Enn ekki samið við ljósmæðurnar

Afleitt er að enn hafi ekki tekist að semja við ljósmæður. Fróðlegt væri þó að vita hvort ríkisstjórnin hafi komið með annað útspil í stöðuna á fundinum í dag. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, fór illa að ráði sínu með því að kæra ljósmæður undir lok síðustu viku og er það eitt mesta pólitíska sjálfsmark sem ég man eftir úr seinni tíð. Svona gera menn ekki, sagði Davíð Oddsson forðum daga þegar Friðrik Sophusson ætlaði að skattleggja blaðburðarbörn. Átti það vel við í þessu máli.

Ég hef ekki séð marga leggja í það verkefni að verja afstöðu ráðherrans. Í gær varði reyndar Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður frjálslyndra, það útspil að kæra ljósmæðurnar í Silfri Egils á meðan Sigurður Kári Kristjánsson og Dögg Pálsdóttir töluðu gegn því. Enda hver getur varið svona pólitísk afglöp? Mikilvægt er að þessi deila verði leyst með heiðarlegum viðræðum en ekki svona klúðri.

Afleitt er ef þessi verkfallsdeila verður lengri og erfiðari en orðið er. Nóg er nú samt orðið. Vonandi hefur einhver bent fjármálaráðherranum á það í réttunum um daginn, þegar hann gat ekki svarað spurningum fjölmiðlamanna.

mbl.is Samningar náðust ekki í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbréfahrun í kjölfar svarta sunnudagsins

Staðan á fjármálamörkuðum er ekki glæsileg á þessum morgni. Fallið á Lehman Brothers gefur til kynna hversu erfiðir tímar eru framundan. Hinn mikli reynslujaxl bandarískra efnahagsmála, Alan Greenspan, hefur spáð því að lægðin í Bandaríkjunum sé orðin það mikil að hún gerist aðeins einu sinni á öldinni. Hann spáir því að fallið muni því minna helst á svörtu mánudagana 1929 og 1987. Þegar farið að nefna gærdaginn svarta sunnudaginn.

Velti fyrir mér hvaða áhrif fall Lehman bræðra hafi hér á Íslandi. Væntanlega gerir hún Íslendingum æ erfiðar fyrir með lántökur. Fjárfestar á alþjóðavettvangi munu síður taka áhættur með lánveitingum til Íslendinga við þessar aðstæður. Annars er skjálftatíðnin á mörkuðum augljós um allan heim og algjör óvissa uppi.

Stóru tíðindin í endalokum Lehman Brothers eru þau að bankar ganga ekki lengur að því vísu að yfirvöld bjargi þeim. Eflaust eru þetta því nokkur þáttaskil í því sem koma skal.

mbl.is Skjálfti á fjármálamörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningahítin Nyhedsavisen

Ekki er hægt að segja annað en allt sem tengist Nyhedsavisen hafi endað sem hin mesta sorgarsaga. Tilraunin til að flytja hugmyndina á bakvið Fréttablaðið út endaði öðruvísi en ætlað var. Greinilegt er að hver vísar nú á annan um hvern eigi að draga til ábyrgðar fyrir tilraunina og endalokin margfrægu. Þeir sem urðu fyrir mestu áfallinu hér líta flestir til Morten Lund.

Nýjasta innleggið um að Lund hafi verið fenginn til að keyra blaðið í þrot og stöðva það af vekur vissulega athygli. Sú spurning sem hefur þó verið lengst í huga mér þegar hugsað er til Nyhedsavisen er þó sú hvert allir peningarnir voru sóttir sem enduðu í þessari miklu fjármunahít. Var viðskiptavitið til staðar þegar þessi för var planlögð?


mbl.is Grunuðu Lund um græsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband