Flokksþing repúblikana í St. Paul: 2. dagur

Sarah Palin Flokksþing repúblikana heldur áfram í kvöld í St. Paul. Förum yfir nokkra lykilpunkta annars þingkvöldsins.

- Formleg kosning á forseta- og varaforsetaefni Repúblikanaflokksins fer fram. John McCain verður þá formlega elsti forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna sem nær útnefningu sem forsetaefni hjá stóru flokkunum og Sarah Palin fyrsta konan sem er útnefnd varaforsetaefni í nafni Repúblikanaflokksins.

- Varaforsetaefnið Sarah Palin flytur formlegt útnefningarávarp sitt. Þetta verður þýðingarmesta ræða hins 44 ára ríkisstjóra frá Alaska, konunnar við hlið John McCain í þessu framboði og eina konan í þessum forsetakosningum. Hún verður að kynna pólitískar áherslur sínar, hver hún sé og hvaðan hún komi og síðast en ekki síst ná að tækla árásir gegn henni á síðustu dögum.

- Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóri í Massachusetts, flytur ávarp. Hann var lengi vel talinn öruggur um að verða varaforsetaefnið en hann háði harkalega baráttu við McCain um útnefningu flokksins. McCain valdi hann ekki en væntanlega bíður Romney á hliðarlínunni og stefnir að framboði síðar, þó hann tali upp McCain og Palin. Talið er að hann muni ráðast harkalega að Obama-hjónunum, einkum Michelle í ræðu sinni.

- Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, flytur lykilræðu flokksþingsins. Allt síðasta ár leit út fyrir að Giuliani yrði forsetaefni repúblikana en hann vann að lokum engar forkosningar og hætti baráttu sinni eftir forkosningarnar í Flórída, þar sem lagði allt undir og fékk mikinn skell. Hann lýsti þá þegar yfir stuðningi við McCain og hefur leikið stórt hlutverk í baráttu hans, farið í mörg viðtöl og verið áberandi í innsta hring hans síðustu mánuði. Talið er öruggt að hann muni ráðast að Barack Obama og jafnvel setja hakkavélina í gang af krafti. Talið er að hann gangi lengst allra í að ráðast að Obama.

- Mike Huckabee, fyrrum ríkisstjóri í Arkansas, flytur ávarp. Huckabee vann forkosningarnar í Iowa í janúarbyrjun og tókst að vinna nokkrar forkosningar í baráttunni og hélt henni áfram allt þar til McCain náði útnefningunni í marsmánuði. Hann tók slaginn lengra en margir áttu von á og fór að lokum í taugarnar á McCain, sem velti aldrei fyrir sér þeim möguleika að Huckabee yrði varaforsetaefnið.

- Meg Whitman og Carly Fiorina flytja ávörp. Báðar hafa verið áberandi í starfsliði McCain í baráttunni og voru báðar orðaðar við að verða varaforsetaefni. Whitman var virk í starfsliði Mitt Romney þar til hann dró framboð sitt til baka í febrúar.


Þetta verður kvöldið þar sem sagan er mörkuð með sögulegri kosningu á fyrstu konunni í forsetaframboð af hálfu repúblikana. Og áður en hún gerir sviðið að sínu á stærstu stund ferilsins munu þrautreyndir menn innan flokksins taka slaginn við Obama og jafnvel ganga mjög langt í árásum á hann.

Þetta verður sannarlega áhugavert kvöld þar sem mun virkilega reyna á Söru Palin og hversu traustur ræðumaður og stjórnmálamaður hún er. Palin þarf að flytja trausta ræðu og tala af krafti til að slá við skítkasti gegn henni síðustu dagana.

Súmmering: Forseti kveður - Lieberman stuðar

George W. Bush
Flokksþing repúblikana hófst af krafti í St. Paul í gærkvöldi. Eftir brösótta byrjun vegna Gústafs fóru repúblikanar beint að verki og áttu betri upphafskvöld en demókratar. Án væmni var farið beint í að tala um alvöru pólitík og lykilmál baráttunnar. Pólitíska umræðan var mjög beinskeytt og ákveðin. Forsetinn kvaddi flokksmenn í einlægri en mjög fjarlægri kveðjuræðu úr Hvíta húsinu, Joe Lieberman stuðaði demókrata allhressilega með tryggum stuðningi við McCain og Palin og Fred Thompson talaði ákveðið gegn Barack Obama.

Í gegnum allt kvöldið var John McCain kynntur sem stríðshetjan mikla sem helst væri treystandi fyrir forsetaembættinu. Á skjánum í bakgrunni ræðumanna voru myndir af McCain frá því í Víetnam og í gegnum langan feril sem hermaður og stjórnmálamaður. Sýnt var að McCain hefði reynsluna sem þurfti og hefði þurft að hafa fyrir sínu. Þetta var mjög ákveðin kynning í myndrænum skilningi og eflaust pólitískum líka. Enda er enginn vafi á því að svona verður McCain kynntur í gegnum baráttuna. Spilað verður á reynslu hans.

Munurinn á kynningu forsetaefnanna á upphafskvöldum flokksþinganna er sú að Obama var kynntur sem tilfinningasamur maður breytinganna án reynslu en McCain var kynntur sem stríðshetja sem hefði afrekað eitthvað og hefði víðtæka reynslu, einkum í utanríkismálum. Þetta eru tveir mjög ólíkir menn, menn tveggja ólíkra kynslóða, og því fátt líkt með persónulegri kynningu á þeim. McCain ætlar sér að vera hörkutólið á forsetavakt, maður með þekkingu á öllum helstu lykilmálum. Þetta er sú ímynd sem hann þarf að kynna.

Förum yfir helstu punkta fyrsta þingkvöldsins í St. Paul.

George W. Bush
- George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, flutti mjög fjarlæga kveðjuræðu frá Hvíta húsinu. Talaði í innan við tíu mínútur og fjallaði nær einvörðungu um helstu kosti John McCain sem forsetaframbjóðanda. Talaði ekkert um andstæðing hans né lykilmál kosningabaráttunnar að þessu sinni. Sjónarhornið minnti mann svolítið á tal hans í kosningabaráttunni 2004, en hann fór á engin hættusvæði í ræðunni. Þetta var traust ræða út frá flokkshagsmunum og var um leið viss kveðja hans til flokksins sem tvisvar valdi hann sem forsetaefni.

Með fjarlægðinni við St. Paul sýnir Bush fjarlægð sína við kosningabaráttuna og átakamál hennar. McCain vill hafa forsetann sem lengst frá flokksþinginu og eflaust eru menn innan flokksins ánægðir með þá fjarlægð sem var yfir ræðunni. Hún var hæfilega löng fyrir yfirstjórn McCain en áberandi stutt fyrir stjórnmálaáhugamenn. Hann er einfaldlega farinn af sviðinu og ræðan ber öll merki þess að John McCain er tekinn við flokknum. Við þurfum ekki að eiga von á að Bush verða áberandi í kosningabaráttunni.

Laura Welch Bush
- Laura Welch Bush, forsetafrú, er vinsælasta manneskjan í Hvíta húsinu og sem er tengd ríkisstjórn Bandaríkjanna nú um stundir. Bókasafnsfræðingurinn frá Texas, ópólitískasta manneskjan í Hvíta húsinu, ber höfuð og herðar yfir alla í ríkisstjórn Bandaríkjanna um þessar mundir. Hún flutti óvenju pólitíska ræðu. Eiginlega fór frú Bush yfir þau mál sem herra Bush á forsetavakt fjallaði ekki um. Hún talaði ákveðið um Söru Palin, afrek mannsins síns á forsetastóli og persónu. Hún tæklaði málin sem hvorki Bush né McCain vildu fjalla um.

Joe Lieberman
- Fyrir átta árum var Joe Lieberman næstum orðinn varaforseti Bandaríkjanna við hlið Al Gore og háði harða rimmu við George W. Bush og Dick Cheney ekki aðeins í kosningabaráttunni heldur og mun frekar 36 dagana eftir kjördag þar sem hitinn varð meiri en í aðdraganda kosninganna. Tæpum hundrað mánuðum síðar var hann hinsvegar kominn á flokksþing Repúblikanaflokksins, talaði ákveðið til stuðnings frambjóðanda repúblikana og varði meira að segja Söru Palin, konu sem hefur allt aðrar lífshugsjónir en hann sjálfur. Merkilegur viðsnúningur.

Lieberman er óvæntasta stjarnan innan Repúblikanaflokksins á þessu flokksþingi. Hann vandaði fornum samherjum ekki kveðjurnar - stuðaði demókrata gríðarlega með orðavali sínu um McCain og með því að gera lítið úr Barack Obama sem stjórnmálamanni. Óhætt er að fullyrða að kólnað hafi endanlega yfir ástarglæðum Demókrataflokksins og Joe Lieberman. Allt frá því hann studdi Bush ákveðið í Íraksstríðinu hafa böndin slitnað og augljóslega ekki aftur snúið. Hann hefur endanlega slitið á böndin og ætlar að heyja næstu baráttu með McCain.

Lieberman tekur pólitískar áhættur. Verði McCain ekki kjörinn forseti Bandaríkjanna er augljóst að hann er kominn út í horn sem óháður þingmaður en verður væntanlega ráðherraefni ef McCain sigrar. Honum verði launaður stuðningurinn með feitu embætti og losni undan samstarfi við forna samherja ef McCain sigrar. Lieberman á varla afturkvæmt í nefndaformennskur í öldungadeildinni í skjóli demókrata. Einfalt reikningsdæmi. Lieberman leggur allt undir - en hann brosti breitt og hafði greinilega gaman af að hjóla í forna samherja.

Fred Thompson
- Fred Thompson, fyrrum öldungadeildarþingmaður í Tennessee, flutti trausta og góða ræðu til stuðnings John McCain - flutti bestu ræðu kvöldsins að mínu mati. Thompson var traustur og ákveðinn, var betri í þessari einu ræðu en í öllu forsetaframboði sínu, sem rann út í sandinn fljótlega í forkosningunum. Í því var ekkert púður og enginn stjörnuljómi. Hann náði aldrei flugi, kom of seint í slaginn og sýndi aldrei kraftinn og seigluna sem þurfti. Í ræðunni í St. Paul sáum við þann Fred Thompson sem aldrei sást í forkosningunum.

Thompson var ekkert að hika, hjólaði beint í Obama og var bæði einbeittur og óvæginn í gagnrýni sinni á demókrata. Thompson súmmeraði upp átakapunkta repúblikana í þessum kosningum og kom nokkurnveginn með þann neista sem McCain þarf til að sigra kosningarnar. Thompson kom flokknum virkilega á skrið bæði á þessu fyrsta flokksþingskvöldi og eins í baráttunni framundan. Talað var um baráttu McCain fyrir ættjörðina, hetjudáðirnar miklu og dregin upp mynd af hversu ólíkir valkostirnir eru. Flott ræða.

Og auðvitað varði Thompson Söru Palin af miklum krafti. Greinilegt er að búið er að slá skjaldborg um hana á flokksþinginu. Átökin síðustu dagana hafa augljóslega aðeins styrk hana innan flokksins.

Í heildina var þetta fín byrjun fyrir repúblikana. Forsetinn var þó eins og leiðtogi í útlegð, fékk aðeins örfáar mínútur til að tala flokkinn saman. Hann var mjög fjarlægur og augljóst að hann var bæði að kveðja og sýna fjarlægð sína. En neistar flugu. Lieberman tókst að ergja demókrata gríðarlega, eins og sést hefur á allri umfjöllun og Thompson kveikti kosninganeistann í íhaldsmönnunum. Í heildina því vel heppnað kvöld og góð byrjun, þó fjarlægðin við Bush-fjölskylduna hafi verið pínlega áberandi.


mbl.is Bandaríkin öruggari í höndum McCain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðsögnin Marilyn

Marilyn Monroe Marilyn Monroe varð goðsögn í lifanda lífi á litríkum ferli sínum - eilífðarljóskan mikla. Áhrif hennar náðu út fyrir gröf og dauða. Hún setti mikið mark á samtíð sína og framtíð alla, ekki aðeins sem leikkona, söngkona og hjákona Kennedys forseta, heldur sem kynbomban mikla. 45 árum eftir dauða þessarar litríku stjörnu geislar hún sem aldrei fyrr, myndir hennar eru mjög vinsælar enn og áhrif hennar eru mikil um víða veröld. Og enn eru boðnar himinháar upphæðir í nektarmyndir af henni.

Held að allir kvikmyndaáhugamenn, þeir sem dýrka eitthvað stjörnuglysið, séu innst inni skotnir í Marilyn. Hún var ekki aðeins þokkadís sjötta áratugarins, heldur 20. aldarinnar í raun. Engin kona skein skærar með kynþokkanum einum og enn í dag eru sögur sagðar af lífi hennar, bæði sorgum og sigrum. Líf hennar var hálfgerð sorgarsaga undir öllu glysinu og glamúrnum. Glassúrhúðin yfir þessari viðkvæmu konu, sem varð stjarna sumpart fyrir tilviljun og breytti sér frá a-ö bara fyrir að meika það í Hollywood, virkaði merkilega sönn.



Fyrir ekki svo löngu horfði ég á hina ógleymanlegu stórmynd Billy Wilder, The Seven Year Itch - sennilega í vel yfir hundraðasta skiptið. Marilyn Monroe var aldrei flottari en þar - þetta var hápunktur ferils hennar. Nafnlausa ljóskan á efri hæðinni í fjölbýlishúsinu sem hún gerði algjörlega stórfenglega var hlutverkið sem hún festist reyndar einum of mikið í. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig. Marilyn var auðvitað goðumlík leikkona, ekki endilega fyrir leiktúlkunina eina heldur fyrir karakterinn og þann sjarma sem hún hafði. Hún var sjarmatröll aldarinnar.

Marilyn fékk aldrei þann sess sem alvöruleikkona sem hún hefði átt að hljóta. Hún lék reyndar ansi oft heimsku ljóskuna en hún sýndi og sannaði t.d. í Bus Stop að hún leikið dramatík frá a-ö. Í Seven Year Itch er hún lifandi fersk og þar er kómík eins og hún gerist best. Þar er eftirminnilegasta atriðið með Marilyn á ferlinum - er kjóll hennar lyftist örlítið upp í vindinum við lestarstöðina. Á auglýsingaskiltum var það reyndar ýkt allverulega, enda er það mun hófstilltara í myndinni sjálfri. Þeir kunnu að auglýsa myndir í Hollywood þá.



Marilyn hefði víst orðið 82 ára á þessu ári, hefði hún lifað. Það sér enginn eilífðarljóskuna miklu fyrir sér sem gamla konu. Sá þó fyrir nokkrum árum tölvugerða mynd þar sem sérfræðingar ímynduðu sér hvernig Marilyn liti út sem gömul kona. Var glettilega vel gerð mynd, kannski fullýkt en allavega ein tilraunin til að ímynda sér hvernig lífið hefði farið með þessa stórstjörnu hefði hún lifað af mótlæti lífsins.

Hún dó á tindi síns ferils, var sett í dýrlingatölu meðal kvikmyndaáhugamanna og hefur goðsagnarsess. Það var napurt á tindi frægðarinnar og hún varð fórnarlamb glyssins. Sagan hennar markast af sorg og glamúr í senn. Merkileg saga, eiginlega of ótrúleg að vera sönn. En allt getur gerst í Bandaríkjunum, ekki satt?

mbl.is Áður óséðar myndir af Marilyn Monroe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð samantekt um fasteignamál

Mér fannst mjög áhugavert að skoða umfjöllun Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur um fasteignamál á höfuðborgarsvæðinu hér á fréttavef Morgunblaðsins. Kemur með ágætt sjónarhorn á stöðuna. Óhætt er að fullyrða að þetta eru ekki gósentímar fyrir fasteignasala. Hér fyrir norðan höfum við séð breytinguna með því að fasteignaauglýsingar hafa minnkað í auglýsingamiðlum hér og hreyfing mun minni á fasteignum. Fyrir sunnan er ástandið mun verra auðvitað.

Stóru fasteignirnar hreyfast varla eins og fram kemur í þessari frétt og greinilegt að fólk minnkar við sig þegar á móti blæs, bæði fær sér sparneytnari bíl og hyggur ekki á mikil fasteignakaup. Betra er að vera áfram í sínum klassa en færast of mikið í fang við þessar aðstæður, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu þar sem helst má finna einkenni alvöru kreppu.

mbl.is Dýrasta og ódýrasta húsnæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangi þér vel Heiðar!

Gott að heyra að Heiðar Helguson, bekkjarbróðir minn frá í grunnskóla, sé kominn á fullt aftur í boltanum. Ætla að vona að honum gangi vel og nái að yfirstíga meiðslin sem hafa verið að plaga hann að undanförnu.

mbl.is „Ég sé enga framtíð hjá Bolton“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjörugir útlendir öldungar á Seyðisfirði

Þeir eru aldeilis iðnir gamlingjarnir sem koma til Seyðisfjarðar. Í annað skiptið á skömmum tíma er maður á sjötugsaldri tekinn fyrir að smygla dópi til landsins. Ekki eru bara unglömb valin sem burðardýr til landsins með dóp. Varla hefur þessi ferðalangur verið einn að verki. Mjög lítið heyrst um það þó. Efast um að maðurinn hafi ætlað að koma þessu ofurmagni í sölu á eigin vegum.

Væntanlega er það visst krydd í tilveruna fyrir Austfirðinga að verða miðpunktur umræðunnar enn og aftur í dópmálunum. Vantar ekki fjörið þar.

mbl.is Gæsluvarðhald vegna fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksþing repúblikana í St. Paul: 1. dagur

John McCain og Sarah Palin Flokksþing repúblikana hefst á fullu nú í kvöld í Xcel-íþróttahöllinni í St. Paul í Minnesota. Upphaflega átti þingið að hefjast í gær en vegna fellibylsins Gústafs var því frestað og aðeins setning þingsins og ávarp Lauru Bush, forsetafrúar, og Cindy McCain, eiginkonu forsetaframbjóðandans John McCain, vegna fellibylsins fór fram þá auk formlegra fundarefna.

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna og Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kaliforníu, áttu allir að flytja ávarp en afboðuðu sig allir. Dagskrá þingsins riðlaðist því verulega og í raun bjargaðist dagskráin í heildina af því að Gústaf varð ekki eins mikill fellibylur og búist var við áður. Unnið hefur verið að því í gær og í dag að raða þinginu saman aftur.

Förum yfir nokkra lykilpunkta fyrsta dagsins.

- George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, flytur tæplega tíu mínútna ávarp frá Hvíta húsinu til þingfulltrúa. Ákveðið var í samráði við yfirstjórn kosningabaráttu McCain að forsetinn kæmi ekki til St. Paul eftir að fellibylinn lægði. Forsetinn leikur því ekkert hlutverk á sjálfu flokksþinginu og Cheney varaforseti mun ekki vera í sviðsljósinu heldur. Þetta markar þau þáttaskil að McCain er tekinn við flokknum, þetta er flokksþingið hans og stjörnustund hans og Palin.

Bush var í lykilhlutverki á kjörtíma í sjónvarpi á flokksþinginu í Philadelphiu árið 2000 og í New York árið 2004. Nú er hann í mjög litlu aukahlutverki. Er fyrst og fremst að kveðja flokkinn og tala upp John McCain. Ekki búast við að hann ráðist harkalega að Barack Obama. Aðrir verða settir í það verkefni. Hann mun fyrst og fremst reyna að þjappa flokknum saman, tala vel um forsetaefnið, manninn sem hann barðist svo harkalega gegn í forkosningunum fyrir átta árum.

- Laura Welch Bush, forsetafrú, ávarpar þingið. Enginn í Hvíta húsinu er vinsælli en bókasafnsfræðingurinn frá Texas, konan við hlið forsetans. Hún var ein styrkasta stoð hans í forsetakosningunum 2000 og 2004 og er mjög vinsæl innan flokksins. Hún er sú eina í Bush-fjölskyldunni sem hefur hlutverk í St. Paul að þessu sinni og kemur varla að óvörum.

- Joe Lieberman, öldungardeildarþingmaður í Connecticut, flytur ávarp. Lieberman hefur verið í öldungadeildinni í tvo áratugi og var varaforsetaefni Al Gore í forsetakosningunum 2000; fyrsti gyðingurinn sem er hluti af forsetaframboði í sögu Bandaríkjanna. Hann náði ekki útnefningu Demókrataflokksins árið 2004 og varð undir í forkosningum innan flokksins í baráttu um þingsæti sitt árið 2006.

Lieberman sagði skilið við demókrata og varði sætið sem óháður. Hefur samt varið meirihluta demókrata í öldungadeildinni og er nefndaformaður í nafni demókrata. Styður McCain, gamlan vin sinn, heilshugar í þessu forsetakjöri og hefur valdið mikilli ólgu innan síns gamla flokks með hlutverki sínu í St. Paul. Stóra spurningin er hvort hann ráðist að Obama í nótt.

- Fred Thompson, fyrrum öldungadeildarþingmaður í Tennessee og forsetaframbjóðandi í forkosningum repúblikana, flytur ávarp. Talið er að hann muni ganga lengst í beinum árásum að demókrötum og tala sérstaklega gegn Barack Obama. Einnig að hann muni verja Söru Palin af krafti í ræðunni. Thompson var leikari fyrir og eftir þingferilinn, en hann náði þingsæti Al Gore eftir að hann varð varaforseti. Lék m.a. í Die Hard 2 og Law and Order.

- John Boehner, minnihlutaleiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, talar flokkinn upp í baráttunni fyrir því að ná yfirráðum þar aftur. Repúblikanar misstu deildina í kosningunum 2006, rétt eins og öldungadeildina, og kannanir benda til þess að repúblikanar eigi nær engan séns á að ná deildinni úr klóm Pelosi og demókrata.

- Norm Coleman, öldungadeildarþingmaður í Minnesota, flytur ræðu á heimavelli. Hann náði þingsæti Paul Wellstone eftir að hann lést í flugslysi í aðdraganda þingkosninganna 2002 og sækist nú eftir endurkjöri. Sigur hans á Walter Mondale, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, í þeim kosningum vakti mikla athygli og hann hefur verið framarlega í flokki repúblikana í öldungadeildinni síðustu árin.


Þetta verður áhugavert og sögulegt flokksþing, enda fyrsta konan útnefnd sem varaforsetaefni í sögu Repúblikanaflokksins og elsta forsetaefnið í sögu Bandaríkjanna útnefnt. Þau verða þó hvorug í sviðsljósinu í kvöld, heldur mun frekar fráfarandi forseti í fjarlægri kveðjuræðu og demókrati á nýjum pólitískum vettvangi sem honum hefði ekki órað fyrir að hann myndi verða á fyrir átta árum er hann varð næstum varaforseti Bandaríkjanna við hlið Al Gore.


Bloggfærslur 3. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband