Davíð greinir stöðuna og talar tæpitungulaust

Davíð Oddsson Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, talaði enga tæpitungu í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2. Hann greindi stöðuna algjörlega afdráttarlaust og var ekki að spara stóru orðin um menn og málefni. Mér fannst Davíð greina stöðuna ágætlega; hann talaði af yfirsýn og þekkingu um öll lykilmál.

Mér fannst sérstaklega gott að heyra Davíð tala niður viðurnefnið Íslandsálag sem bankarnir eru að reyna að klína á stöðuna. Auðvitað er þetta mikil hugtakabrenglun. Bankaálag er mun meira viðeigandi í ljós þess að íslenska ríkið er nánast skuldlaust á meðan bankarnir eru mjög illa staddir og skulda mjög mikið. Mikilvægt er að passa upp á að bankarnir spinni þetta ekki að sinni vild.

Davíð hefur alla tíð verið umdeildur og eflaust eru margir ósáttir við túlkun hans og tjáningu um lykilmál. En helsti kostur hans er að tala til þjóðarinnar, bæði afdráttarlaust og hefur sig algjörlega upp úr meðalmennskublaðri. Þetta var helsti styrkleiki Davíðs sem stjórnmálamanns. Hann talaði kraft og kjark í þjóðina meðan hann var forsætisráðherra og talaði barlóm og rausið niður. Þess vegna hefur hann sennilega verið hataður af sumum landsmönnum.

Davíð var miklu afdráttarlausari og ákveðnari í tali í dag en Geir H. Haarde, forsætisráðherra. Ummæli hans hurfu algjörlega í skuggann af greiningu Davíðs á stöðunni. Í og með sýnir það styrkleika Davíðs enn í dag. Hann er einfaldlega á allt öðrum skala en allir þeir sem tala um þessi mál, einkum í stjórnmálunum. Enda virðist enginn gnæfa yfir meðalmennskuna í íslenskri pólitík um þessar mundir. Meðalmennskan og daufleikinn er algjör.

Davíð stuðar en hann stendur svo sannarlega fyrir sínu.


mbl.is Davíð segir að krónan muni ná sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skagamenn falla

Ekki er hægt annað en vorkenna Skagamönnum með fallið úr úrvalsdeildinni. Í allt sumar hefur verið augljóst að eitthvað væri stórlega að hjá liðinu og þeir náðu aldrei takti, voru sálrænt undir miklu álagi og sukku sífellt dýpra í myrkrið. Þjálfaraskiptin breyttu ekki neinu, voru fyrir það fyrsta framkvæmd of seint og vita vonlaust að ná að breyta til á þeim tímapunkti. Tvíburunum tókst þetta síðast en náðu ekki að snúa ógæfunni við, þeir voru allavega það djarfir að taka áhættuna.

Auðvitað eru það alltaf stórtíðindi þegar stórveldi falla úr úrvalsdeildinni. Skagamenn tóku skell, svipaðan þeim sem þeir hafa átt í að undanförnu, fyrir tveim áratugum en náðu svo að komast aftur í úrvaldsdeildina og áttu samfellda sigurgöngu í fimm ár og drottnuðu yfir deildinni. Þó Skagamenn hafi aðeins einu sinni síðasta áratuginn náð að verða Íslandsmeistarar hafa þeir haft stóran sess í boltanum og verður eftirsjá af þeim.

Nú er svo að sjá hvort þeir muni eiga jafn trausta endurkomu í úrvalsdeildina og í upphafi gullaldartímans á tíunda áratugnum eða hvort við taki þrautaganga í fyrstu deildinni í nokkur ár.


mbl.is KR sendi Skagamenn í 1. deild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall fyrir þjóðkirkjuna

Kynferðisafbrotamál sóknarprestsins á Selfossi er mikill harmleikur fyrir þjóðkirkjuna og alla sem koma að þessu máli. Presturinn verður sá fyrsti í sögu þjóðkirkjunnar sem ákærður er fyrir brot af þessu tagi og hlýtur málið að teljast áfall fyrir þá stofnun sem hann starfar í, enda er svona alvarlegt mál ekki trúnaðarmál þeirra sem að því koma.

Eitt af því sem kom mér mest á óvart í þessu máli var að til væri fagráð um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar. Enn hefur þeirri spurningu ekki verið svarað hversu mörg mál hafi komið þar inn á borð frá stofnun fagráðsins, þó auðvitað sé þetta mál á Selfossi löngu orðið einstakt að umfangi og alvarleika.

Svona dapurleg mál vekja athygli og skaða það starf sem unnið er hjá kirkjunni að mínu mati. En mikilvægt að úrræði séu til staðar til að taka á málum innan kirkjunnar sem stofnunar.

mbl.is Séra Gunnari veitt lausn frá embætti tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndir í upplausn - uppreisn gegn formanni?

Guðjón Arnar KristjánssonSundrungin og sjálfstortímingin innan Frjálslynda flokksins tekur enn á sig nýjar myndir. Uppreisnin gegn Kristni H. Gunnarssyni er að snúast upp í uppreisn gegn Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni flokksins, ef marka má yfirlýsingar Valdimars Jóhannessonar. Miðstjórn flokksins og einstaka fulltrúar í henni eru farnir að sækja sér ægivald yfir formanni flokksins og skipa honum fyrir verkum í nafni stöðu sinnar innan miðstjórnar og senda honum tóninn í fjölmiðlum.

Mér finnst athyglisvert að sjá Valdimar koma fram með þessum hætti. Litlu munaði að Guðjón Arnar tryggði þessum manni þingsæti á kosninganótt 1999. Eins og flestir ættu að muna náði Guðjón Arnar kjördæmakjöri í Vestfjarðakjördæmi og tryggði þar með undirstöðu flokksins allt fram á þennan dag á persónulegu fylgi sínu. Framan af kosninganótt var Valdimar Jóhannesson inni sem alþingismaður í jöfnunarsæti í Reykjaneskjördæmi en féll síðla nætur þegar stofnandinn Sverrir Hermannsson náði sætinu af Valdimar.

Frjálslyndi flokkurinn virðist vera orðinn stjórnlaus. Fylkingarnar eru greinilega að riðlast og mér finnst umvandanir og skipanir til formannsins helst minna á tilraunir til uppreisnar og yfirtöku á flokknum. Talað er til Guðjóns Arnars eins og hann sé aukapersóna í flokknum en ekki undirstaða hans og styrkasta stoð. Þetta er nokkur breyting. Þrátt fyrir alla ólguna til þessa hefur staða Guðjóns Arnars jafnan verið trygg og enginn reynt að tala svona til hans.

Margrét Sverrisdóttir lagði ekki í formannsframboð á sínum tíma gegn Guðjóni, sem hefði þó verið það skynsamlegasta enda ekki séð hvernig hún gæti unnið með Guðjóni Arnari eftir að hann tók afstöðu gegn henni og síðar studdi Magnús Þór til varaformennsku gegn henni. Klofningur flokksins á þeim tíma var óumflýjanlegur. Þar var uppgjör um persónur en nú virðist vera sótt að Guðjóni Arnari bæði vegna persóna og málefna. Hann er eiginlega beðinn um að slá af Kristinn H. og fara eftir valdi miðstjórnar í tilteknu máli. 

Yfirlýsing Valdimars Jóhannessonar er skýrasta dæmið um að hlýði Guðjón Arnar ekki sér og þeim sem fylgja Jóni Magnússyni að málum muni vera sótt ekki aðeins að Kristni H. heldur og honum sjálfum, formanninum og undirstöðu flokksins. Pólitískt er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi. Vissulega eru það tímamót en gera klofnings- og sundrunarmálin innan flokksins enn áhugaverðari og spennandi. Þetta er flokkur með mikil innanmein og virðist á góðri leið með að falla fyrir eigin hendi á kjörtíma.

Þvílíkt drama á einum stað. Stóra spurningin er nú hvort formanninum verði steypt af stóli á næsta landsfundi og ráðist verði að þeim. Allir vita að Guðjón Arnar sótti Kidda sleggju prívat og persónulega. Hann fékk þingflokksformennskuna úr hendi Guðjóns Arnars. Upphefð hans, sem er mikill þyrnir í augum fulltrúa Nýs afls innan flokksins, kom úr hendi Guðjóns Arnars. Aðför að honum nú er aðför að Adda Kitta Gau.

Hvernig verður annars samstarfið í þessum þingflokki í vetur? Einn þingmanna búinn að lýsa yfir vantrausti á þingflokksformanninn, samherjar sama manns eru búnir að senda út stríðsyfirlýsingar á þingflokksformanninn og formann flokksins um að hlýði þeir ekki muni þeir koma í bakið á þeim báðum, ekki síður Guðjóni. Þetta valdadrama á eftir að verða áhugavert í vetur.


mbl.is Glymur klukkan Kristni eða Guðjóni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pósthólf Söru opnað - netföng og frambjóðendur

Sarah Palin Sarah Palin heldur áfram að vera í aðalhlutverki í baráttunni um Hvíta húsið þegar sjö vikur eru til kjördags. Hún er miðpunktur athyglinnar og hefur hleypt nýju lífi í kosningabaráttu repúblikana og mun fleiri koma á kosningafundi með John McCain eftir að hún var kynnt til leiks. Sú athygli er þó ekki öll jákvæð, eins og hefur sannast nú af því að hakkarar brjótast í einkapóst hennar.

Fyrir nokkrum dögum voru demókratar að gera grín að McCain í auglýsingu því hann gæti ekki notað tölvu og skrifað tölvupóst. Sú gagnrýni var frekar hol í ljósi þess að McCain getur ekki notað lyklaborð vegna stríðsáverka og getur t.d. ekki lyft höndum sínum eðlilega upp. Fróðlegt verður að sjá hvort ráðist verði nú að Söru Palin fyrir að hafa ekki skoðað pósthólfið sitt á yahoo svo dögum skipti. Hún hefur greinilega ekki skoðað það um skeið.

Nokkrir forsetaframbjóðendur töluðu mikið um það að þeir sendu ekki tölvupóst. George W. Bush sagði í kosningabaráttunni 2000 að hann væri ekki með netfang og hann hefur alveg örugglega ekki komið sér upp einu slíku í Hvíta húsinu. Að sögn gárunga sagði Al Gore eitt sinn að hann hefði fundið upp internetið svo hann hefur örugglega verið með netfang á árum sínum í Hvíta húsinu. Bill Clinton notaði ekki tölvupóst á árum sínum í Hvíta húsinu. John Kerry spurði eitt sinn á fundi hvað þetta at-merki þýddi eiginlega.

Barack Obama hefur verið með mjög tæknivædda kosningabaráttu og mun örugglega verða fyrsti forseti Bandaríkjanna með tölvupóstfang í Hvíta húsinu ef hann nær kjöri á meðan John McCain mun örugglega ekki vera með tölvu við hendina. Hvað varðar Söru Palin er stóra spurningin eflaust hvort hún ætlar að halda yahoo-netfanginu og nota það í Hvíta húsinu verði hún varaforseti Bandaríkjanna fyrst kvenna.

mbl.is Tölvuþrjótar komust í póstinn hjá Palin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tzipi Livni markar söguleg skref í Ísrael

Tzipi Livni Kjör Tzipi Livni í leiðtogastól Kadima markar þáttaskil í ísraelskum stjórnmálum. Þó kemur stórsigur hennar í leiðtogakjörinu fjarri því að óvörum. Hún hóf sig upp til metorða undir leiðsögn Ariel Sharon og var einn af helstu ráðgjöfum og bandamönnum hans á þeim tæpu fimm árum sem Sharon var forsætisráðherra Ísraels. Á innan við áratug varð hún lykilpersóna í stjórnmálalitrófi Ísraels.

Þegar Sharon fékk heilablóðfall fyrir tæpum þremur árum varð Livni utanríkisráðherra, aðeins önnur kvenna í sögu Ísraelsríkis og var fulltrúi Sharon-hópsins við völd. Hún lék lykilhlutverk í stofnun Kadima vikurnar á undan og hafði fylgt Sharon úr Likud á þeim örlagatímum þegar flokkurinn klofnaði. Sharon hafði verið einn stofnenda flokksins árið 1973 en beygði sig ekki undir vald harðlínukjarnans og tók mikla pólitíska áhættu með því að segja skilið við flokkinn og stofna Kadima (Áfram).

Sharon var í kjölfarið með öll völd í hendi sér og fékk fornan andstæðing í ísraelskum stjórnmálum, Shimon Peres, fyrrum forsætisráðherra, í lið með sér við stofnun flokksins. Allt benti til yfirburðasigurs Sharons og honum myndi takast að segja skilið við ísraelsk stjórnmál á toppi ferilsins. Veikindin bundu enda á litríkan stjórnmálaferil og nánustu samstarfsmenn hans voru lengi að fóta sig eftir þau þáttaskil sem óneitanlega fylgdu endalokum hans í pólitísku starfi.

Þegar Sharon stofnaði Kadima var talið öruggt að hann vildi að Livni yrði eftirmaður hans á forsætisráðherrastóli fyrir mitt kjörtímabilið. Í tómarúminu sem fylgdi veikindum Sharons náði Ehud Olmert, fyrrverandi borgarstjóri í Jerúsalem, lykilstöðu og það varð hlutskipti hans að taka við Kadima. Kadima vann góðan kosningasigur nokkrum vikum eftir að Sharon veiktist, þó mun minni en spáð hafði verið í könnunum og að mestu út á minninguna um stofnandann sem tók hina miklu áhættu, þá mestu á sínum ferli, með því að kljúfa Likud, sem var í rústum eftir.

Allir vita eftirleikinn. Olmert náði aldrei almennilegum tökum á forsætisráðherraembættinu. Fylgi Kadima hefur hrunið í leiðtogatíð hans, að mestu vegna hneykslismála og vandræðalegra afglapa í utanríkismálum, einkum Líbanon-málinu sem næstum gerði út af við stjórnmálaferil Olmerts um mitt árið 2007. Undir pólitískri leiðsögn Olmerts hefur Likud náð vopnum sínum og hefur nú sterka stöðu í könnunum og virðist líklegt að Benjamin Netanyahu takist að byggja flokkinn upp aftur sem hið mikla stórveldi á dögum Sharons.

Ariel Sharon lifir enn. Hann varð áttræður í febrúar og er enn í dái á hjúkrunarstofnun í Jerúsalem. Þegar ár var liðið frá því hann fékk heilablóðfallið sem batt enda á feril hans var stóra spurning allra fjölmiðlanna þar hvað hann myndi segja ef hann vaknaði upp við hina pólitísku stöðu í landinu. Á innan við ári gekk Olmert frá pólitískum styrkleikum þeim sem Sharon lét eftir flokknum í arf og var búinn að gera út af við eigin feril. Fjarri því er víst að takist að laga þann skaða.

Allir helstu pólitísku ráðgjafar og stuðningsmenn Sharons lögðu mikið á sig til að tryggja sigur Livni. Hún stendur nú vörð um pólitíska arfleifð hans og hefur í hendi sér hvort Kadima verði lykilafl áfram í ísraelskum stjórnmálum. Og nú reynir hún að mynda stjórn. Hún fylgir í fótspor Goldu Meir bæði sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra og opnar nýjan kafla í pólitík landsins, ekki aðeins fyrir konur heldur og við að tryggja Kadima framhaldslíf eftir afglöp Olmerts á valdastóli.

Sögulegur sess Livni við hlið Goldu Meir í pólitískri sögu Ísraels mun ráðast fyrst og fremst að því hvort henni tekst að mynda stjórn fljótt og vel - koma með því Olmert úr embætti afgerandi og traust - og hvort henni takist að verja pólitískt vígi Ariels Sharons.

mbl.is Livni kjörin leiðtogi Kadima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband