Háspenna í Hafnarfirði

Frábært að horfa á háspennuleikinn í boltanum í Hafnarfirði síðdegis. Lengst af leiknum hélt ég að Íslandsmeistaratitillinn væri að fara til Keflavíkur í fimmta skiptið og það fyrsta í hálfan fjórða áratug en Dalvíkingnum Atla Viðari tókst að bjarga FH undir lokin og halda möguleikum þeirra á dollunni á lífi. Fínt að spennan haldist í baráttunni um meistaratitilinn, nú þegar ljóst er (það sem allir vissu reyndar í mestallt sumar) að Skaginn og HK falli.

Spái samt enn að dollan fari til Keflavíkur. Og þeir eiga það líka skilið. Þegar Gaui Þórðar hætti við að þjálfa Keflavík á sínum tíma og Kristján Guðmundsson var valinn í staðinn hefði manni ekki órað fyrir því að titillinn yrði þeirra fyrir lok áratugarins. Þeir hafa unnið fyrir þessu á Suðurnesjum.

mbl.is FH - Keflavík, 3:2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalok hjá Brown - slátrun blasir við krötunum

Gordon Brown Ekki verður annað séð en pólitísku endalokin blasi við Gordon Brown mjög fljótlega. Lánleysi hans og kratanna er orðið svo gríðarlega mikið að vandséð verður hvort honum verði treyst fyrir leiðtogahlutverkinu fram að kosningum sem eru dæmdar til að tapast. Nýjustu kannanir gefa allar til kynna að algjör slátrun sé framundan og flokkurinn færður aftur á niðurlægingartímabil Thatcher-tímans.

Ég hélt reyndar um mitt sumarið að Brown myndi fá tækifærið til að halda áfram, þrátt fyrir tapið í London og í Crewe og Nantwich. Tapið í Glasgow East var mjög skaðlegt í kjölfarið, voru í raun hin táknrænu endalok og fyrirboði þess sem koma skal. Brown hefur mistekist í leiðtogahlutverki sínu og bæði misst frumkvæði og kraft. Í sumarfríinu reyndi hann að raða púslum misheppnaðs leiðtogaferils síns saman og bæta stöðuna.

Eins og staðan er núna er langlíklegast að pólitíski ferill járnkanslarans (eins og Brown var kallaður á tíu ára fjármálaráðherraferli sínum) lifi ekki veturinn af. Ef kratarnir tapa þingsætinu í Glenrothes í Skotlandi í næsta mánuði verður það náðarhöggið. Nú þegar þingmenn um allt land og jafnvel ráðherrar með sterkan prófíl horfa fram á að tapa sætum sínum í blóðbaði næstu kosninga undir forystu Browns munu þeir taka fram hnífana og brýna þá, slá af Brown til að eygja von á að halda sínum áhrifum og völdum lengur en út kjörtímabilið.

Ergó: Brown horfist í augu við sömu pólitísku örlög og Margaret Thatcher. En verða þau umflúin - mun hann geta bjargað sér og haldið pólitískum völdum sínum? Ég held ekki. Eina sem gæti bjargað Brown væri snöggur viðsnúningur í efnahagsmálum. Held þó að það muni ekki duga heldur. Margir líta nefnilega svo á að veik staða efnahagsmálanna ein sé ástæða yfirvofandi falls Brown af valdastóli. Ég held ekki. Hann nær fyrir það fyrsta ekki tengslum við almenning, virðist vanta bæði kjörþokka og þann kraft sem þarf til að heilla kjósendur.

Gleymum því ekki að upphaf endalokanna fyrir Brown voru í raun ekki staða efnahagsmálanna. Hikið varð honum að falli. Hann daðraði við það í nokkra mánuði að efna til nóvemberkosninga fyrir ári og fór í gegnum síðasta flokksþing kratanna án þess að svara spurningum en gefa því undir fótinn. Þá hafði hann fengið sína rósrauðu hundrað daga í himneskri hjónabandssælu við kjósendur. Þegar kannanir fóru svo að gefa til kynna að stórsigur væri ekki í kortunum í kosningum hikaði hann og beygði af leið. Hikið var dýrkeypt.

Brown á að baki mjög merkilegan stjórnmálaferil. Hann beið eftir völdunum í þrettán ár, framan af mjög þolinmóður vegna samnings við Tony Blair en gerðist æ órólegri þegar Blair sveik samninginn og dró fram hnífana til að gera hann upp. Þau endalok voru blóðug undir niðri en gengu þó slétt og fellt fyrir á yfirborðinu. Innri sár flokksins eru mikil eftir hjaðningavíg Browns og Blairs og enn er fylkingamyndunin algjör. Nánustu stuðningsmenn Blairs bíða nú á hliðarlínunni - það hlakkar í þeim að gera upp Brown.

Könnun Observer í dag gefur til kynna að David Cameron muni fá traust og afgerandi umboð á landsvísu sem forsætisráðherra Bretlands í næstu kosningum - íhaldsmenn fái 146 þingsæta meirihluta. Afhroð Verkamannaflokksins verður svipað niðurlægingu íhaldsmanna fyrir ellefu árum. Cameron er farinn að hljóma og lúkka eins og Tony Blair gerði á tíunda áratugnum. Hann er á leiðinni í Downingstræti 10 og rauði dregilinn er til staðar.

Endalok Brown eru mörkuð óvissu. Þó er mun líklegra nú að hann verði gerður upp innan eigin raða heldur en hann fái að leiða kratana í kosningar. Blóðbað virðist blasa við. Þetta eru sorgleg endalok fyrir Gordon Brown sem hefur verið risi í breskum stjórnmálum, ekki aðeins í ellefu ára valdatíð kratanna heldur líka þegar hann vann við hlið læriföður síns, John Smith, allt þar til hann lést árið 1994, og svo í aðdraganda kosninganna 1997.

Fall hans og pólitísk endalok eru þó augljós í þessari stöðu. Þegar kannanir eru farnar að gefa til kynna að öflugir ráðherrar Blair-tímans á borð við Jack Straw, Jacqui Smith og Ruth Kelly eru dæmd til að tapa þingsætum sínum er ljóst að kratarnir eru á leið inn í enn eina eyðimerkurgönguna. Ég spái því að Blair-armurinn slátri Brown á næstu vikum eða mánuðum og leiði David Miliband, pólitískt eftirlæti Blairs, til valda.

En verða endalokin umflúin þó Gordon Brown fái pólitíska náðarhöggið? Og hvað ætla þau eiginlega að gera við gamla sorrí Brown? Karlgreyið mun eiga erfitt með að fara af velli og vandséð hvernig hann geti farið af velli nema niðurlægður og sár. Endar hann kannski í sæti fjandmanns síns Mandelsons sem kommissar í Brussel?

mbl.is Enginn bilbugur á Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama nær forskotinu - styttist í kappræður

McCain/Obama Allt stefnir í harðskeyttan og æsispennandi lokasprett í baráttunni um Hvíta húsið. Þegar 44 dagar eru til stefnu blasir við að barist er af mikilli hörku og stefnir slagurinn nú í að verða persónulegur og óvæginn rétt eins og í kosningunum 2000 og 2004 þar sem öllum brögðum var beitt.

Barack Obama hefur nú aftur náð forskotinu í baráttunni. Ekki kemur það að óvörum. Veik staða efnahagsmála skiptir alltaf máli og kemur auðvitað mun meira niður á fulltrúa þeirra sem fara með völdin heldur en þeim sem hefur frítt spil og getur gagnrýnt meira. Þó hefur John McCain nú hafið að skjóta á Bush forseta vegna efnahagsmálanna og ætlar að reyna að sækja fylgi þrátt fyrir stöðuna.

John McCain tók mikla áhættu með því að velja ekki Mitt Romney sem varaforsetaefni. Romney hefði sem varaforsetaefni getað tæklað efnahagsmálin, enda með mikla reynslu í þeim efnum, og hefði séð algjörlega um þann málaflokk í baráttunni. Sarah Palin mun þrátt fyrir sinn stjörnuljóma ekki geta lagt McCain lið í efnahagsmálunum. Því stendur það algjörlega upp á McCain að tala um efnahagsmálin og reyna að tala niður þá sem hafa talað um að hann sé veikur á svellinu þar.

Ef þessar kosningar snúast algjörlega um efnahagsmálin minnka sigurmöguleikar McCain til muna. En enn eru rúmar sex vikur eftir af baráttunni og fjarri því öruggt að þau verði aðalkosningamálið, þó flest bendi til þess núna. Mér finnst það reyndar merkilegast hvað bæði forsetaefnin standa veikt í efnahagsmálum. Obama græðir auðvitað á því að vera nýliðinn, hann getur sótt að McCain vegna stöðu mála eftir átta ára samfellda forsetatíð repúblikana og verk þeirra.

Fyrirsjáanlegt er að mikið verður rætt um efnahagsmálin í kappræðunum. Fyrstu kappræðurnar fara fram á föstudaginn í Mississippi. Þetta verður í fyrsta skipti sem Obama og McCain hittast á sama vettvangi og fara í debatt um lykilmál baráttunnar og pólitísk álitaefni. Þeir hafa báðir verið í forsetaframboði í rúmt eitt og hálft ár og tekið margar kappræður, einkum Obama í langri baráttu sinni við Hillary, en þurfa nú að fóta sig þar á nýjum forsendum.

McCain bauð reyndar Obama að taka þátt í kappræðufundum vítt um Bandaríkin í aðdraganda kappræðnanna þriggja en Obama afþakkaði það boð. Obama hefur alltaf verið miklu betri í ræðuflutningi og tali á kosningafundum en því að fara í kappræður. Hillary Rodham Clinton var miklu betri í því formi kosningabaráttunnar - Obama vildi er leið á baráttuna í vor ekki mæta Hillary lengur í kappræðum eftir að staða hans veiktist í kjölfar Wright-málsins.



Kappræðurnar eru hið formlega upphaf lokaspretts baráttunnar. Báðir frambjóðendur hafa æft sig mjög mikið að undanförnu fyrir kappræðurnar. Minnstu mistök þar fylgir frambjóðendum eftir miskunnarlaust. Fyrstu kappræðurnar árið 1960 tryggðu sennilega sigur Kennedys gegn Nixon, þar sem sá síðarnefndi vanmat mátt sjónvarpsins - var sveittur og ófarðaður á meðan kjörþokkinn geislaði af Kennedy.



Oft síðan hefur klúður frambjóðenda á viðkvæmum kappræðutímapunkti haft úrslitaáhrif. Gleymir annars nokkur þegar gamli Bush forseti leit á klukkuna sína í kappræðunum 1992 við Bill Clinton og Ross Perot? Þetta leit út eins og hann nennti þessu ekki og gæti ekki beðið eftir að komast burt. Andstæðingarnir voru fljótir að notfæra sér þetta og birtu myndir af þessu og sögðu að tími hans væri liðinn.

Lítið annars á klippuna af Bush þar sem hann flaskar rosalega á spurningunni hjá konunni en Clinton nýtir sér veikleika forsetans og gengur á lagið. Frábært svar og gott dæmi um hversu mikill pólitískur snillingur Clinton var. Lánleysi gamla Bush í þessum kosningum var reyndar algjört og allan tímann ljóst að Clinton myndi rúlla honum upp.

mbl.is Obama vinnur á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert mat - töfralausnir og tálsýn

Mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands í efnahagsmálum vekur vissulega athygli ofan í allan svartsýnissöng þeirra sem vilja leysa niðursveifluvandann með þeirri "töfralausn" einni að taka upp evruna og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst tal ansi margra sem tala fyrir því sem einhverri lausn minna mig á söguna um manninn sem fannst grasið vera betra hinumegin við ána, en þegar hann kom þangað sá hann fegurðina bara í hyllingum.

Erfitt er að meta hvenær við náum okkur út úr niðursveiflunni sem skekið hefur samfélagið, en það er ekki valkostur að hugsa um annað en reyna að ná fótfestu undir okkur. Enginn lagar okkar vandamál nema við sjálf. Við Íslendingar verðum að vinna úr okkar málum en getum ekki stólað á að aðrir bjargi okkur úr þessum darraðardansi.

Ég velti því vissulega fyrir mér hvort krónan eigi sér framhaldslíf, eðlilega gerum við það öll. En þegar við lesum þetta mat er ekki nema von að spurt sé hvort við séum farin að sjá ljósið við lok ganganna.

mbl.is Íslendingar öfundsverðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband