Rússíbanaferðalag - bandaríska óvissan

Seðlabankinn Eftir rússíbanaferðalag krónunnar í dag vakna sífellt fleiri spurningar um hvort krónan geti staðið af sér niðursveifluna. Fréttin um að Seðlabankinn hafi ekki fengið gjaldmiðlaskiptasamning við bandaríska seðlabankann kemur svo sem rúsínan í pylsuendanum í dagslok. Ekki er nema von að fólk fari að óttast um sinn hag.

Fyrsta fréttin á Stöð 2 um hækkun matvöru ætti ekki að koma neinum að óvörum miðað við stöðuna en kemur fólki varla í gott helgarskap. Einn sem ég hitti í dag sagðist helst vilja hætta að horfa á innkaupamiðann er hann labbaði úr búðinni eða velta fyrir sér breytingunum. Nógar væru þær. En eflaust sitja margir yfir miðanum og skoða breytingarnar, sem eru orðnar daglegar.

Þetta er dökk staða og fá merki á lofti um að staðan sé að fara að batna. Óvissan í Bandaríkjunum er ekki beint traustvekjandi heldur, hvort sem er mat bandaríska seðlabankans á stöðu okkar eða valdataflið um pólitísku lausnina á bandaríska verðbréfamarkaðnum.

mbl.is Ekki þótti ástæða til að gera gjaldmiðlaskiptasamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kappræðurnar í kvöld - McCain mætir til leiks

McCain/ObamaÞá er ljóst að fyrstu kappræðurnar á milli John McCain og Barack Obama í baráttunni um Hvíta húsið fara fram í háskólanum í Oxford í Mississippi í kvöld, eins og áður hafði verið ákveðið. McCain mætir á staðinn, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sem voru augljóslega spinn í efnahagsþrengingunum. Auðvitað ætlaði hann alltaf að mæta.

John McCain á í sjálfu sér ekki að þurfa að hræðast kappræður við Barack Obama. Kappræðuformið hefur aldrei verið sérstaklega þægilegt fyrir Obama. Ræðuformið er hans sterkasta hlið. Obama kom mjög sjaldan sérlega vel út í kappræðum demókratamegin og undir lokin forðaðist hann að mæta Hillary, þegar hún var farin að sigra forkosningar í stórum fylkjum og náði að efla framboð sitt, en þó um seinan til að ná útnefningunni. Obama hafnaði boði bæði Hillary og síðar McCain um sameiginlega kappræðufundi án spyrla (líkt og Abraham Lincoln og Stephen Douglas áttu í baráttunni um öldungadeildarsætið í Illinois árið 1858) vítt um Bandaríkin.

Eitt vekur þó spennu fyrir kappræðum kvöldsins; umræðan um efnahagsmálin. Veikasta hlið McCain í þessum kosningum eru efnahagsmálin; ekki aðeins vegna þess að hann er fulltrúi þess flokks sem fer með völd í Hvíta húsinu heldur og vegna þess að það er veikasta hlið hans sem stjórnmálamanns að tala um efnahagsmálin, þrátt fyrir langan pólitískan feril og víðtæka þekkingu á mörgum málum. Hann tók talsverða pólitíska áhættu með því að velja ekki varaforsetaefni sem hefði getað tæklað efnahagsmálin fyrir hann; t.d. Mitt Romney.

McCain hefur með yfirlýsingum síðustu dagana reynt að sýna ábyrgð með því að snúa umræðunni beint á efnahagsmálin að eigin frumkvæði, stöðva baráttuna tímabundið og beita sér fyrir fundi með þingleiðtogum og andstæðingi sínum í baráttunni um Hvíta húsið með forseta Bandaríkjanna á þeim vettvangi sem barist er um. Þetta er þó tvíeggjað sverð. Í og með er McCain að sækja sér eigin stöðu í þessum viðkvæma málaflokki fyrir þá sem taka slaginn í nafni ráðandi valdhafa. Hann hefur gagnrýnt Bush og sýnt sjálfstæði, sem er mikilvægt.

Auðvitað er eðlilegt að spyrja hvort frambjóðendur í baráttunni um Hvíta húsið sem eiga sæti á Bandaríkjaþingi eigi að sýna fjarlægð við Washington og þungamiðju erfiðra ákvarðana við þessar aðstæður. McCain beindi sjálfur sviðsljósinu til Washington og tók sér stöðu á sviðinu þar - tók frumkvæði sem Obama átti fyrst erfitt með að svara nema með andsvari í spinnformi. Meira að segja Bill Clinton talaði vel um McCain í kjölfarið, sagði fjarstæðu að hann hræddist kappræðurnar þar sem hann hefði jú óskað eftir kappræðufundum með Obama áður.

Kappræðurnar í kvöld verða því spennandi fyrir stjórnmálaáhugamenn. Umræðan um efnahagsmálin, sem stefnir í að verða lykilmál baráttunnar vegna stöðunnar á verðbréfamörkuðum, gæti ráðið úrslitum í þessari baráttu. Mikilvægt er því fyrir McCain að koma vel út úr þeim hluta kosningabaráttunnar. Þetta er ekki aðeins í fyrsta skiptið sem þeir ræða pólitík saman, eiga pólitíska sviðið saman, heldur verður að óbreyttu mikilvægasta kappræðukvöldið.

Hvorugur hefur náð afgerandi forystu í þessum málaflokki. Obama ætti við allar eðlilegar aðstæður að hafa traust og afgerandi forskot. Hann hefur ekki náð því og flest stefnir því í spennandi kosningar eftir 39 daga. Obama ætlaði í upphafi baráttunnar að breyta pólitíska landakortinu. Flest stefnir þó í jafnan slag og hefðbundna baráttu um sömu fylkin og oft áður, með örfáum undantekningum, t.d. Colorado og Virginía.

Þannig að við ættum öll að stilla á Ríkissjónvarpið klukkan eitt í nótt og fylgjast með efnahagsumræðu þeirra sem berjast um Hvíta húsið. Löngu er kominn tími til að sjá þá ræða saman pólitísk lykilmál á sama sviðinu. Þeir hafa komið saman fram í tveimur þáttum nýlega en þó aðskilið og mikilvægt að bera saman áherslur þeirra og afstöðu, sérstaklega í efnahagsmálunum, eins og staðan er nú.


mbl.is McCain ætlar að mæta til kappræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrif Columbine á fjöldamorðin í Finnlandi

SaariEins og ég benti á í skrifum mínum eftir fjöldamorðið í iðnskólanum í Kauhajoki var ótrúlega margt líkt með Saari og Auvinen, finnsku fjöldamorðingjunum. Nú er ljóst að þeir þekktust og heilluðust báðir af Klebold og Harris, fjöldamorðingjunum í Columbine í Colorado í Bandaríkjunum árið 1999. Augljóst er að bæði finnsku fjöldamorðin eru gerð undir mjög sterkum hughrifum af því sem gerðist í Columbine. Sturlunin og mannvonskan í þeim báðum er mjög lík hugarfari Klebold og Harris.

Einelti virðist líka blandast í þetta. Oftast nær eru fjöldamorðingjar í svona skólum utangarðsmenn skólastarfsins, hafa annað hvort orðið fyrir miklu einelti, verið taldir spes eða hreinlega beðið skipbrot að mörgu leyti. Eru algjörlega utanveltu. Cho Seung Hui, sem framdi fjöldamorðið í Virginia Tech hafði t.d. orðið fyrir einelti í skólanum og sama má segja um Auvinen, sem hafði verið mjög utangarðs í skólanum.

Oft beinist heiftin að kennurum í þessari stöðu. Árásin verður því oft á tíðum hefnd eða aðför að þeim sem byssumaðurinn telur að hafi farið illa með sig, jafnvel ekki passað sig eða ekki tekið á einelti eða árásum gegn þeim, eða ráðskast með þá. Auvinen skaut skólastýruna í Jokela-framhaldsskólanum yfir 20 sinnum og fór með um 70 skot á þá átta sem dóu. Grimmdin var því algjör.

YouTube hefur leikið lykilhlutverk í að kynna okkur árásarmennina í öllum þrem skólunum að undanförnu. Þar sést niðurbæld ólga gegn öllu í kringum árásarmennina. Nútímatæknin hefur skilið eftir mikilvæg sönnunargögn í málinu og gert auðveldara að greina þá sem fremja slík voðaverk. Löngu er vitað að einelti getur kveikt elda ólgu í huga þeirra sem verða fyrir og það getur brotist út með krafti.

Allir sem hafa kynnt sér skotárásina í Columbine í apríl 1999 vita að sá þáttur skipti lykilmáli. Skotmennirnir þar voru einfarar, í skugga félagslífsins í skólanum og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Báðir finnsku fjöldamorðingjarnir falla í þennan sama hóp og hafa þar að auki dýrkað Klebold og Harris sem goð lífs síns, hetjur sem hafi gert hið eina sem þeir gátu gert. Þeir gerðu það sem þeir vildu gera.

Bæði Auvinen og Cho Seung-Hui stúderuðu Harris og Klebold og allt þeim tengt - báðir töluðu um þá sem píslarvætti. Ég man vel þegar fjöldamorðin í Columbine áttu sér stað að því var lýst sem brenglun bandarísks hugarfars. Þetta gæti aðeins gerst þar og þetta væri skipbrot bandarísks þjóðfélags. Michael Moore gerði heila mynd um þetta.

Sú sögusögn er dauð, altént á Norðurlöndum með fjöldamorðunum tveim í Finnlandi. Þetta er því miður orðinn veruleikiu okkar. Við getum ekki sagt það lengur að þetta sé fjarlægur veruleiki þegar norræn ungmenn lifa í sama anda og dá þá tilhugsun að drepa alla í kringum sig, sem þeir telja að hafi gert eitthvað á sinn hlut.

Einelti í skólastarfi er ekki bara bandarískur veruleiki. Því breytir þessi þróun öllu, sérstaklega fyrir okkur á Norðurlöndum. Það sem eitt sinn var fjarlægur veruleiki og lýst sem skipbroti bandarísks skólalífs er ekki lengur bara þeirra vandamál.


mbl.is Umbreyttist við andlát bróður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband