McCain heldur forskotinu - hræðsla demókrata

John McCain og Sarah PalinJohn McCain hefur nú í tæpa viku haft forskot í baráttunni um Hvíta húsið. Hann hefur nú haft lengur forskot en svo að það megi bara teljast sem táknræn fylgissveifla vegna flokksþings repúblikana. Augljóst er að valið á Söru Palin hefur breytt gangi baráttunnar og ekki aðeins styrkt framboðið heldur Repúblikanaflokkinn almennt.

Æ augljósara verður að stjörnuframmistaða Söru Palin í St. Paul voru mikil þáttaskil í þessari kosningabaráttu. Haldi þau flugi næstu vikurnar er alveg ljóst að þau eiga góðan séns á að vinna Hvíta húsið. Nú hefur McCain náð forskotinu í kjörmannamælingunni á electoral-vote.com og mælist sem sigurvegari. Þetta er í fyrsta skiptið sem það gerist eftir að ég fór allavega að fylgjast með síðunni eftir að ljóst var hverjir myndu berjast um Hvíta húsið fram í nóvember.

Eins og staðan er núna hefur Obama aðeins náð tveimur fylkjum af repúblikunum frá því í forsetakosningunum 2004; Colorado og Iowa. Það gerir sextán kjörmenn. Staðan er núna þannig að McCain hefur 270 kjörmenn en Obama 268. Kosningunum 2004 lauk með því að Bush hlaut 286 en Kerry 252. Kerry missti reyndar einn, sem studdi John Edwards í kjörmannasamkundunni. Árið 2000 var þetta tæpt eins og allir muna; Bush með 271 en Gore 267. Hann lenti í því sama og Kerry, missti einn kjörmann.

Fjöldi demókrata var farinn að búast við því snemma í sumar að leiðin væri greið fyrir Barack Obama í Hvíta húsið. Gárungarnir segja að hann hafi verið farinn að velja gluggatjöldin í forsetaskrifstofunni. Hann nýtti sumarið illa og greinilegt er að fjöldi demókrata telja nú heimsreisu Obama í júlí, sem átti að vera til að hífa upp reynslu hans í utanríkismálum, mikil mistök. Svo er greinilegt að flestir telja valið á Joe Biden sem varaforsetaefni mikil mistök. Meira að segja Biden sjálfur hefur viðurkennt það. Með Hillary sér við hlið hefði Obama minnkað mjög líkurnar á að McCain veldi Palin og hefði rammað inn kvennafylgið.

Í þessari frétt á Politico er farið nokkuð vel yfir hræðslu demókrata við að hið sama og hefur gerst skuggalega oft áður sé að endurtaka sig; að Obama verði misheppnaður frambjóðandi frá Norðurríkjum Bandaríkjanna rétt eins og John Kerry og Michael Dukakis. Gleymum því ekki að báðir núlifandi forsetar Bandaríkjanna af hálfu demókrata komu úr suðurríkjunum; þeir Bill Clinton (Arkansas) og Jimmy Carter (Georgía). Svo er greinilegt að demókratar óttast að leikurinn frá 2000 og 2004 sé að taka á sig sömu mynd árið 2008, ári sem demókratar áttu að eiga sviðið.

Ég velti því reyndar fyrir mér hvernig fylgismælingarnar verði næstu vikuna. Haldi McCain forskotinu næstu sjö dagana er ljóst að staðan hefur breyst umtalsvert og þungamiðjan í baráttunni færst á Söru Palin frá Barack Obama. Því er ekki undarlegt að demókratar vilji stöðva sóknarþungann sem hún hefur fært forsetaframboði repúblikana. Obama hefur ekki verið vanur að vera í vörn í þessari baráttu og er eiginlega ekki mjög skemmtilegur í því hlutverki. Hann hefur virkað sem úr fókus og er að fóta sig í nýrri baráttu eftir að Palin kom inn á sviðið.

Þessi frétt á vef Financial Times vakti líka athygli mína; sú staðreynd að demókratar séu farnir að óttast að hnignandi gengi Obama fari að skaða demókrata í þingbaráttunni. Ótrúlegur viðsnúningur og merkilegt að finna hversu demókratar eru orðnir hræddir við að vera komnir í tapaðan slag. Bendi allavega á þessar tvær ágætu fréttir um hræðslu demókrata við stöðuna. Þær eru ekki aðeins áhugaverðar heldur upplýsandi um hvað gerist bakvið tjöldin. Flestir vilja heimildarmennirnir ekki tala undir nafni en eru orðnir óttaslegnir um framhaldið.

Kannski fer það svo að demókratar sjá mjög eftir því að hafa ekki valið frambjóðanda reynslunnar sem forsetaefni; sjálfa Hillary Rodham Clinton. Við getum átt von á því að þau fyrstu sem stökkvi fram ef Obama tapar eftir fimmtíu daga verði Clinton-hjónin. Þau verða ekki lengi að notfæra sér tómarúmið sem verður innan Demókrataflokksins ef Obama mistekst að ná í Hvíta húsið og munu minna alla þá sem sviku þau á viðkvæmum tímapunkti á hversu mikil drottinssvik það hafi verið.


mbl.is McCain með forskot á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaráðherra kastar stríðshanska í ljósmæður

Mér finnst það vera eins og skrattinn úr sauðaleggnum að demba kærumáli framan í ljósmæður á viðkvæmum tímapunkti í samningaviðræðum við þær. Þetta er ekki Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, til sóma, frekar en svo margt annað sem hann hefur gert á síðustu misserum. Velti því reyndar fyrir mér hvað maðurinn sé að hugsa? Á kannski að slá ljósmæður niður með þessu og fá þær til að sætta sig við auman díl? Efast um að þetta sé gott upphaf á áframhaldandi viðræðum.

Eftir síðustu kosningar náðu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking saman um marga hluti, hafa orðið sammála um að vera ósammála um annað. En hvað með það. Samstaða náðist um að bæta meðal annars kjör ljósmæðra. Ef það tekst ekki bráðlega að leysa þessi mál farsællega, með vísan í þær heitstrengingar, verður talað um svik á loforðum af hálfu stjórnarflokkanna. Er það byrjað nú þegar.

Auðvitað má alltaf búast við að það taki tíma að semja í vandasömum deilum. En það er komið nóg. Meiri sómi væri af því hjá fjármálaráðherra að taka á málinu en með svona vinnubrögðum.

mbl.is Ljósmæður: Uppsagnir löglegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband