er að státa sig af og þegar komin á spjöld sögunnar á nokkrum vikum.

Ráðgert hafði verið að Freeman myndi leika Nelson Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, í nýrri kvikmynd The Human Factor á næsta ári og var stutt í að tökur myndu hefjast á henni. Vonandi mun Freeman ná heilsu og geta tekið þátt í því verkefni, enda enginn betri í það verkefni að leika Mandela í mynd um litríka ævi hans.

Morgan Freeman hefur alltaf verið meðal minna uppáhaldsleikara. Stærstu leiksigrar hans í The Shawshank Redemption og Driving Miss Daisy verða lengi í minnum hafðir þó að uppáhalds leikframmistöður mínar með honum séu reyndar Rawlins í Glory og Somerset í Se7en.

Svo er túlkun hans á boxþjálfaranum í Million Dollar Baby fyrir nokkrum árum mjög eftirminnileg, en hann fékk loksins óskarinn fyrir hana, seint og um síðir. Hann hafði beðið of lengi eftir verðlaununum.

Annars eru allar myndir Freeman eftirminnilegar hver á sinn hátt, enda hefur Freeman góða framsögn og er jafnvígur á drama og kómík.

mbl.is Morgan Freeman alvarlega slasaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekktustu tvíburar áratugarins frumsýndir

Vinsælar fjölskyldumyndir Allt frá því tilkynnt var að Angelina Jolie ætti von á tvíburum fylgdu fjölmiðlar málinu eftir af ótrúlegum áhuga og ekki undarlegt að þeir bjóðist til að borga fúlgur fjár fyrir að sjá þá. Aðeins þriggja vikna gömul þéna börnin milljónir og hægt að fullyrða að þetta verða ekki síðustu myndirnar sem fjölmiðlar keppast við að ná af þeim. Þeirra stjörnuglansi er ansi tryggður á næstu árum.

Annars er ekki svo galið að velta fyrir sér hvort það sé í lagi, í besta falli siðferðilega rétt, að selja myndir af börnunum sínum til hæstbjóðenda og farið með þau eins og markaðsvörur. En kannski er þetta bara eðli bransans í Hollywood að allt er til sölu og þar með börnin, seldur sé aðgangur að því og einkalífinu sem hlýtur að fylgja fæðingu barnanna.

En kannski eru foreldrarnir með sölunni að reyna að halda í við ásókn fjölmiðla að börnunum, enda vilja allir eiga fyrstu myndirnar. Sennilega verður þó aldrei sett stopp á það. Annars er frægðin oft dýru verði keypt, sennilega sést það best þegar frægt fólk selur aðgang að börnunum sínum til að eiga auðveldar með að eiga við fjölmiðla.

mbl.is Tvíburar „frumsýndir" á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband