Margdæmdur barnaníðingur fer í biblíuskóla

Ég varð alveg gáttaður þegar ég heyrði fyrst í fréttum að Ágúst Magnússon, margdæmdur kynferðisbrotamaður og barnaníðingur, sem er á reynslulausn, hafi fengið að fara í biblíuskóla í Uppsölum. Greinilegt er að fyrirkomulag á reynslulausn fanga á Ísland er mjög ábótavant og hlýtur að þurfa að stokka þau mál eitthvað upp.

Hver vill eiga börn á þessu skólasvæði með dæmdan kynferðisbrotamann á svæðinu. Sá í fréttum vitnað í að átján ára íslensk stelpa hafi verið í þessum skóla og ekki vitað hver maðurinn hafi verið. Ekki var tilkynnt öðrum á svæðinu að þarna væri margdæmdur barnaníðingur. Finnst það alveg fyrir neðan allt að hann hafi getað farið og það ekki verið tilkynnt sérstaklega.

Ekki aðeins þarf að svara hvers vegna þetta hafi átt að vera leyndarmál nokkurra einstaklinga heldur hver vilji verja siðferðislega þetta biblíuskólanám mannsins.

mbl.is Fjallað um Íslending á reynslulausn í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær Eimskip því að verða hundrað ára?

Eimskip Augljóst er að Eimskip riðar til falls. Björgólfsfeðgar ætla nú að reyna allt til að bjarga þessu forna veldi í íslenskri viðskiptasögu, sem þeir keyptu fyrir fimm árum í ævintýralegum viðskiptum. Mikill yrði skellurinn ef fyrirtækið færi á hausinn undir þeirra leiðsögn, en þeir hafa sofið allhressilega á verðinum með þá sem þeir hafa treyst fyrir stjórnun þess. Mikil eru mistökin.

Þegar Eimskip var stofnað árið 1914 var það kallað óskabarn þjóðarinnar. Mikill ævintýraljómi hefur verið yfir velgengni þess - merkileg saga er að baki. Hverjum hefði dottið í hug þegar Hörður Sigurgestsson lét af forstjórastarfi í Eimskip fyrir átta árum að innan áratugar yrði jafnvel ævintýrið mikla úti. Hörður skilaði mjög góðu búi þegar hann lét af störfum. Ljóst er að margt hefur farið á verri veg og öllu hefur verið sólundað í tóma vitleysu.

Eftir þingkosningarnar í fyrra velti ég því fyrir mér hvort Framsóknarflokkurinn næði að lifa fram að hundrað ára afmælinu árið 2016. Réttmæt spurning sem á enn vel við þegar Framsóknarflokkurinn nær ekki að notfæra sér kjöraðstæður til að endurreisa flokkinn við í skoðanakönnunum. Nú gildir hið sama um Eimskip. Strandar óskabarn þjóðarinnar á tíunda áratug starfsaldarinnar eða nær það að halda upp á aldarafmælið árið 2014?

Sex ár eru jafnan ekkert svo sérstaklega langur tími, en fyrir Eimskip í þessari stöðu er það kannski of langur tími til að tóra. Hver veit?

mbl.is Björgólfsfeðgar tilbúnir að bjarga Eimskip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barack Obama kallar Söru Palin svín með varalit


Ég er ansi hræddur um að Barack Obama hafi skotið sig illilega í fótinn með því að kalla Söru Palin svín með varalit í ræðu í Virginíu í kvöld. Engum duldist hvert skotið var ætlað. Obama virðist vera að missa sig algjörlega í persónulegum árásum á Söru Palin. Árásir gegn henni hafa orðið mjög persónulegar af hálfu Obama og Biden í dag, en sá síðarnefndi talaði frekar óviðeigandi um fimm mánaða son Palin, sem er með Downs heilkenni.

Hafði mest gaman af að skoða umræðurnar um klippuna á YouTube. Áhugavert spjall. McCain og Palin munu eflaust notfæra sér mjög vel þessi ummæli - fróðlegt að sjá hvaða áhrif þetta furðulega skot frambjóðandans muni hafa á kvennafylgið. Kannanir gefa til kynna að McCain hafi náð forskoti með kvennafylgið. Því er kannski varla furða að Obama sé orðinn eitthvað óstöðugur.

Hann er greinilega kominn í vörn og reynir að sækja að Palin til að endurheimta sess sinn í baráttunni fram að þessu. Palin hefur tekið það af honum, eins og ég benti á í bloggfærslu fyrr í kvöld. Er ekki viss um að þessar árásir styrki Obama mikið. Hann fær á sig allt aðra ímynd með svona ergju og virðist vera að fara á taugum í fylgistapinu.

Engin hreyfing á viðræðum við ljósmæður

Mikil vonbrigði eru að ekki hafi tekist að semja við ljósmæður. Var að vonast til að það myndi takast í kvöld. Get ekki betur séð en engin hreyfing sé í viðræðunum. Þetta er allt stopp og hlýtur að vera áhyggjuefni ef ekki tekst að klára þessi mál fljótlega. Eins og ég sagði í skrifum hér um daginn styð ég málstað ljósmæðra og finnst eðlilegt að þær setji upp kröfur eins og staðan blasir við þeim.

Væntanlega er þetta ekki besti tíminn fyrir þær að koma með miklar kröfur. Tímasetningin vinnur gegn þeim. Hinsvegar finnst mér mjög hart ef þær eiga að sitja hjá enn eina ferðina og ekki verði hægt að bæta kjör þeirra af alvöru að þessu sinni.

Annars finnst mér þjóðin almennt styðja ljósmæður og kröfur þeirra. Enginn vafi á því. Vona bara að samningar náist fljótlega, þó mér finnist hafa gengið ekki neitt í viðræðunum og fátt gerst sem skipti máli.

mbl.is Samningar tókust ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband