Í minningu Sigurbjörns biskups

Dr. Sigurbjörn Einarsson Útför dr. Sigurbjörns Einarssonar var látlaus en hátíðleg. Minningarorð séra Jóns Dalbú Hróbjartssonar voru virkilega falleg og innihaldsrík. Þar var þó í mjög fáum orðum talað um þann mæta mann sem var verið að kveðja, en mun frekar talað um kristna trú og vangaveltur um lífið sjálft að ósk Sigurbjörns sjálfs.

Dr. Sigurbjörn Einarsson var biskup allrar þjóðarinnar. Allir landsmenn hlustuðu þegar hann talaði um kristna trú og hann var sterkara sameiningartákn trúar og kærleika en nokkur forystumaður þjóðkirkjunnar á síðari tímum. Mér þótti vænst um hversu vel honum tókst að tala kjarnríkt íslenskt mál til þjóðarinnar. Hann var íhugull og ljáði orðum sínum meiri kraft en nokkur íslenskur trúarleiðtogi á síðustu öldum. Áhrif hans voru líka mikil.

Allt frá því ég man eftir mér var hann til staðar, hann var áttaviti þjóðarinnar ekki aðeins í trúmálum heldur í öllu hinu smáa og mannlega í dagsins önn. Ræður hans voru afgerandi og traustar, hann talaði til þjóðarinnar en ekki niður til hennar. Hann var alla tíð forystumaður sem landsmenn allir treystu og virtu. Ég leit alltaf á hann sem afa minn. Er viss um að hið sama gildir um ótalmarga Íslendinga. Mér fannst notalegt að hlusta á hann og þegar að mér fannst illa ára í samfélaginu talaði hann kraft og kjark í okkur öll. Hann var leiðarljós okkar allra.

Allt frá því ég var smábarn sótti ég styrk til hans. Hann var þannig maður að okkur fannst allt vera rétt sem hann sagði. Hann var boðberi hins rétta, var mannlegur og kærleikurinn í tali hans var leiðarstef í hugleiðingum okkar um lífið og allar hliðar þess. Þannig mun ég minnast hans og mun áfram sækja styrk í það sem hann kenndi mér um lífið og tilveruna. Hann er og verður í huga mér alla tíð. Mér þótti vænt um hann og verk hans og passa upp á orðin hans, arfleifð hans til mín og okkar allra.

Fáir hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo fólk hlustar - það sé bæði einlægt og traust. Sigurbjörn biskup talaði fumlaust og af visku og það var þjóðinni ómetanlegt að eiga hann að í blíðu og stríðu í stormasamri sögu þjóðarinnar. Ásýnd íslensku þjóðkirkjunnar verður öðruvísi án Sigurbjörns biskups. En hann lifir með okkur. Svo lengi sem við munum það sem hann kenndi okkur og við virðum það lifa hin mannlegu gildi sem hann kenndi okkur.

Dr. Sigurbjörn Einarsson - In Memoriam

mbl.is „Allir hlustuðu þegar hann talaði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin kveður máttarstólpa mannúðar og kærleika

sigurbjorn biskupÉg er að horfa á útför dr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups. Þetta er mjög falleg athöfn, fer öll fram eftir ákvörðunum trúarleiðtogans og ber vitni styrkleika hans og traustri forystu fyrir íslensku þjóðkirkjuna. Þetta er kveðjustund eins af mætustu mönnum í sögu íslensku þjóðarinnar. Öll munum við sakna hans.

Þjóðin öll kveður mikinn og öflugan leiðtoga. Hann var máttarstólpi mannúðar og kærleika. Alla mína ævi hef ég alist upp við orð hans, leiðsögn og forystu. Hún hefur verið leiðarstef þjóðarinnar áratugum saman. Dr. Sigurbjörn var ekki aðeins traustur leiðtogi trúar sinnar heldur og mannlegra áherslna. Hann náði til ólíkra kynslóða og sameinaði okkur öll.

Skarð hans er mikið fyrir íslensku þjóðina. En orð hans, boðskapur og trúarleg forysta mun lifa með þjóðinni.

mbl.is Sigurbjörn Einarsson jarðsunginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómannúðleg framkoma við Mark Cumara

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki hvers vegna Útlendingastofnun hefur ákveðið að vísa Mark Cumara úr landi. Hann hefur búið hér í heil fimm ár, nánustu ættingjar hans eru allir íslenskir ríkisborgarar og hann hefur aðlagast íslensku samfélagi. Annað getur ekki verið eftir heil fimm ár. Annaðhvort vantar eitthvað stórlega í þessari lýsingu eða þetta er hrein mannvonska, ómannúðleg framkoma við ungan mann.

Mér finnst alltaf eðlilegt að velta þessum málum fyrir sér. En þegar við verðum vitni að svona framkomu er eðlilegt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort þetta sé eðlileg framkoma. Hvers vegna þessi harka og því er þessum manni ekki veitt tækifæri til að vera hér áfram eftir að hafa verið hér þegar árum saman.

Þegar við höfum verið vitni að því að tengdadóttir ráðherra fékk ríkisborgararétt eftir mjög stutt kynni við landið er eðlilegt að spyrja hvers vegna fólki sé mismunað. Af hverju á þessi maður ekki skilið að fá ríkisborgararétt eins og nánustu ættingjar hans? Hver er munurinn. Mér finnst eitthvað vanta í þetta mál.

Þessi saga er allavega þess eðlis að fleiri spurningar vakna en bara sú hvers vegna honum sé vísað úr landi.

mbl.is Kom 17 ára – sendur úr landi 23 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Zardari kjörinn forseti - enn í skugga Benazir?

Asif Ali Zardari enn í skugga Benazir Bhutto?Kjör Asif Ali Zardari á forsetastól í Pakistan markar þáttaskil í stjórnmálasögu Pakistans. Hver hefði trúað því að innan við ári eftir morðið á Benazir Bhutto að hinn umdeildi eiginmaður hennar myndi ná alla leið og verða ekki aðeins valdamesti maður Pakistans heldur þjóðarleiðtoginn í stað Pervez Musharraf? Fáir hefðu trúað því þegar Benazir sneri aftur til Pakistans í október 2007 að það yrði Zardari sem myndi endurheimta völdin til PPP og njóta þeirra.

Heimkoma Benazir Bhutto markaði vissulega upphafið á þessum þáttaskilum en væntanlega var morðið á henni sögulegi punkturinn í því öllu; hún var í miðri kosningabaráttu þegar öllu lauk hjá henni. Dauði hennar reyndist þó aðeins tímabundið áfall fyrir pakistanska Þjóðarflokkinn. Öll barátta flokksins hafði snúist um Benazir, ekki aðeins að tryggja henni völdin í landinu heldur og mun frekar að sýna að hún væri bæði andlit flokksins og talsmaður hans. Að henni látinni var allt breytt og það varð hlutskipti hins umdeilda Zardari að taka að sér forystuna.

Kaldhæðnislegast af öllu í þessari baráttu Bhutto-fjölskyldunnar fyrir völdum að nýju í Pakistan, sem hefur lokið með því að fullum völdum og áhrifum hefur verið náð, er auðvitað að Benazir Bhutto lifði ekki að sjá þetta gullna augnablik pakistanska Þjóðarflokksins. Staða flokksins var ekki einu sinni svona sterk þegar hún varð forsætisráðherra tvisvar á innan við áratug. Ekki aðeins ræður flokkurinn yfir þinginu heldur hefur forsetaembættið. Zardari var eftir kosningasigurinn í febrúar hinn táknræni forsætisráðherra þó hann gegndi ekki embættinu þar sem hann var ekki í kjöri í kosningunum.

Hann réði för og hefur tekið allar stórar ákvarðanir að undanförnu. Þegar PPP hafði tekist að losa sig við Musharraf var leiðin greið og nú hefur Zardari náð á leiðarenda. Hann var alltaf í skugga Benazir Bhutto í stjórnmálabaráttu hennar, hún var bæði talsmaður og pólitískur skipuleggjandi Bhutto-fjölskyldunnar. Við dauða hennar kom hann úr skugganum og sótti sér leiðtogahlutverkið. Enn er hann þó mjög umdeildur og nýtur fjarri því þjóðarhylli.

Zardari var reyndar enn það umdeildur við dauða Benazir að hann var ekki valinn leiðtogi PPP heldur sonur þeirra, hinn tæplega tvítugi Bilawal Bhutto. Valið á Bilawal var umdeilt vegna þess hversu óreyndur hann óneitanlega er. Hann hefur hinsvegar passað flokkinn á meðan sonurinn lýkur námi í Oxford, rétt eins og mamma hans áður. Með því leiðtogahlutverki í fjarveru Bilawal hefur Asif Ali Zardari tekist að komast alla leið.

Í forsætisráðherratíð Benazir Bhutto nefndu gárungar Zardari tíu prósent manninn og það viðurnefni festist við hann. Var þar vitnað til frægs tíu prósent ákvæðis í ríkissamningum. Var Benazir Bhutto alla tíð í skugga hneykslismála eiginmannsins en hann hefur verið sakaður um að hafa stungið undan ríkisfé á reikninga í Sviss. Slapp hann undan því að svara til saka í samningum Benazir við Musharraf.

Mikið verkefni blasir við Asif Ali Zardari. Hann er enn mjög umdeildur og pakistanska þjóðin mun vera klofin í tvær fylkingar, afgerandi með honum og á móti. Hann hefur komist alla leið í pakistönskum stjórnmálum á sterkri stöðu Benazir Bhutto. Án hennar þarf Zardari að fóta sig og reyna að komast úr skugga umdeildu málanna sem hafa markað frægð hans fram að þessu.

Enn er spurt um hvaða hlutverk Bilawal Bhutto muni leika þegar Oxford-árunum lýkur. Munu feðgarnir ráða pakistönskum stjórnmálum næstu ár eða áratugi? Er gullaldartíð Bhutto-fjölskyldunnar fyrst hafin þegar Benazir Bhutto hvílir í gröf sinni eða er þetta upphafið á endalokunum?

Stóra spurningin á þessum degi er óneitanlega hvort feðgarnir muni gera út af við sterka stöðu Bhutto-fjölskyldunnar áratugum saman eða tryggja valdasetu fjölskyldunnar áratugum saman með sigrum sínum að undanförnu.


mbl.is Zardari kjörinn forseti Pakistans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband