Fordómar í Bandaríkjunum á sögulegu kosningaári

Obama-hjónin Í fyrsta skipti í bandarískri stjórnmálasögu á þeldökkur maður raunhæfa möguleika á því að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna. Barack Obama hefur sýnt og sannað að hann hefur stöðu og styrk í að hljóta forsetaembættið. En skv. könnunum skiptir enn máli fyrir þriðjung kjósenda hvort frambjóðandinn er þeldökkur eða hvítur. Vonandi munu þessir fordómar ekki ráða úrslitum.

Vissulega er þetta mjög kuldalegt mat og dapurlegt að staðan sé með þeim hætti að fordómar grasseri enn gegn þeldökkum og þeldökkum sé ekki treyst fyllilega fyrir valdaembættum. Fjórir áratugir eru liðnir frá því að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King var myrtur í Tennessee. Morðið á honum var áfall fyrir blökkumenn sem höfðu barist undir forystu hans fyrir mannréttindum sínum og komist nokkuð áleiðis með mannréttindalögum Johnsons forseta árið 1964, sem hann hafði tekið í arf frá John F. Kennedy, forvera sínum, sem myrtur var í Texas árinu áður og hafði talað mjög fyrir réttindum blökkumanna.

Þrátt fyrir að dr. King ætti sér draum um samfélag þar sem allir væru jafnir óháð litarafti hefði hvorki honum né þeim sem gengu með honum í Washington árið 1963 órað fyrir því að nokkrum áratugum síðar ætti blökkumaður alvöru möguleika á að komast alla leið í Hvíta húsið, þó þeim hafi eflaust innst inni dreymt um þann möguleika. Aðeins fjórir þeldökkir (utan Obama) hafa gefið kost á sér til forsetaembættis. Þeirra þekktastur er Jesse Jackson, sem barðist fyrir útnefningu demókrata árin 1984 og 1988, en auk hans hafa Al Sharpton, Shirley Chisholm og Carol Elizabeth Moseley Braun gefið kost á sér.

Mikið var skorað á Colin Powell, hershöfðingja í Persaflóastríðinu, um að gefa kost á sér í forsetakosningunum 1996 sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Kannanir sýndu að hann átti góða möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna. Hann velti fyrir sér þeim möguleika að fara fram af alvöru, en ákvað þó að gefa ekki kost á sér. Eiginkona hans, Alma, var mjög andsnúin framboði hans, af ótta við að hann yrði myrtur færi hann í framboð og myndi sigra Bill Clinton. Powell hefur margoft sagt þá ákvörðun rétta. Powell varð fyrsti þeldökki utanríkisráðherrann árið 2001, í forsetatíð George W. Bush, sem valdi þeldökka konu sem eftirmann hans.

Margoft hefur verið velt fyrir sér þeim möguleika að blökkumaður yrði forseti Bandaríkjanna og það verið stílfært í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Í upphafi áratugarins var það lykilsöguþráður í fyrstu sjónvarpsseríu þáttaraðarinnar 24 að ráða ætti þeldökkan forsetaframbjóðanda, David Palmer, af dögum, en hann var þá í fararbroddi þeirra sem sóttust eftir útnefningu Demókrataflokksins. Litlu munaði að þeim tækist það, en atburðarásin tók á sig ýmsar myndir er yfir lauk. Í annarri seríu var Palmer orðinn forseti, fyrstur þeldökkra, og söguþráðurinn snerist enn að mestu um hann. Hann var að lokum myrtur í fimmtu seríunni.

Auðvitað er það tímanna tákn að þeldökkur maður geti orðið valdamesti maður heims og verður söguleg þáttaskil í stjórnmálasögunni gerist það á þessu ári. En auðvitað er frekar leitt að enn sé þeldökkum ekki fyllilega treyst eða gefið í skyn að blökkumaður verði sjálfkrafa myrtur komist hann nærri flokksútnefningu eða vinni baráttu um Hvíta húsið. Kannski er þetta bara enn hinn blákaldi raunveruleiki.

Enn eru því miður til valdamiklir hópar sem vilja ekki að blökkumaður verði valdamesti maður heims og munu berjast harkalega gegn því á þeim forsendum einum. Fordómarnir lifa enn, því miður.

mbl.is Kynþáttafordómar gætu kostað Obama sigurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkur Gísla

Ég dáist að styrk Gísla Sverrissonar og fjölskyldu hans við erfiðar aðstæður. Held að okkur öllum hér fyrir norðan sé hugsað til þessarar fjölskyldu á erfiðum tímamótum sem fylgja alvarlegum veikindum Gísla, eftir að hann varð fyrir mænuskaða fyrr í þessum mánuði. Mikilvægt er að þau finni fyrir stuðningi og hlýjum hugsunum nú.

Viðtalið við Gísla í Íslandi í dag í gærkvöldi sýndi vel að hann er baráttumaður sem ætlar ekki að láta þetta slá sig út af laginu, hann ætlar að berjast og reyna að ná einhverju af fyrri styrk. Auðvitað er það mikið áfall fyrir ungan mann og fjölskylduna alla að þurfa að horfast í augu við þessi veikindi en styrkur þeirra er mikils virði í því.

Auðvitað eru það þung örlög að verða fyrir svo þungu höggi og þurfa að berjast fyrir því einu að hreyfa sig. Þjóðin hefur stutt mjög vel þá sem hafa orðið fyrir mænuskaða og söfnunin í gær sýndi mjög vel stöðu þeirra mála.

mbl.is Gengið fyrir Gísla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu mikils virði er saklaus sál?

Fátt er auvirðilegra en koma illa fram við börn, hvort sem þau eru beitt ofbeldi eða stolið af þeim. Merkilegast af öllu merkilegu í fréttinni um manninn sem dæmdur var fyrir að stela peningum af tveggja ára stelpu er hversu þungan dóm hann hlaut. Auðvitað er glæpurinn mikill og brennimerkir manninn, ekki aðeins í bandarísku samfélagi heldur um víða veröld.

Þarna er dæmt í sex ára fangelsi og undirstrikað að árásin á stelpuna var alvarleg samkvæmt bandarískum stöðlum. Í samhengi við dóminn er fróðlegt að líta á dóma í kynferðisbrotamálum hérlendis. Fyrir nokkrum vikum var háskólakennari dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sjö stelpum. Sá dómur var skammarlega vægur.

Kannski er erfitt að meta svo vel sé hvenær saklaus sál er eyðilögð og hvernig eigi að refsa í samræmi við glæpinn svo eftir sé tekið. Í samhengi afbrotanna er eðlilegt að bera saman bandaríska dóminn og þann íslenska og eðlilega vaknar spurningin um það hvers vegna dómar í kynferðisbrotamálum séu svo vægir hérlendis.

mbl.is Stal úr sparibauk ungabarns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband