Rússíbanareið krónunnar

Ekki er það fögur sjón að líta á stöðu krónunnar eftir þriðjudagsþrillerinn á mörkuðunum; þetta er rússíbanareið í meira lagi. Hver sá sem hefði lagt svona tölur á borðið fyrir nokkrum mánuðum, hvað þá ári eða tveim, hefði verið talinn galinn.

Hvað gera stjórnvöld núna? Er nema von að spurt sé.

mbl.is Krónan veiktist um 5,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða tök hefur Jón Ásgeir á Samfylkingunni?

Áhugavert var að lesa umfjöllun Agnesar Bragadóttur og Péturs Blöndals um atburðarásina í Glitni í Mogganum í dag. Þar sést vel hversu fljótt allt gerðist í þessari tímalínu og við fáum meiri innsýn í allar flétturnar í stöðunni. Mæli hiklaust með greininni, þetta er skyldulesning fyrir alla sem vilja fylgjast með því sem gerðist um helgina, þegar ráðherrar héldu því fram að bara væri verið að tala almennt um stöðuna, og í gær, svarta mánudaginn.

Eitt vakti athygli mína umfram annað í þessari lesningu. Merkilegt nokk var það ekki viðskiptaflétta heldur mun frekar pólitísk flétta - sú fullyrðing að Jón Ásgeir Jóhannesson muni hafa hellt sér yfir Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra og hann hafi boðað nokkra stjórnarþingmenn á fund til sín, einskonar yfirheyrslu í skjóli nætur fyrir bankauppgjörið. Sá fundur hefur greinilega verið dramatískur í meira lagi.

Ein spurning stendur eftir þessa lesningu: hvernig stendur á því að viðskiptamaður úti í bæ telur sig geta skammað lýðræðislega kjörna fulltrúa og komið fram við þá með þessum hætti? Gat ekki Jón Ásgeir sjálfum sér um kennt hvernig komið var?

Svo fannst mér merkilegt að Össur Skarphéðinsson er æðstur ráðherra Samfylkingarinnar nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er á sjúkrahúsi í New York og ekki vinnufær við þær aðstæður. Hann hefur æðsta vald í þessu máli innan flokksins.

Því er undarlegt að viðskiptamaður úti í bæ hreyti skömmum og fyrirskipunum í Björgvin viðskiptaráðherra, þar sem hann leiðir ekki málið heldur Össur, umfram varaformanninn (sem ekki er ráðherra) og formann þingflokksins.


mbl.is Erfiðir gjalddagar framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir ætti að líta í eigin barm

Ég hef ekki mikla samúð með þeim stóreignamönnum sem sigldu Glitni á kaldan klaka og gráta nú sinn hlut og vilja að þjóðin reddi þeim að fullu upp úr forinni sem þeir sjálfir komu sér í. Í viðskiptum eru teknar áhættur og menn verða að lifa með því að einn daginn er hægt að tapa meiru en unnið hefur verið fyrir. Mér finnst öll sagan á bakvið Stoðir ekki það fögur að mér finnist rétt að ríkið ábyrgist ævintýramennskuna án þess að nokkur trygging sé fyrir neinu.

Auðvitað er mikið áfall fyrir Jón Ásgeir að þurfa að horfast í augu við þessi málalok. Skárra væri það nú, ef honum sviði ekki hvernig komið væri. Mér finnst það hinsvegar heldur djarft að ætla að smíða enn eina samsæriskenninguna í kringum Davíð Oddsson til að dekka þetta mál. Nóg er komið af þessu. Þessir menn tóku sjálfir áhættur sem þeir höndluðu ekki.

Fjarri því er að saga Stoða á síðustu árum sé hvítþvegin englasaga. Þegar litið er á hvernig fór fyrir Glitni er ráð fyrir þessa stóreignamenn að líta í eigin barm og gera upp eigin mistök áður en miklar samsæriskenningar eru smíðaðar.

Ef allt var svona mikil himnasæla hjá bankamönnunum því var þá svo komið að óskað var eftir aðstoð landsmanna við að bjarga skútunni. Í þessari stöðu verðum við að hugsa um litla manninn frekar en þá stóru.

mbl.is Landsbankamenn ræddu við Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur til Ingibjargar Sólrúnar

Ég vil færa Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, einlægar og góðar baráttukveðjur í kjölfar aðgerðarinnar í New York. Hún er baráttukona og ég er viss um að henni mun ganga vel í baráttunni við þetta mein.

mbl.is Ingibjörg Sólrún gekkst undir aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband