McCain nær forystu í baráttunni um Hvíta húsið

macÁ morgun eru átta vikur þar til forseti Bandaríkjanna verður kjörinn. Allar skoðanakannanir í dag gefa til kynna að John McCain hafi nú náð forskoti á Barack Obama í baráttunni um Hvíta húsið og hafi fengið trausta fylgissveiflu í kjölfar flokksþingsins og valsins á Söru Palin sem varaforsetaefni. Greinilegt er að valið á Palin hefur styrkt Repúblikanaflokkinn og hann er sameinaðri nú en lengi áður, jafnvel allt frá valdadögum Reagans forseta.

Fyrir nokkrum mánuðum töldu flestir stjórnmálaskýrendur að repúblikanar ættu enga möguleika á að vinna Hvíta húsið og jafnvel var talið formsatriði fyrir Barack Obama að klára þessar kosningar þegar hann náði loksins útnefningu demókrata í júníbyrjun eftir harðvítugan slag við Hillary Rodham Clinton. Sjálfur taldi ég að þessi slagur væri búinn í júnímánuði. Taldi að McCain myndi eiga erfitt með að velja varaforsetaefni sem gæti styrkt framboðið og hann myndi eiga erfitt með að berjast við stjörnuljóma Obama-fjölskyldunnar.

En með því að velja Palin hefur honum tekist að snúa dæminu við. Obama hefur ekki haft alvöru forskot um nokkuð skeið. Fyrir flokksþingið hafði dæmið meira og minna jafnast út en Obama fékk flokksþingssveiflu. Hún jafnaðist út ótrúlega hratt og lifði ekki af flokksþing repúblikana. Staðan er því þannig að báðir frambjóðendur fengu allt sem þeir gátu fengið út úr flokksþingum sínum og koma tiltölulega sterkir af velli. Clinton-hjónin lögðu þó meira á sig en Obama til að ná að sameina demókrata með því að bakka Obama upp í Denver.

Greinilegt er á könnunum að demókratar hafa þó ekki sameinast. Obama mistókst að nota sér tækifærið með því að velja Hillary sem varaforsetaefni. Hefur sennilega ekki talið sig þurfa á henni að halda til að sameina flokkinn. Valdi Biden til að hífa upp reynsluna. Eflaust átti Obama von á traustu varaforsetavali hjá McCain, allt var búið undir að það yrði annað hvort Pawlenty eða Romney. Þeir voru kjaftstopp þegar Sarah Palin var kynnt, höfðu ekkert auglýsingaefni tilbúið gegn henni og voru í vandræðalegri stöðu. Fyrst í stað leit út fyrir að fjölmiðlarnir myndu auðvelda þeim að ráðast á Palin og eftirleikurinn yrði auðveldari.

Þeir sáu þó ekki fyrir stjörnuframmistöðu Söru Palin í St. Paul. Þar kom hún til sögunnar sem pólitískt hörkutól, flutti trausta og flotta ræðu og svaraði hressilega fyrir sig. Hún tók flokksþingið með trompi og hefur nú náð ótrúlegum vinsældum, meiri en þeir sem hafa atast í slagnum í rösklega eitt og hálft ár. Hún hefur sannað sig og um leið styrkt McCain. Hann tók mikla áhættu með valinu á henni, en veðjaði rétt og hefur heldur betur dottið í lukkupottinn.

Fylgisaukning McCain eftir flokksþingið er meiri en ég átti von á. Í besta falli taldi ég að McCain myndi geta jafnað Obama eða vera prósenti undir. En hann hefur tekið forystuna. Misjafnt er þó vissulega hversu traust sú forysta er en hún mælist allsstaðar. Fjarri því er að úrslit í þessum forsetakosningum séu ráðin. Framundan eru forseta- og varaforsetakappræðurnar. Þær fyrstu eru föstudaginn 26. september. Þá fyrst hefst hinn alvöru lokasprettur baráttunnar.

Stjörnuglansinn virðist vera að gufa upp hjá Obama. Hann náði að sigra Hillary en hann hefur veðrast alveg gríðarlega upp á mjög skömmum tíma, loftið er farið að leka úr blöðrunni og tímaspursmál hvort honum takist að komast á leiðarenda með framboðið. Þetta er allt í mikilli óvissu og væntanlega ræðst þetta á því hvort honum tekst að fá Clinton-hjónin með sér. Hann á allt sitt að verulegu leyti undir henni og frammistöðu þeirra hjónanna.

Ég hef skoðað nokkrar umsagnir um baráttuna í dag eftir að kannanir tóku að sýna forskot John McCain í baráttunni um Hvíta húsið. Margir eru ósammála um slaginn en allir sammála um eitt: Barack Obama gerði gríðarleg mistök með því að velja ekki Hillary sem varaforsetaefni. Hann hefði getað skotið niður þann möguleika að McCain myndi velja konu með því að taka Hillary með sér og slegið margar flugur í einu höggi. En hann gerði það ekki.

Vel má vera að Barack Obama fari með Hillary með sér hringferð um Bandaríkin til að tala upp kvennafylgið í baráttunni gegn konunni sem getur orðið fyrsti kvenkyns varaforseti Bandaríkjanna. En Hillary er ekki í framboði. Hann treysti henni ekki fyrir varaforsetahlutverkinu og vildi ekki hafa hana með sér; ofmat með því styrk sinn og vanmat John McCain. Kannski verður sú ákvörðun honum að falli.

mbl.is Forsetaslagurinn hafinn af fullum krafti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oprah fórnar trúverðugleikanum í pólitískri baráttu

Sarah Palin Augljóst er að Oprah Winfrey gerði mikil mistök með því að bjóða ekki Söru Palin, varaforsetaefni repúblikana, í þátt sinn í aðdraganda forsetakosninganna. Með því fórnar hún trúverðugleika sínum sem óhlutdrægur þáttastjórnandi og gerir út af við frægt orðspor sitt sem málsvari jafnréttis og kvenréttinda á ári þegar kona getur orðið varaforseti Bandaríkjanna. Enda er mikil ólga meðal starfsmanna þáttanna og uppnám meðal kvenna.

Ég fjallaði um þetta mál í bloggfærslu fyrir helgina, áður en íslensku netmiðlarnir fjölluðu um það. Fór þar yfir skoðanir mínar á þessu máli og aðkomu Opruh að þessari kosningabaráttu þar sem hún ákvað að styðja Barack Obama frekar en Hillary Rodham Clinton. Ég held að enginn sé að fara fram á að Oprah lýsi yfir stuðningi við Söru Palin eða hafi hana í uppstríluðu drottningarviðtali. Enda hefur Oprah alla tíð ráðið sjálf umgjörð þáttanna og haft viðtölin eftir eigin stíl.

Óánægjan er fyrst og fremst vegna þess að konu í framlínu forsetaframboðs, aðeins annarri konunni í sögu stóru flokkanna tveggja, sé ekki boðið í þennan kvennaþátt þegar nýr kafli getur verið skrifaður í jafnréttindabaráttuna í bandarískum stjórnmálum. Öllum er ljóst að það mun gerast verði Sarah Palin kjörin varaforseti Bandaríkjanna og er þar með komin á forsetavakt fyrst kvenna í stjórnmálasögu landsins. Auðvitað yrðu það þáttaskil. Kannanir líta þannig út núna að það er mjög líklegt að Palin verði varaforseti. Því er þessi ákvörðun mjög undarleg.

Oprah er greinilega bara að hugsa um Barack Obama og hagsmuni hans í þáttastjórnun sinni. Hún býr í Chicago, heimaborg Obama, og tekur þætti sína upp þar. Væntanlega óttast hún að Palin komi mjög vel út úr viðtalinu og auki aðeins á stjörnuljóma hennar nú eftir flokksþing repúblikana. Engin önnur raunhæf ástæða ætti að vera fyrir þessari ákvörðun. Þarna tekur Oprah afstöðu með öðru framboðinu. Þetta hefði litið öðruvísi út ef karlmaður væri varaforsetaefni repúblikana.

Jafnréttishliðin á þessu máli opnar umræðuna, enda gæti þetta verið ár kvenna í bandarískum stjórnmálum þó Hillary Rodham Clinton hafi verið ýtt út af sviðinu. Og Oprah situr hjá og fórnar með því trúverðugleikanum og skaðar mjög stöðu sína sem málsvari kvenréttinda.

mbl.is Oprah vill ekki Söruh Palin í þátt sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi kosningar - Sarah Palin breytir leiknum

Sarah Palin og John McCainFlest stefnir í jafnar og spennandi forsetakosningar í Bandaríkjunum eftir 56 daga. John McCain hefur tekist ásamt Söru Palin að tryggja repúblikunum raunhæfa möguleika á að halda Hvíta húsinu. Þau komu mjög sterk út úr flokksþinginu og sérstaklega er ljóst að Sarah Palin hefur tryggt stöðu sína, enda mælist hún nú vinsælli en bæði forsetaefnin.

Þegar demókratar unnu báðar þingdeildirnar fyrir tæpum tveimur árum taldi ég nær óhugsandi að repúblikanar myndu halda Hvíta húsinu, einkum vegna óvinsælda George W. Bush. Þá voru demókratar með pálmann í höndunum og þá blasti við að Hillary Rodham Clinton yrði næsti forseti Bandaríkjanna næði hún útnefningunni. Svo fór að hún náði ekki alla leið. Athygli vekur að Barack Obama hefur aldrei haft traust forskot í þessum slag og tókst ekki í aðdraganda flokksþinganna að stinga McCain af í baráttunni. Hann náði engri uppsveiflu á varaforsetavalinu en fékk bara hefðbundna flokksþingssveiflu.

Barack Obama gerði þau miklu pólitísku mistök að velja ekki Hillary Rodham Clinton sem varaforsetaefni. Með því hefði hann getað tryggt sér traust og gott forskot framyfir flokksþing repúblikana. Með því hefði samstaða demókrata verið staðfest, þó Obama hefði vissulega þurft að brjóta odd af oflæti sínu og bjóða fornum keppinaut með í framboðið. Vissulega hefði hann þurft að sætta sig við að deila stjörnuljómanum en hann hefði fengið trausta fylgissveiflu. Í staðinn valdi hann reynslumikið varaforsetaefni án stjörnuljóma, mann sem skyggði ekki á hann.

McCain var eini frambjóðandinn í forkosningum repúblikana sem hafði raunhæfa möguleika á að ná alla leið, enda voru sumir hinna frambjóðendanna mjög tengdir George W. Bush. McCain kemur úr annarri átt innan Repúblikanaflokksins. Barátta hans við Bush um útnefninguna árið 2000 var harkaleg og þar var vegið mjög að McCain. Á flokksþingi repúblikana mátti vel finna að Bush var haldið frá sviðsljósinu. Óvinsældir hans réðu þar nokkru en ekki síður að þarna tók McCain við flokknum og réði för. Hann sýndi með því vald sitt þar og tókst að notfæra sér það.

John McCain tók mikla pólitíska áhættu með því að velja Söru Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. McCain gerði það sem Obama þorði ekki að gera, velja konu við hlið sér og spilaði þar á augljósan veikleika hans. Allar kannanir sýna að McCain veðjaði rétt. Palin hefur stóraukið fylgi hans, einkum meðal kvenna og er að sækja óákveðna kjósendur. Fylgisaukningin er traust og sýnir vel að McCain á góða möguleika á að vinna þessar kosningar. Eftir framkomuna við Hillary eru margar konur óánægðar og þær horfa í aðrar áttir.

Sarah Palin kom, sá og sigraði á flokksþingi repúblikana. Ekki aðeins var ræðan sem hún flutti traust og flott heldur flutti hún ræðuna alveg meistaralega og stimplaði sig inn í pólitísk átök á stóra sviðinu. Enginn efast lengur um hæfileika hennar, metnað og pólitískan kraft. Eins og staðan er núna er frúin frá Alaska að breyta þessum kosningaslag með afgerandi hætti. Enn er vissulega spurt að leikslokum en hún kom með ferskan blæ í baráttuna og tók stöðu Hillary á sviðinu.

Erfitt er að spá um á hvorn veginn þetta muni fara. Ljóst er að repúblikanar eiga trausta möguleika á að halda velli. Barack Obama hefur mistekist með varaforsetavali sínu að klára þennan slag, sá ekki fyrir að McCain myndi taka áhættu í sínu vali og situr eftir með sárt ennið. Honum hefur ekki tekist að ná traustu forskoti þrátt fyrir allar kjöraðstæður demókrata til að klára þessar kosningar löngu fyrir kjördag.

Nú er Obama búinn að gera sér grein fyrir því að hann er að missa kvennafylgi og ætlar að fá Hillary Rodham Clinton með sér í fleiri fylki en hann ætlaði sér áður og sækir aðrar konur með sér í baráttuna. En hann valdi ekki konu sem varaforsetaefni og vanmat pólitíska áhættu McCain sem hann græddi svo á. Ef Obama hefði valið Hillary væri hann ekki í þessum vanda sem nú blasir við.

Ef Barack Obama nær ekki að snúa þessum slag við eftir velheppnað varaforsetaval John McCain mun sagan meta valið á honum stór pólitísk mistök og allir demókratar munu sjá eftir því að hafa snúið baki við Hillary Rodham Clinton.


mbl.is McCain nær forskoti á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stutt sigursæla Hamilton - ranglátur dómur

Lewis Hamilton Ég varð alveg gáttaður þegar ég heyrði að sigurinn í Spa-kappakstrinum hefði verið dæmdur af Lewis Hamilton, en ég horfði á kappaksturinn venju samkvæmt og hafði gaman af að sjá Hamilton taka þetta. Ætla rétt að vona að McLaren nái að snúa þessum dómi við.

Þetta er með umdeildari dómum í seinni tíma sögu Formúlunnar og á örugglega eftir að draga dilk á eftir sér. Hamilton var vonandi ekki of fljótur að taka tappann úr kampavínsflöskunni og fagna sigrinum. Verður allavega áhugavert að sjá hvaða niðurstaða kemur út úr áfrýjuninni.

Hamilton hefur sýnt og sannað að hann er traustur framtíðarmaður í Formúlunni. Var alveg ævintýralega skemmtilegt að fylgjast með honum á síðustu leiktíð. Hann tók heimsmeistarann Alonso á taugum innan síns liðs og varð mun betri en hann í gegnum leiktíðina.

Svo mikill varð titringurinn að Alanso allt að því hrökklaðist frá McLaren aftur til fyrri heimkynna og Hamilton ríkir í liðinu nú einn og óskoraður kóngur allt að því, rétt rúmlega tvítugur og gæti orðið yngsti heimsmeistari í sögu Formúlunnar.

mbl.is Sigur dæmdur af Hamilton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband