4.9.2008 | 23:02
John McCain fer í landsföðurhlutverkið í St. Paul

McCain verður elsti forseti Bandaríkjanna ef hann nær kjöri eftir sextíu daga; 72 ára gamall og þarf í ræðu sinni að sýna að hann sé kannski gamall í árum en ungur í anda og sé tilbúinn í verkefnið og hafi reynsluna sem þurfi. Eins og sést hefur í gegnum allt flokksþingið er reynslan hans mikilvægasti styrkur og auðvitað verið fjallað um hana allt frá fyrstu ræðunni í höllinni og hann mun sjálfur kóróna þann mikilvægasta kjarna í röksemdum fyrir því að landsmenn treysti honum fyrir Hvíta húsinu.
Er mest spenntur yfir því að sjá hvað hann segir um Barack Obama. Hef grun um það að hann muni frekar tala um áherslur sínar og gera mikið úr reynslu sinni sem forsetaefnis frekar en ráðast mjög að Obama sem slíkum. Palin tók greinilega það verkefni að sér síðustu nótt. McCain mun reyna að vera landsföðurlegur og höfða til kjósenda sem hinn trausti reynslujaxl á mikilvægum tímum.
Verður líka áhugavert að sjá hvort hann tali eitthvað um Bush forseta. Varla hefur verið minnst einu orði á forsetann á flokksþinginu. Sjálfur var hann mjög fjarlægur og sást aðeins í nokkurra mínútna ræðu frá Hvíta húsinu. Annars er eins og hann sé ekki til. Þetta er augljóslega nálgun McCain á stöðu forsetans. Tala eins og hann sé ekki þarna og reyna að sýna fólki hvað hann geti nú gert þetta vel án þess að vera að flækja Bush-árunum átta í stöðuna.
Merkilegt spil. Fróðlegt að sjá hvort það virkar. Ekki er um það deilt að McCain er miklu landsföðurlegri en Bush og miklu reyndari í alþjóðastjórnmálum. Hann þarf enga starfsþjálfun í forsetaembættið og mun auðvitað sýna sig sem reynsluboltinn mikli á örlagaríku kosningaári.
Þetta verður eflaust veglegt og eftirminnilegt kvöld, bæði fyrir repúblikana og alla áhugamenn um stjórnmál. Mikilvægt er fyrir repúblikana að ljúka þinginu með stæl. McCain þarf að tækla helstu lykilmál baráttunnar og sýna að hann er ekki framlengingarsnúra á Bush-árin átta.
Því má búast við að hann sýni sjálfstæði við þá sem ráða för í Hvíta húsinu og hann hafi kraft til að gegna embættinu þó hann sé á áttræðisaldri. Þetta er það sem hann þarf að tækla fyrst og fremst.
![]() |
Ávarpar flokksþingið í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.9.2008 | 22:36
Súmmering: Stjörnustund repúblikana í St. Paul

Annað kvöldið á flokksþingi repúblikana var mikil stjörnustund fyrir flokk sem flestir töldu fyrir nokkrum misserum að væri dæmdur til að tapa forsetakosningunum á þessu ári vegna óvinsæls forseta og slæmrar stöðu í efnahagsmálum. Val John McCain á varaforsetaefni hefur heppnast mjög vel - Sarah Palin var hinn stóri sigurvegari flokksþingsins og kom með stjörnuljóma og ferskleika á flokksþingið. Athyglin er öll á henni. Nú velta bandarískir kjósendur því fyrir sér af alvöru hvor verði fyrsti kvenforseti í sögu Bandaríkjanna; Hillary Rodham Clinton eða Sarah Palin.
Frúin frá Alaska átti þetta kvöld algjörlega. Og samkvæmt könnun CBS í kvöld er McCain búinn að vinna upp forskot Barack Obama eftir flokksþing demókrata. Ótrúlegur viðsnúningur. Kannanirnar eru þó ólíkar og sýna misjafna stöðu. Allt stefnir þó í spennandi forsetakosningar. Valið á Palin er orðið að þáttaskilum í kosningabaráttunni. Hún hefur þann ljóma og ferskleika sem McCain sárlega vantaði. Honum vantaði ekki margra áratuga reynslu í Washington eins og Obama þegar hann valdi varaforsetaefni. Hann tók áhættu en virðist hafa lagt vel undir.
Förum yfir helstu punkta annars þingkvöldsins í St. Paul.

- Sarah Palin kom, sá og sigraði. Þvílík ræða. Andstæðingar eru enn í losti eftir stjörnustundina hennar. Allt í einu eru rök vinstrisinnuðu og frjálslyndu bloggaranna um reynsluleysi hennar og hún geti ekki haft áhrif á kosningabaráttuna fokin út í veður og vind. Þegar er farið að líkja henni við tvíeykið magnaða Reagan og Thatcher. Einn sagði að hún væri Margaret Thatcher með Klondike-hreim og í fjölskylduvænni útgáfu og Michael Reagan, sonur Reagans forseta, sagðist sjá föður sinn endurborinn í henni. Skrifaði grein á vef sinn undir yfirskriftinni Welcome Back Dad.
Og það var auðvitað mikil stund þegar Palin var á sviðinu með fjölskyldu sinni; fimm börnum, tengdasyni (sem er orðinn heimsfrægur á tveim til þremur dögum) og eiginmanninum. Hin fullkomna bandaríska fjölskylda sem á sín vandamál og áskoranir eins og allir í þessum heimi. Sarah Palin hélt á fimm mánaða gömlum syni sínum sem er með Downs-heilkenni og bræddi hjörtu allra með frammistöðu sinni. Þegar McCain spurði þingfulltrúa hvort hann hefði ekki valið rétt varaforsetaefni ætlaði þakið að fara af höllinni. Slík voru fagnaðarlætin.

- Þrír reynslujaxlar innan flokksins fluttu frábær ávörp. Mike Huckabee var alveg frábær og átti línu kvöldsins áður en stjarnan Palin kom á svið. Hann sagði með hæðnisglotti að Sarah Palin væri alls ekki óreynd; hún hefði eftir allt saman fengið fleiri atkvæði sem bæjarstjóri í Wasilla í Alaska en Joe Biden fékk til að verða forseti Bandaríkjanna í forkosningum demókrata. Killer lína, algjörlega eitruð í gegn. Huckabee er einlægur og traustur ræðumaður. Með einlægum stíl tók hann sviðið og sannaði að engin tilviljun var að hann náði einhverjum árangri í forkosningunum.

- Rudy Giuliani var algjörlega frábær. Það sem karlinn var eitraður og pottþéttur. Hann hakkaði Obama í sig, hafði einlæglega gaman af því og var með hárfínar og magnaðar setningar. Á góðum degi er Rudy Giuliani einn besti ræðumaður í heimi. Hann sýndi alla sína bestu takta og minnti okkur á hversu traustur hann er. Þetta er jú maðurinn sem hélt utan um New York á örlagastundu þegar tvíburaturnarnir féllu. Hann er kannski gloppóttur en það er jú Bill Clinton líka. Ekki verður því neitað að karlinn er traustur og fáir betri en hann að tala um aðalatriðin.

- Mitt Romney náði ekki forsetaembættinu þrátt fyrir alla peningana sem hann á. Ræðan hans í St. Paul sýndi okkur af hverju. Hann er sjarmerandi maður en þó mjög gloppóttur og getur gert mikil pólitísk mistök. Þetta var ekki sérstaklega góð ræða, þó inn á milli væru hinir ágætustu punktar. Fannst hann langsístur af þremenningunum. Held að McCain sjái ekki átakanlega eftir því að hafa sleppt því að velja Romney sem varaforsetaefni.

- John McCain var svo formlega útnefndur forsetaefni flokksins eftir ræðu Söru Palin. Loksins tókst McCain að ná á leiðarenda í því verkefni að fá stuðning flokksins og er í seilingarfjarlægð við Hvíta húsið. Hann háði eftirminnilega rimmu við George W. Bush fyrir átta árum og tapaði eftir eitt eftirminnilegasta áróðursstríð seinni tíma í bandarískum stjórnmálum. Þrátt fyrir að vera talinn af framan af baráttunni náði hann útnefningunni og nú reynir á hvort hann komist alla leið. Hann kom fram á sviðið í blálok kvöldsins og leið greinilega vel með Palin.
Flokksþing repúblikana hefur gengið vel. Þar hefur tekist að koma með alvöru pólitík og tala hreint út um málin. Pólitíski tónninn er miklu beittari á flokksþingi repúblikana en hjá demókrötum. Þarna er komið beint að efninu og ráðist á andstæðinginn án hiks. En framundan er stóra stundin. John McCain mun eiga erfitt með að toppa Söru Palin, svo mikið er víst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.9.2008 | 19:59
Frú Palin slær í gegn - með sama áhorf og Obama

Bandarískir fréttaskýrendur deila ekki um það að Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana, sló í gegn í ræðu sinni á flokksþingi repúblikana í gærkvöldi og sló af borðinu allar efasemdir um reynslu sína og pólitíska getu. Hún fékk nær jafnmikið áhorf í sjónvarpi og Barack Obama er hann þáði útnefningu sem forsetaefni demókrata á Invesco-leikvanginum í Denver í síðustu viku. 37.244.000 horfðu á Söru Palin flytja ræðu sína en litlu fleiri eða 38.379.000 horfðu á forsetaefnið Obama. Mikið afrek, enda sýndu sex stöðvar ræðu Söru en tíu stöðvar sýndu ræðu Obama!
Sarah Palin fékk miklu meira áhorf en Joe Biden. 24.029.000 horfðu á Biden þiggja útnefningu sem varaforsetaefni demókrata og nokkuð færri horfðu á Biden það kvöld en á Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna. Ræða Palin var sannkölluð stjörnuframmistaða. Meira að segja vinstrisinnaðir álitsgjafar hafa ekki getað leynt ergju sinni yfir því hvað hún stóð sig vel og hafa reynt að spinna umræðuna frá stjörnuframmistöðu Söru Palin, sem ekki aðeins stimplaði sig í baráttuna af krafti heldur sem forsetaefni síðar.
Demókratar og vinstrisinnaðir álitsgjafar fjölmiðlanna höfðu reynt síðustu fimm dagana að draga upp þá ímynd af Söru Palin að hún væri smábæjarnóbody, illa gefin og óreynd kona frá Alaska sem gæti ekki valdið hlutverkinu að vera varaforsetaefni og væri sett í hlutverk sem væri vaxið henni yfir höfuð. Við munum ekki heyra aftur þessa ræðu. Hún sló af alla neikvæðu umræðuna og sýndi vel að hún er engin varaskeifa. Hún er kannski lítið þekkt, en hún er pólitískt hörkutól sem hikar ekki við að bíta hressilega frá sér.
Palin sameinaði í ræðu sinni orðasnilld, pólitíska ástríðu, einlægan baráttukraft, jákvæðni og pólitíska bardagagleði. Hún var einlæg og herská í senn, var einfaldlega alvöru í ræðuflutningi sínum og stimplaði sig inn á kortið. Hún var full af sjálfsöryggi og ákveðni í tali sínu og sýndi hvergi hik. Hún var róleg og yfirveguð jafnvel þegar hún var hvað ákveðnust, minnti að mörgu leyti á Ronald Reagan með það hversu afslöppuð hún var og blandaði saman húmor og alvöru í skothelda pólitíska blöndu.
Ekki aðeins náði hún sjónvarpsáhorfi á pari við forsetaefnið Barack Obama heldur náði mesta áhorfi sem nokkuð varaforsetaefni hefur fengið í bandarískri sjónvarpssögu við að flytja útnefningarræðu sína. Með öðrum orðum; hún er fjölmiðlastjarna þessa framboðs, náði til fólks og miklu meiri áhugi er fyrir henni en nokkru sinni Joe Biden. Demókratar sjá líka gríðarlega eftir því að Barack Obama valdi ekki Hillary. Það voru mikil pólitísk mistök. Ef hann tapar þessu verður það metið mesta klúður hans.
Brandararnir voru skotheldir: Salurinn var í krampahlátri þegar hún spurði hver væri munurinn á hokkímömmu og bolabít. Svarið var einfalt: Varalitur. Hún náði einhvernveginn að sameina pólitíska orðfimi, einlægni og kraft. Þetta var því velheppnuð stjörnustund fyrir repúblikana og kom þeim heldur betur á kortið í baráttunni sem framundan er.
Og Sarah Palin sýndi að hún er komin til að vera. Enda eru allar raddirnar um að hún sé óhæf algjörlega þagnaðar. Nema jú þeir sem halda því fram að hún sem fimm barna móðir geti ekki staðið í þessu. Þvílík tímaskekkja. Hefur einhver fjölmiðlamaður spurt Obama hvort hann geti staðið í forsetaframboði því hann eigi börn?
![]() |
Palin fær góða einkunn fyrir ræðuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.9.2008 | 13:51
Þrælasaga að austan
Hún er mjög ófögur sagan af samskiptum starfsstúlkunnar erlendu við yfirmann sinn á veitingahúsinu fyrir austan. Varla furða að hann þurfi að grípa til hnefanna til að verja sig. Ekki getur hann varið sig með orðum, hefur ekki góðan málstað að verja. Tveir punktar standa eftir.
- Hvers vegna er ekki tekið á svona vinnuveitendum sem hlunnfara fólk svo rosalega og koma illa fram við það? Á ekki að taka á svona þrælahaldi? Hvað er hægt að kalla þetta annað?
- Hefur þessi maður samvisku?
![]() |
Líkir vinnu í veitingahúsi við fangelsisvist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.9.2008 | 10:53
Stjörnustund Söru - pólitískt hörkutól á sviðinu
Ný pólitísk stjarna kom til sögunnar á flokksþingi repúblikana í nótt. Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana, sýndi að hún er pólitískt hörkutól, sparkaði traust frá sér og talaði einbeitt og ákveðið, ekki aðeins um lykilmál baráttunnar heldur hjólaði beint í Barack Obama og tók hann fyrir. Með þessari ræðu hefur frúin frá Alaska ekki aðeins stimplað sig inn sem frambjóðandi nú heldur og mun frekar sem forsetaefni síðar.
Þeir sem töldu að Sarah Palin væri stjórnmálamaður í léttvigt urðu örugglega fyrir miklum vonbrigðum. Hún beit hressilega frá sér og með mikilli yfirvegun náði hún að tækla persónulegar árásir gegn sér og sýndi demókrötum að hún verður ekki auðveld. Hún getur vel tæklað Joe Biden í varaforsetakappræðunum eftir mánuð og er fullfær um að taka slaginn. Ræðan festi hana klárlega í sessi eftir sviptingar síðustu dagana þar sem frjálslyndir og vinstrisinnaðir bloggarar og blaðamannamaskínan í Washington ætlaði að ganga frá henni pólitískt.
Þetta var því vel heppnuð ræða. Allir viðurkenna það, meira að segja þeir demókratar sem harðast sóttu að Söru Palin. Ekki verður neitað að hún kom á sviðið, skilaði sínu og var pólitískt hörkutól þegar hún þurfti að sýna að hún væri meira en bara sætt bros, væri fjarri því óreynd og bara valin því hún væri kona. Sarah Palin vann í haginn fyrir sig, ekki bara að þessu sinni og er komin til að vera. Hún er engin Dan Quayle, svo mikið er víst.
Fann vel eftir ræðuna að orðlaus undrun voru viðbrögðin. Þeir sem höfðu sótt mest að Palin og gert lítið úr henni voru vissir að hún myndi ekki geta flutt trausta ræðu og náð sess sem alvöru stjórnmálamaður á stóra sviðinu. En það tókst henni og fyrir vikið hefur hún staðist fyrsta prófið, það mikilvægasta. Framboðið er sterkara fyrir vikið og hún sem stjórnmálamaður til lengri tíma litið en bara næstu 60 dagana.
Finnst þeir sem halda gagnrýninni áfram afhjúpa talsverða karlrembu með orðavali sínu. Þar er talað um að hún eigi nú frekar að vera heima og hugsa um börnin sín fimm, sérstaklega yngsta barnið með Downs heilkenni, og hún gæti nú örugglega ekki samið svo flotta ræðu. Í og með viðurkenna þeir þar með að ræðan var algjör success en draga líka í efa að hún geti þetta þar sem hún er mamma.
Er þetta virkilega að gerast á fyrsta áratug 21. aldarinnar? Hvar eru femínistarnir? Er enn verið að tala niður konur og gefa í skyn að þær séu óreyndar og illa gerðar, eigi nú frekar að sinna börnum og eiginmanni en taka þátt í stjórnmálum. Er þetta sú ímynd sem demókratar vilja koma með? En hey, þeir spörkuðu jú niður Hillary í forkosningunumþrátt fyrir alla hennar reynslu.
En Sarah Palin sló á allar gagnrýnisraddirnar. Hún kom vel út úr sínu fyrsta og mikilvægasta prófi. Allir sjá að hún getur ráðið við Joe Biden og hún hefur reynsluna, kraftinn og kjaftinn sem þarf til að komast alla leið.
Sarah Palin var allt í senn með eldmóð Ann Richards, gamansemi Ronalds Reagans og pólitísku óvægnina í Richard M. Nixon. Heljargóð blanda og fjári traust. Þessi kona er komin til að vera.
![]() |
Palin afar vel fagnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2008 | 00:15
Sarah Palin ræðst á Obama af krafti í ræðunni

Nokkur brot úr ræðunni hafa verið birt og segja þau allt um hvernig ræðan verði: "Here's how I look at the choice Americans face in this election. In politics, there are some candidates who use change to promote their careers. And then there are those, like John McCain, who use their careers to promote change."
Og allir sjá hvert þessum orðum er beint: "I guess a small-town mayor is sort of like a 'community organizer,' except that you have actual responsibilities." Með öðrum orðum: hún ætlar að hjóla í Obama; hann sé reynslulaus í forsetaembættið og mun auðvitað tala um stjórnunarreynslu sína, sem hún hefur umfram Obama.
Þetta verður augljóslega mjög pólitískt kvöld hjá repúblikunum. Öll teikn eru á lofti um að þetta verði ein átakamaskína gegn demókrötum; þeir verði mun beittari í gagnrýni en demókratar voru á flokksþingi sínu í síðustu viku. James Carville gagnrýndi reyndar flokksfélaga sína mjög fyrir að vera of mjúkmálir við andstæðinginn. Repúblikanar ætla greinilega að sleppa því alveg að vera mjúkmálir.
Frú Palin ætlar sér greinilega að setja maskínuna á fullt, bæði kynna afrek sín og lífsreynslu og ráðast að Obama/Biden án nokkurs hiks. Mun líka markaðssetja sig sem konuna sem getur breytt Washington. Ræðan verður greinilega bitmikil, ákveðin og afgerandi. Frú Palin verður að kynna hver hún sé og líka sýna að hún hafi kjaft og kraft í varaforsetahlutverkið. Greinilegt að við sjáum það.

Og hún mun svo sýna fjölskylduna eftir ræðuna. Tengdasonurinn margfrægi er kominn til St. Paul og verður í sviðsljósinu í kvöld. Bristol Palin og Levi Johnston tókst að yfirskyggja sjálfan McCain við athöfn á flugvellinum þegar hann kom til St. Paul í dag. Allir munu fylgjast með Palin-fjölskyldunni í kvöld.
Ef marka má ræðubútana og markaðssetninguna í dag verður þetta fjölskylduvænt kvöld með mjög pólitísku yfirbragði þar sem fyrsta konan í forsetaframboði fyrir repúblikana bítur hressilega frá sér og lætur finna fyrir sér, hún hafi pólitíska vigt á stóra sviðinu í St. Paul.
![]() |
Eftirvænting í St.Paul |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)