Svartir englar ekki á Dagvaktinni

Dagvaktin Ég er mjög ánægður með að Þórhallur og Pálmi, dagskrárstjórar Sjónvarpsins og Stöðvar 2, komu í veg fyrir að Dagvaktin og Svartir englar tímasettir á dagskrá á sama kjörtíma á sunnudagskvöldi. Ekki hefur verið það mikið af vönduðu leiknu sjónvarpsefni að nú þegar framboðið er meira sé það keyrt á hvort annað.

Enda er miklu betra að geta horft á annan þáttinn í rólegheitum og skipt svo yfir og horft á hinn. Hef miklar væntingar bæði til Dagvaktarinnar og Svartra engla og ætla mér, eins og örugglega flestir sjónvarpsáhorfendur, að horfa á báða þætti og njóta þess að íslenskt leikið efni sé á kjörtíma á báðum stöðvunum.

Vissulega er gott að úrval sé af leiknu efni og hægt sé að velja um á sama kvöldinu hvort horft sé á tvo þætti mjög vandaða. En mér finnst betra að hægt sé að horfa á það án þess að hafa áhyggjur af því hvort eigi að horfa á eða velja þurfi á milli. Held að báðir aðilar græði á þessu samkomulagi um að tryggja gott íslenskt sjónvarpskvöld á báðum stöðvum án þess að klessa því saman.

Annars vil ég hrósa bæði Pálma og Þórhalli. Grunnkrafa er að stöðvarnar, einkum ríkisrekin sjónvarpsstöð, bjóði áhorfendum upp á íslenskt sjónvarpsefni, sérstaklega leikið efni. Ríkisútvarpið hefur ekki staðið sig í þessum efnum í árafjöld en er loksins að taka sig á.

mbl.is Báðir þættir fá að njóta sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð niðurstaða fyrir ljósmæður

Ég vil óska ljósmæðrum innilega til hamingju með nýsamþykktan kjarasamning og langri kjaradeilu þeirra sé lokið farsællega með góðri niðurstöðu. Auðvitað hefði verið betra ef samningar hefðu tekist án aðkomu ríkissáttasemjara en þetta ætti að teljast góð útkoma miðað við allar aðstæður. Þær tóku slaginn og komu sem sigurvegarar út úr því ferli.

Ljósmæður fengu stuðning þjóðarinnar með mjög afgerandi hætti í þessari kjaradeilu og ég held að mjög vel hafi sést í almennri umræðu, bæði hér á netinu og eins í spjalli almennings, að þær höfðu traustan meðbyr í sínum kröfum. Þær koma mjög sterkar út úr þessu og hafa styrkt stöðu sína mjög mikið.


mbl.is Miðlunartillagan samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsveifla á föstudegi

Mikið er það nú ánægjuleg tilbreyting að sjá jákvæðan viðsnúning á mörkuðum og vonandi er þetta aðeins upphafið á jákvæðum fréttum á næstunni. Eiginlega hefur það helst líkst svæsinni hryllingsmynd að fylgjast með mörkuðunum að undanförnu og þróunin í þessari viku helst líkst martröð. Því verða jákvæðu tíðindin alltaf miklu notalegri í svona ástandi.

Ekki er gott að spá um hvort uppsveiflan haldi áfram og botninum sé náð. Væntanlega mun þetta rokka upp og niður meira á næstunni og ekki öruggt með stöðugleikann. En jákvæðu dagarnir sannfæra allavega almenning að það mun birta upp um síðir, þegar við höfum tekið út timburmennina eftir fjármálafylleríið.

mbl.is Allt á uppleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband