Óþolandi auglýsingahlé í Dagvaktinni á Stöð 2

Dagvaktin Mikið innilega var það nú notalegt að sjá þá félaga Georg, Ólaf Ragnar og Daníel aftur. Dagvaktin lofar svo sannarlega góðu. Hinsvegar var auglýsingahléið sem skar þáttinn í sundur í tvo búta algjörlega óþolandi. Stöð 2 gerði það sama með Næturvaktina, en svei mér þá ef þetta var ekki lengra auglýsingahlé og meira pirrandi en það.

Fyrir okkur sem erum áskrifendur að Stöð 2 er algjörlega ömurlegt að sjá svona gæðaefni skorið í sundur. Þættirnir eru með tvo styrktaraðila, auglýsta í bak og fyrir í þættinum, svo að maður hélt að kannski væri nóg að dæla nóg af auglýsingum fyrir og eftir þáttinn. Ónei, ekki beinlínis. Auglýsingum er smurt svoleiðis í þáttinn og eyðileggur skemmtanagildi hans allnokkuð.

Ríkissjónvarpið gerði ekki hið sama og skar ekki Svörtu englana í tvennt. Enda á svona gæðaefni að vera sent út í einni heild en ekki skorið í sundur. Kannski væri hægt að skilja þessa auglýsinganauðgun á leiknu íslensku efni ef Stöð 2 væri ekki áskriftasjónvarp. Stöð 2 minnir í þessu illilega á Skjá einn - mikil afturför vægast sagt.

Niðursveiflan og unga fólkið

Nú þegar kreppir að í niðursveiflunni kemur hún helst niður á ungu fólki, sem þarf að leigja og kaupir mat. Ekkert annað er í kortunum en þetta verði erfiður vetur fyrir þennan hóp og mjög þröngt um allt. Ég hef heyrt margar sögur af þessu nú þegar haustar að og ekki eru allir svo lánsamir að geta staðið undir öllum þunganum sem fylgir niðursveiflunni.

Staðan hérna heima hefur komið fram í því að ungt fólk sem fer út til að læra hefur ekki séð hag í því að flytja heim aftur, en ákveður þess í stað frekar að vera áfram á þeim slóðum.

Annars vonum við öll að niðursveiflan standi ekki lengi yfir, þó öll teikn séu á lofti um að veturinn verði mjög erfiður.


mbl.is Kreppir að fjárhag unga fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband