Veruleikafirring og gremjugrátur hjá Stoðum

JÁJÉg skil mjög vel að yfirmenn og eigendur Stoða séu ekki hoppandi sælir með málalokin í Glitni. En eiga að líta í eigin barm og velta eigin klúðri fyrir sér. Mér finnst þeir þurfa að gera upp sín mál áður en þeir gagnrýna aðra. Er Stoðir virkilega að tala um að ríkið hafi átt að láta þá fá nóg af peningum og loka svo augunum og vonast til að þeir myndu rata til baka úr banka á vonarvöl. Ég held að svarið sé augljóst.

Í þeirri stöðu sem við blasti, þ.e.a.s. að bankinn er metinn á lokastöð, er eðlilegt að ríkið taki bankann yfir frekar en fara hitt skrefið. Ekki er nóg að hugsa bara um stóreignamenn í þeirri áhættu. Í þessum efnum tel ég að sparifjáreigendur hafi gengið fyrir, hagur þeirra hafi ráðið úrslitum og mest um vert að bjarga þeim. Hinn valkosturinn að bíða og vona var ekki í myndinni. Fyrir það fyrsta var hann alltof áhættusamur og ekki vogandi að taka þá áhættu að vonast til þess að Glitnir myndi standa af sér brotsjóinn.

Ég tel að Glitnismenn eigi ekki inni fyrir því að ríkið hafi átt að rétta þeim peninga til að halda sukkinu og ruglinu áfram. Stóra ástæða þess hvernig fór er hvernig sukkað var með peninga í þessum banka. Þar hefði verið hægt að taka á málum af meiri skynsemi en raun bar vitni. Núverandi bankastjóri hóf störf með 300 milljóna króna startgjald í vasanum og ekki má gleyma öllum starfslokasamningunum og sporslunum.

Stoðir mega væla eins og þeim sýnist. Þeir verða bara að gremjast sjálfum sér fyrir það hvernig fór í þessum banka. Nú þarf að hugsa um almenning og þeirra sparifé frekar en aðra. Ekki er það hlutverk ríkisins að bjarga eigendum banka.

Reyndar er saga Stoða ekki beint fögur. Ekki þarf annað en rifja upp myndbrotin tvenn sem gerð voru um sögu FL Group, nú Stoða, til að vita hvernig farið hefur verið með peninga á þeim slóðum. Sú saga er ekki mjög fögur.


mbl.is Átelja harðlega vinnubrögð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mánudagsmartröð spunameistaranna

JónarnirÉg get ekki annað en vorkennt spunameisturum Baugs að vakna upp við mánudagsmartröðina. Nú á að fara að kenna Davíð Oddssyni um allt sem aflaga hefur farið í stað þess að líta í eigin barm. Paranojan er orðin algjör og almenn skynsemi víkur fyrir hræðsluspuna.

Hvað var annað í stöðunni fyrir Glitni? Vildu þeir frekar að hann færi endanlega í þrot? Á að segja manni að allt hafi verið svo fullkomið og yndislegt allt þar til "vondu mennirnir" ríkisvæddu bankann? Staðreyndin er bara sú að það var búið að keyra hann út í skurð og fáir leiðir færar nema hringja í stóra bróður og biðja hann að toga sig upp úr svaðinu. Þetta er staðan í hnotskurn.

Ég er handviss um að hefðu aðrar leiðir verið færar hefðu þær verið teknar frekar en leita þarna um aðstoð. Auðvitað er bankinn, sem kominn er í þrot, tekinn við þessar aðstæður. Þetta var orðið eins og hræ á veginum. Nöpur staðreynd en augljós engu að síður. Ég veit að það er sport Baugsmanna að kenna Davíð um allt en þeir ættu að líta í spegil áður en talað er svona.

Þessi staða er heimatilbúinn vandi þeirra sem eru með allt niðrum sig núna. Þeir ættu frekar að þakka fyrir að einhver nennti að draga þá upp úr eigin svaði. Aumkunnarvert kjaftæði!


mbl.is Stoðir óska eftir greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glitnir þjóðnýttur - hver er staða Jóns Ásgeirs?

Glitnir Þjóðnýting Glitnis eru stórtíðindi, hin mestu í íslensku viðskiptalífi síðan ríkisbankarnir voru einkavæddir og markar þáttaskil í bankaheiminum hérlendis. Þessi endalok, þar sem ríkið bjargar stóreignamönnunum í Glitni, hlýtur að vekja spurningar um stöðu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Þrátt fyrir alla sína peninga og mikið ríkidæmi tókst Jóni Ásgeiri ekki að bjarga bankanum sínum frá þessum breytingum og yfirtöku ríkisins. Nú rétt fyrir hádegið bárust fréttir um stöðu Stoða, sem eru komin í greiðslustöðvun. Þetta er krúnudjásnið sjálft í eignasafni Baugsfeðga, eignasafnið mikla.

Svo má líta á málið þannig að Glitnir sé tekinn af Stoðum og þar með fer allt í óvissu. Stemmningin við höfuðstöðvar Stoða, sem sáust nú í hádegisfréttum Stöðvar 2, segir allt sem segja þarf og svipbrigðin á Sigurði G. Guðjónssyni einkennandi fyrir það sem er að gerast.

Hvað gerir Jón Ásgeir eftir þjóðnýtingu bankans hans?

mbl.is Ríkið eignast 75% í Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankakreppa yfirvofandi á Íslandi?

ghh og do á heimleið
Ekki er von á góðu eftir krísufundinn í kringum miðnættið í Seðlabankanum. Ekki er þó slegið á óvissuna heldur leyft henni að grassera gegnum nóttina. Þjóðin bíður fregna og ekki óvarlegt að gefa sér að bankakreppa sé framundan. Alveg er augljóst að ekki er boðað til slíkra fundahalda á þessum tíma á sjálfum hvíldardeginum nema mjög erfiðir tímar séu framundan og illa horfi.

Mér finnst það ábyrgðarhluti að ekki sé gefin út yfirlýsing eða talað til þjóðarinnar þegar svo ber við. En kannski þarf þess ekki. Þögnin svarar væntanlega spurningunni að eitthvað mjög stórt sé að fara að gerast. Allt er þetta þó í véfréttastíl - þjóðin bíður enn þess að heyra hvað sé að fara að gerast.

Mér finnst myndin af Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde segja allt sem segja þarf. Það er svartur mánudagur framundan á Fróni. Svipbrigðin segja meira en þúsund orð. Ætli þetta verði ekki fréttamynd ársins?


mbl.is Ráðamenn funduðu fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formenn allra flokkanna funda í Seðlabankanum

Seðlabankinn Mikla athygli vekur að nú rétt fyrir miðnættið voru formenn allra stjórnmálaflokkanna boðaðir á fund í Seðlabankanum. Greinilega er stórra tíðinda að vænta fyrst farið er að boða fundi svo seint um kvöld yfir helgi. Alla helgina hefur legið í loftinu að eitthvað sé að fara að gerast. Fundir fjármála- og forsætisráðherrans með seðlabankastjórum var sannarlega fyrirboði þess.

Tíðindin frá Bandaríkjunum eru mikil þáttaskil í efnahagsmálunum vestan hafs. Allir bíða viðbragða þess með morgni þegar markaðir opna og í ljós kemur hversu sterkt markaðurinn bregst við þessari niðurstöðu Bandaríkjaþings. Pólitískar ákvarðanir á æðstu stöðum í Bandaríkjunum munu væntanlega hafa áhrif langt út fyrir Bandaríkin og munu vonandi lægja öldur á markaðnum.

Sunnudagskvöldfundur af þessu tagi í Seðlabankanum felur í sér stórtíðindi og greinilegt að stjórnvöld ætla sér að fara í miklar aðgerðir. Mér fannst Geir H. Haarde, forsætisráðherra, takast nokkuð vel að reyna að komast hjá því að svara hvað væri að gerast með fundahöldunum.

Samt trúði ég því mátulega að bara hefði verið hist til að tala um daginn og veginn. Eitthvað hefur verið í farvatninu alla helgina og fróðlegt að sjá hvað gerist nú.

mbl.is Björgunaraðgerðir samþykktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband