Sundrung frjálslyndra - dauðvona flokkur

Kristinn H. GunnarssonEkki verður annað séð en Frjálslyndi flokkurinn sé dauðvona. Hann er að klofna upp og ganga frá sjálfum sér á þeim tímum þegar sóknarfæri stjórnarandstöðuflokka ætti að vera sem mest. Miðstjórn flokksins er farin að sækja sér ægivald yfir Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni flokksins, og skipa honum fyrir verkum með eftirlaunafrumvarpið og senda út skilaboð um hvernig gera eigi hlutina. Hvergi annarsstaðar tíðkast að miðstjórnin drottni yfir formanni og tali niður til hans.

Og svo er greinilega verið að veita Kristni H. Gunnarssyni náðarhöggið sem þingflokksformanni. Dagar hans í því hlutverki eru greinilega taldir og fylkingin að baki Jóni Magnússyni farin að sækja sér ægivald í flokknum. Ef marka má skilaboðin frá miðstjórninni er þess ekki langt að bíða að hópurinn sem styður Jón og sennilega Magnús Þór Hafsteinsson sæki sér full yfirráð yfir flokknum. Farið er að tala um Guðjón Arnar sem fortíð í pólitík, bæði af þeim sem hafa varið hann eða stutt.

Ég held að þessi flokkur muni deyja pólitískt þegar Guðjón Arnar lætur af formennsku. Honum var það að þakka að flokkurinn náði flugi. Með persónufylgi sínu fyrir vestan náði Guðjón Arnar kjöri með glæsibrag í alþingiskosningunum 1999 og tók Sverri Hermannsson með sér inn. Án þessa kjarnafylgis í gamla Vestfjarðakjördæmi hefði Frjálslyndi flokkurinn aldrei náð flugi. Þegar Guðjón Arnar fer út úr pólitík fer undirstaða flokksins með honum.

Þetta er þegar að verða eins og fjölskylda sem berst um ættargóssið, fjölskyldusilfrið og fallegu málverkin á veggjum forfeðranna. Þegar átökunum lýkur verður allt sem innanhúss er orðið verðlaust og gott betur en það. Magnús Þór er pólitískt landlaus, situr ekki á þingi og hefur veikst gríðarlega í sessi sem varaformaður.

Erfitt er um það að spá hver nær yfirráðum í þessum glundroða en ljóst er að Kristinn H. er búinn að mála sig út í horn með því að bakka ekki upp innflytjendastefnuna. Fróðlegt verður það ef Kristinn H. endar í Samfylkingunni eftir áratug á flokkaflakki, eftir að Alþýðubandalagið geispaði golunni og rann inn í Samfylkinguna.

Þá fór Kristinn H. í Framsókn til að standa vörð um stöðu sína en fór þaðan við illan leik eftir að hafa misst stuðning allra fylkinganna þar - orðinn pólitískt landlaus. Þá bjargaði Guðjón Arnar Kristjánsson honum frá pólitískum endalokum og hann hélt þingsætinu með eftirminnilegum hætti.

Kannski fer hann heim. Ef Kristinn H. yfirgefur flokkinn sem hefur þegar snúið við honum baki er hann kominn í fjórða flokkinn á sautján ára þingferli. Slær þá meira að segja við Hannibal Valdimarssyni.


mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röggsemi á borgarstjóravakt

Hanna Birna Kristjánsdóttir Mér finnst Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hafa farið vel af stað í embættisverkum sínum. Mikilvægt var að borgarbúar fengju borgarstjóra með traust umboð og gott bakland að baki sér í stað þess veikleika og sundrungar sem einkenndi verk Ólafs F. Magnússonar á þeim rúmu 200 dögum sem hann var borgarstjóri.

Hanna Birna er röggsöm og afgerandi í verkum sínum, eins og sést hefur af framgöngu hennar að undanförnu. Mjög sniðugt er hjá henni að fara í heimsókn í stofnanir borgarinnar, ræða við fólk og taka þátt í starfinu þar. Þessi símsvörun er kannski ekki langtímaverkefni en bara það að taka þessi verkefni að sér gerir það að verkum að borgarstjórinn virkar ekki eins og fjarlæg toppfígúra.

Mér finnst Hanna Birna vera traustasti borgarstjórinn sem setið hefur við völd á þessu kjörtímabili. Vonandi mun henni takast að færa borginni styrka og afgerandi stjórn til að taka á lykilmálum. Mikilvægt er að glundroðaskeiðinu ljúki og hægt verði að hugsa um annað en reyna að halda völdum. Síðustu tólf mánuðir hafa verið niðurlægingartímabil fyrir borgarstjórn Reykjavíkur en vonandi eru betri tímar í vændum.

Ef Hanna Birna heldur áfram á þessari braut er ég viss um að henni mun takast að snúa vörn í sókn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Verkefnið verður ekki einfalt en allir sjálfstæðismenn í borginni hljóta að vera ánægðir með að hafa eignast traustan og afgerandi forystumann sem leiðir hópinn af röggsemi og krafti.

mbl.is Símadama á borgarstjóralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllingsfréttir á markaðnum

Sama er hvert litið er, allsstaðar eru fyrirtæki í erfiðleikum. Þeir eru þó mismiklir og erfitt að átta sig á því hversu slæm staðan er, þó vel sé ljóst að hún muni varla batna bráðlega. Ég vorkenni eiginlega mest Sindra á Stöð 2 að þurfa að mæta á hverjum degi með þessar hryllingsfréttir sem markaðsmálin eru og reyna að brosa meðan þær eru lesnar. Varla skemmtilegt verkefni.

Þegar traustar stoðir eins og Nýsir eru farnar að gefa sig er eðlilegt að spyrja sig hvaða fyrirtæki eigi góða daga í þessu mótstreymi. Fylleríið er svo sannarlega búið og timburmennirnir verða svæsnir í haust og sennilega mestallan vetur hið minnsta.

mbl.is Nýsir á barmi gjaldþrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ike kominn í heimsókn á norðurhjara

Ike í Texas Jæja, þá er Ike kominn í heimsókn. Þó eitthvað sé hann orðinn útvatnaður og rólegri en þegar hann fór yfir Texas er hann nógu öflugur og yfirgnæfandi fyrir okkar smekk. Hér fyrir norðan er veðrið að versna og væntanlega mun rokið aukast eftir því sem líður á nóttina. Var að heyra í vinum mínum fyrir sunnan og fannst nóg um lýsingarnar á veðrinu þar, þar sem hvín og syngur í öllu.

Mér finnst eiginlega fátt ömurlegra en vindgnauðurinn sem fylgir svona óveðri. Gersamlega óþolandi. Ég horfði áðan á kvikmyndina Key Largo með hjónunum Humphrey Bogart og Lauren Bacall, og Edward G. Robinson. Er mjög viðeigandi að horfa á myndina í þessu roki, því myndin gerist meðan að fellibylur gengur yfir og hávaðarok og það tónaði ágætlega við rokið hérna á Akureyri meðan að myndin var í tækinu.

Ætla að vona að Ike fari jafnskjótt og hann kom. Ekki skemmtilegt að hafa hann í heimsókn. Hef hugsað um hverjum Ike er nefndur eftir. Er það rokkgoðið margfræga Ike Turner eða Ike Eisenhower forseti?

mbl.is Mörg útköll vegna óveðursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband